Af hverju var "stjórnarskrármálið tekið af dagskrá" 1851?

1851 var merkilegt ár í sögu landsins. Í kjölfar "hruns", þ. e. uppreisna og byltinga í mörgum löndum í Evrópu 1848, þremur árum fyrr, breiddust áhrif þeirra út víða um lönd. Eitt þeirra var Danmörk þar sem konungurinn varð að afsala sér einvaldinu.

Samin var stjórnarskrá, þar sem tveir tugir fyrstu greinanna fjölluðu um konunginn sem í orði kveðnu hafði völd en var "ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og fól ráðherrum að framkvæmda vald sitt."

Kannast einhverjir við þetta fyrirbrigði og orðalag?

Jú, þetta er enn við líði í stjórnarskrá Íslands 164 árum síðar af því að hún er að grunni til sama stjórnarskráin og gerð var fyrir Danmörku og með öllum þessum greinum um konunginn til þess að blíðka konungsfjölskylduna, nema hvað í stað konungsins kemur forsetinn í þeirri íslensku.

Þótt Alþingi hefði verið stofnsett að nýju þótti rétt að setja Íslandi nýja sérstaka stjórnarskrá. Alþingismönnum var ekki treyst til þess verks, hugsanlega vegna þess að þeir væru vanhæfir til að semja reglur um starfsumhverfi og starf sjálfra sín. Merkilegt.

Efnt var því til sérstakra stjórnlagaþingkosninga, og hlaut stjórnlagaþingið nafnið Þjóðfundur.

Já merkilegt var að þetta skyldi gert, því að Íslendingar voru fátækasta þjóð í Evrópu, bjuggu í torfhúsum í vegalausu og nær hafnlausu og þéttbýlislausu landi.

Með ólíkindum að þjóð, sem bjó við vosbúð og sult skyldi sjá eitthvað gott við slíkt "gæluverkefni" sem kostaði hlutfallslega líkast til hundrað sinnum meira þá en það gerir nú og þörfin fyrir peningana annars staðar hrópandi.

Þegar stjórnlagaþingið hafði starfað rúman mánuð, þótti ráðamönnum landsins stefna í óefni varðandi efni frumvarpsins, sem var verið að vinna að, - að það þyrfti mikilla athugana við og að starfið væri komið í tímaþröng. Kunnuglegt orðalag, ekki satt?

9. ágúst 1851 "var stjórnarskrármálið tekið af dagskrá" fyrir atbeina Trampe greifa. Engin þörf fyrir nýja stjórnarskrá. Hafði sú danska ekki dugað bara furðu vel?

Ekkert gerðist í málinu næstu 23 ár, en 1874 fengu landsmenn "gefins" dansksmíðaða stjórnarskrá úr "föðurhendi" konungs, í grunninn þá dönsku 1849 og enn í dag hefur heildstæð, ný íslensk stjórnarskrá, samin af landsmönnum sjálfum, ekki litið dagsins ljós.  

Enda ku það vera enn óþarfara "gæluverkefni" núna en 1851. Best að geyma það í 162 ár í viðbót, til ársins 2175 og sjá þá til hvort sama sagan endurtaki sig ekki í annað sinn.


mbl.is Stjórnarskrármálið af dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki hægt að umbylta neinu kerfi á forsendum þess kerfis sjálfs. Það liggur í hlutarins eðli að Alþingi er ekki hrifið af því að vera sagt hvað það á að gera.

Þjóðin hefur sett sér stjórnarskrá og nú er það þjóðarinnar að fylgja því eftir.

Ef ekki er hætta á að við þurfum aftur að bíða í 23 ár. Að mínu viti er það ekki nýja stjórnarskráin sem slík sem er svo frábær (þótt ég sé tiltölulega hrifinn af henni) heldur það hvernig var henni staðið, hvernig íslenskur almenningur er að læra að taka stjórnskipunina í eigin hendur. Ef það kemur í ljós að það þarf að laga nýja stjórnarskrá eftir einhver ár eða áratugi þá er það allt í lagi, því þá hefur þjóðin lært hvernig farið er að því að breyta stjórnarskrá. Við þyrftum ekki að bíða í eina og hálfa öld eins og frá seinasta þjóðfundi, við hefðum þekkingu og sjálfstraust til þess að laga eftir þörfum.

Ef allt fer í vaskinn núna er hætt við að það verði þvílíkt trauma fyrir almenning að það muni taka kynslóðir að bæta skaðann.

Halldór Berg (IP-tala skráð) 20.3.2013 kl. 08:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvar sem ég kem erlendis og hitti fólk, dáist það að því hvernig staðið hefur verið að þéssum málum hjá okkur og óskar sér þess að það sé svona hjá því.

Sem er auðvitað eitur í beinum fulltrúa afturhaldsins hjá okkur.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2013 kl. 11:53

3 identicon

Og svo syngjum við "Who´s Trampe now"

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 20.3.2013 kl. 17:08

4 Smámynd: Sigurður Antonsson

Góð áminning að rifja upp söguna. Sagan endurtekur sig ef kjósendur sjá ekki að sér. Stærsti ávinningurinn við hrun er lærdómurinn og síðan breytingar sem koma í veg fyrir nýjar kollsteypur. Bankakreppa í Noregi fyrir aldamót mótaði sín spor, gerði Norðmenn aðhaldsama og varkára. Þeir eru líka meðvitandi um stöðu sína í samfélagi þjóða.

Ef engar breytingar verða á stjórnarskrá mun það setja sitt mark á stjórnmálin næsta kjörtímabil. Enn eru vikur til kosninga og kjósendur munu svara fyrir sig á sinn máta. Í fulltrúalýðræðinu er völd kjósenda afar takmörkuð og kosningaréttur ójafn. Þú hefur tvær mínútur í kjörklefanum og ef þú ert ekki upplýstur um hvað skiptir þig mestu máli getur þú kosið óbreytt ástand.

Íslenskt stjórnleysi er þekkt meðal nágrana okkar og börn og fjölskyldur verða að læra að höndla peninga upp á nýtt. Ekki verðbólguaur heldur alvörumynt. Á stundum verða unglingar að fara í sérskóla til að læra að standa á eigin fótum. Hér eru allir keyrðir að skóladyrum, eða unglingurinn fær bíl frá foreldrum og nær stundum að missa bílprófið á fyrstu 100 dögunum.

Ráðaleysið á Alþingi er dæmigert. Þar vogar sér engin að setja reglur, koma í veg fyrir málþóf eða búa til samnings stjórnmál. Allt skal opið í báða enda. Flóttaleiðir margar eins og hjá refnum. Norðmenn og Danir dást að sundlaugunum og fegurð náttúru en þekkja ekki raunir verðbólgu og verðtryggingar.

Sigurður Antonsson, 20.3.2013 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband