Þegar hernaðartækni gagnast friðsamlega.

Það er þekkt fyrirbæri og nöturlegt hve oft það hefur gerst að tækniframfarir í hernaði hafa flýtt fyrir framförum í friðsamlegum tilgangi.

Í báðum heimsstyrjöldunum urðu mjög hraðar framfarir í smíði flugvéla sem flýttu fyrir framförum í friðsamlegu farþegaflugi. Hugsanlega hefði sú bylting, sem  farþegaþotur ollu, orðið áratug síðar ef nauðsyn stríðsþjóða til að verða ekki eftirbátar óvinnanna hefði ekki knúið framfarirnar áfram.

Hugsunin á bak við framleiðslu kjarnorkusprengjunnar var sú sama og þegar menn eru vopnaðir byssum og telja sig tilneydda til að verða fyrri til að beita þeim gagnvart andstæðingnum, því að annars verði þeir skotnir sjálfir.

"Annað hvort að drepa eða verða drepinn."

Réttlæting árásanna á Hiroshima og Nagasaki var að mun fleiri mannslífum yrði þyrmt með því að sleppa við innrás í Japan með gamla laginu en var fórnað í þessum árásum.

Margt bendir þó til þess að þessi réttlæting hafi verið hæpin í meira lagi en beislun kjarnorkunnar varð áreiðanlega 10-20 árum fyrr en ella og þar með notkun kjarorkunnar til orkuframleiðslu.

Mörg gögn benda til þess að notkun þóríums til kjarnorkuframleiðslu í stað úraníums sé margfalt umhverfisvænni og sú spurning hefur vaknað, hvers vegna þetta sé ekki gert.

Líklegasta svarið og jafnframt það dapurlegasta er að notkun þóríums gefur enga möguleika á því að búa til kjarnorkuvopn. Það er hart ef hrein hernaðarhyggja stendur í vegi fyrir framförum.

Orðið flygildi hefur hingað til þýtt hvers kyns loftför, stór eða smá, en er kannski ágæt lausn á deilum um heppilegt heiti fyrir fyrirbærið "drone".

Mér leist vel á orðið mannleysa, en það orð þýðir upphaflega slæman mann, og er því með sama gallann um tvíræðni og orðið flygildi.

Eins manns fis mitt, "Skaftið", hef ég oft kallað flygildi, en ef það orð verður tekið til brúks fyrir orðið "drone" má vel vera að sættast verði á þá lausn og þrengja merkingu orðsins flygildi.

Hvað um það, - úr því að hægt er að nota flygildi til að finna skotmörk og gera loftárásir á mannvirki, hernaðartæki og óvini, er auðvitað hægt að nota þau við leit og björgun.

2010 tók ég myndir af Dana nokkrum sem notaði mannleysu, mannlausa smáþyrlu, við myndatökur hjá hótel Rangá og hreifst af.

Reyndi að koma þessu á framfæri við fjölmiðil en fékk ekki hljómgrunn. Áttaði mig reyndar ekki þá á því gildi sem þetta gæti haft við ákveðin skilyrði við leit og björgun, en það er augljós munur á því að nota mannaða flugvél eða dýra þyrlu, langt að komna, heldur en lítið handhægt flygildi.

Skipti svo sem ekki máli hvað snerti notkun tækisins sem leikfangs eða kvikmyndatökutækis, því að það hlaut að koma að því hvort eð var að augu manna lykjust upp fyrir því gagni sem af þessari tækni má hafa.

Verra er ef seinkun í þessu efni kostar mannslíf.  


mbl.is Flygildin leita að týndu fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þar sem orðið mannleysa er enn í fullu brúki í upprunalegu merkingunni er ruglandi og raunar alger tilgangsleysa að gefa því ágæta orði allt aðra og óskylda merkingu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.12.2013 kl. 12:42

2 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Sæll Ómar, gleðilega hátíð og takk fyrir athyglina.

Nafnorðið "Drone" þýðir upphaflega karlkyns hunangsbýfluga. Notkun þess sem safnheiti yfir mannlaus hernaðarloftför hefur leitt til þess að það er orðið mjög gildishlaðið í neikvæðri merkingu. Þess vegna er ekki lengur hægt að nota það án þess að það leiði huga viðmælandans að hernaði og ógnum. Íslensk mynd þess "Dróni" fer reyndar alveg ljómandi í munni og fellur vel að málinu en eins og áður segir þá er það varla nothæft lengur um annað en hernaðartól.

Verkefnið okkar, sem vann samkeppnina um Gulleggið, hét "SARdrones" en þegar við stofnuðum fyrirtæki til þess að halda verkefninu áfram þá fundum því nýtt og hentugra nafn, meðal annars af þessari ástæðu.

Við hjá SAReye höfum valið að nota safnheitið "flygildi" um hvers konar fljúgandi tæki sem nýtast mega til loftmyndatöku við leit og björgun. Ef annað og betra nafn kemur fram þá má alveg skoða það en nafnið "flygildi" hentar ágætlega um það sem við erum að fást við.

Verkefnið okkar er ekki bundið við mannlaus loftför. Það er þegar farið að gera tilraunir með notkun ýmiss konar mannaðra loftfara við leit og björgun á Íslandi. Fisflugvélar hafa nýst vel í nokkrum björgunaraðgerðum og söfnun loftmynda með leitarloftförum getur aukið leitarhæfnina verulega ef til eru ferli og aðferðir sem gera úrvinnsluna skilvirka. Þetta er í hnotskurn það sem við erum að vinna að. Það má í þessum tilgangi nota myndir teknar úr ómönnuðum "drónum" af ýmsu tagi, fisflugvélum, stærri flugvélum og jafnvel geimförum. Þess vegna hentar safnheitið "flygildi" okkur vel.

Björn Geir Leifsson

stjórnarformaður SAReye EHF.

Björn Geir Leifsson, 27.12.2013 kl. 13:59

3 identicon

Mér finnst þetta alveg magnað að nýta þetta svona, og iða af forvitni til að vita meira um þessar græjur.
Ég fékk að komast í að horfa "út um gluggann" á smávélinni hjá Dananum 2010, - maður var með spes gleraugu með skjáum, og vélin hafði myndavél í trjónunni. Alveg ótrúlega skýrt og gott. Hvernig er þetta á þessum? Ansi myndarleg myndavél á þyrlugræjunni.
P.S. smávélin sem sá Danski var með var "flugvél" úr frauðplasti með rafmótor, - drægi á sendinum ca 3km, flugþol kannski svona 10 mín. Fislétt, og komst fyrir í aftursætinu á smábíl. Gögn úr myndavél fóru beint inn á tölvu. Hann fékk inni á Rangá gegn því að loftmynda hótelið ef ég man rétt ;)
Var hann kannski líka með þyrlu?
En, - svo má alveg, - og hefur verið gert, - að virkja einkaflugið til leitar....

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.12.2013 kl. 15:26

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gríðarlegum fjárhæðum er varið árlega í hergagnaframleiðslu og að sjálfsögðu hefði einnig verið hægt að þróa alls kyns tæki fyrir það allt það fé án nokkurs hernaðar, til að mynda ratsjár og dýptarmæla.

Mannvirki, tæki og mannslíf eru hins vegar eyðilögð í hernaði, þannig að lífskjör fjölda manna versna en ekki öfugt.

Þorsteinn Briem, 27.12.2013 kl. 17:55

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fellst á orðið "flygildi" þangað til betra finnst, þótt með því merking orðsins þrengd frá því sem nú er. "Mannleysa" hefur afar neikvæða merkingu og úr því að jákvæð notkun er að ryðja sér til rúms er "flygildi" betra orð að svo komnu að mínum dómi.

Ómar Ragnarsson, 27.12.2013 kl. 17:59

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flugsjá væri hægt að nota yfir mannlaust loftfar með myndavél eða kvikmyndavél og notað er í friðsamlegum tilgangi, Björn Geir Leifsson.

Þorsteinn Briem, 27.12.2013 kl. 18:28

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er hárrétt að þrátt fyrir að hernaðarátök flýti fyrir tækniþróun er tjónið af hernaði auðvitað margfalt meira. Ég nota líka lýsingarorðið "nöturlegt" í upphafi pistils míns.

Ómar Ragnarsson, 27.12.2013 kl. 19:35

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

28.6.2008:

"Lögð hefur verið 260 metra löng flugbraut fyrir flygildi á Hólmsheiði."

"Fisfélag Reykjavíkur stendur að þessum framkvæmdum."

"Fisfélagið er flugíþróttaklúbbur og í honum eru rúmlega 100 manns sem fljúga á flygildum með eða án mótors og menn sem stökkva fram af hengjum og láta sig svífa á svifvængjum og svifdrekum."

Flugvöllur fyrir flygildi á Hólmsheiði


Frá fis-flugvellinum á Hólmsheiði

Þorsteinn Briem, 27.12.2013 kl. 20:33

11 identicon

Dróni, beygist eins og róni.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.12.2013 kl. 21:18

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á sínum tíma notaði ég fyrstur manna orðið "fis" um enska orðið "ultralight" í mynd af flugi á slíku vélknúnu flygildi á flugsýningu á sumardaginn fyrsta.

Í Bandaríkjunum er og hefur hugtakið "ultralight" verið notað um flygildi, sem eru léttari en 240 kíló að heildarþyngd, taka einn í sæti og geta flogið hægar en á 50 km hraða.

Síðar var tekið upp hugtakið "LSA" sem er skammstöfun fyrir "Light Sport Aircraft" en heildarþyngd slíkra flugvéla má vera allt að 1320 pund eða 500 kíló.

Að mínu mati er fráleitt að nota orðið "fis" um slíkar vélar, því að nokkrar flugvélar, sem aldrei hafa verið kölluð fis, falla undir þessa skilgreinginu svo sem Piper J3 Cub og Aeronca.

Réttara væri að kalla þessar flugvélar "léttvélar" eða "léttflugvélar",  bæði vegna eðlis málsins og þýðingar úr ensku.

Ómar Ragnarsson, 27.12.2013 kl. 21:40

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Dróni eða fjarfluga er ómannað, fjarstýrt eða sjálfstýrt flygildi sem notað er til vöktunar, löggæslu, njósna, vísindarannsókna eða hernaðar.

Misjafnt er hvort flygildið teljist loftfar og notkun þess er því sums staðar ekki háð lögum, þó hún sé umdeild."

En flugsjá væri hægt að nota um dróna sem notaðir eru í friðsamlegum tilgangi.

Þorsteinn Briem, 27.12.2013 kl. 22:03

14 identicon

All Wars Are Bankers' Wars

 http://www.youtube.com/watch?v=5hfEBupAeo4

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 28.12.2013 kl. 01:15

15 identicon

Dróni beygist líka eins og dóni.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.12.2013 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband