Langhlaup staðfestunnar.

Það er gott framtak hjá Loga Geirssyni og Einari Bárðarsyni og einkum mikill kjarkur sem sá síðarnefndi sýnir með því að fara út í það erfiða verkefni að vinna bug á offitunni, sem er að verða mesta heilbrigðisvandamál heimsins því að hún veldur mörgum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, áunninni sykursýki, bakveiki og veikluðum fótum.

Það eru í grófum dráttum þrír ferlar á því hvernig ofþungir umgangast fituna.

Vandamálið þróast aðallega á þrennan veg:

1. Smám saman þyngist viðkomandi án þess að taka mikið eftir því. Á skemmtun nýlega sagði ræðumaður frá því að hann hefði þyngst aðeins um eitt kíló á ári þegar hann fór að fara upp fyrir kjörþyngdina. Þetta hefði svo sem verið allt í lagi hvert ár fyrir sig, en nú væru liðin 25 ár síðan þetta byrjaði og hann væri 25 kílóum of þungur. 

2. Hinn ofþungi ákveður, eins og Einar Bárðar, að fara í mjög hart átak til að ný þyngdinni niður og geta menn oft náð ótrúlegum árangri eins og afrek Gauja litla hér um árið er gott dæmi um. Gallinn er bara sá að eftir svona átak fer oftast þannig að menn sækja fljótlega í sama farið. 

Ég þekki þetta. Fyrir þremur árum missti ég 16 kíló vegna veikinda á þremur mánuðum og uggði ekki að mér heldur þyngist á næstu átta mánuðum um 16 kíló.

Þá tók ég mér loks tak og hefði mátt gera það fyrr. Mér tókst að ná af mér 6 kílóum en vegna hnémeiðsla og fótbrots, sem olli minni hreyfingu en fyrr, fór ég að þyngjast aftur í rólegheitunum og hafði bætt 6 kílóunum á mig og tveimur kílóum betur um síðustu áramót.  

Auðvitað voru hnémeiðslin engin afsökun fyrir þyngingunni, - mataræðinu hefði átt að breyta í samræmi við nýjar aðstæður. 

Þá setti ég mér það markmið að létta mig að meðaltali um ca eitt kíló á hverjum mánuði og verða 10 kílóum léttari en nú. Hnén hafa skánað en auðvitað er það engin afsökun fyrir því að hafa ekki haft þetta undir styrkri stjórn þótt þau hafi gert mér það erfiðara. 

En þetta er að sjálfsögðu ekki nóg. Þetta er nefnilega langhlaup og þá kem ég að síðasta möguleikanum. 

3. Það langtímamarkmið að halda heppilegri þyngd til æviloka og fylgjast vandlega með þyngdinni, jafnvel daglega. Fara ekki of geyst af stað því að það getur hefnt sín. Líkaminn þarf til dæmis ákveðið lágmark af fitu í fæðunni. Karlinn sem þyngdist um 25 kíló á 25 árum er nú á þeim aldri, að hann ætti þess vegna auðvelt með að taka þessi kíló af sér á 25 árum, þótt auðvitað væri betra að gera þetta heldur hraðar og halda sér hæfilega við efnið. 

Nú er bara að óska Einari og Loga góðs gengis og ítreka að þetta er spurning um þolinmæði og staðfestu til æviloka! 


mbl.is Logi Geirs sló Einar Bárðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einföld og pottþétt aðferð til að fylgjast með eigin þyngd er mittisvídd buxnanna. Á hverjum morgni klæðumst við buxum, ekki satt,  og ef í ljós kemur að það er farið að þrengja að, borðum við þann daginn minna. Eða hreyfum okkur meira, ef skrokkurinn leyfir. Hefur ekkert með kjark að gera, heldur vilja. Verkefnið er ekki erfitt ef viljinn er fyrir hendi. Nú, ef hann vantar, getur þú aðeins kennt sjálfum þér um. Basta.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.2.2011 kl. 21:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, hárrétt. "Þú ert það sem þú étur" er meginefni sannleikans þótt hreyfingin hafi mikið að segja.

Ómar Ragnarsson, 23.2.2011 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband