Frægir feigir tóku Stalíngrad fyrir réttum 70 árum.

8. nóvember fyrir réttum 70 árum lýsti Adolf Hitler yfir því að orrustunni um Stalíngrad væri lokið með frækilegum sigri Þjóðverja. Örfáir Rússar þraukuðu að vísu enn á smáblettum í rústum borgarinnar en það yrði ekki mikið mál að þurrka þá út.

Hitler var óheppinn með dagsetningu yfirlýsingarinnar, því að sama dag réðust Bandaríkjamenn og Bretar inn í Marokkó og Alsír á þremur stöðum með um 100 þúsund manna liði í aðgerð sem bar nafnið "Operation Torch.

Og aðeins sex dögum áður braust her Montgomerys í gegnum varnir Rommels við El Alamain og hafinn var flótti "Eyðimerkurrefsins" sem endaði hálfu ári seinna þegar bandamenn höfðu náð öllum ríkjunum á norðurströnd Afríku á sitt vald. Og 10. júlí réðust þeir síðan inn í Sikiley og stefndu í framhaldinu norður Kalabríuskagann í átt til Rómar.

Hitler þurfti að vísu ekki að naga sig mikið í handabökin yfir ósigrninum við El Alamain, því að her Öxulveldanna þar var aðeins 5% af þeim herafla sem var í Rússlandi á þeim vígstöðvum þar sem gangur stríðsins réðst í raun og veru eins og sést af því hve litlu Hitler tímdi að fórna í Afríkustríðinu.

Aðeins ellefu dögum eftir að Hitler lýsti yfir sigri í Stalíngrad hleypti Zhukov af stað stórkostlegri sókn, sem á aðeins sex dögum innilokaði 6. her Von Paulusar og gersigraði hann á aðeins tveimur og hálfum mánuði.

Þjóðverjar misstu meira en 300 þúsund manns og aðeins 5-10 þúsund stríðsfanganna í 6. hernum komst af. Það voru því "frægir feigir" sem héldu að þeir hefðu sigraði í orrustunni um Stalíngrad.

Á aðra milljón manna fórst í þessari einu orrustu, sem var langmikilvægasta og afdrifaríkasta orrusta stríðsins á þeim vígstöðvum þar sem úrslit þess réðust í raun, þótt bandamenn reyndu að halda því fram að straumhvörfin hefðu orðið við El Alamain.

Rétt eins og El Alamain og Stalingrad fá sérstaka kafla í flestum bókum um styrjöldina, má ekki gleyma því að þriðja orrustan, sem líka fær sinn sérstaka kafla, var háð á Atlantshafinu.

Bandamenn kostuðu það mikið til herfararinnar í Norður-Afríku, að litlu munaði að þeir töpuðu orrustunni á Atlantshafinu, en það hefði þýtt að hætta yrði á að Bretar yrðu sveltir til uppgjafar og öll áform um innrás yfir Ermasund fykju út í veður og vind.

Þeir töldu sig hins vegar til neydda að svara neyðarkalli Stalíns um "aðrar vígstöðvar", höfðu ekki afl til að gera meira en að fara inn að "hinum mjúka kvið" Öxulveldanna, eins og Churchill lýsti því að ráðast að Ítölum sunnanfrá.

Hitler neyddist til að senda herdeildir frá austurvígstöðvunum suður til Afríku og Ítalíu til þess að hamla gegn sókn bandamenna og það munaði auðvitað um það þótt Stalín vildi meira.

Ég er að breyta kvikmyndahandritinu "Emmy, stríðið og jökullinn" í heimildasögu um það hverju það hefði breytt ef Þjóðverjar hefðu látið það eftir sér að taka Ísland af Bretum haustið 1940.

Ísland reyndist bandamönnum ómetanlegt þegar verst gekk í orrustunni um Atlantshafið og ljóst er að það hefði orðið örlagaríkt ef Þjóðverjar hefðu ráðið í staðinn yfir þessu "ósökkvandi flugmóðurskipi" eins og sumir kölluðu landið okkar.

En bandamenn náðu með aukinni sókn og nýjum tækjum og aðferðum að skapa straumhvörf í orrustunni á Atlantshafinu vorið 1943.


mbl.is Frægir feigir í ökutækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það má þó nefna það við lok "operation Torch", - fall Túnis á þurftu Öxulveldin að afskrifa 300.000 manna lið (á þriðja hundruð þúsund stríðsfanga) og u.þ.b. 1.600 flugvélar. Þetta er altso bara það sem tilheyrir "The Tunisian campaign".
Eitthvað hefðu hlutirnir getað farið öðruvísi austurfrá með þetta lið þar....

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.11.2012 kl. 07:14

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

stríðið tapaðist við Kursk 1943.. Stalingrad kostaði þjóðverja 600.000 manns ásamt ógrynni af tólum og tækjum.. en eftir Kursk áttu þeir aldrei möguleika.. því þeir einfaldlega gátu ekki byggt upp skríðdrekaher sinn aftur..

El alamein var einungis straumhvörf í stríðinu vegna þess að þar tapaði Rommel sinni fyrstu stórorrustu í Afríku og hafði ekki mannskap né birgðir til að halda í við bandamenn lengur..

Ef þjóðverjar hefðu tekið ísland 1940 hefði rússland tapað stríðinu því þá hefði verið ógerningur að koma birgðum til rússa norðurleiðina.. en hætt er við að þá hefði ísland líka orðið vettvangur innrásar bandaríkjamanna með tilheyrandi mannfalli og skemmdum á mannvirkjum..

Óskar Þorkelsson, 9.11.2012 kl. 13:06

3 identicon

Það er erfitt að ímynda sér, að Bretar, sem þó réðu enn yfir hafinu umhverfis Ísland 1940, hefðu hleypt Þjóðverjum hingað. Og ekki fráleitt að Bandaríkin hefðu einnig skorist í leikinn.

Reyndar var það svo, að eftir að Þjóðverjar höfðu náð undir sig nær allri Vestur-Evrópu og Balkanskaga gátu þeir ekki brauðfætt fólkið, sem laut stjórn þeirra, og voru í vandræðum með kol fyrir þungaiðnaðinn. (Sjá Adam Tooze: The Wages of Destruction.)

Vigfús Magnússon (IP-tala skráð) 9.11.2012 kl. 15:42

4 identicon

El-Alamein er fyrir operation Torch. Forleikur. En það sem má ekki vanmeta er að bara fall Túnis felur í sér allt að því 50% af því manntjóni sem Öxulveldin urðu fyrir við Stalingrad, og svo að við Stalingrad voru Þjóðverjar einungis með um 50% af liði Öxulveldanna. Því gleyma margir. Sama var uppi á teningunum í Túnis.
Maður veltir því þess vegna fyrir sér hvort að Öxulveldin hefðu ekki bara lagt Sovétmenn ef Miðjarðarhafsbröltið allt hefði ekki komið til. Þá má eiginlega segja að Mussolini hafi tapað fyrir Hitlers hönd.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.11.2012 kl. 17:19

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í septemberlok 1940, þegar aðstæður til innrásar Þjóðverja í Ísland voru eins góðar og hugsast gat, voru Bretar með 3500 hermenn hér, 16 gagnslausar flugvélar á Melgerðismelum og í Kaldaðarnesi og urðu að vera með hámarksviðbúnað til að verjast innrás í eigið land, - sendu meðal annars sterkustu skip Atlantshafsflotans frá Scapa Flow til að hafa þau nær hugsanlegum innrásarvettvangi.

Operation Ikarus gerði ráð fyrir að 8000 manns á tveimur stórum herskipum og tveimur hraðskreiðum, stórum farþegaskipum, tækju Reykjavík og Hvalfjörð.

Aðeins vantaði góðan flugvöll og í heimildarsögunni/kvikmyndahandritinu "Emmy, stríðið og jökullinn" felst "alternate history", þ. e. hvernig mál hefðu þróast ef Þjóðverjar hefðu þróast ef þeir hefðu notfært sér náttúrugert flugvallarstæði á Brúaröræfum, þar sem þeir gátu undirbúið sig og komið sér fyrir án vitundar Íslendinga og náð yfirráðum í lofti yfir landinu og hafinu umhverfis frá upphafi. 

Roosevelt stóð í kosningabaráttu og Bandaríkjamenn höfðu ekki enn dregið öryggislínu sína samkvæmt Monroe-kenningunni fyrir austan Ísland.

Þjóðverjar hefðu réttlætt hernám sitt með því að íslenska ríkisstjórnin hefði mótmælt hernámi Breta, og því væru Þjóðverjar komnir til að hjálpa Íslendingum og frelsa þá undan breska hernáminu.

Bandaríkjamenn voru vanbúnir til stríðs 1941 og Bretar þurftu á öllu sínu að halda á Miðjarðarhafinu, Egyptalandi, Afríku og í Grikklandi þá um vorið.

Í stríðinu höfðu Þjóðverjar um 300 þúsund hermenn í Danmörku og Noregi og hefðu vart haft minna herlið en 50-80 þúsund manns á Íslandi. 1941 voru þeir einir um að eiga fjögurra hreyfla langfleygar vélar, Focke Wulf Fw200, og hefðu notað þær til liðsflutninga til landsins eins og gerðu síðar í Demyansk og Stalingrad.

Ómar Ragnarsson, 9.11.2012 kl. 19:53

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið, að ég var ekki búinn. Innrás í Ísland var óhugsandi að vetrarlagi vegna slæmra veðurskilyrða og sjólags og erfitt að koma á óvart að sumarlagi vegna langs sólargangs.

Mikinn sjóherafla þurfti til að yfirvinna loftyfirburði Þjóðverja, rétt eins og í Noregi, enda réðust bandamenn aldrei á Danmörku eða Noreg.  

Þegar Japanir réðust á Pearl Harbour 7. desember 1941 höfðu bæði Bandaríkjamenn og Bretar um annað að hugsa en Ísland, Danmörku og Noreg og bandaríski flotinn hafði orðið fyrir áföllum, sem tók tíma að jafna sig eftir.

Flutningar á vopnum og varningi til Rússa hefðu orðið minni en ella og farið fram í gegnum Persíu. Þótt þessir flutningar gerðu gagn, gögnuðust til dæmis bandarísku skriðdrekarnir ekkert í orrustum, stóðu enn þeim þýsku og rússnesku að baki.

Eftir orrustuna við Midway í júní 1942 gátu Bandaríkjamenn farið að hugsa til þess, hvernig þeir gætu hjálpað Rússum með því að skapa nýjar vígstöðvar.

Tvennt kom til greina:

1. Að taka Marokkó og Túnis í nóvember 1942 og fást við frekar vanmegnugar hersveitir Vichy-stjórnarinnar og halda í framhaldi af því í herferð inn í Ítalíu sumarið eftir. Það hefði þýtt að innrás í Ísland hefði dregist að minnsta kosti til vors 1944 og sömuleiðis innrás í Normandy því að yfirráð Þjóðverja yfir Íslandi hefðu gert erfitt fyrir um flutninga liðs og vopna til Bretlands.

2. Að ráðast inn í Ísland í september-október 1942. Þá hefðu þeir orðið að fást við þýskan her á Íslandi, mun harðvítugari en hinn franska í Afríku og við mun erfiðari aðstæður. Vafasamt er að tími hefði unnist til að ná saman nægum herafla til þess að fara í hina löngu herför til Íslands og vera nokkuð vissir um árangur eins og þeir voru í innrásinni í Norður-Afríku. 

Meginatriðið er það að Öxulveldin gátu ekki unnið stríðið vegna þess að Bandamenn höfðu yfirburði í mannafla og vopnaframleiðslu. En ef innrás í Ísland hefði dregist til vors 1944 er hætta á að innrás í Normandy hefði dregist það lengi að Rússar hefðu komist alla leið vestur að Rín og skipting Evrópu í stríðlok orðið þeim miklu meira í hag, svo mjög jafnvel, að Sovétríkin hefðu lifað lengur.

Ómar Ragnarsson, 9.11.2012 kl. 20:20

7 identicon

Þú sleppir einu Ómar, og var það lykilatriði í mati Raeders sem var einfaldlega að þetta borgaði sig ekki.

Hægt var að taka skerið, en ekki að halda því, sökum erfiðleika með birgðarflutninga. Breski flotinn var of mikil fyrirstaða. Hvaða gagn er í bensínlausu sveltiskeri um koldimman hávetur?

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 08:15

8 identicon

Svo má við bæta, að áhlaupslið á við það sem reyndi sig við Dieppe hefði haft fínan leikvöll hér, og þá kannski gert gagn. Dieppe var ef ég man rétt gert vegna mikils þrýstings frá Bandaríkjamönnum, sem áttu bágt með að trúa því hversu öflugar strandvarnir Frakklands voru.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 08:18

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt því sem segir í bók Þórs Whitehead voru það upplýsingar Luftwaffe um skort á nothæfum lendingarstöðum fyrir flugvélar, sem réðu því að hætt var við Ikarus, því að með yfirráðum í lofti yfir Íslandi frá fyrsta degi var dregin burst úr nefi breska flotans.

Í "Emmy, stríðið og jökullinn" kemur fram af hverju Luftwaffe áttaði sig ekki á hinu ákjósanlega flugvallarstæði á Brúaröræfum, - en með því að nota það frá fyrsta degi gátu Þjóðverjar haft yfirráð í lofti yfir hafinu milli Íslands og Noregs þar sem flugher Breta var víðsfjarri. Þeir tóku ekki flugvöllinn í Færeyjum í notkun fyrr en síðla árs 1942.

Breski flotinn var hvorki 1941 né 1942 svo sterkur á Norður-Atlantshafi, að hann hefði getað hindrað birgðaflutninga til Íslands. Hann hafði nóg með að vernda eigin flutningaskip fyrir kafbátum Þjóðverja auk ærinna verkefna á öðrum höfum, svo sem á Miðjarðarhafi.

Eftir að Bandaríkjamenn fóru í stríðið í árslok 1941 máttu þeir hafa sig alla við á Kyrrahafi 1942, og Breski flotinn og herinn guldu slíkt afhroð í Sauðaustur-Asíu, að Indland og Ástalía voru í stórhættu.

Þjóðverjar hefðu notað íslenska fiskiskipaflotann til að veiða í soðið fyrir sig í stað þess að selja Bretum fiskinn, og hluta hins gríðarstóra norska skipaflota hefðu þeir vafalaust notað líka.

Flugvallarstæðið á Brúaröræfum er á úrkomuminnsta svæði landsins og eftir að hafa vaktað það samfellt allt árið í næstum áratug hef ég séð, að því er hægt að halda opnu mestallt árið.

Það hefði haft þann stóra kost fyrir Þjóðverja, að þangað er 250 kílómetrum styttra að fljúga frá Noregi en til suðvesturhornsins.

Focke-Wulf Fw200 hafði meira en 1000 kílómetrum lengra flugdrægi en sem svaraði flugi fram og til baka til Íslands og þær hefðu verið notaðar til loftflutninga þegar á þurfti að halda, eins og gert var í loftbrúnni til Demyansk í febrúar-maí 1942.

Ómar Ragnarsson, 11.11.2012 kl. 00:38

10 identicon

Það voru ekki nema 276 Fw Condor smíðaðar í seinni heimsstyrjöld. Engan veginn efniviður í loftbrú til Íslands, hvað þá með "payload" upp á einhver 900 kg.
Og breski flotinn? Hann sleppti nú helst engu í gegnum GIUK hliðið. Ekki komst einu sinni Bismarck óséður í gegn. Og ekki gátu þjóðverjar sótt hrávöru til Bandaríkjanna undir eigin fána meðan þeir máttu, vegna Breska flotans.
Og hefðu Þjóðverjar samt tekið skerið, er ég ansi hræddur um að Bretar hefðu gert lítið úr soðningunni fyrir þá. Og hvað með olíuflutninga?

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.11.2012 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband