Af hverju ekki "rússnesk" merking?

Það vakti athygli mína þegar ég ók um Kolaskaga ffrá Finnlandi til Murmansk fyrir meira en 30 árum, að alls staðar þar sem voru einbreiðar brýr, voru merki, sem gáfu til kynna að umferð í aðra áttina hefði forgang fram yfir umferð úr hinni.

Svipað má sjá víða um lönd, þannig að þetta fyrirkomulag er greinilega byggt á víðtækri reynslu.  

Á aðeins örfáum stöðum á Íslandi eru svona merki og yfirleitt ekki á aðalvegum úti á landi.

Ég hafði aldrei séð svona merki fyrr en ég kom til Rússlands og spurði að því hver væri kostur þess að hafa þau.

Undrunarsvipur kom á Rússana en síðan svöruðu þeir því til, að ef það væri látið ráða, hvor ökumaðurinn kæmist fyrr inn á brúna, gæti það valdið hörðum árekstrum, því að slík regla gæti freistað manna til að gefa í til þess að verða á undan hinum inn á brúna, og hraðinn þar með orðinn svo mikill að árekstur yrði óumflýjanlegur ef báðir ökumenn teldu sig hafa orðið á undan.

Búið er að reyna að minnka slysahættuna á brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum með því að setja 30 km hámarkshraða en eftir sem áður geta menn eftir á þrætt fyrir að hafa farið yfir hraðamörkin og nú liggur fyrir að þessi merking afstýrir ekki árekstrum.

Sé hins vegar forgangur í aðra áttina þarf ekki að deila um neitt eftir á ef árekstur verður; - annar ökumaðurinn, sá sem ók á móti bannmerki, hlýtur að vera aðal sökudólgurinn.

Bannmerkið mun draga úr hættuna á því að spila þá rússnesku rúllettu sem felst í því að keppast við að komast fyrr inn á brúna.   


mbl.is Harður árekstur á Mývatnsöræfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er þetta raunverulegt vandamál á Íslandi? Ég er ekki viss um það. Hins vegar er lenska hér að hafa hættulegar beygjur við einbreiðar brýr og þær hafa valdið mörgum slysum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2012 kl. 12:52

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sem betur fer, fer einbreiðum brúm á Íslandi fækkandi. Þarna reyndust Rússar íslendingum snjallari. Ófáir árekstrar hafa einmitt orðið á einbreiðum brúm vegna keppni um brúnna, oft með hörmulegum afleiðingum.

Ég kom einu sinni að skondnu atviki þar sem tveir bílar stóðu á miðri einbreiðri brú, nef í nef. Sem betur fer hafði þó ekki orðið árekstur. En bílarnir hindruðu alla umferð því báðir  ökumennirnir töldu sig hafa "átt" brúnna og "réttinn" og báðir neituðu að gefa þumlung eftir og deildu hart.

Þegar ég kom þarna að voru komnir nokkrir bílar beggja vegna og einhverjir ökumenn þeirra blönduðu sér í deiluna, og tóku sumir afstöðu með öðrum og á móti hinum og öfugt. Mikill atgangur var á brúnni þegar menn stikuðu fram og aftur fjarlægðina frá bílunum að brúarsporunum í leit að "sannleikanum". Sitt sýndist hverjum um mælinguna.

Sem betur fer kom lögreglan að og leysti málið með Salómonsdómi. Þeir létu báða bílana bakka út af brúnni, hleyptu síðan hinum bílunum yfir einum og einum í senn frá hvorum enda. "Eigendur" brúarinnar urðu þannig að una því að bíða meðan allir aðrir fóru yfir brúnna og fara síðastir yfir, vonandi reynnslunni ríkari.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 25.10.2012 kl. 14:35

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einbreiðum brúm fækkar alltof hægt. Á Austurlandi eru þær taldar í mörgum tugum og fækkar kannski um eina á ári.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2012 kl. 15:12

4 identicon

Á hvaða þróunarstigi er þessi þjóð? Og nú er verið að skylda það, að hafa viðvörunar þríhyrning í bílum. Í landinu sem ég bý í er skylda að hafa tvo þríhyrninga og tvö endurskinsvesti í hverjum bíl og hefur verið þannig í mörg ár. Hér er 2012, hvað ár er hjá ykkur?

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 25.10.2012 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband