Gamall "Dreamliner" - Lego-draumur gamlingjans.

Það eru ekki aðeins ungmenni sem eiga sér draum um að láta til sín taka varðandi Legokubba.

Ég á mér 45 ára gamlan draum um að búa til stóra eftirlíkingu af þotu eingöngu úr venjulegum Legókubbum, en til þess þyrfti ég að nota mikið magn af þeim. 

Ástæða þessa er sú að þegar elstu börnin mín voru komin á þann aldur að hafa gaman af því að leika sér með Legokubba gáfum við Helga þeim þá í jólagjöf.

Eins og stundum vill verða bættist pabbinn þó fljótlega í hóp þeirra í fjölskyldunni sem hafði gaman af kubbunum. 

Börnin þrjú, sem þá voru á aldrinum 3ja til 6 ára vildu meðal annars búa til flugvélar og þá fann ég það út, að þeir sem bjuggu þær til, settu þær saman í 90 gráðu skökku plani, þ. e. að setja vélina saman þar sem hún stæði lárétt.

Ég fann það út að bæði skrokk og vængi væri betra að búa til með skrokkinn standandi upp í loft eins og turn og vængina sem veggi út frá turninum.

Síðan væri "flugvélinni" velt fram fyrir sig yfir í lárétta stöðu. 

Þegar ég tók nær alla kubbana og gerði stóra tvær svona vélar urðu systkinin ungu afar ánægð og fóru að fljúga þeim af kappi.

En kappið var oft meira en forsjáin og vélarnar skemmdust eða brotlentu hvað eftir annað, sem kostaði ekki bara sorg barnanna heldur líka kröfur um tímafrekar flugvélaviðgerðir mínar.

Svo fór að þetta flugvirkjastarf varð mér ofviða og lagðist af.

En æ síðan hef ég átt þann draum að fá í hendur nógu marga venjulega Legókubba til þess að búa til mína "Dreamliner"-þotu sem ekki þyrfti að kyrrsetja vegna smíðagalla og skemmdist aldrei.

Churchill sagði við Roosevelt: "Give me the tools and I will finish the job" og stundum hugsa ég um það hvað það væri gaman að fá nóg af Legokubbum í hendur og klára smíði draumaþotunnar.

En líklega þyrfti ég að bæta við: "Give me the time and I will finish the job" og það yrði kannski erfitt að uppfylla þá ósk.  


mbl.is Naustaskóli vann LEGO-keppnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

James May tók góðan snúning á Lego í einum af sínum stórskemmtilegu leikfangaþáttum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 21.1.2013 kl. 02:15

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ótrúlegar Ómars dellur,
allar fyrir neðan hellur,
lærði margt í Legósmíði,
en lúxusrúmið var frá Víði.

Þorsteinn Briem, 21.1.2013 kl. 02:17

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hér er einn sem hefur látið draum sinn rætast:

http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1067989/

Ágúst H Bjarnason, 21.1.2013 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband