Hrunformúlan í fullum gangi.

Í viðtali við DV um daginn lýsti ég yfir áhyggjum af því að hugarfarið sem leiddi til Hrunsins hefði ekki breyst, heldur jafnvel færst í aukana.

Áður hefði flest þótt leyfilegt vegna skammgróðafíknar en væri hætti á því að allt væri leyfilegt í nafni kreppunnar þótt það ætti eftir að bitna á afkomendum okkar.

Á fróðlegum fundi með orkumálastjóra í fyrra reifaði hann það að erlendis væru samningar um orkukaup yfirleitt til í mesta lagi 30 ára, jafnvel aðeins 20 ára.

Herstöðvabeiðni Bandaríkjamanna 1945 hljóðaði upp á þrjár herstöðvar á Íslandi til 99 ára.

Það var og er álitið jafngilda ævarandi samningi enda hefur það orðið þannig víða um heim, til dæmis á Guantanamo á Kúbu.

65 ára samningur við Magma Energy bankar í þetta en jafnvel það er ekki talið nægja heldur haft inni að samingurinn geti orðið til 130 ára ! 

Til lítils börðumst við Íslendingar við Breta í þremur þorskastríðum um yfirráð yfir fiskimiðunum ef við byrjum nú að afsala okkur í raun þeirri auðlind, sem mest eykst að verðmæti í heiminum, og ætlum okkur að selja hana á útsöluverði.

Vorið 2007 vöruðum við hjá Íslandshreyfingunni sterklega við því ferli sem þá var hafið en töluðum fyrir svo daufum eyrum, að í dag heyrði ég útvarpsmann segja að enginn hefði haft neitt við það ferli að athuga. 

Nú hefur komið í ljós að þetta ferli varð verra og hraðara en okkur hafði órað fyrir.

Ég mæli við stórgóðri grein um þetta í Fréttablaðinu í dag þar sem það er rakið, lið fyrir lið, hve arfaslæmur þessi samningur er og með öllum verstu einkennum samningabrellnanna sem leiddu til Hrunsins.

Reynt er að réttlæta þennan samning með því að ef hróflað verði við honum, muni aðrir erlendir fjárfestar hrökkva frá því að semja við okkur.

En hver er hinn valkosturinn? Jú, hann er sá að komist Magma Energy upp með þetta munu aðrir aðrir erlendir fjárfestar krefjast þess að fá jafn góðan samingi, annars fjárfesti þeir ekki hér á landi.

Þessi dapurlega þróun komst í nýjar lægðir 1995 þegar íslensk stjórnvöld sendu dæmalausan bækling til helstu erlendu stóriðjufyrirtækjanna með loforðunum: "Lægsta orkuverð og sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum (Hafið ekki áhyggjur af matinu, - það er formsatriði, - við virkjum allt sem þið þurfið).

Er þetta leiðin sem við ætlum að halda áfram að feta inn í framtíðina?  

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband