Síðasta lendingin best. Steini lenti í 50 hnúta hliðarvindi.

Það þarf sterkar taugar til að lenda flugvél í miklum hliðarvindi, því að það er ekki aðeins að flugmaðurinn verði að vera viðbúinn því á hverju augnabliki að þurfa að hætta við lendinguna og gera það rétt, heldur verður hann að jafnframt að vera stálákveðinn í að framkvæma lendinguna óhikað og örugglega þótt það sem hann verður að gera sýnist glæfralegt.

Allir flugmennirnir á meðfylgjandi myndbandi mbl.is af lendingum í Bilbao nota svonefnda blandaða aðferð á lokametrunum, þ. e. að fljúga vélinni með lárétta vængi en stefnt á ská upp í hliðarvindinn alveg niður að braut, en síðan að "sparka í hliðarstýrið" nokkrum sekúndum fyrir snertingu við brautina til þess að nef vélarinnar og ferill hjólanna vísi beint fram þegar snert er.

Til er sú aðferð að halla vélinni allan síðasta spölinnn upp í hliðarvindinn þannig að nefið vísi allan tímann beint fram og vélin sé jafnframt á beinni stefnu inn að miðlínu.

Blandaða aðferðin er betri að því leyti að miðflóttaaflið í snúningi skrokksins þegar flugmaðurinn sparkar í hliðarstýrið hjálpar til við að halda vélinni inni við miðlínu í snertingunni.

Auk þess er minni hætta á því þegar hreyflarnir eru undir vængjunum að reka þá niður í brautina.

Síðan má ekki vera neitt hik í því um leið og vélin snertir braut að negla vélina og þrýsta ákveðið niður á hjólin að nefhjólinu meðtöldu til þess að láta vængina missa lyftikraft og hjólin fá hámarks viðnám gegn hliðarvindinum.

Þarna þýðir lítið að vera að hugsa um netta og þýða lendingu, heldur verður að sætta sig við nokkuð harða lendingu ef svo ber undir svo að vélinni sé ákveðið "klesst" niður við snertingu eins og nauðsynlegt er.  

Mér sýnist hin síðasta af þessum lendingum vera best framkvæmd og þar sést vel hvernig rýkur úr hjólbörðunum vegna hins mikla viðnáms hjólanna við brautina.  

Þorsteinn Jónsson sagðist einu sinni hafa lent Boeing 747 í 25 metra eða 50 hnúta hliðarvindi og taldi það dæmi um hve góð sú þota væri.

Á myndinni hér að ofan sýnist mér hliðarvindurinn ekki vera beint á hlið heldur á ská enda vafasamt að hægt hefði verið að lenda þessum vélum í 36 metra hreinum hliðarvindi.

Það er þumalputtaregla að flugvélar þoli hliðarvind sem samsvarar einum fjórða af ofrishraða þeirra í "lendingarham" ("landing configuration").

Þetta er þó nokkuð misjafnt eftir flugvélategundum og ljóst að 50 hnútarnir hans Steina voru mun meira en fjórðungur af ofrishraða þeirrar vélar í lendingarham.

En Steini var nú ekkert venjulegur flugmaður, hvorki í stríðinu né síðar.


mbl.is Flugvélar fuku um loftin blá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Svona hliðarvinds lendingar eru alltaf tilkomumikil sjón en mér finnst alltaf merkilegast hvað hjólabúnaðurinn á þessum rellum þolir.

Einar Steinsson, 28.4.2012 kl. 09:48

2 identicon

Kostulegt.

Hef verið búsettur mest allt mitt líf í tveimur löndum, á Íslandi og í Sviss.

Í báðum þessum löndum eru menn sannfærður um það, að þeir eigi bestu flugmenn í heimi.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.4.2012 kl. 10:44

3 identicon

Í Sviss er hægt að komast í ævintýraleg skilyrði, t.d. svaka uppstreymi, og langt upp vegna fjallahæðar. Engin tilviljun að mikið er um svifflug við Alpafjöllin.

Á Íslandi er líka hægt að komast í ævintýraleg flugskilyrði. Þar ræður þó Atlantshafsveðráttan miklu um ákveðinn óstöðugleika, og svo lega og lögun lands. Ísland er í raun drauma-leikvöllur fyrir flugkennslu vegna margbreytileikans.

En talandi um hann Steina Jóns, - tók hann ekki einhverja ævintýralegustu lendinguna á DC-3 í Heymaey? Hann sagði það sjálfur skýrt að það hefði verið svakalegt, og hundaheppni að tókst að klessa vélinni niður.

Hann notaði nú orðið "hundaheppni" nokkuð oft, og kallaði sig "skussa" sem flugmann, en lagsi var nú drjúgt lunkinn flugmaður. Kannski slyngari en flestir.

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.4.2012 kl. 13:53

4 identicon

Þorsteinn Jónsson var flottur. Á hans bækur, einnig "Skrifað í skýin", eftir Jóhannes R. Snorrason. Svisslendingar eiga líka sína kappa, en þeir eru ekki eins pennafærir og við Íslendingar. En þar jafnast engir á við okkur. Eftir lendinguna í Heimaey, sagði Steini, ef ég man rétt. Ekki lenti ég vélinni.

Hnjúkaþeyrinn (Föhn) getur verið stórhættulegur í Ölpunum. Einnig CB's og þokan. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.4.2012 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband