Gömul nauðsyn uppstokkunar.

Vegna þess hve virkjana- og stóriðjuumræðan hefur verið yfirgnæfandi síðasta áratug hefur hin stórfellda jarðvegseyðing á Íslandi fallið í skuggann. 

Flestir eru búnir að gleyma því að með umfjöllun minni  og myndatökum af afréttum landsins hófst sá tímibili í starfi mínu sem ég var illa þokkaður af mörgum og umfjöllun mín vakti miklar deilur.

Steingrímur Hermannsson segir frá því í æviminningum sínum að þegar hann varð landbúnaðarráðherra fyrir um 30 árum hafi hann séð að eitthvað væri bogið við það að sauðfjárbúskapur hlítti sömu lögmálum varðandi kvóta, annars vegar á svæðum sem voru með góða afrétti eins og til dæmis í Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu og fólk hafði að litlu öðru að hverfa, - og hins vegar á afréttum á hinum eldvirka hluta landsins á Suðurlandi og Norðausturlandi þar sem mikil jarðvegseyðing var og atvinnulíf mun fjölbreyttara. 

Datt honum í hug að hægt væri að hlífa bændum á góðu svæðunum við samdrætti en styðja bændur á slæmu svæðunum til að hverfa að öðru en sauðfjárrækt.

"En bændaforystan og landsbyggðarþingmennirnir urðu alveg brjálaðir" segir Steingrímur í bókinni "og ég þorði aldrei að minnast á þetta aftur."

20 árum síðar orðaði Hjálmar Jónsson, þá orðinn formaður landbúnaðarnefndar Alþingis, svipaða hugsun í viðtali á Stöð tvö og aftur gerðist það sama og tuttugu árum fyrr.

Ég kom í heimsókn að Gautlöndum, nágrannabæ Baldursheims, fyrir um 20 árum og vildi taka viðtal við Böðvar Jónsson bónda, sem hafði hólfað land sitt niður og stýrði beitinni með því að hafa þau opin eða lokuð fyrir beit eftir atvikum. 

Við það batnaði ástandi beitilandsins og fallþungi dilkanna jókst.

Það tók mig nokkur ár að fá Böðvar til þess að koma í viðtal vegna þess að hann var svo hræddur við að styggja nágranna sína.

Ég nefni líka Guðrúnu á Brekku og Gunnar Jónsson á Daðastöðum sem dæmi um bændur nyrðra sem voru ekki vel þokkuð vegna búskaparhátta sinna sem miðuðust við að fara vel með landið og ganga ekki á gæði þess, - skila því betra til afkomendanna en þau tóku við því.  

Íslandshreyfingin er eini stjórmálaflokkurinn sem hefur þorað að setja uppstokkun í þessum málum á stefnuskrá hjá sér.  

Það er enginn að tala um að leggja niður sauðfjárbúskap á Íslandi eða útrýma fjárréttum haustsins.

Það er aðeins verið að tala um það að því ástandi linni einhvern tíma sem hefur stuðlað að mestu jarðvegseyðingu sem þekkt er á byggðu bóli.  


mbl.is Meira fólk en fé í réttunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Að öllu sammála og vegna þess að ég ber hlýjan hug til bændanna og þó ekki síst til landsins sem fóstrar okkur og er umgerð alls mannlífs og alls lífs frá upphafi.

Benedikt frá Hofteigi skilgreindi fallega muninn á bóndanum sem býr á jörð sinni til að græða jörð og hinum sem býr til að græða á jörð.

Og hann segir um þetta m.a. að sá sem býr á jörð eingöngu til að græða á jörð "er undireins búinn að gera sína jörð að flagi."

Þetta hef ég reyndar rakið áður en "sjaldan er góð vísa of oft kveðin." og þetta er góð vísa og ljúf.

Árni Gunnarsson, 29.8.2010 kl. 14:58

2 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Algjörlega sammála þér. Og í ofanálag var sauðkindinni kennt um gróðureyðinguna en ekki þeim sem ráku þær á afrétti. Svo er það "algjör skepnuskapur" að reka fé og sérstaklega unglömb til óbyggða og frá um mjög langan veg. Á láglendi er miklu meira en nóg af beitilandi. Helstu rökin eru leita- og réttarómantík og að lömb og sauðfé sem nærðust á fjallagróðri væru svo miklu betri á bragðið. Ekki var reynt að færa á það sönnur á neinn hátt enda örugglega ekki hægt..

Sigurður Ingólfsson, 29.8.2010 kl. 21:43

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það eru til afréttarlönd á Íslandi sem bera vel sauðfjárbeit og eru afréttir Stranda og Vestur-Húnavatnssýslu gott dæmi um það.

Á hverju ári flýg ég margsinnis yfir afrétti þar sem sjá má mikinn mun utan og innan girðinga friðlanda og sé kindur sem eru á beit í flögum og á svæðum í uppblæstri þar sem nýgræðingurinn er að reyna að komast upp úr jörðinni en einmitt hann er eins og konfekt fyrir sauðféð. 

Ómar Ragnarsson, 29.8.2010 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband