"Gildi þess að koma andstæðingi á óvart".

Það er erfitt að þýða hugtakið "element of surprise", en það þýðir gildi þess að koma andstæðingi á óvart, oft á afar djarfan og tvísýnan hátt. 

Yfirleitt er fólki ráðlagt að taka enga áhættu þegar glæpamenn ógna því með vopnum, heldur hlýða þeim en reyna jafnframt að halda ró sinni og athygli.

Fyrir um 40 árum var Torremolinos á Sólarströnd Spánar tiltölulega kyrrlátt og öruggt samfélag.

Jón bróðir minn var þar á ferð heim á hótelið að kvöldlagi ásamt nokkrum íslenskum vinum, sem höfðu verið samferða frá Íslandi.

Þegar þeir koma inn í hótelganginn sitja þar fyrir þeim nokkrir Spánverjar sem ógna þeim með hnífum og ætla augsýnlega að ræna þá.

Jón er oft alveg einstaklega fljótur að hugsa, og nú kemur sér vel að geta talað íslensku án þess að útlendingarnir skilji hana, því að hann hrópar eldsnöggt til félaga: "tökum þá strax núna!", og stekkur síðan á foringja glæpagengisins, slær hnífinn úr hönd hans og kemur honum eldsnöggt í gólfið.

Hinir Íslendingarnir stökkva nær samtímis á hina Spánverjana sem vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið og fallast alveg hendur.  Fyrr en verði liggja allir ræningjarnir í gólfinu og kallað er á lögreglu, sem kemur von bráðar og handtekur glæpagengið.

Spænsku lögreglumennirnir urðu steinhissa að sjá hvað gerst hafði og undruðust fífldirfsku Íslendinganna, hvort þeir hefðu virkilega ekki vitað hve stórhættulegt þetta gat verið fyrir þá.

Enginn Íslendinganna hafði áður lent í neinu svipuðu og því gafst enginn tími fyrirfram til að velta vöngum yfir réttum eða viðurkenndum viðbrögðum við aðstæðum sem þessum.

Ákvörðun, tekin á sekúndubroti, reyndist ganga upp í þetta sinn vegna þess að hugtakið "element of surprise" virkaði, enda voru ræningjarnir spönsku einnig byrjendur og áttu alls ekki von á þessum mjög svo íslensku viðbrögðum.  

Ekki er víst að svona fífldjörf viðbrögð hefðu virkað aftur, því að reikna hefði mátt með því að hið íslenska bragð hefði frést út og því ekki komið á óvart í annað sinn.  

Þessi atburður varð til þess að Spánverjar tóku öryggismál ferðamanna í Torremolinos til endurskoðunar, enda voru þau forsenda fyrir því að ferðamenn kæmi þangað.  


mbl.is Réðist gegn byssumanninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég bjó í meira en fjögur ár í Torremolinos og lenti aldrei í nenu svona né heyrði um slíkt. Nonni hefur verið einstaklega óheppinn.

Vilhjálmur Eyþórsson, 26.10.2014 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband