Aðferðin: Að höggva sem víðast í nýju stjórnarskrána.

Aðferðin til þess að koma í veg fyrir setningu nýrrar stjórnarskrár er að taka á sig skýrari mynd.

Hún byggist á því að höggva sem víðast í einstök ákvæði hennar og reyna að að hártoga og snúna út úr sem allra flestum ákvæðum hennar og jafnvel einstökum orðum eins og "þjóð","auðlind", "lifa með reisn", "skyldur" og "meðfæddur réttur til lífs."

Þótt nýja stjórnarskráin hafi legið fyrir í 17 mánuði er fyrst nú farið að höggva á nýjum stöðum í ýmis ákvæði og orð í henni. 

Nýjasta útspilið er hjá forsetanum, sem segir að byggja megi "víðtæka sátt" um stjórnarskrána á ágætum köflum um mannréttindi, náttúru og auðlindir.

Þetta segir hann rétt eins og hann hafi ekkert fylgst með því að hatrömm andstaða ráðamanna í Sjálfstæðisflokknum byggist einmitt á því að berjast gegn þessum ákvæðum af svipaðri hörku og Framsóknarmenn börðust í 30 ár á síðustu öld gegn réttlátari kosningalöggjöf, - aldrei reyndist unnt að ná "víðtækri sátt" um það mál og á endanum varð að láta meirihlutann ráða. 

(Ath. orðalagið "ráðamenn Sjálfstæðisflokksins" sem vísar til þess að ekki megi draga samasammerki á milli ráðamanna flokksins og almennra fylgjenda hans.) 

Síðan bætir forsetinn við sinni eigin andstöðu gegn ýmsum ákvæðum, svo sem um stjórnarmyndanir og það að ráðherrar megi ekki gegna þingmennsku á sama tíma sem þeir eru ráðherrar og segir að vald forseta og forsætisráðherra séu stóraukin og alltof mikið dregið úr því sem kallað hefur verið oddvitaræði. 

Eru þó ákvæðin um forsætisráðherra mjög svipuð því sem finna má í erlendum stjórnarskrám sem reynst hafa vel og í löndum eins og Noregi hefur gefist vel að ráðherrar megi ekki vera þingmenn samtímis. 

Einnig finnst honum stórmál að ákvæði um ríkisráð skuli fellt niður, telur það bráðnauðsynlegan umræðuvettvang fyrir ríkisstjórn og forseta, rétt eins og að þessir aðilar geti ekki hist og rætt mál nema puntufyrirbærirð ríkisráð, leifar frá danska konungsveldinu, sé bundið í stjórnarskrá. 

Þess má geta að Svavar Gestsson, sem sat líklega á annan tug ríkisráðsfunda i sjö ára valdatíð sinni, segir í æviminningum sínum að á þeim fundum gerist nokkurn veginn ekki neitt. 

Forseti seti fund með nokkrum vel völdum orðum, engar efnislegar umræður fari yfirleitt fram um nein mál, enda búið að afgreiða þau áður, og svo virðist sem það eina sem komi út úr þessum fundum sé, að hægt sé að taka mynd af forsetanum með ríkisstjórninni. Svavar segir fleiri hafa upplifað þessa fundi eins og hann. 

Andstaða forseta við að fella ríkisráð niður úr stjórnarskrá minnir á forneskjulega andstöðu hans gegn því að breyta löngu úreltu og dýru fyrirkomulagi um handhafa forsetavalds, sem á uppruna sinn á þeim tíma sem forseti fór ekki til útlanda nema siglandi og raunar enn aftar, þegar Danakonungur datt úr sambandi við heimalandið þegar hann var í útlöndum, svo sem hjá Kristjáni 7 um 1770.

Á tímum nets og heimsfjarskipta er núverandi fyrirkomulag hlálegt.

Ef menn vilja endilega hafa þetta svona dýrt og flókið væri nær að bæta því í stjórnarskrá að handhafar forsetavalds taki við völdum ef forsetinn fer til Ísafjarðar, en nýjustu atburðir sýna, að samgöngur þangað geta verið ólíkt erfiðari en þegar skroppið er til London.

Svo vikið sé að sérkennilegum ummælum forsetans um hlutverk forseta í stjórnarmyndunum, sem í nýju stjórnarskránni tekur mið af góðri reynslu annarra þjóða af svipuðum ákvæðum, er undarlegtl að heyra ummæli um "einstæð ákvæði í vestrænni löggjöf" og um að forsetinn fái miklu meira vald en hann hefur nú.

Þvert á móti missir forsetinn samkvæmt nýju stjórnarskránni núverandi vald til að mynda utanþingsstjórnir og Ragnhildur Helgadóttir, sem telst vera með ítarlegustu menntun núlifandi fræðimanna í stjórnskipunarrétti, var á annarri skoðun en forsetinn um þetta í sjónvarpsviðtali í gær.

Forsetinn leggst gegn því að ráðherrar megi ekki gegna samtímis þingmennsku og telur flokksforingjana vera sviptir leyfi til að vera viðstaddir þingfundi eða tala á þeim, en þetta er alrangt hjá honum.

Að sjálfsögðu getur þingið kallað ráðherra til þess að svara fyrir stjórnarathafnir hvenær sem því sýnist og foringjahollir þingmenn munu áreiðanlega sjá til þess.

Í núverandi stjórnarskrá vantar alveg ákvæði um verkferli stjórnarmyndana og forsetinnn er því alveg einráður um það að eigin geðþótta.

Í nýju stjórnarskránni er honum hins vegar skylt að ráðfæra sig við þingflokkana áður en gerð er tillaga um forsætisráðherra og svipuð ákvæði hafa reynst vel í öðrum löndum, svo sem í Þýskalandi.

Og algerlega er skýrt, að geti Alþingi ekki myndað stjórn sem fær varist vantrausti, ber að boða til nýrra kosninga og forsetinn getur ekki gripið fram í með myndun utanþingsstjórnar eins og nú.

 Sókn andstæðinga nýrrar stjórnarskrár, þar sem enn og aftur á að færa einstökum flokkum og valdamönnum svipað neitunarvald um stjórnarskrána og hefur komið í veg fyrir efnd á loforðum landsfeðranna 1944 um nýja stjórnarskrá, mun, ef hún heppnast, einungis færa málið aftur á svipaðan byrjunarreit og það var fyrir 69 árum. 

Og mann grunar, að til þess virðist refirnir einmitt vera skornir.  


mbl.is Lúti „þjóðarviljanum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er það ekki umhugsunarefni fyrir ykkur í hinu umboðslausa stjórnlagaráði að menn skuli túlka nýju drögin á mismunandi hátt? Eða er þetta bara eitt allsherjar samsæri Sjálfstæðisflokksins með aðstoð Ólafs Ragnars og fjölda fólks úr fræðasamfélaginu?

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.1.2013 kl. 10:47

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Gunnar, vissir þú ekki að stjórnlagaráð er óskeikult? Ísland er líka eina landið í heiminum sem hefur haft skemmtikraft í þeirri vinnu að búa til nýja stjórnarskrá og annan til að stjórna stærsta þorpinu.

Svo segir það kannski mest um Svavar Gestsson sjálfan, að ekkert gerðist á ríkisráðsfundum í ráðherratíð hans. Betra hefði verið ef hann hefði verið eins aðgerðalítill í Icesave málinu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.1.2013 kl. 12:05

3 Smámynd: Atli Hermannsson.

Hafðu bestu þakkir Ómar, þér er einkar lagið að greina kjarnann frá hisminu... Verður að hafa það þó sumum líki það illa.

Atli Hermannsson., 3.1.2013 kl. 14:03

4 identicon

Ómar

Það hefði verið við hæfi að þú vitnaðir orðrétt til þess sem,,Ragnhildur Helgadóttir, sem telst vera með ítarlegustu menntun núlifandi fræðimanna í stjórnskipunarrétti" hafði að segja í útvarpinu um frumvarpsnefnuna sem þú og Þorvaldur, séní í lögfræði með meiru, ræðið um í andakt. Hún varar eindregið við afleiðingunum, ekki satt. Hálfsannleikur oftast er...

EINAR S. HÁLFDÁNARSON (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 15:36

5 identicon

Ég er ekki viss um að tækninýungar og meiri haði tákni endilega að yfirfærsla forsetavalds meigi vera eitthvað losaralegri en nú.  Einmitt þessi hraði getur orðið til þess að ótvírætt þurfi að vera hver sé handhafinn. Ekki vantaði að stutt var á milli flugkennarans og nemans á kennsluflugvélinni sem nauðlenti sjálf um árið, af því að hvor um sig taldi hinn vera við stjórn.

   En þið stjórnlagaráðs fólk eigið mína samúð þegar ykkur er núið því um nasir að þið  séuð umboðslaus. Þar var ágætlega vandað til verka allt þar til hæstiréttur tók eina af sínum furðuákvörðunum að dæma kosningu ógilda út á atriði sem hefði aldrei komist nálægt því að hafa áhrif á niðurstöðu kosningar eða véfengja ótvíræðan vilja kjósenda.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 15:36

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er þá allt í lagi að hunsa lög og reglur varðandi kosningar, af því þeir sem það gera, segja að það hafði hvort eð er ekki áhrif á niðurstöðuna?

Það er svipað og og vera tekinn á ofsahraða við akstur eða ölvaður og segja "en það varð ekkert slys!... látið mig í friði!"

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.1.2013 kl. 16:32

7 identicon

Sæll og gleðilegt ár Ómar. Ég greiddi gegn nýrri stjórnarskrá, fyrst og fremst vegna þess að ég taldi og tel enn að farið hafi verið í starfið á þeim tíma sem almenningur var í of mikilli æsingu vegna hrunsins. Svo kom rothöggið, við þurfum að senda okkar stjórnarskrártillögu til einhverrar nefndar erlendis til að hún samþykki tillöguna. Bíddu á þetta ekki að vera okkar stjórnarskrá. Því miður þá held ég að taka ætti allt þetta mál af dagskrá.

Kjartan (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 16:51

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég hélt að repúblikaninn Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna 1981-1989 og ríkisstjóri Kaliforníu 1967-1975, hefði verið skemmtikraftur.

Einnig repúblikaninn Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri Kaliforníu 2003-2011.

En þeir voru trúlega í Besta flokknum og stjórnuðu þorpum, að mati fornleifafræðinga.

Þorsteinn Briem, 3.1.2013 kl. 16:57

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þeir eru enn mjög margir sem telja að þeir sem hafi starfað við skemmta fólki séu annars flokks fólk sem ekki megi koma nálægt neinu öðru, af því að hlutverk skemmtikraftsins sé svo auvirðilegt. 

Samkvæmt því var það mikið slys að ég skyldi gert starf í sjónvarpinu sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður að aðalstarfi og ævistarfi og má furðu gegna að menn skyldu láta slíkt hneyksli viðgangast að láta óhæfan aumingja búa þar til dagskrárefni. 

Ég bið þetta fólk, sem lítur svona á, afsökunar á því að hafa ekki áttað mig strax á þessu og bið það líka afsökunar á aumlegu ævistarfi mínu, sem hefði betur verið óunnið. Því miður var bloggið ekki komið á þessum árum og því er ég fyrst að átta mig á þessu nú.  

Ómar Ragnarsson, 3.1.2013 kl. 17:25

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sérkennilegt að líkja úrslitum kosninganna, sem ekki voru þó véfengdar, við ölvaða ökumenn.

Við vorum sem sé öll á því stigi sem fengum þar atkvæði eða hvað?. 

Ef skipun stjórnlagaráðs var ólögleg, af hverju kærði þá enginn þá skipun sem var nákvæmlega eins af hálfu Alþíngis og varðandi skipun fjölda stjórnarskrárnefnda frá lýðveldisstofnun? 

Af hverju var hún eitthvað ólöglegri en sams konar skipanir stjórnarskrárnefnda eftir lýðveldisstofnun? 

Ómar Ragnarsson, 3.1.2013 kl. 17:42

11 identicon

Gunnar @ 16:36

Það er auðvitað ekki í lagi að hunsa lög og reglur, ef t.d. kjörstjórnarmaður verður uppvís að einhverri vitleysu varðandi kosningar þá á auðvitað að taka á því máli með viðeigandi hætti. Um leið verður að líta til þess hvort viðkomandi atburður hafi þau áhrif á heildarmyndina að hún hefði geta breytst ef hann ekki hefði komið til.

Að dæma heila kosningu ógilda vegna þess að einhver einhversstaðar tengdur henni gerir mistök/vitleysu/lögbrot sem engin áhrif gæti hafa haft á heildarniðurstöðuna er náttúrulega á hreinni Íslensku - hálfvitagangur.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 19:16

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að þýski stjórnlagadómstóllinn úrskurðaði að ólöglega hefði verið staðið að kosningum til þings landsins í mörgum umliðnum kosningum.

Í stað þess að úrskurða þessar kosningar ógildar var úrskurðurinn sá að gefinn var tveggja ára frestur til að bæta úr þessum ágöllum. 

Engin dæmi eru til þess á Vesturlöndum að þingkosningar hafi verið dæmdar ógildar og eru þó dæmi um misfellur í þeim.

Sömuleiðis er framkvæmdin víða þannig að íslenskir hæstaréttardómarar fengju líklega áfall og þyrftu á sjúkrabíl að halda ef þeir yrðu vitni að því. 

Ómar Ragnarsson, 3.1.2013 kl. 19:43

14 identicon

Í nýju stjórnarskrána! er búið að samþykkja nýja stjórnarskrá?

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 20:40

15 identicon

Lítill hópur vinstrimanna hefur víst reynt að fá nýja stjórnarskrá í 65 ár. Þetta hefur gersamlega farið framhjá þjóðinni, sem er ánægð með sína stjórnarskrá, sem hefur verið breytt ítrekað, eftir þörfum.

Eftir 65 ár, slysaðist þjóðin, í uppnámi og ekki með sjálfri sér, að kjósa vinstrimenn til valda. Í framhaldinu var valinn lítill hópur umboðslausra bloggara sem átti að sjá um það brýna mál, að skrifa nýja stjórnarskrá, sem þjóðin vissi ekki að þyrfti.

Þrátt fyrir ýmsar hrakfarir, eins og ólöglegar kosningar og algert áhugaleysi þjóðarinnar sem veit ekki að hún þarf nýja stjórnarskrá, hefur þessi harðkjarnibloggara ekki gefist upp, og reynir í örvæntingu öll möguleg og ómöguleg ráð til þess að koma nýju stjórnarskránni sem þjóðin veit ekki að hún þarf, í gegn um Alþingi svona rétt fyrir kosningar, sem þjóðin hefur beðið með óþreyju, svo leiðrétta megi mistökin frá 2009.

Og litla blogglúðrasveitin hótar, hún vælir, hún sífrar, hún ber sig illa og grátbiður. En umfram allt, þá geltir hún að þeim sem dirfist að gagnrýna nýju stjórnarskrána, sem er víst ónýt, búin til af fúskurum sem vilja breyta þjóðfélaginu með handafli, til þess að uppfylla pólitískar þarfir öfgahóps, sem hvort eða er, stefnir að því að við þurfum ekki neina stjórnarskrá, heldur taka upp stjórnarskrá Brussel.

Hvers vegna í andskotanum er þessi vesæli blogghópur að berjast fyrir stjórnarskrá, sem hann stefnir hvort er að því að henda, fyrir stjórnarskrá Brussel?

Hilmar (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 21:52

16 identicon

Sæll Ómar.

Skoðanir annarra á frumvarpinu eru greinilega ekki vel séðar af ykkur ráðsmönnum.  Fyndist þér betra ef þeir sem hafa eitthvað við það að athuga þegðu bara, eða töluðu þvert um hug sér?

Mér finn sitthvað þokkalegt í tillögunum, annað soldið barnalegt og óþarft, sumt vera hrein og klár pólitík í hversdagslegum skilningi, ef mér leyfist að nota þau orð.

Þegar svo kemur að því sem lýtur að sjálfu stjórnarfarinu fer ég hinsvegar  alveg þversum. Skipting valdsins er þar ekki tryggð. Hún er mun betur tryggð í stjórnarskránni með ákvæðum sem ég ýmsir fleiri hafa bent á að aldrei hafa verið í heiðri höfð.

Ef þrískipting valdsins er ekki tryggð er þetta verk að minni hyggju unnið fyrir gíg. Þá breytist ekkert í reynd.  Valdabröltið og flokksræðið mun áfram ríkja og skipta þá litlu tillögur að persónukjöri sem einungis miða að rétti til að hafa áhrif á uppröðun flokksista.

Stjórnarskráin okkar hefur að geyma prýðisgott ákvæði um persónukjör (34.gr.). Ég sé þetta ákvæði ekki jafn opið og skýrt í tillögunum.

Fjölmargt annað er verulega athugavert í þessu frumvarpi, s.s. um þrengri rétt kosningabærra manna um þjóðaratkvæði. Um það mætti hafa langt mál.

Þá eru aðferðirnar við skipan ráðsins ekki hafnar yfir gagnrýni. Að menn hafi á því aðrar skoðanir en stjórnlagaráðsmenn fer bersýnilega í taugarnar á þeim.

Ég hef einsog fleiri sitt hvað við aðferðina í heild að athuga, s.s. að reglurnar um vægi atkvæðanna voru kjósendum framandi.  Ekki hefur nokkur maður orðið á vegi mínum sem hefur getað útskýrt þær á tæmandi hátt.

Einnig má sitt hvað segja um þúsund manna þjóðfundinn. 

Það er kannski einsog að prumpa í fínu matarboði að hafa skoðanir á þessu. Það verður þá bara að hafa það.

Má ég skrifa meira í Mbl. um þetta mál Ómar? 

Ámundi Loftsson (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 22:36

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

22.10.2012:

"Rúmlega 66% þeirra kjósenda [tveir þriðju] sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni síðastliðinn laugardag um tillögur stjórnlagaráðs sögðu já við fyrstu spurningunni á kjörseðlinum og samþykktu þar með að tillögur ráðsins verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Þá sagði meirihluti þeirra kjósenda sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni já við þeim fimm spurningum sem einnig var spurt."

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni greiddu 115.980 manns atkvæði.

Þorsteinn Briem, 3.1.2013 kl. 22:41

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég var ekki að líkja úrslitum skoðanakönnunarinnar við ölvaða ökumenn.

Nú ýlfra stjórnlagaráðsmenn og kvarta yfir því að forsetinn og fleiri komi seint með athugasemdir. Átti forsetinn að blanda sér í þessa vinnu á frumstigum hennar og/eða blandar sér í umræður á Alþingi um málið? Áttu fræðimenn við ríkisstofnanir að skipta sér að vinnu sem þeir voru ekki settir í?

Maður getur rétt ímyndað sér ýlfrið og gargið í Þorvaldi Gylfasyni þá... og það jafnvel með réttu!

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.1.2013 kl. 22:49

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

20.10.2012:

"Eiríkur [Bergmann Einarsson, sem var í Stjórnlagaráði,] telur að til að fá raunhæfan samanburð sé æskilegt að líta til annarra landa.

"Í svona kosningum í löndunum í kringum okkur er kosningaþátttakan um fjórðungur til helmingur."

"Ef einhver vill mótmæla atkvæðagreiðslunni þarf hann að mæta á kjörstað og skila auðu.

Og sá sem ákveður að mæta ekki leyfir öðrum að ráða."

Þorsteinn Briem, 3.1.2013 kl. 22:52

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í þjóðaratkvæðagreiðslu hér á Íslandi um þegnskylduvinnu árið 1916 var kosningaþátttakan 53%, um Sambandslögin árið 1918 44% og um afnám áfengisbanns árið 1933 45%.

Matthías Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins:

"Dagurinn 1. desember 1918 var lokadagur í þeim árangri að Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki."

"43,8% kjósenda greiddu atkvæði [um Sambandslögin 1918]."

Þorsteinn Briem, 3.1.2013 kl. 23:05

21 Smámynd: Sigurður Antonsson

Hjarðhegðun á Wall Street og á Vesturlöndum olli hruninu. Menn fölsuð ársreikninga og ráku ekki fyrirtækin af fullri ábyrgð. Sköpuðu sér bónusa sem ekki var innistæða fyrir. Sama hugsun var upptekin hér gagnrýnislaust. Nú hrópa margir á blóðhefnd og telja það bæta hugarfarið.

Ef ný stjórnarskrá stuðlar að dreifðu valdi og meiri ábyrgð fjöldans er hún framfaraspor. Á upplýsingaöld er krafa um meiri stjórnvísi sem tryggir betur hag almennings. Það tekur einhvern tíma að breyta en breytingarnar koma.

Það er gaman að sjá einn fjölmiðlamann Ómar, sem tekur sig út úr hjörðinni. Berjast fyrir ýmsum málum sem við höfum ekki ígrundað eða hugsað nægilega vel um. Öskurapanir munu halda áfram að öskra en breytingar koma.

Sigurður Antonsson, 3.1.2013 kl. 23:19

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

17.6.2004:

"Svisslendingar, Írar og Frakkar hafa ekki gert lágmarksþátttöku að skilyrði fyrir gildi þjóðaratkvæðagreiðslu."

"Engin skilyrði um lágmarksþátttöku [í þjóðaratkvæðagreiðslum] eru fyrir hendi á Írlandi og raunar má finna dæmi þess frá 1979 að breytingar á stjórnarskrá hafi verið samþykktar í kosningum með innan við 30% þátttöku."

"Franska þjóðin kaus um Maastricht-sáttmálann árið 1992 og árið 2000 var þjóðaratkvæðagreiðsla um styttingu á kjörtímabili forsetans úr sjö árum í fimm.

Engin skilyrði um lágmarksþátttöku voru í þessum kosningum og úrslit kosninganna árið 2000 voru bindandi, þrátt fyrir aðeins um 30% kosningaþátttöku."

Rúmlega 460 þjóðaratkvæðagreiðslur í Evrópu frá 1940

Þorsteinn Briem, 3.1.2013 kl. 23:37

23 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Kosningin um drög að nýrri stjórnarskrá var ekki bindandi kosning, heldur opinber skoðunarkönnun?

Svo var verið að spurja út í örfáar greinar sem eru í þessum drögum að nýrri stjórnarskrá, en ekki allri þessari vangaveltu um hvernig ný stjórnarskrá yrði endanlega.

En auðvitað er það merkilegt að það má ekki benda á gallana á þessu meistaraverki, og frekar en að laga gallana þá á bara keyra þetta áfram og gera þetta að ófullkomni stjórnaskrá landsins.

Af hverju ekki að lækka hraðan á þessu ferli og halda því sem vel var gert og laga það sem er ekki nógu gott. Það liggur ekki svo á að það þurfi að ganga frá þessu fyrir næstu kosningar.

Kveðja frá Las Vegas

Jóhann Kristinsson, 3.1.2013 kl. 23:55

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Niðurstaða talningar atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga:

1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?


Já sögðu
73.408 eða 64,2%."

Þorsteinn Briem, 4.1.2013 kl. 00:55

25 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Úff...! Ómar... Þvílíkt bull...!

Sævar Óli Helgason, 4.1.2013 kl. 01:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband