"Meint málþóf á Alþingi", meint hlýnun loftslags" og "svonefnt hrun".

Fróðlegt er að bera saman niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Hrunið og ummælin sem afneitararnir beita í umræðum þessa dagana.

Metumræða um fjárlög á Alþingi, næ þrefalt lengri en gamla metið, er nú kalla þessir afneitarar "meint málþóf" og atyrta fjölmiðla fyrir að fjalla um málið sem sé ekki fréttnæmt því það var ekkert málþóf.

Síðustu tólf ár, hlýjustu árin í sögu mælinga, opnun norðausturleiðarinnar, mesta minnkun jökla á norðurhveli, sem þekkst hefur, minnsti hafís í Norður-Íshafinu, skýrsla Alþjóðabankans um það að loftslag muni hlýna tvöfalt hraðar en spáð hefur verið með þeim afleiðingum að drekkja búsetusvæðum hundraða milljóna manna enda vaxi magn gróðurhúsalofttegunda margfalt hraðar en vitað hafi verið um áður, - allt þetta er kallað "meint hlýnun loftslags" og "bull umhverfisverndrarfólks."

Hrunið er líka rangnefni í skrifum þessara manna, heldur í mesta lagi hægt að tala um "svonefnt hrun."

Auðséð er á hvaða leið þessir afneitarar eru. Það var ekkert málþóf, það er engin hlýnun og það varð ekkert hrun. Þegar búið er að slá þessu föstu er hægt að fara aftur af stað og "bæta í" eins og Hannes Hólmsteinn taldi nauðsynlegt að gera þegar græðgisbólan óx hvað hraðast.


mbl.is Æpandi þögn fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Málþóf kallast það þegar umræður eru tafðar með langlokum um nánast ekki neitt. Hér er varla um slíkt að ræða, því stöðugt bætast við álit ýmiskonar lögspekinga sem öll hníga í sömu átt, þ.e. frumvarpið er meingallað. Það er kannski eðlilegt að þeir sem vilja keyra þetta í gegnum þingið, telji það málþóf að vilja ræða málið.

Hnattræn hlýnun hefur verið mjög lítil sl. 10 ár og í engu samræmi við aukningu gróðurhúsalofttegunda. Engar skýringar eru gefnar á því heldur stöðugt hamrað á  "meintum" náttúruhamförum í framtíðinni. Það er eðlilegt að Ómar og hans líkar taki undir þennan heimsendasöng. Það þjónar þeirri hugmyndafræði að engu skuli raska í náttúrunni og framleiðsla á rafmagni til stóriðnaðar er sérstaklega hættuleg.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.12.2012 kl. 15:59

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eins og Gunnar bendir á þá getur „málþóf“ verið af því góða. Ákvörðunin um Kárahnjúkavirkjun var ákaflega umdeild og stöðugt eru að koma nánast á hverjum mánuði einhverjar nýjar upplýsingar um slæmar afleiðingar þessara framkvæmda.

Virkjunin kostaði um 200 milljarða. Fyrir aðeins brotabrot af þeirri fjárhæð hefði verið unnt að bæta mjög lífskjör á Íslandi t.d. með skógrækt. Við höfum lifað og þraukað í mjög erfiðu landi m.a. vegna erfiðra samgangna einkum á vetrum. Við þurfum að beita skógrækt í stórum stíl til að bæta landgæði og samgöngur. Kornrækt má stunda með langum betri árangri í skjóli af skógum og bændur þyrftu að koma sér upp víðlendum beitarskógum um allt land. Bæta mætti samgöngur víða þar sem veður og vindar geta verið umferð erfið. Dæmi um slíkt er á Snæfellsnesi, undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi, undir Ingólfsfjalli, Eyjafjöllum og í Öræfum. Meira að segja í smáfjörðum eins og Hamarsfirði skammt við Djúpavog geta verið þvílíkir vindsveipir að stórhætta stafar af. Síðastliðið sumar var eg um 4 klukkutíma veðurtepptur á Djúpavogi enda snarvitlaust veður í Hamarsfirði.

Með því að gróðursetja um 200 metra belti af trjám meðfram vegum má reikna með að draga megi verulega úr þessari hættu. En það þarf að byrja sem fyrst til að sjá einhvern árangur. Með skógræktinni er hugsað í kynslóðum, jafnvel öldum en stóriðjan byggist meira og minna á skammtímasjónarmiðum, að fá gróðann helst strax í dag en við afleiðingarnar geta næstu kynslóðir glímt við!

Ein af döpru afleiðingum Kárahnjúkabrjálæðisins voru rýminingaráhrifin. Þannig varð gróðrarstöðin Barri sú langstærsta í landinu að þoka frá Egilsstöðum úr rótgrónu og skjólgóðu umhverfi. Braskarar höfðu keypt landið þar sem gróðrarstöðin áður var. Barri hefur ítrekað lent í stórtjónum vegna fokskemmda auk þess að hrunið hefur heft starfsemina mjög mikið. Þannig hefur stórlega dregið úr eftirspurn eftir framleiðslu skógarplantna og er það miður. Við skulum minnast þess að Ísland er skógfátækasta land Evrópu og þar byggjast ótaltækifæri, jafnvel margfalt meiri en þessi stóriðja sem allt í einu gæti verið horfin á morgun. En það voru braskaranir sem hafa stýrt för og það er miður.

Góðar stundir en án braskara! 

Guðjón Sigþór Jensson, 12.12.2012 kl. 16:59

3 identicon

Þetta orð "meint" er fast í prógrammi landans því það þorir enginn að viðukenna að neitt sé að, bara stungið hausnum í sandinn eins og strúturinn. Svo eru það þeir sem LENTU ÓVART í því að stinga undan fjármunum eða falsa þetta og hitt. Á meðan skúringarkonan hjá fyrirtækinu er dregin fyrir dóm af því hún nældi sér í einn Þrif brúsa. Svona lítur Þetta út fyrir mér Ómar og ég kalla skynvillur.

Margrét (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 17:07

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Ég trúi því ekki ,félagi Guðjón, að þú sem leiðsögumaður viljir hafa alla vegi á landinu í trjágöngum.  Ef tré eiga einhversstaðar ekki heima, er það einmitt þar.

Þórir Kjartansson, 12.12.2012 kl. 17:12

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir með Þóri.

"...stöðugt eru að koma nánast á hverjum mánuði einhverjar nýjar upplýsingar um slæmar afleiðingar þessara framkvæmda."

Þú nefnir Guðjón, Barra, að hann hafi borið skaða vegna "rýmingaráhrifa", en færir afskaplega veik rök fyrir því. Hvað atriði eru þetta sem koma fram í nánast hverjum mánuði?

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.12.2012 kl. 17:19

6 Smámynd: Landfari

Þú ert mikill umhverfissinni Ómar og er það vel. Mættu fleiri taka þig sér til fyrirmyndar í þeim efnum en það breytir því ekki að við verðum að hafa jarðsamband í þessum málum ekki síur ení öðrum.

Mér skilst að þrátt fyrir að milljörðum hafi verið varið í rannsóknir á gróðurhúsaáhrifum af starfsemi mannskepnunnarhafi ekki tekist að sanna með óyggjandi hætti að hún hafi afgerandi áhrif á hlýnun jarðar.  Hér hefur hlýnað verulega frá því á ísöld en þáttur mannskepnunnar í því getur ekki talist afgerandi.

Hvað hefur eitt svona gos eins og í Eyjafjallajökli mikil gróurhúsaáhrif í samanburði við t.d. flugumferð í heiminum? Það er sagt að ein kjötæta á rafbíl sé skaðlegri náttúrunni en grænmetisæta á Hummer. Sel það reyndar ekki dýrara en ég keyti það en veit þó að það er ekki algerlega úr lausu lofti gripið.

Málþóf eða málþóf ekki á Alþingi fer eftir innihaldi ræðanna sem fluttar eru en ekki hversu langar þær eru.

Þess vegna er öruggar að hafa "meint" með þegar talað er um suma hluti svo maður verði ekki kærður fyrir meiðyrði ef maður kynni að hitta á viðkvæma bletti hjá einhverjum.

Landfari, 12.12.2012 kl. 21:20

7 identicon

Þið þurfið engar áhyggjur að hafa af jörðinni "Gaia". Hún mun spjara sig. Ég hef hins vegar ákveðnar áhyggjur af mannskepnunni. Það er ekki jafn öruggt að aðlögunarhæfnin sé nægjanleg þó að hún sé góð. Það var nefnt hér að ofan að hlýnun jarðar síðasta áratug sé ekki í samhengi við aukningu "gróðurhúsalofttegunda". Hvað haldið þið að það þurfi mikla orku til þess að bræða allan þennan ís sem hefur bráðnað af skautunum og Grænlandsjökli síðasta áratuginn? Þegar orkan hefur ekki lengur Ís til að gleypa sig, þá förum við að sjá orku aukninguna á hitamælunum. Málið snýst ekki um gráður á celsius heldur magn af geislum inn vs magn af geislum út.

bestu kveðjur

Hilmar

Hilmar Þór Sævarsson (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 21:37

8 Smámynd: Sigurður Antonsson

Nú er ég sammála Gunnari. Þótt fjárlagaumræðan sé meiri en síðast segir það ekkert hvort um málþóf sé að ræða. Skattahækkanir eru allstaðar teknar alvarlega og þurfa umræðu. Sérstaklega þegar þær eru verðbólguhvetjandi og koma í bakið á launafólki. Verðbólga er hér mikill vegna þess að menn ræða ekki orsakavalda. Í annari umræðu voru alltaf að koma fram nýjar upplýsingar.

Sagt er að Ísland hafi færst um 800 km sunnar ef miðað er við hitastig undanfarin 60 ár. Snjólétt hefur verið á Suð-Vesturlandi undanfarin 30 ár. Í byrjun stríðs var tiltölulega hlýtt líka.

Sveiflur mælast á löngum tíma og alls óvíst hvort ís við Norðurheimsskautið haldi áfram að bráðna.

Hrun eru innbyggð í fjármálalega gjörninga. Það sem fer upp fer niður. Allt sem er oftekið endar með þrengingum. Ofbeit, ofsköttun, ofurvextir og peningaprentun án innistæðu. Bændur þekkja hvað má bjóða jörðinni og haganum. Vandamálið er þekkingarleysi þegar „ svo nefnt“ hrun verður.

Engin vill vera nakti keisarinn. Messan hjá Ómari gengur út á að við sýnum iðrun, auðmýkt og varkárni.

Sigurður Antonsson, 12.12.2012 kl. 21:43

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Nú er eg hissa á Gunnari sem Austfirðing að hann komi af fjöllum varðandi gróðrarstöðina Barra. Sennilega er þetta tiltekna mál eitt skýrasta dæmi um ruðningsáhrif stóriðjunnar eystra. Barri var nánast í miðbæ Egilsstaða, skammt sunnan við tjaldsvæðið í mjög góðu skjóli. Fyrir um 10 árum hraktist Barri út í útjaðar byggðar á bersvæði. Gróðrarstöð sem þarf að flytja þarf helst áratugaundirbúning. Það þarf að gróðursetja skjólbelti og undirbúa allt starfið vel og vandlega. Stöðin hefur verið rekin á um hálfum afköstum og ættu allir sem láta sig rekstur fyrirtækja varða, sjá að þarna hefur farið illa. Þá hafa aðstæður þarna reynst starfseminni erfiðari af ýmsum ástæðum.

Annars geta þeir sem vilja kynnt sér þessi mál betur af eigin raun því ekki er eg að ljúga þessu þó Gunnari þyki þetta ótrúlegt. Hann virðist vera gjörsamlega blindur á að unnt sé að byggja atvinnulíf á öðrum forsendum en stóriðju sem er alfarið á forsendum erlendra eigenda.

Gróðrarstöðin Barri á allt gott skilið og vonandi eru bjartari tímar framundan þrátt fyrir erfið ár.

Varðandi sjónarmið Þóris þá held eg að seint verði svo að við birgum útsýnið. Áveðurs eigum við að leggja áherslu á og við erfiðar aðstæður eins undir Hafnarfjalli tekur áratugi að útsýnið eyðileggist. Reyndar eru jarðgöng öllu verri, þar er akkúrat ekkert útsýni og mér skilst að engir hafi bent á annmarka þeirra hvað þetta varðar.

Helst er að lesa draugasögur fyrir gestina okkar í jarðgöngum! Nógu drungaleg eru þau.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 12.12.2012 kl. 22:46

10 identicon

Heimsendaspámaðurinn ÓR ritar: "Síðustu tólf ár, hlýjustu árin í sögu mælinga, opnun norðausturleiðarinnar, mesta minnkun jökla á norðurhveli, sem þekkst hefur, minnsti hafís í Norður-Íshafinu, skýrsla Alþjóðabankans um það að loftslag muni hlýna tvöfalt hraðar en spáð hefur verið með þeim afleiðingum að drekkja búsetusvæðum hundraða milljóna manna enda vaxi magn gróðurhúsalofttegunda margfalt hraðar en vitað hafi verið um áður, - allt þetta er kallað "meint hlýnun loftslags" og "bull umhverfisverndrarfólks."

Öll er þessi lýsing í anda Al Gore, enda sennilega báðir jafn vel menntaðir í vísindum. Röksemdafærslan gengur svo út á að skapa alþjóðlega kolefniskvóta sem vogunarsjóðir á Wall Street, m.a. í eigu fyrirtækja á vegum Al Gore (!) braska svo með - á kostnað skattborgara/heimsborgara.

Það er nákvæmlega engin innistæða fyrir þessum gífuryrðum þínum um fyrirsjáanlega hnatthlýnun Ómar Ragnarsson - engin. Hnatthlýnun hefur staðið í stað síðustu sextán (16) ár meðan magn þessa skelfilega spilliefnis, sem kolefniskirkjan álítur CO2 vera, hefur aukist í andrúmslofti. Árið 2012 er talið verða níunda (9.) heitasta ár síðan mælingar hófust (um 1850(!)) en það er þó marktækt kaldara en meðaltal áranna 2000 - 2011.

Það er því að kólna í heiminum Ómar minn, enda benda rannsóknir vísindamanna til þess að langtímaleitni sé í átt að kólnun.

Ætlar þú ekki líka - svona að endingu - að bjóða okkur upp á ókeypis nýja stjórnarskrá á morgun?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 01:20

11 identicon

Hnatt-hitamet á hinni stuttu alvöru-mælinga skeiði var sett 2007 eða 2008 muni ég rétt. Sjávarborð mun hafa hækkað um 11-12mm s.l. 100 ár. Norðurskautsísinn er talinn vera í lágmarki frá lokum ísaldar, - en N.B. - bráðnun hans hækkar ekki sjávarborð, og ég treysti jafnvel Hilmari til þess að vita af hverju.

Staðbundin hlýnun er á skerinu okkar, Það vita þeir sem sitt framfæri hafa af hlutum sem háðir eru veðri og hitastigi. Við búum nú við loftslag sem er jafnvel hlýrra en á hlýskeiðinu í kring um landnám. Við ræktum orðið plöntur sem ekki var einu sinni reynt að rækta þá, og fáum hér að landi fiska sem ekki hér um syntu þá.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 09:02

12 identicon

Global warming er eitt stórt kjaftæði. Reynið bara að horfast í augu við það. Það hefur ekki verið nein hlýnun í 15 ár!!

15 ár!!  Please, sleppið þessu bulli. Allt rétt hjá Hilmari hér að ofan.

Getið prófað að gúggla þetta og fundið marga fréttamiðla sem tala um þetta, t.d. þetta fundið í flýti:

http://www.thenewamerican.com/tech/environment/item/13212-global-climate-warming-stopped-15-years-ago-uk-met-office-admits

Og Jón Logi, á landnámsöld var Vatnajökull í tveimur jöklum, kallaður Klofjökull. Vatnajökull þyrfti að vera að bráðna ansi hratt þessi ári til að stefna á eitthvað slíkt, en því fer fjarri.

palli (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 09:36

13 identicon

Palli, þetta hef ég allt séð. Við munum líka sjá nýjan klofjökul (eða niðjar okkar) ef svo fram vindur eins og nú er.
Það standa hins vegar upp úr hitamet fyrir örfáum árum á sólarlægðatíma. Það stendur upp úr hvað far-skepnur (migrants) færa si N og S á bóginn og upp í hæð.
Og svo plotta olíufyrirtækin nýja möguleika á borpöllum á norðurslóðum hvar nú er hægt að skoða möguleika vegna hopunar íss, á meðan þau sömu borga atvinnu-kjaftöskum fyrir að þræta fyrir það sama, - þ.e.a.s. hopun íss.
Bændurnir klóra sér í hausnum, - sumir lenda í brasi vegna þurrka og yfirhita á meðan aðrir á kaldari slóðum geta allt í einu farið að rækta jurtir sem þá hefði ekki dreymt um að geta ræktað á sínum æskuárum....örstuttum tíma fyrr í veðurfarssögunni.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 12:30

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

30.8.2012:

"Íslenskir jöklar verða horfnir eftir 150 til 200 ár verði veðurfar svipað og það hefur verið síðustu tvo áratugi.

Snæfellsjökull hyrfi eftir um það bil 30 ár
, segir Helgi Björnsson jöklafræðingur.

"Síðustu 17 ár hafa jöklarnir bráðnað með auknum hraða."


Helgi segir að Snæfellsjökull sé aðeins 30 metrar að þykkt að meðaltali en að vísu sé meiri snjór í honum að norðanverðu, allt að 70 metra þykkur.

"Snæfellsjökull rýrnar að meðaltali um 1,3 metra á ári, þannig að það er auðséð að hann þolir ekki slíkt framhald í marga áratugi.

Við missum um það bil einn metra á ári af Vatnajökli, annað eins af Hofsjökli og 1,3 metra af Langjökli en allra mest af jöklunum syðst, Eyjafjallajökli og þessum litlu jöklum sunnanlands. Þar er bráðnunin 1,8 metrar, svipað og meðal mannshæð.

Nú er reiknað með að það hlýni enn frekar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa
og það gæti orðið tveimur gráðum hlýrra við lok þessarar aldar en nú er.""

Þorsteinn Briem, 13.12.2012 kl. 13:06

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gróðrastöðin Barri var EKKI fórnarlamb Kárahnjúka. Guðjón hvetur fólk til að kynna sér málið og ég geri slíkt hið sama.

Allt sem Guðjón segir í aths. #9 er rakalaust bull. Í fyrsta lagi eru ekki 10 ár síðan Barri flutti frá miðbæ Egilsstaða til Fellabæjar, heldur 4 ár. Fyrir forvitnis sakir hringdi ég áðan í framkvæmdastjóra Barra og spurði hann beint út í þessa fullyrðingu Guðjóns að Barri hefði verið fórnarlamb ruðningsáhrifa Kárahnjúka. Svar hans var einfalt og skýrt, að það væri ekki rétt. Forsvarsmenn fyrirtækisins eru ánægðir með nýja staðsetningu og hún er að mörgu leiti mun betri en sú fyrri. Ástæðan fyrir flutningnum var sú að skipulagsyfirvöld á Egilsstöðum töldu ekki heppilegt að vera með svo plássfreka starfsemi í miðju þorpinu og fyrirhugaðar stækkanir kæmu ekki til greina.

Fyrirtækið byggði því upp starfsemi á nýjum stað á Valgerðarstöðum skammt norðan Fellabæjar á Fljótsdalshéraði. Ræktun fer fram í 2 gróðurhúsum samtals 4000 m2 sem eru hituð með hitaveituvatni. Byggð hefur verið 4800 m3 frysti- og kæligeymsla með rekkakerfi sem rúma 1,8 til 3 milljónir plantna eftir bakkagerðum.

Byggt hefur verðið aðstöðuhús sem hýsir sáningu, pökkun, starfsmannaaðstöðu, rannsóknarstofu og skrifstofur.

Reist hafa verið fimm vetrargeymsluskýli 150 fermetra hvert.

Útiræktunarsvæði (um 7000 fermetra) á Valgerðarstöðum eru vestan við gróðurhúsin og er möguleiki á að stækka þau ef þörf krefur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2012 kl. 13:16

16 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Vatnajökull var áður nefndur Klofajökull ekki „Klofjökull“, sjá færslu Jóns Loga (nr.13)

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 13.12.2012 kl. 18:30

17 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi sjónarmið Gunnars (nr.16) þá vísa eg þessu til föðurhúsanna. Gunnar hefur greinilega ekkert kynnt þér þessi mál enda virðist hann gjörsamlega upptendraður af mýrarljósum stóriðjudraumsins.

Eg hefi verið áhugamaður um skógrækt í hálfa öld og hef því gjörla fylgst með öllu þessum málum sem Gunnar hefur ekki sett sig neitt í. Svo veður þessi maður með stóryrðum og fúkkyrðum. Staðreyndin er sú að starfsemi gróðrarstöðvar þarf að undirbúa vandlega og til þess þarf tíma. Það þarf t.d. að gróðursetja skjólbelti sem tekur a.m.k. áratug að vaxa. Barri lenti í fokskemmdum nokkrum sinnum vegna þessa. Þá drógst starfsemin mjög saman vegna samdráttar í kjölfar hrunsins. Í stað þess að vaxa jafnt og þétt, þá verður mjög slæmur afturkippur í starfseminni.

Þess má geta að lóðin þar sem Barri var áður var undirlögð af byggingarbröskurum. Nú standa hátimbruð hús þar sem annað hvort eru illa byggð og því verðlítil. Það er þetta sem mér finnst gagnrýnisvert. Það lá þessi býsn á að hrekja barra burt.

Gunnar ber fyrir sig viðtal við Skúla Bjarnason framkvæmdastjóra Barra. Gunnar telur hann staðfesta fullyrðingar sínar. Sjálfur hefi eg átt samskipti við Skúla. Hann ber sig sem sannur skógræktarmaður sig vel. Við getum alltaf átt von á ýmsu mótlæti hvort sem er slæmt árferði, lús og aðrar óværur. En móðuharðindin af mannavöldum eru auðvitað verst. Ef eg þekki Skúla rétt, hefði hann viljað hafa lengri umþóttunartíma fyrir flutninginn, m.a. vegna skjólbeltanna sem eru nú skammt á veg komin.

En ruðningsáhrifin af Kárahnjúkavirkjuninni eru augljós hvort sem þau eru bein eða óbein: braskið ýtti undir flutninga, hrunið gróf undan stöðugleika rekstrarins.

Góðar stundir. 

Guðjón Sigþór Jensson, 13.12.2012 kl. 18:49

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ótrúlegt að lesa þessa vitleysu í þér, Guðjón. Hver sem er getur hringt í Barra og talað við framkv.stjórann Skúla Björnsson. Hann staðfestir orð mín og síminn er 471 2371.

Þér virðist ekki sjálfrátt, Guðjón og ert eiginlega sjálfum þér til skammar með þessari þvælu hér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2012 kl. 19:10

19 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Nú langar mig til að fræða þig um eitt Gunnar og þá sem vilja vita meira um þetta mál: Flutningur Barra frá Egilsstöðum og yfir í Fellabæ kostaði mjög mikið. Tekin voru lán í jenum sem snarhækkuðu eins og önnur lán í hruninu. Barri var mjög nálægt gjaldþroti en með snarræði og fyrirhyggju Skúla framkvæmdarstjóra og stjórnar tókst að bjarga þessu fyrir horn.

Eg kalla þetta þráhyggju að vilja ekki játa því að Kárahnjúkavirkjunin olli miklu umróti í efnahagslífi og fjármálum íslensku þjóðarinnar. Til urðu kjöraðstæður fyrir braskarana sem útnýttu sér í ystu æsar ástandið að auka auð sinn og völd. Þeir sem töpuðu voru auðvitað launafólk, fyrirtæki og einstaklingar sem skulduðu í erlendum lánum sem og sparifjáreigendur sem töpuðu sparnaði sínum í formi hlutabréfa.

Það jaðrar við sjálfsblekkingu að vilja ekki sætta sig við þessar framlögðu staðreyndir.

Eg þarf ekki að hringja hvorki í þig né Skúla. Hann vill að öllum líkindum ekki vera dreginn inn í einhverjar óskiljanlegar deilur þar sem staðreyndir liggja ljósar fyrir en ekki útúrsnúningar. En þetta eru þær staðreyndir sem fyrir liggja, því miður fyrir sjónarmið þín sem byggjast á oftrú á stóriðju sem gæti þess vegna verið horfin einn góðan veðurdaginn þegar hinn vestræni Alkóa tekur ákvörðun að pakka saman. Um sama leyti og álstassjónin var tekin í notkun eystra lokaði Alkóa tveim gömlum álbræðslum á Ítalíu. Þetta eru engir asnar. Þeir líta ísköldum augum á arðsemi og gróða. Þeir fá t.d. mengunarkvóta án þess að greiða eina einustu krónu. Innan Efnahagssambands Evrópu verður aðili sem rekur mengandi starfsemi að greiða fyrir slíkan kvóta.

Hvað skyldi kost að binda hátt í milljón tonn af CO2 sem álstassjónin á Reyðarfirði skilur eftir sig á ári hverju? Það myndi kosta offjár. Ætli allir skógar Austurlands geti staðið undir slíkri bindingu? Að öllum líkindum ekki.

Og ekki kæmi mér á óvart að nú þætti mörgum þú vera heimaskítsmát!

Von um góðar stundir og kveðjur úr Mosfellsbæ!

Guðjón Sigþór Jensson, 14.12.2012 kl. 17:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband