Öðruvísi staða en 1970, því miður.

Það vantaði ekki gyllingarnar fyrir Gljúfurversvirkjun 1970. Hún átti að færa Þingeyingum mikla atvinnu við virkjanaframkvæmdirnar rétt eins og álver við Eyjafjörð og Blönduvirkjun áttu að "bjarga" Eyjafirði og Húnvetningum 20 árum síðar. 

Húnvetningar vöknuðu upp við vondan draum þegar virkjanaframkvæmdum lauk og þeir sem unnu við framkvæmdirnar misstu atvinnuna og fólksflótti brast á.

Og Hrunárin 2008-2011 fækkaði fólki á Austurlandi, þar sem risaálver reis, á sama tíma sem fólki fjölgarði á álverslausu Norðausturlandi.

Þeir, sem beittu "túrbínutrixinu" 1970 til þess að svínbeygja alla undir gerðan hlut, ráku sig á órofa andstöðu landeigendanna sem valta átti yfir.

Af þessu lærðu virkjanamenn. Síðan þá er það fyrsta verkefni virkjanafíklanna að lokka landeigendur til fylgis við virkjanirnar á sem fjölbreyttastan hátt.

Það tókst fyrir austan þótt landeigendur þar þykist nú margir hverjir hafa verið illa svikna. 

Landeigendur Reykjahlíðar hafa lykilaðstöðu í Mývatnssveit. Líkast til er landið, sem þorpið í Reykjahlíð stendur á, hið eina slíka á Íslandi, sem er ekki í almannaeigu heldur landeigandans.

Reykjahlið var lengi talin stærsta bújörð á Íslandi, náði allt norður í Gjástykki, norður fyrir Dettifoss og upp í Vatnajökul.

Landeigendur Reykjahlíðar "eiga" Gjástykki-Leirnjúk, Kröflu, Hrafntinnuhrygg, Bjarnarflag, norðausturströnd Mývatns, Námaskarð, Hveraröndina og Dettifoss.

Kannski einnig ennþá Herðubreiðarlindir og Herðubreið, Öskju og jafnvel Kverkfjöll, þótt þau séu austan við Jökulsá á Fjöllum. Að minnsta kosti stóð deila á tímabili yfir milli þessara óseðjandi landeigenda og nágranna þeirra austan ár um eignarhaldið á skálastæðinu í Kverkfjöllum.

Engin ein bújörð á Íslandi hefur fært landeigendum sínum eins mikil náttúruverðmæti á heimsvísu og Reykjahlíð.  

Grímsstaðir á Fjöllum eru hreinir smámunir miðað við það.  

Landeigendurnir Reykjahlíðar fóru hamförum í þremur Morgunblaðsgreinum í hitteðfyrra í því skyni að heimta virkjun í Gjástykki og andmæla því að svo mikið sem fermetri af svæðinu fyrir norðaustan Mývatn slyppi við það að verða iðnaðar- og mannvirkjasvæði. 

Í græðgisþjóðfélaginu, sem hefur verið fóstrað hér, var þessi hegðun landeigendanna afar skiljanleg, þar sem gróðinn er ekki aðeins trúaratriði, heldur líka að hann fáist sem allra fyrst, helst í gær, skítt með afleiðingarnar fyrir landið, náttúru þess og komandi kynslóðir.

Þeir, sem ætla að sjá um áframhald hernaðarins gegn landinu, sem Laxness skrifaði um árið 1970, eiga því mun auðveldara með það núna en fyrir 43 árum, ekki bara í Mývatnssveit, heldur víðast annars staðar að fá sínu framgengt.

Á Íslandi, eins og í vanþróuðum ríkjum Afríku, kostar aðeins brot af gróða hinna erlendu stóriðjufyrirtækja til að fá landeigendur til fylgis við nánast hvað sem er undir kjörorðinu "take the money and run".  Þess vegna er staðan öðruvísi nú á Laxár-Mývatnssvæðinu en hún var 1970.  

Landeigendunum nægir ekki hvernig Mývatn er nú að komast á válista í kjölfar rúmlega 30 ára starfrækslu Kísiliðjunnar. Nei, þeir geta þess sérstaklega hve mjög þeir sakni hennar og vilji nú verða margfalt stórtækari í háskaleiknum með þetta einstæða samspil lífríkis og jarðmyndana sem vatnið er.

Landeigendurnir beina athyglinni frá gróðafíkn sinni með því að segjast vera að berjast fyrir fleiri störfum í byggðarlaginu. Reynsla Húnvetninga er það ólygnust og þegar framkvæmdum lýkur munu mun færri störf til frambúðar skapast við Bjarnarflagsvirkjun en við Kísiliðjuna, þótt virkjunin sé margfalt stærri framkvæmd.

Hvað ylrækt snertir þarf engin 45-90 megavött til hennar.  

Fyrir um 15 árum var það nefnt af hálfu Íslendinga að Þingvellir og Mývatn kæmust á heimsminjaskrá UNESCO.

Þingvellir komust á skrána um síðir, en heimsminjaskrárhugmyndin um Mývatn með Kísiliðjuna rétt hjá og námavinnslu í vatninu sjálfu vakti vorkunn og aðhlátur.

 

 


mbl.is Landeigendur vilja virkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íbúum fækkaði í sjö sveitarfélögum af níu á Austurlandi árið 2008, samkvæmt Hagstofunni.

Og Landsvirkjun, sem er í eigu ríkisins, hefur þurft að greiða tugi milljarða króna í vexti af erlendum lánum.

Bygging Kárahnjúkavirkjunar var hluti af ofþenslunni hér á Íslandi
og hækkaði laun iðnaðarmanna og byggingaverkamanna hérlendis enn frekar, enda er íslenskur vinnumarkaður í raun agnarsmár.

Við Kárahnjúkavirkjun störfuðu gríðarlega margir útlendingar og þeir fluttu launatekjur sínar að langmestu leyti úr landi.

Og Íslendingar unnu einnig við Kárahnjúkavirkjun.

25.6.2008:

"
Haldi einhver að framkvæmdum sé að mestu lokið við Kárahnjúkavirkjun er það hinn mesti misskilningur.

Lætur nærri að um 700 manns verði þar að störfum í sumar."

"Aðalverktakinn, Impregilo, er enn með um 350 manns á sínum vegum."

Þar að auki unnu allt að 1.800 manns við byggingu álversins í Reyðarfirði frá árinu 2004 til 2007.

Samtök atvinnulífsins í ársbyrjun 2005:


"Það er staðreynd að á atvinnuleysisskrá er ekki að finna iðnlærða byggingamenn, menn með réttindi á stórvirkar vinnuvélar eða vana byggingaverkamenn, þ.e. menn í þeim starfsgreinum sem nauðsynlega þarf til verka við virkjunarframkvæmdir."

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 14:12

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun verður vart undir 146 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum sem Landsvirkjun sendi frá sér í janúar 2008.

Og fyrir þessa upphæð hefði verið hægt að kaupa sex þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu
, miðað við 24,2ja milljóna króna meðalverð á íbúðarhúsnæði á því svæði árið 2006, en í árslok það ár voru 8.260 íbúðir í Hafnarfirði.

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 14:16

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Langtímaskuldir Landsvirkjunar í árslok 2008 voru um þrír milljarðar Bandaríkjadala, um 370 milljarðar króna, andvirði þriggja Kárahnjúkavirkjana.

Vaxtagjöld
Landsvirkjunar árið 2008 voru 178 milljónir Bandaríkjadala, um 22 milljarðar króna.

Og árið 2008 tapaði Landsvirkjun 345 milljónum Bandaríkjadala, um 43 milljörðum króna.

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 14:40

4 identicon

Úrskurðir þjóðlendunefndar hafa verið staðfestir í Hæstarétti svo nú er ljóst að þjóðarfjallið Herðubreið er tryggilega í Þjóðareigu en ekki í eigu þessa einkahlutafélags sem skráð er að Lágmúla 5, 108 Reykjavík.

Það er reyndar merkilegt að Laxárvirkjun var til heimilis á Akureyri, Kröfluvirkjun við Háleitisbraut í Reykjavík og Landeigendafélag Reykjahlíðar við Lágmúlann í Reykjavík.

Í bréfi Landeigendafélagsins er sagt að gufuvirkjunin í Bjarnarflagi "hafi verið ein sú fyrst í veröldinni" !

-Þó svo að fullvíst geti talist að Mývetningar hafi á stundum á heimsmeistara í Íslenskri Glímu! -Þá voru Japanir, Ítalir, Nýsjálendingar og Kanar langt á undan okkur í jarðgufuvirkjunum og hafa fengið að bragða á ofnýtingu og afleiðingum hennar.

Það er reyndar merkilegur rembingur þegar forsetinn hamast á forustuhlutverki Ísl í jarðvarmageiranum. Við notum Japanskar túrbínur, Ameríska bora og loka og stýringar hvaðanæfa að frá lengra komnum.

Íslendingar voru hinsvegar í fararbroddi í hitaveituvæðingu þó svo að ekki eigum við þá elstu.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 14:56

5 Smámynd: Stefán Stefánsson

Ómar, ert þú með einhverjar upplýsingar sem enginn annar hefur séð þar sem þú gefur í skyn að Kísilyðjan sé orsakavaldur hnignunar í Mývatni?

Þrátt fyrir áratuga rannsóknir kom ekkert fram sem tengir kísilgúrnámið og hnignunina saman.

Hefurðu aldrei heirt talað um náttúrulegar sveiflur?

Þú myndir eflaust uppnefna mig sem virkjunarfíkil og verður bara að eiga það við þig sjálfan, en hvað ert þú þá.

Stefán Stefánsson, 31.5.2013 kl. 15:30

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Góð grein Ómar og góðar aths.

Varðandi fyrstu heitaveituna á Íslandi má vísa á tilraun Stefáns Bjarna Jónssonar bónda á Suður-Reykjum í Mosfellssveit. Hann lagði járnpípu um 1100 metra leið úr hver í landi sínu og í íbúðarhúsið. Þetta gerðist sumarið 1908 og tókst með ágætum og er talið vera fyrsta hitaveitan á Íslandi.

Nýjustu borar Jarðborana eru ítalskir það best eg veit.

Varðandi heimildir um Kísiliðjuna sem starfaði í Mývatnssveit þá má vísa í Árbók Ferðafélags Íslands frá 2006 eftir Jón Gauta Jónsson. Heimild hans er ritgerð um Kísiliðjuna eftir Guðna Halldórsson sem birtist í Árbók Þingeyinga 2004. Einnig fjallar vísindamaðurinn Jón Ólafsson um áhrifin í Náttúru Mývatns sem út kom 1991 í tilefni af 100 ára afmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags. Kísiliðjan olli gríðarlegum deilum í Mývatnssveit og sýndist sitt hverjum.

Varðandi stöðu umhverfismála þá vil eg vísa í viðtal við Kristínu Völu Ragnarsdóttur prófessor í jarðvísindum sem birtist í DV núna í dag. Þar er hún ekki að skafa af hlutunum og telur núverandi stjórnvöld allt að því gengin af göflunum. Þess má geta að faðir hennar var áður einn helsti talsmaður áliðnaðar á Íslandi en hann var fyrsti forstjóri ÍSAL í Straumsvík, Ragnar Halldórsson sem gárungarnir nefndu álskalla í háðungarskyni á sínum tíma, nokkuð sem ekki er til fyrirmyndar.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 31.5.2013 kl. 17:10

7 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Blanda framfleytir um 50 manns beint og óbeint samkvæmt rammaáætlunarskýrslu frá 1996. Fólki fækkaði í Húnaþingi vegna niðurskurði í kvóta til landsog sjávar.  Ekki vegna Blönduvirkjunnar.

Þú segir að fjölgun hafi orðið á Norðausturlandi, er það ekki svo til eingöngu á Akureyrarsvæðinu?  Ég flutti frá Egilsstöðum til Akureyrar á þessum tíma, það er kanski skýringin

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 31.5.2013 kl. 17:33

8 Smámynd: Marteinn Sigurþór Arilíusson

Ykkur öfgamönnum sem endalaust talið niður störf þúsunda manna væri nær að skammast ykkar.

Marteinn Sigurþór Arilíusson, 31.5.2013 kl. 19:48

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Áhrif kísilgúrvinnslu á fæðukeðju Mývatns:

Ferskt set myndar undirstöðu fæðukeðjunnar í Mývatni.


Vatnið er grunnt og í stormi gruggast mikið af slíku efni upp og berst um vatnið með straumum. Efsta lag botnsins er því mjög hreyfanlegt.

Botninn er flatur og gruggið sest því nokkuð jafnt til um allt vatnið þegar vindinn lægir. Setið gagnast því lífverum hvarvetna í Mývatni.

Þegar gryfja er gerð í vatnsbotninn hefur setið tilhneigingu til að safnast í hana og nýtist ekki lífríki vatnsins.

Í Ytriflóa, þar sem botnsetinu er dælt nú, hefur botngerðin breyst.

Nýmyndað set skolast sífellt af grynnri svæðum út á hin dýpkuðu en þyngsta setið, þ.e. sandur, situr eftir. Því er nú sandlag á botninum þar sem leðjubotn var áður.

Ef dælt yrði úr Syðriflóa hefði það líklega víðtæk áhrif á lífríki alls vatnsins."

  Fæðukeðja Mývatns

Fleiri skýringarmyndir


Áhrif kísilgúrvinnslu á fæðukeðju Mývatns

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 20:04

10 identicon

Á upplýsingaveitunni "Jarðstrengir" er að finna þessa merkilegu mynd sem sýnir þróun raforkuframleiðslu og íbúaþróunar í dreifbýli.

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=329106293882320&set=pb.303274063132210.-2207520000.1370034379.&type=3&theater

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband