"Seðlabankinn hefur ákveðið..."

Stjórn íhaldsflokksins hækkaði gengi krónunnar á þriðja áratug síðustu aldar en slíkt gerðist ekki aftur fyrr en 80 árum síðar. Í bæði skiptin var þessi gengishækkun óraunhæf og til ills þegar litið var til afleiðinganna.

Þegar kreppan dundi yfir um 1930 var krónan ákaflega illa undir það búin að þola áfallið, og næstu 60 ár var aðalviðfangsefni stjórnvalda handstýrt rangt gengi krónunnar. 

1939 var svo komið að engin höft og boð og bönn gátu komið í veg fyrir að það yrði að fella gengi krónunnar. Það var gert og ef allt hefði verið með felldu í stjórn efnahagsmála hefði það átt að duga. 

En 1942 fór af stað verðbólga af áður íþekktri stærð vegna hinnar gríðarlegu þenslu sem hernámsframkvæmdirnar ollu og stjórnarkreppu, sem fyrst leiddi af sér skammlífa minnihlutastjórn Ólafs Thors, tvennar kosningar og síðan utanþingsstjórn. 

Þá varð trúnaðarbrestur milli Ólafs og Hermanns Jónassonar sem eitraði íslensk stjórnmál meðan báðir lifðu þótt þeir neyddust til að samþykkja stjórn flokka sinna 1950-56. 

Ólafur mælti fleyg orð þess efnis að hægt væri að slá verðbólguna niður "með einu pennastriki" og var það aðhlátursefni þangað til þjóðarsáttin 1990 sannaði þessi orð hans. 

1949 varð að fella krónuna á ný og frá 1950 var komið á flóknu hafta- og gjaldeyriskerfi til þess að breiða yfir ranga skráningu. Þá stóð dollarinn í 16,32 krónum ef ég man rétt.

Enn varð að fella krónuna 1959 til þess að ryðja burtu verstu höftunum og þegar verkföll leiddu af sér 13% kauphækkun 1961 var krónan felld nákvæmlega jafn mikið. 

Í þrjátíu ár eftir þetta voru í gangi víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags með tilheyrandi gengisfellingum, tveimur árið 1967 og síðan eftir þörfum. 

Jóhannesar Nordals verður sennilega helst minnst fyrir það að koma fram í sjónvarpi með sama pistilinn æ ofan í æ: "Stjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að höfðu samráði við ríkisstjórnina að skrá gengi krónunnar..."

Stjórnmálamenn eyddu dýrmætum tíma sínum í eilífar reddingar oft á ári vegna þessa fargans í stað þess að geta einbeitt sér að málum, sem horfðu meira til framtíðar. 

Ríkisstjórnir komu og sprungu í loft upp og kjaradeilur og verkföll tröllriðu öllu. 

1983 komst verðbólgan yfir 100% og ráðstafanir af þeim völdum bitnuðu mjög hart á ýmsum þjóðfélagshópum, þó mest ungu fólki sem var búið að kaupa húsnæði með miklum skuldum. 

Sparifjáreigendur með gamla fólkið í miklum meirihluta var rænt fjármunum sem nam á núvirði hundruðum milljarða á þessu hræðilega verðbólgutímabili. 

Loksins tókst með Þjóðarsáttinni 1990 að kveða verðbólgudrauginn niður með samstilltu átaki mætra manna á vinnumarkaðnum og er sá samningur einhvert mesta stjórnmálalegt afrek lýðveldissögunnar. 

Fram yfir aldamót ríkti hér mesta stöðugleikatímabil um áratugaskeið, en um aldamótin fór síðan græðgin að keyra úr hófi fram. 

Framangreind saga tæpir á þeim slæmu áhrifum sem vanþroskuð íslensk stjórnmál höfðu á allt þjóðlífið og siðferði þjóðarinnar og speglaðist í þessu mikla þjóðarböli sem verðbólgan var og allt hafta- og fyrirgreiðslufarganið sem af henni spannst. 

Þrátt fyrir Þjóðarsáttina 1990 tókst aldrei að siðvæða íslensk stjórnmál á ný, nýjasta gerð spillingar sjálftöku- og oftökustjórnmála tók bara við með afleiðingum sem sprungu framan í andlitið á okkur 2008. 

Þegar vel er skoðað sést að það stefndi í Hrunið fyrr eða síðar alla síðustu öld. 

Það sem bjargaði var fyrst stríðið og striðsgróðinn, síðan síldin, síðan smá losun haftanna á sjötta áratugnum, þar á eftir miklar þorskveiðar og í lok aldarinnar batnandi hagur og umhverfi í kjölfar stöðugra gengis en fyrr. 

Ævilega þegar sló í baksegl kom eitthvað til sögunnar og "þetta reddaðist". 

En hin landlæga spilling, sem hér hefur ríkt vegna átaka helstu valdahópa í þjóðfélaginu, leitaði bara á önnur mið. Siðrofið, sem fólst í Hruninu, var líkt siðferðilegu krabbameini, sem aldrei hafði verið upprætt og vann loks verk sitt. 

Meinið óx á tveimur samtengdum sviðum, í efnahagsmálum og í orkumálum. 

Á fyrrnefnda sviðinu er verið að reyna lækningu eftir að meinið sprakk, en á síðarnefnda sviðinu virðist allt við það sama og fyrr, því miður. 

 


mbl.is Rýrnun krónunnar 99,95%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Flott úttekt hjá þér, Ómar, og minnugur ertu.

Jón Valur Jensson, 20.12.2010 kl. 15:02

2 Smámynd: Kristján Hilmarsson

það fór aldrei svo að við gætum ekki orðið sammála um eitthvað Jón V. ;) en svona er þetta hjá Ómari gjarnan, stálminnugur og málefnalegur, og með eiginleikann sem marga okkar vantar svo sárt, að sjá heildarmyndina.

Allavega trúverðugra en innlegg þitt Jón ! "hin GÓÐA (??) hlið verðbólgunnar" og svo 910,13 ísl á tímann, sem eru þá um 43,8 dkr. held ekki að það sé til svo lágur taxti í Danmörku, né á hinum norðurlöndunum.

Takk Ómar enn einu sinni fyrir flottann "vinkil" á málið.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 20.12.2010 kl. 16:59

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Mig minnir að þegar Allah var forsætisráðherra hafi gengið verið hækkað um 6%, ´72 eða ´73.

En auðvitað lagast þetta þegar við skilum "fullveldinu" og göngum í Evrópusambandið.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 20.12.2010 kl. 17:14

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta eru lágmarkslaun 18 ára byrjenda, Kristján, – ekki það að ég kalli þetta í lagi, en kjarasamningar standa fyrir dyrum.

En á sama tíma og gengi ísl. krónu hefur hrapað um 2.000-falt miðað við dönsku krónuna, þá hefur tímakaup íslenzkra verkamanna hækkað 65.009-falt í íslenzkum krónum (sjá HÉR!). En spyrja má: Hefur þá kaupmáttur tímakaupsins aukizt um 35,5-falt frá 1925?!

Jón Valur Jensson, 20.12.2010 kl. 21:02

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta átti auðvitað að vera: um 32,25-falt.

Og Kristján hinn, meginlandið á ekkert í okkar fullveldi og fær það aldrei, ef þjóðin fær að ráða. Við beygjum okkur ekki fyrir kúgunarstjórn.

Jón Valur Jensson, 20.12.2010 kl. 21:05

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

32,5-falt!

Jón Valur Jensson, 20.12.2010 kl. 21:06

7 identicon

Er það ekki bara málið að það er allt of mikil áhersla á hreinar launahækkanir.  Það jafngildir verðhækkunum sem á móti lækkar kaupmátt okkar.  

Ég bara spyr vegna þess að ég er svo fáfróður, Hvað myndi gerast ef engar launahækkanir yrðu næstu tíu árin? 

Hans Rúnar Snorrason (IP-tala skráð) 21.12.2010 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband