Spurning um nauðung.

Ég hef einu sinni staðið í svipuðum sporum og Madonna varðandi reykingar í samkomusal. Ég hafði verið fenginn til að semja spurningar og stjórna spurningakeppni á veitingastað í Reykjavík fyrir meira en áratug.

Þegar ég kom á staðinn var þar þykk reykjarsvæla enda reyktu margir þar innan dyra.

Ég spurði viðstadda hvort hver einstaklingur ætti að ráða því sjálfur hvort hann reykti og bað um atkvæðagreiðslu með handauppréttingu. Allir jánkuðu því.

Þá sagði ég þeim að rannsóknir sýndu fram á eðli svonefndra óbeinna reykinga og að ef ég yrði áfram inni í reykmettuðum salnum, yrði ég þvingaður til þess að reykja óbeint þótt ég vildi það ekki.

Það væri í andstöðu við einróma samþykki fyrir frelsi til að reykja ekki.

Ég greindi fólkinu frá því að bæði Ingimar Eydal og Haukur Morthens hefðu sagt mér að aðdáendur sínir væru að drepa sig þegar þeir fengu krabbamein sem 80% líkur voru fyrir að stöfuðu af óbeinum reykingum á vinnustöðum þeirra. Og báðir hefðu orðið að hlíta þessum hörðu örlögum.

Auk þeirra gæti ég nefnt nöfn fleira tónlistarfólks, sem hefði unnið í reykjarmekki og fallið úr krabbameini um aldur fram, svo sem Ellý Vllhjálms, Svavar Gests og Stefán Jóhannsson.

Þessu gæti ég ekki unað úr því að það væri nýbúið að samþykkja í salnum að hver einstaklingur ætti að ráða því sjálfur hvort hann innbyrti hinn heilsuspillandi reyk.

Ég gerði því fólkinu það tilboð, að skipta spurningakeppninni í tvennt og hafa tvö hlé, fyrst áður en keppnin hæfist og yrði þá reynt að lofta út, og hafa síðan hlé í henni miðri. Þá gætu þeir farið út til að reykja sem það vildu og komið síðan inn aftur.

Þetta var samþykkt en annars hefði ég hætt við spurningakeppnina og nýtt mér það frelsi, sem samkomugestir voru búnir að samþykkja.

Á þessum árum var mikið tekist á um reykingabann og ég man að ég skrifaði blaðagrein þar sem ég líkti réttindum reykingafólks við rétt James Bond til að drepa, "licenced to kill".

Þegar ég lít til baka finnst mér ótrúlegt hve mörg ár það tók að koma því réttindamáli í gegn að maður réði því sjálfur hvort maður tæki þá áhættu að innbyrða heilsuspillandi tóbaksreyk.

Sjálfur hafði ég innbyrt óheyrilegt magn af reyk í áratugi þau þúsundir skipta sem ég hafði starfað á reykmettuðum skemmtistöðum og oft verið með prógramm þar sem ég innbyrti á nokkrum mínútum jafn mikinn reyk í atriðum, sem kostuðu gríðarlega mikla hreyfingu, og aðrir í salnum innbyrtu allt kvöldið.

Ég tel mig hafa verið heppinn að hafa ekki enn lent í svipuðu og Haukur Morthens og fleiri, sem voru svo óheppnir að velja sér banvænan starfsvettvang þar sem ríkti ástandið "licenced to kill."

Þó veit maður aldrei hvort þetta á eftir að gerast, þótt reykingunum ofan í mann hafi linnt fyrir áratug.  

  


mbl.is Tryllt vegna reykinga tónleikagesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"9. gr. Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þ.m.t. íþrótta- og tómstundastarf. ..."

Lög um tóbaksvarnir nr. 6/2002

Þorsteinn Briem, 21.12.2012 kl. 23:49

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Atvikið, sem ég segi frá, gerðist fyrir fyrsta bannið 2002.

Ómar Ragnarsson, 22.12.2012 kl. 09:25

4 Smámynd: Már Elíson

Ómar...Þó ég sé nú ekki reykingamaður frekar en þú, þá örlar nú aðeins á gömlum og nokkuð íhaldssömum og röngum staðhæfingum hjá þér varðandi svokallaðar óbeinar reykingar.

Það virðist vera lenska hjá (ofstækis) mönnum að nefna alltaf þessi tvö nöfn, Ingimar og Hauk Morthens þegar á að þyngja áherslurnar um skaðsemi reykinga og óbein áhrif þeirra.

Það gleymist alltaf, að samtímamenn þeirra margir í hljómsveitunum og þúsundir áheyrenda, þar á meðal þú, Ómar, eru bara sprelllifandi ennþá eru ekkert að fara að drepast úr krabbameini eða útaf (óbeinum) reykingum. Sumir eru bara ekkert með veik gen sem grípa allt þegar kemur að þessum þáttum. Þeir hefðu látist hvort sem er á nákvæmlega sama tíma þó engar reykingar hefðu verið á þessum árum. Þetta voru þeirra (og tugþúsunda) örlög eins og okkar örlög eru einfaldlega önnur.

Ég er sjálfur búinn að lifa þessa tíma og þar af leiðandi haft áhuga á þessu (en ekki ótta) og veit að ég og þú munum drepast úr einhverju allt öðru. Breyttu nú um taktík og teldu upp þá (Ragga Bjarna, Guðmund  Steingríms o.fl.) sem eru ennþá sprelllifandi þrátt fyrir að anda að sér hratinu af reyknum sem við með heilbrigðu lungun og góðu genin losuðum okkur við á 11 mínútum eftir ball. Kynntu þér þetta á raunsannan hátt, það er betra fyrir þig því nóg er nú andskotast í þér af bloggsóðum hér á síðunni þinni og víðar.

Það breytir því ekki að reykingar eru viðbjóður sem er fljótvirk leið til að framkalla og æsa upp krabbamein hjá þeim sem eru með það undirliggjandi og engan veginn gott heldur fyrir þá heilbrigðu. Krabbamein (svokallað innra-mein á öldum áður) er mörg þúsund ára mein sem kemur ekkert endilega reykingum við. Spurðu lækninn sem á að segja þér satt.

Már Elíson, 23.12.2012 kl. 07:12

5 Smámynd: Már Elíson

Afsakið...ein smá innsláttarvilla...."Sumir eru bara ekkert með veik gen..." Þarna er orðinu ekkert, ofaukið. 

Már Elíson, 23.12.2012 kl. 07:15

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svo er að sjá að einshverjum  finnisyt listinn Haukur, Ingimar, Stefán, Svavar, Ellý... ekki nógu langur af því að það séu svo margir aðrir sem hafi sloppið.

Ég nefni Hauk og Ingimar sérstaklega vegna þess að báðir sögðu opinberlega og voru ekki hressir með það, að yfirgnæfandi líkur væru á því að krabbamein þeirra væru reyk aðdáenda þeirra að kenna.

Tilfelli Hauks var sérstaklega athyglisvert. Hann fékk krabbamein í háls af þeirri tegund sem stórreykingarmenn fá. Mér finnst það bara alls ekki í lagi að hann hafi orðið meðal þeirra sem óbeinar reykingar drápu þótt ég, Raggi Bjarna og fleiri hafi sloppið, að minnsta kosti enn.

Ómar Ragnarsson, 23.12.2012 kl. 16:50

7 identicon

Það var á allra vörum að Haukur hefði verið "reyktur í hel". Enda svælan ógurleg á skemmtistöðum þeirra tíma, og vaktin löng hjá kappanum.
Þetta er svoleiðis allt annað í dag. Og merkilegt nokk, - margir reykingarmenn eru ánægðir með hið nýja fyrirkomulag, - endalaus svæla v.s. einn og einn smókur er sitt hvort fyrirbrigðið.

Jón Logi (IP-tala skráð) 23.12.2012 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband