Landið sem æpir á mann.

Einhver stærsti hluti þeirrar upplifunar að fljúga þvers og kruss yfir Eþíópíu er að sjá hve miklir möguleikar búa í jarðhita og vatnsafli í landi, þar sem fólk býr almennt við afar frumstæð kjör og mikinn skort á öllu því sem nútíma þjóðfélagi fylgir. 

Eitt stærsta misgengi jarðar gengur frá norðri til suðurs í gegnum landið, og suður af höfuðborginni Addis Ababa sést vel úr lofti landslag, sem er kunnuglegt fyrir Íslending og gefur til kynna möguleika á jarðvarmanýtingu.

Og þarna er líka vatnsafl, því að enda þótt flestar fréttir, sem við fáum frá þessu landi örbirgðar og skorts, séu af þurrkum, er það hálent að stærstum hluta og augljósir möguleikar við vatnsaflsvirkjana.

Á sama tíma er flogið yfir hvert þorpið af fætur öðru þar sem reykur stígur upp úr þúsundum frumstæðra strákofa og fólkið býr við ófrelsi skorts og ofríki einræðislegra stjórnarhátta.

Alræðisvöldin í landinu hafa vit á því að koma sér í mjúkinn við helsta herveldi og risaveldi heims og uppskera frjálsar hendur til að bæla niður allar tilraunir til lýðræðis, enda er það næsta lítils virði hjá sveltandi fólki.  

Náttúra landsins er fjarri því að komast á lista yfir mestu náttúruundur heims eins og hin íslenska náttúra og þar af leiðandi er hægt að nýta orkulindir landsins án þess að valda óhæfilegum óafturkræfum umhverfisspöllum og eyðileggingu náttúruverðmæta.

Þessi þjóð, sem býr yfir svo merkri sögu, alls 80 milljón manns, á betra skilið en að lifa áfram við þau frumstæðu skilyrði og ófrelsi sem skortur og valdníðsla yfirvalda hafa skapað.

Það er gleðiefni ef við Íslendingar getum gert hvort tveggja í senn, eflt okkur sjálfa og vísindalega þekkingu Íslendinga og reynslu um leið og við bætum kjör nauðstaddrar þjóðar.

Hitt er jafnnauðslegt þar og á Íslandi, að þannig sé um hnúta búið að það sé sett sem takmark og skilyrði fyrir nýtingu jarðvarmans, að heildarnýting hans í landinu verði endurnýjanleg til framtíðar og standist kröfur sjálfbærrar þróunar.

En því miður er hið gagnstæða ljótur blettur á umgegni okkar við þessa dýrmætu auðlind.   


mbl.is Vinna að 300 megavatta virkjun í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er nokk viss um að þarna séu umhverfisöfgamenn eins og annars staðar, sem eru tilbúnir eru til að hlekkja sig við vinnuvélar og klifra upp í byggingakrana ef gera á þarna virkjanir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.3.2013 kl. 23:11

2 identicon

Er ekki reynsla okkar aðallega fólgin í arðrænslu Fiskimiða, Hvalastofna, Hveravirkjana, Vatnsagflsvirkjana. Lundakyrkinga. Fíladráps. Og drápum við ekki síðasta Geirfuglinn en dæmdum þann  næstsíðasta  fyrir landráð, vesaling ófleigann. Hvaða  viltu gefa, bakföll , útúrsnúninga, Geysis úlpur.

Siggi á Útlátri (IP-tala skráð) 7.3.2013 kl. 00:01

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Fróðleg lýsing þín á Eþíópíu, Ómar. 

Eiginlega datt mér fyrst í hug að lýsingin gæti vel átt við Ísland árið 1850.

Og í framhaldi af því; eru íbúar Eþíópíu líklegir til þess að  feta í fótspor íslendinga? 

Því má ekki gleyma að það var alfarið að frumkvæði íslendinga sjálfra að kasta af sér okinu og umbreyta samfélaginu.  

Kolbrún Hilmars, 7.3.2013 kl. 15:21

4 identicon

Kolbrún, Það var fyrst og fremst ný stjórnarskrá sem losaði um ok ráðandi innlendra afla á Íslenskri alþýðu á seinni hluta nítjándu aldar.

Sú stjórnarskrá var sett öllum þegnum Danakonungs og hafði það pólitíska markmið að tæla íbúa Schlesvig og Holstein til fylgilags við Danmörku.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 7.3.2013 kl. 19:39

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sínum augum lítur hver á silfrið.

Mér finnst lýsing þín Ómar á aðstæðum þarna syðra merkileg. Ekki get eg tekið undir aths. Gunnars, við erum hvort sem er afar sjaldan ef þá nokkurn tíma sammála.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 7.3.2013 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband