Þarf "Höfuðborgarlistinn" að koma fram?

Margt gott er að segja um nýtt aðalskipulag Reykjavíkur og um allan heim reyna menn það, sem þarna á að reyna, að gera byggðina þéttari. 

Reynslan af þéttingu byggðar á að vera sú að ungt fólk vilji eiga heima sem næst miðju borgarsamfélagsins, miðjum byggðar og atvinnustarfsemi.  

En ekkert verk verður betra en forsendur þess og það eru augljósir vankantar á því að gera aðalskipulag fyrir aðeins rúman helming íbúa á höfuðborgarsvæðinu og taka ekki hinn helminginn með í reikninginn.

Þannig ætti að gera eitt aðalskipulag fyrir allt svæðið að mínum dómi og miða til dæmis við miðju byggðar og miðju atvinnustarfsemi á öllu svæðinu en ekki bara Reykjavíkur einnar.

Þá grunar mig að koma myndi í ljós að vaxandi atvinnustarfsemi í Smárahverfinu í Kópavogi og víðar myndi breyta forsendunum talsvert, en Smárahverfið er nær stærstu krossgötum landsins heldur en Vatnsmýri og gamli miðbær Reykjavíkur, fyrst menn eru að tala um að þétta byggð inn við miðjur íbúðabyggðar og atvinnustarfsemi.

Reynslan af þéttingunni við Skúlagötu er sú að þar er húsnæði svo dýrt að ungt fólk sést þar varla.

Í þau skipti sem ég er þar á ferð sé ég engin börn, ekkert líf.

Hætta er á því að svipað myndi gerast í íbúðabyggð á núverandi flugvallarsvæði og að afleiðingin verði öfug við ætlunina, það er, að unga fólkið telji sig þurfa að fara í úthverfin, eða öllu heldur til nágrannasveitarfélaganna.

Þetta yrði hugsanlega "fínt" hverfi eins og Skúlagatan er, enda eru miðjur byggðar og atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu fyrir löngu komin svo langt frá gamla miðbænum, að hverfi í Elliðavogi og nálægt stærstu krossgötum landsins þar í grennd, eru nær þeim.   

Ég fékk ekki svar við spurningum mínum um það hvar þessar miðjur byggðar og atvinnu væru á höfuðborgarsvæðinu og skil ekki hvernig menn geta komist hjá því að finna þær og skilgreina fyrst, áður en farið er af stað með aðalskipulag.

Alveg ný rök heyrðust frá þremur borgarfulltrúum varðandi innanlandsflug og staðsetningu aðalflugvallarins fyrir það.

Ein voru þau að það myndi menga minna þótt allir ækju á einkabílum sínum milli Akureyrar og Reykjavíkur í stað þess að fljúga. 

Frábært! Förum nú aftur til tíma siglinganna og mengum minna með því að fara með skipum til útlanda heldur en að fljúga !  

Önnur voru þau að það myndi spara mikil opinber útgjöld til flugmála ef innanlandsflugið legðist af.

Betra væri að verja þeim peningum til heilbrigðis- og menntamála.  

Hin þriðju voru þau að nú væri líklega að koma nýjung til sögunnar sem gæti tekið við af innanlandsfluginu, ferðir strætisvagna Reykjavíkur milli Akureyrar og Reykjavíkur!

 Ég ferðaðist með strætó frá Hvolsvelli fyrir nokkrum dögum og sá ekki að neitt hefði breyst frá því að Sterna var með fastar áætlunarferðir á þessari leið annað en það að nú voru þessir örfáu farþegar í miklu stærri og eyðslufrekari rútu !

Og ekki sýndist mér að hraðar væri farið yfir eða á þægilegri hátt þótt eigandinn væri Reykjavíkurborg!

Í útreikningnum um sparnaðinn við það, að allir ækju á milli Akureyrar og Reykjavíkur var ekki minnst á það að hálf milljón farþega í innanlandsflugi myndu samtals missa um 2-3 milljónir vinnustunda í ferðalögin en það gerir um 3-4 milljarða króna.

Sagt var að flugvöllurinn þyrfti ekki að vera eins nálægt spítala og nú er og sagt að staðsetning sjúkraflugsins á Akureyri styddi það að það gæti vel verið þetta fjarri.

Þarna er um kostulegan misskilning að ræða, því að gildi sjúkraflugsins fyrir fólk úti á landi felst í því að sjúkraflugvélarnar séu sem næst sjúklingunum, sem flytja þarf frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, ekki öfugt !  

Sagt var að nálægð spitalans við flugvöllinn skipti mun minna máli en það að færir læknar og sjúkralið væru nálægir úti á landi þegar þörfin krefði. Það væri aðalatriðið, ekki tíminn sem tæki að flytja sjúklinginn.

Ég á eftir að sjá að hægt, bæði hvað snertir að fá í það mannskap og að fá í það fjármagn að hægt sé að vinna tímamuninn upp með því að auka svo viðbúnaðinn með læknum og færu sjúkraliði út um allt til að vinna það upp.

Þetta stangast á við það sem læknar sjálfir og sjúklingar hafa sagt.  

Ég verð að játa, að ég undraðist þá hugsun, sem þarna kom fram. Vitað er að flugið í heiminum stendur aðeins fyrir um 10% af loftmengun af völdum samgangna og að það er hinn hversdagslegi akstur hundraða milljóna manns á hverjum degi  sem er megin vandamálið.

Sama á við á Íslandi. Akstur 200 þúsund bíla á hverjum degi er viðfangsefnið og með ólíkindum að telja það lausn á því vandamáli að leggja niður innanlands einn af þremur þáttum nútímasamgangna, sem eru landsamgöngur, samgöngur á sjó og samgöngur í lofti.

Ef svo fer fram sem horfir að þessi sjálfhverfa hugsun og afturför í samgöngumálum þjóðarinnar eigi að ráða ríkjum hjá ráðamönnum fæðingarborgar minnar er mér öllum lokið.

Það eru hins vegar borgarstjórnarkosningar á næsta ári og þá verður kannski grundvöllur fyrir framboð þeirra borgarbúa, sem líta ekki aðeins með stolti á það að vera Reykvíkingar, heldur ekki síður með stolti á það að vera Íslendingar sem búa í höfuðborg, sem stendur undir nafni.

Í mínum huga er hún ekki bara borgin mín heldur borg allra landsmanna.     


mbl.is Engin ný úthverfi á aðalskipulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar, ertu í alvöru að gera að því skóna að þétting byggðar sé ekki æskileg? Hversu langt ertu til í að ganga til að tryggja "frúnni" stað í miðborginni?

Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 30.5.2013 kl. 21:49

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um eitt hundrað stúdentaíbúðir, Skuggagarðar, eru við Lindargötu skammt frá Skúlagötunni.

Á Vatnsmýrarsvæðinu eru nú þegar fjölmargir stúdentagarðar
og þar er nú verið að reisa stúdentagarða við Sæmundargötu með um þrjú hundruð íbúðum fyrir pör og einstaklinga.

"Biðlistinn eftir leiguíbúðum er langur en eftir úthlutun í ágúst 2012 voru yfir þúsund manns á biðlista eftir húsnæði á stúdentagörðum."

Og á stúdentagörðunum búa nú rúmlega eitt þúsund manns.

25.4.2013:

Stúdentagarðar við Sæmundargötu verða tilbúnir nú í sumar


Húsnæði Stúdentagarða "er af ýmsum stærðum og gerðum, einstaklingsherbergi og íbúðir, tvíbýli, paríbúðir og tveggja, þriggja og fjögurra herbergja fjölskylduíbúðir.

Garðarnir eru Gamli garður, Skerjagarður, Hjónagarðar, Vetrargarður, Skuggagarðar, Ásgarðahverfið og Skógargarðar í Fossvogi í Reykjavík."

Staðsetning stúdentagarða


Litlar íbúðir verða byggðar til dæmis á svæði við
Umferðarmiðstöðina á Vatnsmýrarsvæðinu og við Gömlu höfnina í Reykjavík.

Og að sjálfsögðu getur ungt fólk einnig keypt litlar íbúðir annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, til að mynda í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 30.5.2013 kl. 22:43

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í póstnúmerum 101, 107 og 105 (Hlíðum og Túnum) í Reykjavík eru rúmlega fjörutíu þúsund íbúar og á Seltjarnarnesi um 4.400 íbúar.

Vestan Kringlumýrarbrautar eru því samtals um 44.500 íbúar.


Í Reykjavík búa nú 120 þúsund manns og ef Reykjavík og Seltjarnarnes væru eitt bæjarfélag byggju þannig um 37% íbúanna vestan Kringlumýrarbrautar, sem er í raun vesturhluti eða Vesturbær Reykjavíkur.

Hins vegar starfar mun fleira fólk vestan Kringlumýrarbrautar en austan hennar og því er mikilvægt er að þétta byggðina vestan við hana
, þannig að fólk geti búið nálægt sínum vinnustað og geti því auðveldlega gengið þangað eða hjólað.

Þannig sparast mikill kostnaður vegna til að mynda bensín- og bílakaupa, götur slitna minna og mengun vegna bílaumferðar verður mun minni en ella.

Á svæðinu frá Gömlu höfninni í Reykjavík að Nauthólsvík er fjöldinn allur af stórum vinnustöðum, til að mynda Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Landspítalinn, Hótel Loftleiðir (Reykjavík Natura) og fleiri hótel, Umferðarmiðstöðin, Norræna húsið, Íslensk erfðagreining, Þjóðminjasafnið, Ráðhúsið og Alþingi.

Þar að auki til dæmis Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Stjórnarráðið, Seðlabankinn og fleiri bankar, Þjóðleikhúsið, Þjóðmenningarhúsið, Hæstiréttur, Héraðsdómur Reykjavikur, Borgarbókasafnið, Tollstjórinn, Kolaportið, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands, og tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.

Þorsteinn Briem, 30.5.2013 kl. 23:46

4 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Það er ömurlegt að hlusta á þig Steini BRIEM, svo ömurlegt að ég er kjaftstopp!!Skelfing er orðið lítið pláss á Íslandi, ykkur Mýrarnösunum er víst fjandans sama um landsbyggðafólkið sem heldur í ykkur líftórunni, !!!!!!!!!!!!!!!!Það verður aldrei byggt í vatnsmýrinni!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 31.5.2013 kl. 00:14

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hóf pistilinn, Anna, á því að segja að ég væri hlynntur þéttingu byggðar í Reykjavík og til dæmis eru Elliðaárvogurinn og nágrenni tilvalin til þess eins og gert er ráð fyrir af því að þar nálægt er miðja byggðar í Reykjavík.

TF-FRÚ hefur hins vegar verið úti á landi síðustu rúmlega þrjú ár svo að ég sé ekki hvað hún kemur Reykjavíkurflugvelli við.

Ómar Ragnarsson, 31.5.2013 kl. 00:18

6 identicon

Vatnsmýrin, flugvöllurinn, Tjörnin og Höfnin er hjarta Reykjvíkur. Hverfi flugvöllurinn þá deyr Vatnsmýrin og þar með Tjörnin.

Sjálfsagt verður ekki langt að bíða að einhver mannvitsbrekkan bendi á hvað hægt væri að fá margar krónur og spara marga hjólbarða með því að byggja í Tjörninni!

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 00:32

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eyjólfur G Svavarsson,

Ég hef búið í öllum kjördæmum landsins.


Hef til að mynda búið í Hlíð í Skíðadal, sem nú er í Dalvíkurbyggð, á Akureyri, í Reykholti í Borgarfirði, á Seltjarnarnesi, í 101, 107 og 108 Reykjavík, í Hnífsdal og Grindavík.

Unnið til dæmis í sveit, í verksmiðjunum á Akureyri, frystihúsi, saltfiski, rækjuverksmiðju og verið sjómaður á línubátum, netabátum og togara.

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 00:42

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

7.10.2011:

"Landspítalinn er mikilvægur hlekkur í þeim þekkingarklasa sem hefur myndast við Vatnsmýrina.

Nálægð við Háskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur, hús Íslenskrar erfðagreiningar og fyrirhugaða Vísindagarða styrkir þekkingarmiðju borgarinnar á þessu svæði.


Svæðið liggur upp við Miklubraut sem er aðalsamgönguæð borgarinnar en liggur einnig vel við öðrum mikilvægum umferðaræðum eins og Hringbraut, Bústaðavegi og Snorrabraut.

Kannanir sýna að helmingur núverandi starfsmanna Landspítalans býr í innan við 14 mínútna hjólafjarlægð í vinnuna og fjórðungur starfsmanna býr í innan við 14 mínútna göngufjarlægð.

Þarna er langtímastaðsetningin farin að móta rétt búsetumynstur, þar sem fólk býr nálægt vinnustað en keyrir ekki borgarenda á milli.

Þetta eru mikilvæg verðmæti í borgarsamfélaginu sem ber að varðveita. Þar fyrir utan starfa á annað hundrað starfsmenn spítalans einnig við kennslu og rannsóknir í Háskóla Íslands."

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 00:52

9 identicon

Vandamálið er að of stór hluti íbúanna starfar vestan Kringluýrarbrautar. Lausnin á því er að byggja upp öflugan atvinnukjarna austar í borginni. Ekki að flytja íbúana vestur eftir nesinu. Íbúar í austurhluta borgarinnar og nágrannasveitarfélögunum hafa alveg jafn mikinn áhuga og rétt til að hjóla í vinnuna og þeir sem búa vestan Kringlumýrarbrautar. Þau svæði eru um flest betur fallin til borgarbyggðar frá náttúrunnar hendi heldur en útnesið þar sem byggðin á upptök sín og þar mun fólk alltaf vilja búa.

Kópavogur las rétt í þróunina með því að bjóða fram land undir atvinnustarfsemi á svæðinu í kring þar sem nú er Smáralind. Sjálft skipulag svæðisins er hins vegar afleitt en það er önnur saga. Reykjavík á mikið af illa nýttu landi í kringum Elliðaárósa (Höfðahverfið, Geirsnef og Vogar) sem rétt væri að skipuleggja sem atvinnukjarna og hafa þar borgarbrag (ólíkt svæðinu í kringum Smáralind). Þar má hæglega hafa íbúðabyggð í bland.

Atvinnukjarni á þessum stað þýðir að mun stærri hluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur styttri vegalengd að fara til vinnu sinnar, þarf að eyða minni tíma í akstur og á þess kost að nota reiðhjôl í auknum mæli.

SG (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 01:11

10 identicon

Steini Briem

Hefur verið kannað hve stór hluti starfsfólks Landspítalans myndi búa inna við 14 mínútna hjóla- og göngufjarlægðar frá vinnustaðnum ef spítalinn væri við Elliðaárósa?

Ef staðreyndin er sú að starfsfólk Landspítalans hefur neyðst til að flytja sig vestur eftir gamla nesinu til að eiga auðveldara með að komast til vinnu (sem liggur þó engan vegin fyrir að sé rétt fullyrðing) þá væri það merki þess að "langtímastaðsetning" spítalans við Hringbraut hefði haft RÖNG áhrif á búsetumynstur.

Fólk á ekki að þurfa að neita sér um þau lífsgæð að búa þar sem því finnst gott að búa vegna þess að þau sem ráða skipulagsmálum geri fólki erfitt um vik með að komast til og frá vinnu og sækja þjônustu.

SG (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 01:28

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

SG,

Fólki er í sjálfsvald sett hvar það býr og starfar á höfuðborgarsvæðinu.

Þannig getur fólk sem starfar á Landspítalanum búið til dæmis í Breiðholtinu.

Hins vegar er mun hagkvæmara að það búi sem næst Landspítalanum, meðal annars til að spara innflutning á bensíni, minnka mengun og viðhald á gatnakerfinu.

Í mörgum tilfellum er engin ástæða til að vera með tvo eða jafnvel fleiri bíla á heimili þegar fólk starfar eða er í skóla nálægt heimilinu.

Og árlegur rekstarkostnaður einkabíls er rúmlega ein milljón króna, meiri en tíu milljónir króna á tíu árum, samkvæmt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Þessi sparnaður getur komið á móti kostnaði við kaup á dýrara húsnæði nálægt Landspítalanum en til að mynda í Breiðholtinu.

Og gott fyrir heilsuna að ganga eða hjóla í vinnuna.


Rekstrarkostnaður bifreiða - Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB)

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 02:22

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

30.5.2013 (í gær):

"Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar verður samþykkt úr borgarstjórn og sett í auglýsingu í næstu viku.

Einhugur er um málið í borgarstjórn
, enda hafa allir flokkar komið að skipulagsvinnunni."

Aðalskipulag Reykjavíkurborgar klárað í sátt í næstu viku

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 03:13

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

78. gr. Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.

Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir."

Stjórnarskrá Íslands

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 04:31

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

11.7.2012:

"Reykjavíkurborg fer með skipulagsvald á flugvallarsvæðinu og það verður innanríkisráðherra að virða eins og aðrir."

Þetta segir formaður borgarráðs sem telur að áætlanir um íbúðabyggð í Vatnsmýrinni standist og flugvöllurinn verði farinn þaðan árið 2024."

Segir innanríkisráðherra þurfa að virða skipulagsvald Reykjavíkur

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 04:36

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.11.2012:

"Íslendingar eru feitastir Norðurlandaþjóða og offita meðal fullorðinna er rúmlega tvisvar sinnum algengari hér á landi en í Noregi.
"

"Svíar og Finnar reyndust hreyfa sig mest samkvæmt könnuninni og er hlutfall þeirra sem uppfylla ráðleggingar um lágmarkshreyfingu þar um 70 prósent.

Hér á landi er þetta hlutfall um 65 prósent. Hlutfall þeirra sem stunda enga hreyfingu er hæst á Íslandi, um 14 prósent, en lægst í Finnlandi (8 prósent) og Svíþjóð (9 prósent).


Karlar eru líklegri til að stunda enga hreyfingu en konur.
Yngstu aldurshóparnir hreyfa sig mest.
"

Af hverju eru Íslendingar feitastir?

Þorsteinn Briem, 31.5.2013 kl. 05:47

17 identicon

Steini Bíem, hvar býrð þú? Hvar vinnur þú og hvernig ferð þú i og frá vinnu?  Áttu börn og hvernig er þeim komið í og frá skóla? Ein mestu vandræði okkar í dag er að við viljum helst geta labbað sem skemmst frá bíl til áfangastaðar, hvort heldue er vinnu stað eða verslun, sjáðu í kringum opinberfyrirtæki og  banka lítið um bílastæði vegna þess að starfsfólkið er komið, N:B: þetta á sérstaklega við um miðbæinn sem er orðin sæmilega vel þéttur. Ef við lítum til stórverslana þá er það vaninn að eyða tíma í að leita eftir stæði sem næst inngangi frekar en að labba kannski 200 metra. Hefurðu komið að skóla að morgni, þá eru alvarlegar umferðateppur því við viljum geta skutlað börnunum sem næst skóla, þau mega helst ekki ganga, það er vandamálið.  Annað ég bjó í miðbænum sem barn og unglingur og það er mikils skemmd sem hefur orðið á Vatnsmýrinni á sýðustu 30 árum, hún hófst með byggingu Norræna hússins og hefur haldið áfram fram á daginn í dag, alltaf þrengt að vatnasvæði Vatnsmýrarinnar og það hefur haft stór áhrif á líf fugla á svæðinu.

Kjartan (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 08:48

18 identicon

Steini Biem

Þú svarar ekki spurningunni. Myndi lægra hlutfall starfsfólks Landspítalans búa í göngu og hjólafæri ef spítalinn væri við Elliðaárósa?

Þú segir: "Hins vegar er mun hagkvæmara að [stafsfólkið] búi sem næst Landspítalanum". Um það er ekki deilt. Þess vegna á nýr spítali að rísa sem næst íbúamiðju svæðisins.

Ég er þeirrar skoðunar að skipulagið eigi að taka mið af þörfum fólksins og byggja eigi upp atvinnukjarna sem næst íbúamiðju svæðisins. Atvinnustarfsemin verði færð til fólksins en ekki að fólkið neyðist til að flytja sig að henni.

SG (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 10:00

19 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

st.br.hefur búið víða, meðal annars á tunglinu og inn við sundin.En oftast sést hann í Vesturbænum, í Sörlaskjólinu.

Sigurgeir Jónsson, 31.5.2013 kl. 12:01

20 identicon

Ómar hittir naglann á höfuðið...

Annað sem menn virðast ekki hafa áttað sig á er að Vatnsmýrin er dýrasta byggingarland á höfuðborgarsvæðinu.

Það er upplýsandi t.d. að bera saman söluverð á íbúð í nýju húsi við Mýrargötu þar sem fermetraverð er 473.000 og hinsvegar sambærilega íbúð í nýju húsi við Friggjarbrunn þar sem fermetraverð er 297.000!!

Er einhver sem sér fyrir sér nýútskrifaðan hjúkrunarfræðing sem ætlar að vinna á LSH festa sér kaup á miðlungsstórri blokkaríbúð á 40 milljónir?!? Eða 2 herbergja íbúð í Vatnsmýrinni á sama verði og 4 herbergja íbúð kostar í úthverfi?!?

Og ef einhver ímyndar sér að það verði ódýrara að byggja í Vatnsmýrinni heldur en á Mýrargötunni þá ætti sá sami að hafa það í huga að Reykjavíkurborg þarf að kaupa landið af ríkinu við nægjanlega verði að það dugi til að færa flugvölinn...varla undir 20 milljörðum.

Enda hlæja bæjarstjórar nágrannasveitarfélagana núna í laumi og skipuleggja flóttamannahverfin við Elliðavatn og Ásvelli. Það blasir við í nýjum drögum að aðalskipulagi Reykjavikurborgar að borgin mun gera dýra (..og misheppnaða) tilraun til að þrengjast...en höfuðborgarsvæðið?....það mun dreifast.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 12:55

21 identicon

Bjóði "Flugvallarflokkurinn" fram í næstu kosningum þá skal ég kjósa hann

hann þarf bara að hafa eitt stefnumál - halda flugvellinum óbreyttum

Grímur (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 13:51

22 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Var spurt hve langt makar þeirra sem vinna á Lansanum þurfa að fara í vinnu?

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 31.5.2013 kl. 17:11

23 identicon

Hvað eru margar tómar og hálfkláraðar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í dag? Hvað er pláss fyrir mikið í þeim hverfum til viðbótar? Hvað er mikið ónýtt pláss á Reykjanesinu? Hver er fjölgun landsmanna í dag? Hvaðan á sá mannskapur að koma sem bara fyllir Vatnsmýrina si svona? Ef sá mannskapur er nýr, hvaða störf verða í boði? Hvaðan koma peningar nægjanlegir til að vippa flugvellinum eitthvað annað? Er Reykjavík höfuðborg allra landsmanna, eða hefur það gleymst eins og hjá Rómverjum?
Er von að maður spyrji....

Jón Logi (IP-tala skráð) 3.6.2013 kl. 07:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband