Sorgleg og skelfileg vanþekking.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom eins og ferskur andblær inn í staðnaða og úrelta umræðu, sem hafði verið um verndun gamalla húsa hér á landi, með því að vinna vandaða undirbúningsvinnu, kynna sér málið erlendis og sýna okkur afraksturinn.

Þess vegna virkar það sem áfall fyrir mann að sjá hvernig hann opinberar skelfilega vanþekkingu sína á helsta atriði áhrifa virkjanaframkvæmda sem felst í því hvort og hve mikið er um neikvæð, óafturkræf umhverfisáhrif.

Þannig ber hann flatarmál Hálslóns saman við flatarmál af vindmyllum, sem skapa jafn mikla orku og fær það út að vindmyllurnar myndu þekja sjö sinnum stærra flatarmál en Hálslón og þess vegna hafa sjö sinnum meiri umhverfisáhrif.

Og niðurstaðan hans er sú að "virkjanir geta bætt umhverfið," líka sú virkjun, sem valdið hefur mestum neikvæðum óafturkræfum áhrifum í Íslandssögunni.

Hann veit greinilega ekki eða vill ekki vita, að með myndun Hálslóns var hafinn flutningur á 10-20 milljónum tonna á ári af auri ofan í 57 ferkílómetra af 180 metra djúpum dal, sem fylla mun dalinn upp að lokum, þannig að nær 40 ferkílómetrar af grónu landi, stórkostlegar og einstæðar bergmyndanir, fossar og hjallalandslag verða um eilífð grafin undir aur og drullu og miðlunargeta lónsins orðin að engu.

Fyrri part sumars er stærstur hluti lónstæðisins þakin fíngerðum, leirugum sandi, sem berst árlega í lónið og rýkur í sandstormum einmitt þegar veðrið er hlýjast og bjartast í suðlægum vindáttum. IMG_0098

Ég hef áður birt myndir af þessu fyrirbæri hér á síðunni en ætla að skutla nú inn sláandi mynd af því hvernig aur Kringilsár var búinn að fylla upp á aðeins tveimur árum hið 150 metra djúpa gil Stuðlagátt með fossum sínum, grónum hlíðum og stuðlabergshömrum á báðar hendur. Landið sitt hvorum megin við hina auri drekktu Stuðagátt þakið svörtum sandi langt út fyrir hið sokkna gil. IMG_0099 

Engin svona áhrif eru af vindmyllum. Þær eru afturkræfar, hver kynslóð framtíðarinnar getur rifið þær niður og fjarlægt ef hún kýs að gera svo.

Sams konar vanþekking kom fram hjá Siv Friðleifsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, í viðtali, sem ég átti við hana daginn sem hún kvað upp úrskurð sinn um þessa sömu virkjun.

Umhverfisráðherra Íslands árið 2001 sá engan mun á áhrifum af afturkræfri virkjun nokkurra tærra bergvatnsáa við Snæfelli og hinni hrikalegu óafturkræfu eyðileggingu sem Hálslón veldur.

Það eina jákvæða við hin dæmalausu ummæli formanns Framsóknarflokksins á þingi er það, að nú liggur það kristaltært fyrir að forysta flokksins hefur ekkert lært í umhverfis- og náttúruverndarmálum síðustu tólf árin, heldur forherst ef eitthvað er.

Og þetta er flokkurinn sem hinn mikli náttúruverndar- og umhverfissinni Eysteinn Jónsson og síðar Steingrímur Hermannsson voru í forystu fyrir.

P. S.

Eins og málið er kynnt í DV í dag lítur út eins og ég fullyrði að virkjanir geti aldrei bætt umhverfið og alhæfi gegn þeim ummælum Sigmundar Davíðs að sumar virkjanir geti bætt umhverfið.  Það geri ég ekki heldur tek fyrir sérstaklega hve léleg rök hann noti fyrir því hvernig Kárahnjúkavirkjun hafi bætt umhverfið.

Og ég vek athygli á orðunum sem ég nota í lokin þegar ég skrifa "forysta Framsóknarflokksins" en nota ekki orðið "Framsóknarmenn", því að ég tel ekki rétt að setja samasem merki við forystumenn flokka og almenna flokksmenn.


mbl.is „Virkjanir geta bætt umhverfið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við þurfum að virkja, það er á hreinu, hinir sem ekki vilja virkja eiga bara að Prjóna sokka og ullarpeysur á sunnudögum,, óáreitir og spakir

Kristinn J (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 22:37

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þótt við virkjum allt sem virkjanlegt er mun það aðeins skapa 2% vinnuaflsins störf í álverunum. Og jafnvel þótt við segjum að samtals vinni 8% alls í álverunum og við svonefnd afleidd störf, þá eru 92% eftir við "eitthvað annað".

Að líkja vinnu og framleiðslu þessara 92% þjóðarinnar við prjónaduns á sunnudögum sýnir firrtan hugarheim þeirra, sem vilja tala allt niður nema stóriðjuna.  

Ómar Ragnarsson, 11.12.2012 kl. 22:46

3 identicon

Þetta er sama mótívið á báðum myndum, bara búið að súmma inn á annari myndinni!

Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 22:54

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í textanum stendur að báðar myndirnar séu af sama svæðinu og ég sé satt að segja ekkert athugavert við það. Það er hins vegar rangt hjá þér að á seinni myndinni sé "búið að súmma inn", heldur er flugvélin komin mun vestar þegar sú mynd er tekin þannig að innri hlutinn sést mun betur en á fyrri myndinni. Og ég sé ekki hvað er svona athugavert við það.

Ómar Ragnarsson, 11.12.2012 kl. 23:53

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ómar vinur minn öfgarnar eru beggja megin förum miðjuvegin og virkjum mátulega/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 12.12.2012 kl. 00:24

6 identicon

Það er til ágæt "hálvitasía" sem beita má á umfjöllun um virkjanir og raforkusölu til stóriðju.

Orðin sem þurfa að koma fram eru "arðsemi" og "auðlindarennta". Ef þau vantar og viðkomandi takmarkar umræðuna við "hjól atvinnulífsins", "koma hagkerfinu í gang", "auka fjárfestingu", "skapa atvinnu" "byggðastefna" ...... -þið´kunnið framhaldið, -þá á sá aðili einfaldlega ekkert erindi uppá dekk!

Afkoma stóru raforkufyrirtækjanna er og hefur alltaf verið skelfileg.

Brýnasta hagsmunamál okkar eigenda þesara fyrirtækja er hækkun raforkuverðs til stóriðju.

-Ekki fleiri samningar á sama lága verðinu.

Rafmagn er frábært og það var frábært að virkja Sogið til afla orku til almannanota.

Almenningur notar í dag tæp 20% raforkunnar og því er nokkrum áratugum of seint fyrir Framsóknarbarnið að hampa virkjunum með sama hætti og var við hæfi um miðja síðustu öld.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 00:32

7 identicon

Það er rétt sem þú segir Ómar að Sigmundur Davíð kom inn með ferskar hugmyndir og virtist hafa kynnt sér þau mál sem hann talaði um, en það er af sem áður var.

Velti fyrir mér hvaðan Sigmundur hefur sínar heimildir, en þær passa ekki alveg við það sem ég hef séð. Formaður í stórum Framsóknarflokki verður að vera með helstu kennitölur í orkuiðnaði á takteinum því orka er ein af lykilbreytum í íslenskri þjóðmálaumræðu. Annars málar hann sig út í horn og enginn tekur mark á honum.

Kárahnjúkavirkjun sem LV kallar reyndar Fljótsdalsstöð er 690MW. Ef við notum mjög algengar vindmyllur sem eru 2.5MW þá þarf einungis 276 stk. en ekki 2000stk eins og Sigmundur heldur fram ! Nú þegar eru komnar 5MW offshore vindmyllur sem góð reynsla er komin á og þá þarf einungis 138stk en ekki 2000! Slíkar myllur verða líka notaðar á landi á þeim stöðum sem gefa nægan vind eins og líklegt er hér á landi. Auk þess er nú þegar verið að gera tilraunir með 7 – 10 – 15MW myllur.

Hálslón er 57km2 stórt og ef Sigmundur færi með rétt mál þá þyrfti 456km2 svæði fyrir vindmyllurnar hans en það er alger firra. Einn stærsti vindmyllugarður í USA er Shepherds Flat Wind Farm með 845MW framleiðslu í 338 myllum sem eru 2.5MW. Hann spannar 78km2 og ef við notuðum samsvarandi landssvæði undir myllur sem skiluðu jafn mikilli orku og Fljótsdalsstöð þá spannaði það um 63,6km2 en ekki 456km2. Þegar og ef hægt verður að nota 5MW vindmyllur þá þyrfti einungis 31km2 landsvæði sem er einungis tæplega 7% af því landsvæði sem Sigmundur Davíð hélt að vindmyllurnar mundu þekja.

Þætti vænt um að formaðurinn fari í pontu og leiðrétti þennan misskilning – hann væri maður að meiri.

Svo þarf hann líka að skilja það sem þú nefnir Ómar að það er pínu munur á vindmyllum og virkjunum sem byggja orkuframleiðslu á uppistöðulónum sem eyðileggja land – það ætti ekki að vera erfitt að skilja það, en með svona málflutning mætti halda að eitthvað væri að hjá formanninum.

Sighvatur Lárusson (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 01:06

8 identicon

Sighvatur, ertu ekki að rugla saman afli og orku? Vindhverfill sem er 2,5 MW gefur aðeins það afl þegar vindur er mestur, sem er sjaldnast tilfellið. Ef vindurinn minnkar um helming, dettur aflið niður (og þar með orkuframleiðslan sem er afl*timi) um áttfalt. Mesta afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 MW, en árleg orkuframleiðslan er 4,5 TWh. Samkvæmt wikipedia (http://en.wikipedia.org/wiki/Shepherds_Flat_Wind_Farm), þá er árleg orkuframleiðsla Shepherds_Flat Wind Farm um 2 TWH eða minna en helmingur af Kárahnjúkum. Þetta windorkuver þekur 78 ferkm, en þyrfti að þekja 175 ferkm til að framleiða sama orkumagn og Kárahnjúkar. Það er þrisvar sinnum stærð Hálslóns. Auk þess vitum við ekkert um mismunandi vindhraða á þessum tveimur stöðum. Ísing á spöðum vindhverfla væri auk þess vandamál á Íslandi þegar komið er upp fyrir 400 m. Það er ekki sjálfgefið að með tvöfallt stærri vindhverflum sé hægt að fá tvöfalt meira orkumagn á sama flatarmáli.

Það má hins vegar til gamans geta að ef Hálslón yrði þakið með sólarrafhlöðum með 12% nýtni myndi árleg orkuframleiðsla þeirra vera tvöfalt meiri en Kárahnjúkavirkjun. Orkumagninu væri hins vegar mjög misskipt eftir árstíma.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 02:01

9 identicon

Smá innlegg hérna, þar sem ég hef mikið grúskað í vindorku-möguleikum.

Vindhverflar eru oft að gefa svona 1/4 af mögulegu afli við "meðalvind" sem oft er hér svona 5 - 6 m/s. En helst er þó að setja þá niður þar sem vindstrengir liggja, og það er á stöðum sem ekki eru veðurmælingar!
Sólfarsvindar á hentugum stöðum geta gefið feyknar orku, á einungis hluta sólarhrings. 12 m á sekúndu er oftast nóg til að ná hámarksorku úr vindhverfli,- meiri vindur gerir annað hvort ekkert eða alls ekkert (stopp).
Ísing þarf ekki endilega að vera vandamál á hálendi, - ofan snjólínu.
Og.....það blæs ágætlega á okkar skeri ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 09:30

10 identicon

Þetta endalausa bull og umhverfisvernd, er afar þreytt Ómar.  Fegurð er eitthvað sem eer í augum áskoðarans.  Og þetta sem þú kallar fagrar hlíðar, hefur alla tíð verið drulla og aur.  Bændur þurftu að taka sig til, og þurka þessa drullu og aur um allt land, til að hægt væri að rækta á því.  Þess vegna eru skurðir kringum allar graslendur, til að að vatnið renni í skurðin og á braut i stað þess að að láta landið vera sú drulla, aur og mýri sem landið hefur alltaf verið.

Þess vegna eru þessi ummæli þín, ofstækisfull og ekki raunsæ.  Allt landið, frá upphafi, hefur verið breitingum orpið, til þess að hægt hafi verið að nýta það.  Þú átt kanski nógan pening, til að geta flogið á frúnni og horft og dáðst að náttúrufegurðinni.  En fyrir vanalegan almenning, er þessi náttúra sem þú ert að dást að, grundvöllur lífsafkomu komandi kynslóða.

Þess vegna, þarf að taka þessa "umhverfisvernd" út af dagskrá, og ræða heldur hag fólks, og hvernig hægt sé að virkja upp á framtíðina, með árangri sem tryggir framtíð landsins.  Að skipa á þessum litla trjágróðri á landinu, fyrir vindmyllur er tæplega hagkvæmt.  Það er ráð að ræða aðrar leiðir til að fá orku, en vindmyllur eru ekki framtíðin.  Leggðu það alveg hylluna.  Þær myndu blása um koll í næsta óveðri, og verða stærri kostnaður en hagnaður.  Það er kanski eitthvert hlé á vindhviðunum á Íslandi, en Ómar, þú ert nógu gamall til að vita hversu mikin skaða vindurinn framkvæmdi á byggðarlínunum, á ári hverju, til að vita hversu óhagkvæmt slíkt væri.

Í stað þess að krefjast að allar virkjanir og framkvæmdir á landinu séu lagðar niður, þá þarf að koma með ávænlega kosti í staðinn.  Láttu Don QiQote om að berjast um vindmyllurnar.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 09:44

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hann var ekkert að meina með gasprinu um gömul hús egar hann var að vekja á sér athygli. þetta var bara taktík til að vekja á sér athygli. Á þeim tíma var umræðuefnið mjög inn og háttalag og taktík umrædds manns var öll hönnuð af auglýsingastofum. það sem skipti máli var að koma auðmannaafkomendum í stjórn Framsóknarflokks. Sem gekk og eftir og nú hafa nefndir aðilar og heimssýn kverkatak á flokknum. Gekk allt eftir.

það sem vekur náttúrulega furðu í framhaldinu er,að VG skuli vera að moðsuðast í þessum félagsskap sem heimssýn heitir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.12.2012 kl. 11:01

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

John Muir Trust, sem er eins konar "Landvernd" þeirra á Bretlandseyjum skoðaði nýlega nýtni vindorkuvera í Skotlandi. Í ljós kom að vindrafstöðvarnar í 47 vindorkubúum framleiddu aðeins 22% af getu þeirra mælt yfir eitt ár.

Vindorkuverin hefðu átt að geta framleitt 17.586.000 megawattstundir raforku hefðu þau gengið á fullum afköstum allan tímann í 395 daga sem athugunin stóð yfir, en í raun framleiddu þau aðeins 3.881.900 megawattstundir, eða 22,07%.

Þessi 47 vindorkubú sem John Muir Trust skoðaði eru með uppsett afl sem nemur 2.430 MW, eða 3 - 4 sinnum meira en Fljótsdalsvirkjun. Það hafa komið dagar í Skotlandi þar sem framleiðslan hefur fallið niður í nánast ekki neitt.

Þetta þýðir auðvitað að  orkuverð frá vindorkuverum er mjög hátt, miklu hærra en frá hefðbundnum orkuverum.

Þar sem vindorkuver framleiða aðeins rafmagn þegar vindur er nægur, þarf að vera fyrir hendi jafn stórt hefðbundið raforkuver, jafnvel olíu eða gaskynnt, til að framleiða rafmagn þegar vindrafstöðvarnar framleiða lítið eða ekkert, en ganga þess á milli í lausagangi. Það hækkar orkukostnaðinn enn meira.

Niðurstaðan er sú að orkuverðið frá vindorkuverum er og verður alltaf miklu hærra en frá vatnsafls- eða jarðgufuvirkjunum.

Erlendis hefur eingöngu verið hægt að reisa og reka vindorkuver vegna styrkjakerfis sem hefur niðurgreitt orkuna frá vind- og sólarorkuverum. Kreppan sem nú gengur yfir heiminn, gerir það að verkum að þessir styrkir fara minnkandi og má því reikna með að rekstur þessara vindorkuvera verði innan tíðar mjög óhagkvæmur, þannig að áhugi á að reisa og reka þannig orkuver fari dvínandi.

Menn hafa einnig verið að átta sig á að vindorkuverum fyrlgja ýmiss konar mengun og náttúruspjöll:

- Sjónmengun er mikil.
- Fuglar lenda í spöðunum og farast unnvörpum.
- Hávaði, sérstaklega á lágum tíðnum, getur verið yfirþyrmandi.
- Þar sem vindrafstöðvar eru margar þarf að leggja línur eða rafstrengi þvers og kruss til að safna saman orkunni. Jafnvel rafstrengjum í jörðu fylgir rask.

Öll þessi mengun og umhverfisspjöll af völdum vindorkuvera urðu til þess að John Muir Trust hefur látið sig málið varða, en þeim er mjög annt um að vernda náttúruna á Bretlandseyjum.

-

Wind turbines less efficient than claimed:  
http://www.telegraph.co.uk/earth/energy/renewableenergy/8236254/Wind-turbines-less-efficient-than-claimed.html

John Muir Trust: http://www.jmt.org/

Wind farm efficiency queried by John Muir Trust study
http://www.bbc.co.uk/news/uk-scotland-12985410

Ágúst H Bjarnason, 12.12.2012 kl. 11:14

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Það sem ég kalla fagrar hlíðar hefur alla tíð verið drulla og aur." Þetta, sem skrifað er hér að ofan sem nýjasta fræðslan um 40 kílómetra gróðurlendis, sem Kárahnjúkavirkjun eyðilagði, er það nýjasta sem ég hef heyrt og gildir þá væntanlega um Fljótshlíðina og aðrar slíkar hlíðar þar sem fénaður er á beit og slafrar væntanlega í sig drullu og aur.

Hálsinn, gróðurlendið, sem Hálslón drekkti, var ekki drulla og aur, því að annars hefðu bændur ekki beitt þetta land og fengið bætur fyrir missi beitarlands þegar það var eyðilagt.

Upplýsingar Bjarna Arnar Hansens um þetta gróðurlendi hafi verið drulla og aur afhjúpar vanþekkinguna sem hann notar til þess að sanna að ég fari með "bull".

Í ofanálag fullyrðir hann að ég vilji leggja niður allar virkjanir á landinu og hef ég þó samþykkt 25 af þeim stóru virkjunum, sem reistar hafa verið til þessa.

Hvernig er hægt að rökræða við svona mann?

Ómar Ragnarsson, 12.12.2012 kl. 13:30

14 identicon

Þetta er allt rétt hjá þér Geir, en ég er að tala um uppsett afl og get ekki verið með neinar aðrar tölur enda veit ég ekki um þá nýtingu sem hægt er að fá hér. Á sama máta og talað er um að uppsett afl Shepherds Flat Wind Farm sé 845MW – ég veit svo sem ekki nýtinguna. Nýtingin er auðvitað eins misjöfn og staðirnir eru margir. Sumir halda að verið sé að fara með vindmyllur á haf út bara út af útlitinu eða sjónmengun sem er auðvitað sjónarmið, en hærri nýting og stöðugri vindur er auðvitað megin ástæðan.

Hvort þetta er 22% nýting á 2.5MW túrbínum eða 35% nýting á 5MW túrbínum framtíðarinnar þá eru órökstuddar og ómálefnalegar tölur formanns Framsóknarflokksins ekki bjóðandi í svona umræðu. Ég er leikmaður og googla í 5 mínútur til að finna helstu kennitölur, en sá sem kemur fyrir hönd flokks sem vill láta taka sig alvarlega og stefnir á stóra sigra í kosningum í vor getur ekki boðið okkur upp á svona umræðu.

Hvað varðar síðan almennt um vind-myllur/rafstöðvar/túrbínur þá er það rétt hjá þér Ágúst að þessi iðnaður hefur fengið mikla styrki og er það fullkomlega eðlilegt. Þetta er „ný“ tækni sem verið er að þróa mjög hratt og er ástæðan augljós – mikil eftirspurn eftir orku um allan heim og krafa um minna mengandi orkugjafa.

Vindmyllum fylgja umhverfisspjöll, fuglar drepast, það er hávaði í nágrenni við þær og það er sjónmengun, en allt þetta þarf að taka með í reikninginn þegar útreikningar fara fram. Það þarf hinsvegar líka að gera þegar vatnsafls- eða jarðvarmavirkjanir eru settar upp og t.d. heilu ferkílómetrunum er sökkt til frambúðar eða íbúar landsins eru settir í lýðheilsutilraunir án skriflegs samþykkis.

Það góða við t.d. vindmyllugarða er að mjög víða er hægt að nýta landið í kring áfram, rækta korn eða skóga sem dæmi, en það gerir maður ekki með land sem sökkt er til frambúðar eins og Hálslón. Svo er hægt að taka vindmyllurnar með litlum afleiðingum þegar mannskepnan er búin að finna hina einu sönnu orku sem nóg er af, mengar ekkert og kostar lítið !

Sighvatur Lárusson (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 14:36

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Um leið og vindmyllur yrðu stöðvaðar eða teknar niður myndu fuglar hætta drepast, hávaðinn hverfa o. s. frv.

Misjafnara yrði hve mikil röskun yrði til frambúðar vegna jarðstrengja eða háspennulína og fer mjög eftir umhverfinu.

Ómar Ragnarsson, 12.12.2012 kl. 16:47

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"...mjög víða er hægt að nýta landið í kring áfram, rækta korn eða skóga sem dæmi, en það gerir maður ekki með land sem sökkt er til frambúðar eins og Hálslón.", segir Sighvatur.

Engu þesskonar landi hefur verið fórnað á Íslandi fyrir uppistöðulón

Ómar talar um 40 ferkílómetra gróðurlendi. Þetta eru auðvitað tómar ýkjur.

"Gróðurlendi" er skilgreiningaratriði og í huga almennings er það allt annað en í skilgreiningu náttúruverndarsinna. Ef þeir finna umkomulaust fjallablóm í örfoka mel þá tárast þeir yfir fegurðinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.12.2012 kl. 17:09

17 identicon

Sighvatur, upplýsingar Sigmundar Davíðs eru nokkuð réttar. Algengasta stærð af vindhverflum á landi er um 1 MW hámarksafl í dag, þó svo tískan sé að far í stærri hverfla þar sem vindur er jafnari t.d. við staðbundna sólfarsvinda. Nýverið setti Landsvirkjun upp tvo 0,9 MW vindhverfla við Búrfellsvirkjun. Áður hafði LV mælt nákvæmlega vindinn á þeim stað sem koma átti hverflunum fyrir eins og alltaf er gert áður en ákvörðun er tekin um að reisa vindorkuver. Út frá nákvæmum tölum framleiðanda um hversu mikið afl hverfillinn framleiðr við mismunandi vindhraða og svo mælingum á tíðni hvers vindhraðabils, er hægt að spá mjög nákvæmlega hversu mikla orku hverflarnir framleiða á þeim stað á ársgrundvelli. Útreikningar LV gera ráð fyrir að þessir tveir vindhverflar framleiði samtals um 5,4 GWh á ári, sem gefur meðalaflið (5400 MWh / (365 dagar * 24 klst/dag) = 0,616 MW, eða 308 kW á hverfil sem er um þriðjungur af hámarksafli þeirra. Kárahnjúkavirkjun framleiðir um 4800 GWh á ári, en mögulega er hægt að stækka virkjunina með því að nýta hluta af þeirri orku sem menn missa þegar lónið fyllist. Meðalafl Kárahnjúka er því 4.800.000 MWh / ( 365*24) = 550 MW að meðaltali sem er um 4/5 af 690 MW hámarksafli Fljótsdalsvirkjunar. 550MW /0,308 MW = 1780 vindhverflar, sem er má með skynsemi rúna upp í tæplega 2000 stykki ef maður gerir ráð fyrir að oftat eru áætlanir á Íslandi ofmetnar. Það er ekki óeðlilegt að reikna með 0,2- 0,3 ferkílómetra helgunarsvæði fyrir hvern vindhverfil í því sem á ensku kallast windfarm, því ekki mega hverflarnir vera að trufla hvorn annan. Það þýðir að fyrir íslenskar aðstæður að 400 - 500 ferkílómetrar þurfi að taka undir vindorkuver sem framleiðir 4.8 TWh árlega.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 17:53

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

wind

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.12.2012 kl. 18:05

19 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Bara rugl að vera með þessar vatnsvirkjanir.

það eru vindmyllur sem eru málið.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.12.2012 kl. 18:35

20 Smámynd: Ágúst H Bjarnason


Það er rétt að það komi fram að ég hef ekkert á móti vindrafstöðvum, síður en svo. Að minnsta kosti ef þær skemma ekki landslagið eins og á myndinni hér fyrir ofan í athugasemd #18.   Þær eiga rétt á sér á stöku stað, en varla til almennrar rafmagnsframleiðslu þar sem kostur er á öðrum orkugjöfum.   Ég hef af áhuga fylgst með þróun þeirra í áratugi og þekki því nokkuð vel kosti þeirra og ókosti.

Mér er minnisstætt þegar Raunvísindastofnun stóð að tilraunum með vindmyllur sem hituðu heitt vatn beint með vatnsbremsu, án þess að framleiða rafmagn fyrst. Örn Helgason eðlisfræðingur stjórnaði þessum tilraunum snemma á níunda áratugnum. Fyrstu tilraunir voru í Kárdalstungu í Vatnsdal, en síðar var reist vindmylla í Grímsey sem framleiddi um tíma heitt vatn með vatnsbremsu.

Árið 1980 gaf RARIK út skýrslu sem heitir "Hagnýting vindorku í Grímsey". Skýrsluna samdi Dr. Róbert Magnússon rafmagnsverkfræðingur sem nú er prófessor í Bandaríkjunum. Róbert sendi mér eintak á sínum tíma sem ég lærði mikið af.

Á Prins Edvard eyju (Prins Edvard Island - PEI) Í Kanada kom ég fyrir rúmum áratug í tilraunagarð fyrir vindmyllur af ýmsum gerðum, þ.e. með láréttum og lóðréttum spöðum. Það var áhugavert að komast í návígi við þessar vélar, en mér er minnisstæður lágtíðnihvinurinn frá þeim sem mér fannst óþægilegur.

Þar sem ég hef lengi haft lúmskan áhuga á flugeðlisfræði og sérstaklega mismunandi útfærslum á vængjum flugvéla, þ.e. hinum mismunandi vængprófílum, hef ég oft skoðað spaða vindrafstöðvanna út frá því sjónarhorni, því í raun eru þeir lítið annað en vængir sem lúta sömu lögmálum og gilda í flugeðlisfræðinni.

Sem sagt, vindmyllur eða vindrafstöðvar eru áhugaverðar í mínum huga, og þessi tæki henta sums staðar. Vindrafstöðvar hafa sínar takmarkanir og þeim fylgja vandamál, og þær henta alls ekki hvar sem er.

Nú er Landsvirkjun að gera tilraun með tvær vindrafstöðvar nærri Búrfellsvirkjun. Það verður vissulega mjög áhugavert að fylgjast með, og vonandi mun tilraunin ganga vel þrátt fyrir óblítt veðurfar hér á landi. Þessi tilraun er því jákvæð í mínum huga, en ég er ekki viss um að ég vilji sjá stórar vindmyllur um allar sveitir á Íslandi.





Ágúst H Bjarnason, 12.12.2012 kl. 19:00

21 identicon

Ómar, það er ekki hægt að rökræða við manninn, enda grunar mig næstum því að hann sé svokallað troll/tröll ef maður sér krækju á bloggið hans(sjá neðar) sjá lýsingu á höfundi (sem er máski réttnefni).  Auðvitað ef maður svarar ruglinu smá þá segir það sig annars sjálft að uppistöðulón fara í lægstu staðina, dældir og lautir, og þar sem dældir eru, þar er meira skjól og heitara en annars staðar í kring, meira af vatni sem safnast og fínna efni í jarðveg væntanlega líka þar sem dældir draina og jarðvegur/fínna efni sígur frekar neðar(held ég), semsagt úrvalsstaðir fyrir gróður er það sem fer fyrst á svæði þar sem uppistöðulón kemur, allt tal um einungis örfoka land er þvættingur, (það er máske þó eitthvað ofar ef lónið er djúpt)

http://leidindagaur.blog.is/blog/leidindagaur/

http://en.wikipedia.org/wiki/Troll_(Internet)

Ari (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 19:09

22 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú er komið að því að spyrja þig, Gunnar: Fórst þú inn á Hálsinn og gekkst um hann, 15 kílómetra langa bogadregna "Fljótshlíð" hálendisins" áður en því svæði var sökkt?

Skoðaðir þú hvernig jarðvegurinn undir grænu grasinu, sem var eitt besta beitiland bænda, var 2j til 3ja kílómetra þykkur? 

Þú ferð létt með að ómerkja ítarlegar rannsóknir á eyddu gróðurlendi, en niðurstöður þeirra voru að þetta væru alls 40 ferkílómetrar af grónu landi og fullyrðir ár eftir ár að þeir, sem rannsökuðu þetta og þeir, sem gáfu út skýrsluna um mat á umhverfisáhrifum hafi logið svo stórkostlega, að þetta hafi bara veið eitt og eitt smáblóm á stangli.

Þú gerir líka þá bændur og aðra, sem þekktu þetta svæði, að lygurum, sem hafi vélað út úr Landsvirkjun bætur fyrir beit sem var að þínum dómi ekki til.

Upplýstu nú hvenær þó fórst um Hálsinn og hve stóran hluta hans þú skoðaðir áður en þú heldur áfram á þessari braut, sem þú hefur verið í fimm ár.  

Ómar Ragnarsson, 12.12.2012 kl. 20:12

23 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bættu um betur og segðu okkur hvenær þú gekkst um Kringilsárrana, þá örfoka auðn að þínum dómi, sem bjargaði hreindýrastofninum frá útrýmingu þegar harðast var í ári fyrir rúmri öld. Eða var það bara bull að það væru nokkur hreindýr þar?

Og líka lygar að hreindýr hefðu þraukað í skjólinu í báðum hlíðum Hjalladals þegar verst var í ári og það átt stóran þátt í friðun ranans ? Og myndirnar sem ég tók ítrekað af hreindýrunum þar í stórum hópum hafi verið falsaðar?

Því að ef þetta var örfoka land beggja vegna í dalnum, með nokkrum stráum á stangli gat þar ekki verið beitiland fyrir fjölda sauðfjár á sumrin og hjarðir hreindýra á veturna. 

Ómar Ragnarsson, 12.12.2012 kl. 20:19

24 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta með vindmyllurnar, að þá eru nokkrar mýtur í kringum þær einhverra hluta vegna.

Td. má nefna: Vindmyllur drepa marga fugla.

Staðreyndin þar er að vindmyllur drepa í raun fáa fugla miðað ið margt annað sem orsakast af athöfnum mannsins. Sem dæmi má nefna hlýnun jarðar. Ennfremur má nefna heimilisketti. Síðan ýmsa stúktúra ss. loftlínur, glugga o.s.frv. os.frv. o.s.frv. þannig að þessi röksemd er eigi gild og ber að hafna henni samstundis.

Aðra mýtu má nefna. Vindmyllur eru hávaðasamar.

Staðreyndin þar er að það er ekki rétt. þær voru nokkuð hávaðasamar á fyrstu stigum fyrir 30 árum eða eitthvað en núna eru þær barasta hljóðlátar miðað við margt annað.

Fólk ætti að skoða miklu betur vindmyllyrnar sko. þær eru málið. það er að vísu rétt, að þær eru nokkuð kostnaðarsamar í uppsetningu. þ.e. kostnaðurinn við að framleiða rafmagnið er talsvert meiri en sumt annað - en munurinn fer minnkandi. það er þvílík þróun í þessu dæmi. Enda stórþjóðir og tækniþjóðir þarna í fararbroddi ss. Danmörk, Germany og US.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.12.2012 kl. 00:08

25 identicon

Þegar Ómar Bjarki fer í mýtuleik er hætta á ferðum: "Fólk ætti að skoða miklu betur vindmyllyrnar sko. þær eru málið."(!)

Sannleikurinn um vindmyllurnar sýnir því miður fram á hversu langt heimskir og ómenntaðir stjórnmálamenn eru tilbúnir að ganga til að kasta fé skattborgara á glæ fyrir "vistvæna orku".

Ágúst nefndi 22% framleiðslugetu á ársgrundvelli, en hið rétta mun vera nær 15%.

Það er svo auðvitað gjörsamlega forkastanlegt að Landsvirkjun sé komið af stað með kostnaðarsamt gæluverkefni í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW en samanlögð áætluð raforkuframleiðsla þeirra er um 5,4 GWst á ári. Hæð mastursins er 55 metrar og hver spaði er um 22 metrar á lengd. Þegar spaðinn er í efstu stöðu er því heildarhæð vindmyllunnar 77 metrar.

M.v. reynslu Breta er nær lagi aðreikna raunraforkuframleiðslu hvorrar vindmyllu um sig 135 kW, þ.e. 270 kW samanlagt x 365 = 98.550 kW á ársgrundvelli (!)

Í ágætu bloggi sínu ritar Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur:

"Framleiðslukostnaður raforku frá vindmyllu er a.m.k. fimmfaldur á við framleiðslukostnað frá nýrri vatnsaflsvirkjun. Hvernig Landsvirkjun ætlar þá að fara að græða á vindmyllum er venjulegum dauðlegum manni hulin ráðgáta."

En snilldin fylgir víst nafninu Ómar!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 02:22

26 identicon

Misjöfn eru hér innleggin, en hattinn tek ég af fyrir innleggi Ágústar H. Bjarnasonar.
Væri ég og glaður ef hann kæmi með meira!

Hann nefnir  vatnsbremsu sem orkunýtingarleið, - s.s. að hita vatn og nota það sem "batterí".

Nú er það svo, að mörg svæði landsins eru án heits vatns. Sjálfur hef ég ekki hitaveitu. Enda mikið búinn að spá í því að koma mér upp "vindrellu" sem gerir ekkert annað en að kynda vatn, - það myndi taka straumnotkunina verulega niður, - og sú er að taka nokkur mánaðarlaun á ári.

Muni ég rétt, smíðaði annar Forsætisbróðirinn (Óli held ég) svona rellu sem hitaði vatn OG hlóð. Slíkt apparat myndi ég gjarnan eignast, og kannski svona 1.000 aðrir "staðir" á landinu, sem ekki búa við hitaveitu/eru á "köldum" svæðum.
Þar erum við ekki að tala um neitt sem spillir útsýninu, heldur margt smátt sem gerir eitt stórt.

Ég er spenntur að sjá hvað kemur út úr þessu hjá LV. Afar athyglisverð leið.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 08:43

27 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það er eigi logið á þá danina í framsýninni. þeir eru barasta að vindmylla allt hjá sér. (Samt hafa þeir olíu.) Þetta er alveg rosalega sneddý og miklar framfarir og þróun. Málið er að íslendingar þekkja þetta lítið sem ekkert.

http://www.youtube.com/watch?v=E22eKYCZ2dQ

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.12.2012 kl. 11:35

28 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eins og ég sagði þá er gróðurþekja skilgreiningaratriði. Ég hef marg oft komið að Kárahnjúkum, bæði fyrir og eftir Hálslón. Þó ég hafi ekki gengið  um svæðið þá þá hef ég auðvitað eins og aðrir séð óteljandi loftmyndir af svæðinu. Þú segir að 70% landsins undir yfirborði lónsins hafi verið gróðri vaxið og gott beitiland. Þetta er tóm vitleysa.

Untitled

Eins og þú segir sjálfur í Kompásþætti snemma árs 2011; " Þeir sem sáu þetta með eigin augum, sáu þetta öfugu megin. Ferðamennirnir sem komu hingað sáu bara urð og grjót og sögðu að ekkert væri varið í þetta". Sjá hér

Það er einkennilegt ef fara þarf á einhverja sérstaka staði við Hálslón til að sjá að 70% landsins séu gróðri þakin. Vissulega eru þarna fallegar gróðurvinjar, en ýkjur eru aldrei gott innlegg í vitrænar umræður.

Hér  er fróðleikur í dagbókarstíl um framkvæmdirnar við Kárahnjúka. Hér er fátt eitt úr dagbókinni:

Ágúst 2001: Meirihluti landsmanna er hlynntur Kárahnjúkavirkjun ef marka má niðurstöður nýrra skoðanakannana Gallup, DV og PricewaterhouseCoopers. Athygli vekur að niðurstöðurnar eru nánast samhljóða. DV-könnunin er gerð fyrir úrskurð Skipulagsstofnunar en hinar tvær eftir úrskurð með tilheyrandi opinberum umræðum

23. janúar 2004: Hæstiréttur hafnar með afgerandi hætti kröfu um að úrskurður umhverfisráðherra, frá 20. desember 2001, verði ógiltur. Hæstiréttur staðfestir þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. maí 2003

6. júní 2006: Hálslón Kárahnjúkavirkjunar fyllist af auri á margfalt lengri tíma en gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Þetta er álit þriggja fræðimanna við verkfræðideild Háskóla Íslands, kynnt á ráðstefnu um áhrif loftlagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa á Norðurlöndum. Fræðimennirnir umræddu, Birgir Jónsson, Jónas Elíasson og Sigurður Magnússon, telja að Hálslón fyllist af auri á nokkur þúsund árum en ekki á 400-500 árum eins og talað er um í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2012 kl. 11:58

29 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Þó ég hafi ekki gengið um svæðið, þá hef ég séð loftmyndir...".

Þá veit maður það. Loftmyndin, sem þú birtir sem sönnun þess hvernig svæðið lítur út, er af stærsta hjallanum í innanverðum dalnum að vestanverðu, Hraukahjalla.

65% af landinu, sem fór undir Hálslón, var gróinn og það staðfesta allar rannsóknir af svæðinu og vitnisburðir þeirra sem hafa farið um það.

35% voru ógróið land, eða 20 ferkílómetrar og því auðvelt að birta mynd á borð við þá, sem þú birtir sem sönnun þess að enginn gróður hafi farið undir vatn og að hjarðir sauðfjár og hreindýra hafi nærst á sandi á grjóti.

Ómar Ragnarsson, 13.12.2012 kl. 12:10

30 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

40 af 57 eru 70%. Svo ég endurtaki orð mín, gróðurþekja er skilgreiningaratriði.

Allir geta skoðað þær þúsundir loftmynda af svæðinu sem finna má á netinu. Þessi sem ég greip og setti hér inn er ein af þeim. Þeir sem vilja ýkja, birta hins vegar þessa mynd úr lónsstæðinu og segja; "svona var gróðurinn þar sem Hálslón er núna".

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2012 kl. 12:29

31 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Myndin er vissulega úr lónsstæðinu, en hversu margir ferkílómetrar voru svona?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2012 kl. 12:30

32 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg hefði haldið að Ómar vissi manna best hvernig gróðurfari var þarna háttað og óþarfi að deila um það á þennan hátt. þarf líka bara stutta skoðun og leit til að finna út að þetta er rétt hjá honum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.12.2012 kl. 13:14

33 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.11.2010:

"Vindmyllur framleiða á bilinu 1 til 7 megavött af orku.

Úlfar [Linnet, sérfræðingur í orkuathugunum hjá Landsvirkjun,] segir Ísland hafa forskot á hin Norðurlandaríkin hvað það varðar en orka frá einni vindmyllu hér á landi sé að jafnaði um helmingi meiri en víðast erlendis.

"Mylla hér á landi getur framleitt af fullum krafti um 40% tímans.

Það er töluvert hærra hlutfall heldur en víða erlendis, þar sem það er oftast í kringum 30% á sjó og um 20% á landi.""

Vindmyllur raunhæfur kostur - Best að virkja á Suðurlandi

Þorsteinn Briem, 13.12.2012 kl. 13:44

34 identicon

Kæri Ómar

Auðvitað ættu bæði andstæðingar og fylgjendur raforku að fagna tilraun Landsvirkjunar, því niðurstaðan ætti að hreinsa andrúmsloftið.
 
Ég verð að játa að mér finnst Sigmundur Davíð, sem ég met mikils, fara illa að ráði sínu þegar hann reyndi að réttlæta vatnsaflsvirkjanir með því að benda á eitthvað ennþá verra,  vindmyllur.

Bæði vind og vatnsaflsvirkjarnir hafa sína kosti og sína galla. Stærsti kosturinn er auðvitað að báðir orkugjafarnir eru ókeypis. Auðvitað eiga íslendingar að nýta sér báða kosti þar sem það er skynsamlegt.
Því miður er það einkennandi fyrir umræðuna hér að ofan að menn eru að benda suður og vestur en horfa í norður og niður.

Þeir sem vilja fá réttar upplýsingar um vindorku ættu að sigla um: http://wiki.windpower.org/index.php/Main_Page
Nú eða „http://vindorka.com“ sem reyndar hefur ekki verið uppfærð í 7 ár.

Nokkrar staðreyndir um vindorku:

Aflið fylgir 3ja veldi af vindhraðanum. Þannig að aflið er 8 sinnum meira við 10m/s en 5m/s.

Þegar margar myllur eru saman „Park Effect“ þarf bilið á milli myllna, orkulega séð“ að vera 5 til 20 sinnum lengd spaðans.  Þannig að hver Landsvirkjunar mylla þarf ca. 0,3 ferkílómetra og 2000 myllur því ca. 600 ferkílómetra.

Kostnaðurinn við að setja upp vindaflsvirkjun (per MW) er lægra en við vantaflsvirkjun, en sé kostnaðurinn miðaður við orkuna þá er vatnsaflvirkjunin hagkvæmari. Þumalputtareglan er að það þurfi 2 falt vindafl til þess að framleiða sömu orku frá vatnsaflsvirkjun. Þannig að myllur Landsvirkjunar eru ekki hagkvæmar að því leyti til.       

Hljóðstyrkur fellur með 3ja veldi þannig að næstum engin hávaði heyrist nokkur hundruð metrum frá myllu.

Ókosturinn við vindaflsvirkjanir er auðvitað að orkuframleiðslan fer eftir því hvernig vindar blása. Með því að sameina vatnsorku með 10 til 20% vindorku má nýta alla vindorkuna án þess að minka orkuöryggi þjóðarinnar.

Þetta með fuglana er bara bull og þarfnast ekki útskýringa.

Það besta af öllu er að með þessu framtaki Landsvirkjunar fá íslendingar í fyrsta skipti alvöru rannsókn á möguleikum vindorkuvinnslu á Íslandi sem ætti að gleðja alla þá sem vilja upplýsta umræðu.

Richard Ulfarsson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 14:11

35 identicon

Geir, þetta er alls ekki rétt hjá þér og nú finnst mér þú vera að falla í sama gírinn og formaðurinn þinn þ.e. að koma með staðhæfingar um LV og annað sem standast ekki skoðun. Að staðhæfa að LV hafi sett vindmyllur sem akkúrat hentaði þessu svæði eins og það sé eina rétta er rangt. LV setti upp möstur til að mæla á svæðinu fyrir ofan Búrfell, en þær vindmyllur sem síðan voru valdar eru einungis til tilrauna og stærð þeirra segir ekkert til um hvaða stærð af vindmyllum verða síðan valdar á svæðið.

Ég verð einnig að draga í efa aðra staðhæfingu hjá þér sem er að flestar vindmyllur séu 1MW eins og þú staðhæfir – hvaðan hefur þú þá heimild? Ef þú skoðar t.d. þá garða sem settir hafa verið upp í Noregi á síðasta áratug (nánast enginn stór garður settur upp fyrir 2000) þá eru allar vindmyllur yfir 2.0MW. Þróunin í vindmyllugörðum var fyrst að einhverju marki í heiminum á seinasta áratug og jókst verulega því lengra sem leið á áratuginn.

Nefna má að allir stærri garðar sem eru í uppsetningu á landi eru með 2.5MW eða stærri vindmyllur dæmi:

Rúmernía - Fântânele-Cogealac Wind Farm - 600MW - 240 stk 2.5MW turbinur

Skotland - Clyde Wind Farm - 350MW - 152 stk 25MW turbinur

USA - Lower Snake River Wind Project - 343MW - 149 stk 2,3MW turbinur

Ástralía - Macarthur Wind Farm - 420MW - 140 stk 3MW turbinur

Nánast allar offshore vindmyllur sem settar eru upp í dag eru 3,5MW eða stærri.

Í svona umræðum eigum við að tala um þá tækni sem möguleg er í dag og í framtíðinni og það sem framleiðendur geta boðið á komandi árum en ekki að miða framtíðarútreikninga við gamla viðmiðanir eða litlar myllur eins og LV setti upp til tilrauna.

Landsvirkjun

Þessar tilrauna vindmyllur sem LV setti upp eru sennilega allt of litlar fyrir þetta svæði og voru eingöngu settar vegna þess að LV þyrfti annars að fara með það í umhverfismat ef þær hefðu orðið stærri samanber lög um umhverfismat nr. 106/2000. Þessar tvær eru undir 2MW sem er lámarkið og það er ástæðan fyrir því að ekki voru valdar stærri myllur eins og t.d. 1,5 eða 2,5MW eða jafnvel stærri sem hefði alveg eins geta komið til greina vindlega séð. Það að halda því fram að LV hafi mælt þetta svæði og síðan valið myllu í samræmi við það sem endanlega lausn er alger firra. LV stefnir auðvitað á að hafa sem stærstar myllur og tíminn verður að leiða í ljós hversu margar það ber og hversu stórar. Horft er m.a. til Noregs þegar verið er að meta vindmyllur til notkunar hér á landi og reynt að meta þá reynslu sem þar kemur. LV hefur verið að vinna að svokölluðum vind atlas en ekki fást uppl. um hann enda innanbúðarmál hjá LV og varðar viðskiptalegan grundvöll fyrirtækisins. Einnig er verið að vinna að sameiginlegum vind atlas fyrir landið og LV stendur líka að honum, líklega er útgáfu hans að vænta 2015.

Shepherds Flat Wind Farm - USA

Ef skoðaður er sá vindmyllugarður sem ég af handahófi tók sem dæmi í upphafi þessarar umræðu þ.e. Shepherds Flat Wind Farm í USA og hann reiknaður út frá framleiðslugetu en ekki uppsettu afli eins og ég gerði í byrjun þá kemur þetta í ljós.

Uppsett afl 845MW – Orkuvinnslugeta 2000GWh - fjöldi mylla er 338 stk – afl pr. myllu 2.5MW – svæði þekur 78km2.

Ef þessi garður ætti að hafa sömu orkuvinnslugetu og Fljótsdalsstöð þá þyrfti 811,2 myllur og svæðið væri 187,2km2. Þessi garður var hannaður 2006 til 2007 og fékkst samþykktur árið 2008 og var allan tímann miðað við myllur sem ættu að koma á markað frá GE. Öruggt má telja að horft væri í að nota stærri myllur ef þessi garður væri hannaður í dag og ef svæðið leyfði það.

Castle Hill - Nýjasjáland

Tökum nýrra dæmi sem er í á teikniborðinu á Nýjasjálandi og nefnist Castle Hill. Áætlað uppsett afl er 860MW - Orkuvinnslugeta 2000GWh – fjöldi mylla er 286 stk - afl myllu 3.0MW – svæði er 30km2.

Ef þessi garður ætti að hafa sömu orkuvinnslugetu og Fljótsdalsstöð þá þyrfti 686 myllur og svæðið væri 72km2.

Mjög ólíklegt hlýtur að teljast að settar verði upp minni vindmyllur en 2.0MW í stærri vindmyllugörðum hér á landi í framtíðinni og væntanlega eigum við eftir að sjá mun stærri myllur en það.

Mjög margir vindmyllugarðar eru að uppfæra sínar myllur og nota sömu undirstöður en stækka þær eins og kostur er.

Niðurstaðan

Við getum þvælt fram og til baka um vindmyllur, hvort þær séu fallegar, hagkvæmar, skynsamlegar eða ekki. Við getum jafnframt verið fljótt sammála því að vindmyllur hefðu aldrei komið til greina í stað Fljótsdalsstöðvar sem orkugjafi fyrir álverið Alcoa á Reyðarfirði þar sem ekki er hægt að tryggja orkuöryggi. Einnig getum við eins og Richard segir fagnað þessari tilraun hjá LV því nú fáum við tækifæri til að meta stöðuna hér. Miðað við þær myllur sem settar hafa verið upp í stórum görðum um allan heim á undanförnum árum er ólíklegt að valdar verði minni vindmyllur en 2.0MW.

Grunnurinn að þessum þræði hjá Ómari eru ummæli formanns Framsóknar á Alþingi um rammaáætlun og þar opinberaði hann sig með vanþekkingu – það er niðurstaðan. Ég er ekki á Alþingi og get því blaðrað og bullað sem einstaklingur úti í bæ, en sá sem stígur í pontu á Alþingi til að ræða rammaáætlun og vill aukinheldur láta kjósa sig aftur í komandi kosningum þarf að vera trúverðugur og kynna sér málin.

Niðurstöður og ákvarðanir á Alþingi eru í samræmi við umræðuna – sé hún á villigötum verða ákvarðanir í samræmi við það. Það sést best á því að þessi ummæli Sigmundar Davíðs rötuðu víða eins og stóri sannleikur, en er í raun algert bull.

Sighvatur Lárusson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 17:33

36 identicon

Ég er bara feginn því að fyrri kynslóðir voru ekki að hugsa um að vernda neitt það sem hefur komið okkur útúr torfkofunum, gefið okkur það heilbrigðiskerfi sem við búum við og gert okkur kleift að lifa við lífskjör sem áar okkar gátu ekki látið sig dreyma um. Og ég vona að afkomendur okkar þurfi ekki að búa við lakari lífskjör en nágrannar okkar vegna fyrirhyggjuleysis okkar og stöðnunar.

Næsta kynslóð þarf margfalda þá orku sem nú er til staðar til að búa hér og það er okkar verk að sjá til þess að hún fái hana.

sigkja (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 18:06

37 identicon

Á meðan sanntrúaðir íslenskir vindaflssinnar dásama aðkomu Landsvirkjunar að vindmylluvitleysunni berast fréttir frá Bretlandi um að orkumálaráðherrann, John Hayes, hafi tilkynnt að breska ríkisstjórnin ætlaði að stöðva frekari byggingu vindaflsstöðva!

Þarlendir fréttahaukar kalla vindmylluvitleysuna "Eina hættulegustu blekkingu samtímans"

En sanntrúaðir Þingeyingar vita þetta auðvitað allt saman miklu betur en Bretarnir sem hafa alist upp við vindmylluskógana og heilsufars- og eignartjónið sem þeir skapa.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 18:07

38 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta er bara eitthvað bull í breskri pólitík og hvort í framhaldi viðkomandi ráðherra var ekki bara skipa að þegja í framhaldinu.

Hinsvegar, ef fréttin Deilí meil er lesin í heild - þá er alveg augjóst hvað býr undir. (Eg ætla ekki að segja hvað það er en er alveg hissa á að enginn skuli hafa fært það fram ennþá.)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.12.2012 kl. 18:49

39 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú, þessum ráðherra var í framhaldinu barsta bannað að tala svona vitleysu sem vonlegt var. Engin breyting á stefnu UK stjórnvalda þessu viðvíkjandi.

En ummæli ráðherrans samt óheppileg og vandræðaleg fyrir Cameron greyið sem situr uppi með allskyns furðufugl og sérlundaða menn í íhaldsflokknum.

það er þannig, að eg hef fylgst með umræðum um þennan orkugjafa með öðru auganu - og jú jú, þetta er má segja umdeilt. það er lítill hópur, en hávær, sem berst mjög gegn þessu og er með allskyns villandi upplýsingar um efnið. (svipað og hlýnun jarðar afneitarar og oft sömu mennirnir.) Á meðan vex bara og vex þessi vindmyllustarfsemi og tekur risaskref hvert ár

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.12.2012 kl. 19:01

40 identicon

Á ársgrunni fer 75 % af innkomu vindillunnar í viðhald.

Ef harðir vindar blása, þá ganga þær ekki, ef mikil frost eru, þá er há bilanatíðni og engin framleiðsla, þegar það er logn, þá hvað?

Sænsk niðurstaða.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 21:08

41 identicon

Í dag selur LV 80% sinnar framleiðslu sem forgangsorku á 26$/MWh.

Ótrygg orka úr vindmyllu kostar amk 100$/MWh

Fyrir mér er þetta einhverskonar "æðri hagfræði" -í það minnsta er hún ofar mínum skilningi!

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband