Af sem áður var.

Fyrir um hálfri öld var Reykjavík enn bær og það voru haldnar bæjarstjórnarkosningar.

Nöfn strætisvangastöðvanna, sem kölluðu voru upp, sögðu sína sögu, til dæmis á leiðinni til vesturs eftir Suðurlandsbraut og Laugavegi, Múli! Lækjarhvammur! Ás! 

Sagt er að þýskir ferðamenn hafi þust út úr strætisvagni þegar þeir heyrðu ekki betur en að bílstjórinn kallaði: "Aus!" 

Fúlilækurinn rann úr Kringlumýrinni rétt fram hjá Lækjarhvammi og til sjávar 

Einstaka bæir og kot héldu velli furðu lengi víða um borgina. Búskapur var furðu lengi á Sunnhvoli við Háteigsveg og enn lengur á Klömbrum á Klambratúni. 

Við Ásvallagötu hélt bærinn Melur lengi velli eftir að íbúðahúsabyggð var kominn þétt upp að honum á alla vegu og þessi litli sveitabær kominn langt inn í húsabyggðina. 

Þórarinnn á Melnum vann sem hafnarverkamaður og hafði mun fleira fé en sem nam því litla sem hann gat heyjað á bæjarblettinum sínum, því að hann fékk hey annars staðar frá. 

Bakarameistarafélagið hafði hænsnabú með mörg hundruð hænum langt fram eftir öldinni við braggahverfið Múlakamp og í Laugardalnum voru nokkur kot. 

Á aldrinum 14-16 ára var ég með nokkrar dúfur í kofa á bakvið húsið að Stórholti 33. Nokkri fleiri strákar á mínum aldri reyndu fyrir sé með búskap af þessu tagi og við höfðum bæði gaman og gagn af.

Allt þetta gerði umhverfið, sem ég ólst upp í, að heillandi blöndu af dreifbýli og þéttbýli og ég held að það hafi haft ákaflega góð og heilnæm áhrif á unga og gamla sem lifðu í þessu lífræna umhverfi.  

Nú er aðeins húsdýrahald í Laugardalnum og það er í raun gervi-húsdýrahald til sýnis í stað raunverulegs og hefðbundins húsdýrahalds þegar þar voru litlir bæir á borð við Hálogaland. 

Mér finnst það umhugsunarefni að borgin skuli vera komin svo langt frá uppruna sínum að ekki megi halda skitnar fjórar landnámshænur við Hjallaveg og engin leið að finna því farveg sem allir geti við unað. 

Við ættum kannski að fara skoða upp á nýtt þær reglur sem virðast miða að því að dauðhreinsa næstum borgina og svipta hana lífi og fjölbreytni. 


mbl.is Fær ekki að halda hænur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú er ég mun yngri en þú Ómar, bara 49.  En þegar ég var ungur, var ekki mikið að sjá af dreifibýlisbúskap í bænum.  Þó mátti sjá snefil af honum þegar máður nálgaðist breiðholtin, sem þá voru að byrja að rísa upp, og í kópavoginum við furugrundina sem síðar varð að iðnaðarhverfi.  Þá var þar bæði stærðarinnar hænsnabú, og svínabú, sem ég hafði heiðurinn af að heimsækja ... dani sem var þar og sá um.  Í þá daga var það vel þrifið, og ekki liktaði það svín ... var næstum hægt að ganga um í sparifötunum þar innandyra.

Í dag erum við landkrabbar, og bæjarbleiður ... eins og sagt var hér áður. 

Hafir þú verið í Kína, hefur þú ábyggilega séð fólk ganga um með dýr um götur.  Þar ferðu út í verzlun, og velur þér fiskin spriklandi í búri.  Rækjurnar eru syndandi í sínum búrum, og eru veiddar upp með háfi.  Þar ferðu inn í verzlun, og nærð þér í spriklandi hænu sem þér líst vel á ... í matinn.  En þar rennur þér líka kalt vatn milli skins og hörunds, við að heira dauða veinið í hundum á næturna ... þegar fátækir og sveltandi, eru að bjarga sér um fæðu.  Ég tel nú eitthvað svipað hafa verið í gangi í Evrópu, hér á öldum áður.

Smáfuglar bera með sér fló, og lús. Hænur bera með sér sýkla, og óþrifnað, enda vanin að gefa þeim úrgang að éta.  Og stærsta hót gegn mankyni er ekki styrjaldir, heldur sjúkdómar, þar sem fólk býr svo þéttbýlt.  Það er því brýn þörf á, að gæta þrifnaðar, þó það stundur virðist frekar ópassandi.  Og sumum erfitt að aðhillast.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 12:13

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef fjórar landnámshænur eru svona mikil ógn við heilbrigði borgarbúa, hvað þá um heilan húsdýragarð?

Ómar Ragnarsson, 4.12.2010 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband