Sjöttungur kjósenda fengi engan mann.

Enn og aftur er útkoman úr skoðanakönnunum svipuð og að undanförnu að því leyti að í gangi er mjög ólýðræðislegt fyrirkomulag.

Þótt Framsókn og VG fengju rúmlega tug þingmanna hvor flokkur, ef kosið væri nú, myndi sá hópur kjósenda, sem nú gefur upp fylgi við nýju framboðin, og er fjölmennari, með 16 prósenta fylgi, ekki fá neinn þingmann.

Það samsvarar því að eitthvert landsbyggðarkjördæmanna fengi engan þingmann eða að Framsókn fengi engan þingmann.

Þessu veldur hinn ósanngjarni 5% þröskuldur sem í gildi er varðandi framboð til þings.

Þetta ranglæti er réttlætt með því að þessi þröskuldur komi í veg fyrir þvi að óstöðugleiki og flokkadrættir ríki á Alþingi.

Ekki er svo að sjá að þröskuldurinn hafi haft þessi áhrif á þessu kjörtímabili heldur hefur fjöldi þingmanna fært sig um set á þinginu eða sagt sig frá stuðningi við mikilsverð málefni.

Í þeim örfáu löndum þar sem svona hár þröskuldur er, eru þingin miklu fjölmennari og án þröskulds myndi þurfa miklu lægri prósenttölu til að koma manni á þing.

Hér á landi myndi þurfa rúmlega 1,6 prósent til að koma að manni, eða um 3000 atkvæði, ef enginn þröskuldur væri og það þarf nokkuð til að ná því fylgi.

Þess vegna er þessi fáránlega hái þröskuldur ólýðræðislegur og óréttlátur og í frumvarpi stjórnlagaráðs er hann felldur út.


mbl.is Ná engum manni á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er svo aftur hægt að spyrja sig Ómar, hvort það sé lýðræðislegt að menn komist á þing á svo litlu fylgi kjósenda. Hvort það þjóni lýðræðinu ef einn af hverjum setíu og þrem, skuli duga 1,6% atkvæða.

Lýðræðið er vandmeðfarið, en megin forsenda þess hlýtur að vera vilji kjósenda. Þegar þeim vilja er dreift svo mikið sem þú nefnir, að menn gætu komist á þing með einungis 1,6% atkvæða að baki sér, er hætt við að lýðræðið væri komið á hálann ís.

Gunnar Heiðarsson, 4.9.2012 kl. 21:11

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sammála að þröskuldurinn sé fáránlegur, en verra er þessi fjandans skoðanakannanir og prósentur sem tröllríða þjóðfélaginu núna. Þær eru notaðar þegar rök fyrir málstað vantar. Og rúv er með undanþágu fyrir könnunaraðferð sinni!!!!

Eyjólfur Jónsson, 4.9.2012 kl. 21:20

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það yrði aldeilis glæsilegt ef þetta smáflokka dót, samtíningur af fólki sem aldrei getur unnið með öðrum af heillindum og skinsemi myndaði næstu ríkisstjórn með slitrunum af þeirri núverandi.  Í raun ætti að banna fleiri en einn flokk í ríkisstjórn.  Það myndi smá saman skapa stöðugleika.

  

Hrólfur Þ Hraundal, 4.9.2012 kl. 21:56

4 identicon

Það er auðvelt að rugla saman lýðræði og skrílræði. En þröskuldar koma í veg fyrir að sundurlaus hópur þar sem hvert skrípið hefur sína stefnuskrá og enginn getur unnið með næsta manni fjölmenni á þing. Og ef við lítum yfir síðustu ár þá virðast núverandi þröskuldar frekar vera í lægri kantinum. Draumsýnir og útópískar öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir hugmyndir stjórnlagaráðs ganga ekki upp í raunheimum og bera þess merki að rökhugsun og skynsemi hafi verið látin víkja fyrir múgæsingu og merkingarlausri skrúðmælgi.

sigkja (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 01:43

5 identicon

Fjöldi sérframboðanna, smáflokkanna, flokksbrot og brotabrot éta undan hvert öðru. Ef þessi nýju framboð ná ekki manni á þing þá tel ég það þeim sjálfum að kenna frekar enn að sakast við 5% markið.

Jóhannes (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 02:05

6 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Ómar, þú komst inn í stjórnlagaþingið, þetta sama og útilokaði ríflega Þriðjung kjósenda frá því að eiga fulltrúa og fyrir sambærilegu kerfi ert þú að berjast fyrir að tekið verði upp í alþingiskosningum

Brynjar Þór Guðmundsson, 5.9.2012 kl. 06:34

7 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll Ómar.

Sammála þér í því að þetta þarf að lækka úr þessum 5% marki niður í kannski 3 til 3,5% lágmark. Algerlega ósammála ykkur í stjórnlagaráði að afnema með öllu þetta lágmark. En um það og ýmislegt annað verður ekkert spurt í þessari fáránlegu skoðanakönnun sem framundan er um tillögur Stjórnlagaráðs. Þar eru handvaldar nokkrar spurningar úr tillögum ykkar stjórnlagaráðs. Flestar eru þær þannig að þær eru nokkuð almennar og búast má við að flestir, eða góður meirihluti sé þeim sammála.

En algerlega er passað uppá það að spyrja ekkert um tillögur ykkar sem vitað er að verulegur a´greiningur er um eins og t.d. um 111 greinina um að heimillt sé að framselja fullveldið og deila því með öðrum ríkjum eða ríkjasamböndum.

Þeir sem skipuleggja þessa fáránlegu skoðanakönnun þora ekki að spyrja um slíkt og sleppa því að spyrja um afstöðu fólks til tuga annarra umdeildra tillagna.

Síðan ef að naumur meirihluti þjóðarinnar samþykkir þessar örfáu spurningar sem spurt er um, þá ætlar Stjórnlagaráð og Ríkisstjórnin að túlka það þannig að þjóðin hafi þar með samþykkt ALLAR tillögur Stjórnlagaráðs, eins og þær lögðu sig.

Þetta er EKKERT lýðræði. Þessi skrípaleikur sem er mjög andlýðræðislegur og má helst líkja við handstýrt stjórnræði.

Þess vegna hvet ég alla til að mæta á kjörstað og hafna þessum handvöldu tillögum Stjórnlagaráðs, jafnvel þó þeir gætu stutt einhverjar þeirra.

Gunnlaugur I., 5.9.2012 kl. 09:21

8 identicon

Þetta er laukrétt hjá þér Ómar. Hafði ekki hugsað út í þetta. En það þarf samt að vera einhver þröskuldur, hvað með 3-3,5%,

Það væri betra í svona litlu þjóðfélagi,, ef þjóðfélag skyldi kalla

Kristinn J (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 09:58

9 identicon

Sammála því að þetta er mjög ósanngjarnt. Hinsvegar eru margir ósáttir við að í frumvarpi ykkar að nýrri stjórnarskrá sé gert ráð fyrir óbreyttri kjördæmaskipan og til að geta haft hana áfram, er sett upp óþarflega flókið og illskiljanlegt kerfi til að úthluta þingsætum. Merkilegt að Ari Teitsson skuli hafa getað komið þessu í gegn með sinni margfrægu þrákelkni. Ég held að mikill meirihluti þjóðarinnar vilji að landið sé eitt kjördæmi og öll atkvæði verði jafn gild - og enginn 5% þröskuldur. Einfalt, gagnsætt og auðskilið kerfi.

Serafina (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband