Það sem var einu sinni gott verður það áfram.

Það eru til fyrirbæri sem falla að mestu í gleymsku og dá. Í ársbyrjun 2003 komst Ragnar Bjarnason ekki einu sinni á 30 manna lista yfir bestu dægurlagasöngvarar síðustu aldar, sem svonefndir "sérfræðingar" eða "álitsgjafar" settu upp.

Hafði Ragnar þó barist við Hauk Morthens um toppinn meðal íslenskra dægurlagasöngvara þegar þeir voru báðir í fremstu röð.

Mér sárnaði þetta en sagði samt við Ragnar: "Hafðu engar áhyggjur, - það sem var einu sinni gott verður það áfram."

Og það varð eins og öllum ætti að vera kunnugt.

Svipað er að gerast með Hemma Gunn þessa dagana. Efni, efnistök og vinsældir þátta hans á sínum tíma voru einstök og entust ótrúlega vel og lengi.

Nú rifjast það upp fyrir fólki að það sem einu sinni var gott verður það áfram.

Það er mér sérstök ánægja að fá að vera vitni að þessu hjá mínum gömlu félögum og aldavinum úr Sumargleðinni og ég sendi Hemma mínar hlýjustu árnaðaróskir sem og Agli Eðvarðssyni, sem átti stóran þátt í því að búa Hemma það umhverfi og útfærslu sem laðaði fram hans einstöku hæfileika og persónutöfra.


mbl.is Hemmi beint á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér fannst efnistök Hemma ekki góð í þáttum hans. Hann virkaði oft eins og hann hlustaði ekki á viðmælendur sína og var sjaldnast "spontant". Hann var fastur í fyrirfram ákveðnum spurningum. Hemmi er samt viðkunanlegur náungi á skjánum og fór langt á því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.10.2012 kl. 13:19

2 Smámynd: Ari Jósepsson

Kanski var Hemmi með óráði ?

Ari Jósepsson, 12.10.2012 kl. 15:08

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Margt sem einu sinni þótti gott þykir það reyndar ekki þegar tímar líða og á við bækur, tónlist, kvikmyndir, söng og hvað eina. Langflest af því sem þótti alveg æði á sínum tíma er nú kyrfilega gleymt og grafið. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.10.2012 kl. 17:23

4 identicon

Mér fannst þátturinn í kvöld subbulegur hrein lágkúra þótt Hermanni hafi tekist að fá þessi ungmenni til að litillækka sig var engin þörf að endursýna þetta. Það vantaði bara Gilsinn til að hlæja með þeim kónum.

Árni Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.10.2012 kl. 22:21

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hinn gallalausi þáttastjórnandi hefur enn ekki litið dagsins ljós, hvorkí hér á landi né annars staðar. Sú staðreynd má hins vegar ekki leiða til þess að taka það af Hemma Gunn sem hann á og ekki hefur verið leikið eftir hér á landi eftir að hann hætti.

Ómar Ragnarsson, 13.10.2012 kl. 00:06

6 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hemmi var inni á gólfi hjá þjóðinni í heilan áratug, hann var góður í sínu starfi svona framanaf, ekki spurning um það. Fólk fékk einfaldlega leið á honum rétt eins og menn fá leið á mat sem er síendurtekið í matinn aftur og aftur og gildir þá einu þótt maturinn sé góður.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.10.2012 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband