Hvers vegna Jónas?

Marga meistara íslenskrar tungu hefur þjóðin átt. Íslensk tunga var verkfæri eina Nóbelskáldsins okkar, Halldórs Laxness, hún var verkfæri Snorra Sturlusonar og annarra skálda og afburða fræðimanna okkar um aldir.

Af hverju var fæðingardagur Jónas Hallgrímsson fyrir valinu þegar valinn var dagur íslenskrar tungu?

Það má rökræða það fram og aftur hvort annar Íslendingur hefði átt að verða fyrir valinu, en hinu verður ekki neitað, að fegurð þjóðtungu okkar rís líklega hvergi hærra en í ljóðum Jónasar og að fáir gátu betur en hann látið fólk hrífast og tárast yfir túlkun hans á fegurð, trega, ást, gleði og harmi. 

Hann var það skáld sem komst næst þjóðarsálinni. 

Á góðri stundu yrkir hann "Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur...? og "þá er það víst að bestu blómin gróa  /  í brjóstum sem að geta fundið til." 

Hann var vísindamaður, ákaflega orðhagur og bjó til frábær nýyrði á borð við orðið "ljósvaki". 

Hann er ígildi listmálara og ljósmyndara eða kvikmyndagerðarmanns í ljóðunum "Gunnarshólma" og "Fjallinu Skjaldbreiði" þar sem hann þarf hvorki pensil né myndavél, slíkt vald hefur hann yfir íslenskri tungu.  

Málverkið sem fólgið er í Gunnarshólma er nákvæmnisverk þar sem "...klógulir" ernir svífa og "fiskar vaka" í ám. 

Hann setur þann sem les niður við Gunnarshólma en þaðan lyftir andi hans sér til flugs eins og kvikmyndagerðarmaður með myndavél og skimar yfir "hrafntinnuþökin" hjá Hrafntiinnuskeri, sem eru fjarri því að sjást neðan af sléttlendinu. 

Sagt er að skáldið Bjarni Thorarensen hafi sagt þegar hann sá fyrst ljóðið Gunnarshóllma: "Nú get ég hætt að yrkja." 

Jónas gat líka ort raunsæisádeilu betur en flestir, ádeilu á borð við "Ísland, farsælda frón" þar sem hann í raun var að hvassbrýna landa sína til að þess að reka af sér slyðruorðið. 

En hin persónulegu ljóð hans snerta okkur mest enn í dag. 

Angist hins einmana, heilsulitla og drykkfelda skálds fjarri fósturjörðinni skín út úr orðunum "Enginn grætur Íslending / einan sér og dáinn...",  "Mér var þetta mátulegt / mátti vel til haga / hefði ég betur hana þekkt / sem harma ég alla daga." 

Hann flýgur í andanum með þrestinum yfir hafið til Íslands til að heilsa stúlkunni með húfuna og rauða skúfinn í peysunni og andvarpar: "Þröstur minn góur, það er stúlkan mín." 

Það er erfitt að velja á milli bestu ljóða "listaskáldsins góða".  "Ferðalok" hljóta þó að koma upp í hugann. 

Spurningunni um það hver stúlkan var sem það ljóð snýst um, verður aldrei svarað til fulls, frekar en að hægt sá að finna pottþétt svar við því hver var höfundur Njálu, sem nefnir persónu sína ekki fyrr en í síðustu setningu sögunnar og þá ekki nafnið heldur aðeins fornafnið "ek". 

Ég gæti vel trúað því að Jónas yrki Ferðalok til fleiri en einnar konu. Sú sem helst hefur nefnd, af því að hún varð honum samferða norður í land ásamt fleirum, er langlíklegust. 

"Greiddi ég þér lokka við Galtará" er lykilsetning í þessu tilliti. 

Þó hnýtur maður um setningu eins og "...Tíndum við á fjalli / tvö vorum saman / blóm í hárri hlíð." 

Gátu þau Þóra verið ein saman að tína blóm í fjalli í þessari ferð? 

Kannski er kvæðið lýsing á hugarástandi manns, sem hefur orðið ástfanginn af fleirum en einni konu og harmar það hlutskipti sitt að horfa sjúkur fram á einsemd fjarri sínu elskaða landi. 

Það er hægt að fara yfir ljóðið Ferðalok og mörg önnur ljóð Jónasar aftur og aftur og dást að og hugleiða innihald þeirra. 

Vísa til Ferðaloka á tónlistarspilarnum hér við hliðina og síðasta blogg mitt á undan þessu, sem mér láðist að tengja við fréttina af verðskulduðum heiðri til handa Vígdísar Finnbogadóttur, Möguleikhússins og Hjálma. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Já, Jónas Hallgrímsson var snillingur og ekki nóg með að hann orti fegurstu ljóðin heldur má þakka honum og Fjölnismönnum það að íslenskan "hreinsaðist" Það má síðan  þakka því að hann ólst upp í dal fyrir norðan en ekki í Reykjavík þar sem fólk talaði mjög dönskuskotið mál. Hann taldi líka kjark í þjóðina með ljóðum sínum og má því rekja upphaf sjálfstæðisbáráttunnar til hans þeirra Fjölnismanna.

Takk fyrir mjög góðan pistil Ómar.

Sigurður Ingólfsson, 17.11.2010 kl. 11:37

2 Smámynd: Njörður Helgason

Jónas var fagurt skáld.

Njörður Helgason, 17.11.2010 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband