Gullfoss og Geysir fallnir af stalli?

G er fyrsti stafurinn í Gullna hringnum. G er líka fyrsti stafurinn í nafni tveggja af þremur stöðum í hringnum sem helst hafa verið taldir gefa honum frægð, Gullfoss og Geysir, oftast nefndir báðir í sömu andránni. 

Nú hafa aðdáendur mannanna verka nefnt til sögu tvö mannerð íslensk fyrirbæri sem skáki Geysi og Gullfossi. 

Annað er gufustrókur upp úr niðurennslisholu við Þeystareyki, sem nær 30 metra hærri goshæð en Geysir á meðan hann var upp á sitt besta. 

Hitt er fossinn Hverfandi, sem fellur fram af Kárahnjúkastíflu niður í Hafrahvammagljúfu, og er langhæsti stórfoss landsins þær 2-3 vikur á hausti, sem vatn rennur um hann. 

Heildarhæð fossins er um 160 metrar, þar af lóðbeint fall meira en 100 metrar, en til samanburðar er fallhæð Dettifoss 44 metrar og Gullfoss um 30 metrar.

Ekki einasta eru Gullfoss og Geysir fallnir af stalli í augum aðdáenda verkfræðilegrar snilli, heldur væntanlega líka Drottinn allsherjar, sem greinilega hefur mistekist að skapa fyrirbæri í fremstu röð. 

Af frásögnum manna af þessum stórkostlegu manngerðu fyrirbærum má ráða það, að aðdáun okkar og erlendra ferðamanna, sem hingað koma, ætti að beinast að þeim frekar en miklu slappari náttúrulegum fyrirbærum, sem hingað til hafa skapað gjaldeyristekjur með aðdráttarafli sínu.

Raunar hefur því í fullri alvöru verið haldið fram að vegna þess að maðurinn sé hluti af náttúrunni beri honum skylda til að setja sem mest mark sitt á hana, enda sé náttúran sjálf hvort eð er alltaf að breyta landi og lífi og maðurinn sem náttúruafl eigi að láta til sín taka.

Sagt er að neðsti hluti Hjalladals hafi verið þakinn sléttum leirum Jöklu fyrir 11 þúsund árum og ofan á þessum leirum hafi legið langt og mjótt, grunnt vatn.

Því sé hið besta mál að "endurheimta" hið forna lón með því að gera Hálslón. 

Raunar er Hálslón um fjórum sinnum stærra en hið forna lón var, en einmitt það sýni hve miklu framar maðurinn standi skaparanum í mótun náttúrunnar.

Þessi stefna gæti borið heitið "hvort eð er" stefnan. 

 

Samkvæmt þessu mati væri hið besta mál að gera stíflu við suðurenda Þingvallavatns og stækka Steingrímsstöð um helming, vegna þess að talið er líklegt að hvort eð er muni Þingvellir og næsta umhverfi Þingvallavatns sökkva undir vatn í næstu landssigum á því svæði.

Eyðilegging Rauðhólanna skipti ekki máli, því að hvort eð er má búast við því að einhvern tíma í framtíðinni muni renna hraun ofan úr Bláfjöllum yfir Elliðavatn og búa til nýja Rauðhóla.

Að vísu segjast erlendir ferðamenn sækjast eftir því að sjá einstæða og ósnortna náttúru hér á landi, svo sem eins og í Kerlingarfjöllum og í nágrenni Landmannalauga, svo dæmi séu tekin, en með nógu stórkarlalegum manngerðum fyrirbærum á þessum svæðum og öðrum verði hægt að skáka skaparanum hressilega þar og viðar á þeim svæðum sem enn er eftir að umturna til dýrðar okkur mönnunum.

Afrek mannanna geta að vísu farið fram úr stærstu náttúrufyrirbærum þegar þau hafa verið þróuð og stækkuð. 

Sem dæmi má nefna kjarnorkusprengjuna, sem drap 80 þúsund manns í einu vetfangi í Híróshima, og stútaði þar með tvöfalt fleirum á skemmri tíma en sambærilegt fyrirbæri í líki eldgoss á Martinique eyju fyrir rúmri öld.

Í framhaldi af þessari atómsprengju hefur verið veitt þúsundum milljarða króna til að framleiða 100 sinnum öflugri sprengjur í hundraðatali, sem hver um sig getur drepið minnst tíu sinnum fleiri í einu vetfangi en nemur öllum íbúafjölda Íslands.    


mbl.is „Örugglega fallegra en Geysir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

10.12.2014:

"Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ákvað í dag að hefja rannsókn á því hvort samningar Landsvirkjunar og Landsnets vegna kísilvers PCC á Bakka við Húsavík feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð."

"Landsvirkjun er þegar byrjuð á framkvæmdum á Þeistareykjum vegna virkjunar sem sjá á kísilverinu á Bakka fyrir raforku.

Nú segist ESA hafa efasemdir um að tekjur af orkusölu dugi fyrir virkjunarkostnaði og að Landsnet fái upp í kostnað við að flytja raforkuna þangað."

Þorsteinn Briem, 22.12.2014 kl. 21:03

2 identicon

Marga fór ég túrana um Þingvelli, Gullfoss og Geysi í sumar.
Þetta þykir flott. Toppurinn var í góðviðri á Geysi þegar trompetleikari nokkur spilaði þjóðsönginn við Strokk, og var svo vel tímasettur, að hann náði hápunktinum akkúrat þegar gaus.
Þarna var þó kurteislegt samspil manns og náttúru.
En hvernig á að meta þetta? Hvað eru náttúruspjöll og hvað ekki? Ég er sjálfur með kæru á mér fyrir landspjöll fyrir það að selja túnþökur! Af marghreyfðu landi í stöðugri hringrás. Eru vaxandi skjólbelti umhugsunarefni? Hvað með skaðræðis-lúpínuna?
Það sem ég er að reyna að fara með þessu, er að við setjum óhjákvæmilega okkar fótspor á náttúruna. En.....það sem LV er að gera er helv. svert.

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.12.2014 kl. 21:21

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta, að innan þjóðgarðanna sjálfra gildir alþjóðlegt mat, þar sem "náttúruverndin" er metin í alls 5 þrepum. 

Ég átti þess kost að kynnast stórfróðlegum fyrirlestri Þjóðgarðsvarðarnins í Banff þjóðgarðinum í Klettafjöllunum í Kanada á göngu hans með forseta Íslands upp hlíðina fyrir ofan ferðamennaþorpið við vatnið og niður eftir á ný.

Lægsta stigið var ferðamannaþorpið við vatnið, þannig hannað að öll mannvirki þar væri hægt að fjarlægja, malbik, steypu o. s. frv.

Efsta stigið af fimm var svæði í mjög mikilli hæð og engu var hróflað við, enda komu þangað varla meira en 10-15 manns á ári og fyrir aðra nægði að kynna sér svæðið af myndum og vita af tilvist þess og vernd.

Dæmi um afturkræfa framkvæmd í þjóðgarði er malbikaði vegurinn inn í Bolabás og meðfram Ármannsfelli. Hægt er að fjarlægja malbikið og koma vegstæðinu í sitt upprunalega horf.

Álftanesvegurinn nýi er hins vegar ruddur í gegnum tiltölulega nýtt hraun. Það er gersamlega óafturkræf framkvæmd.   

Ómar Ragnarsson, 22.12.2014 kl. 23:14

4 identicon

Það vill gleymast að ósnortin náttúra hér á landi er varla til. Það sem er að vekja aðdáun túristanna eru uppblásnar auðnir eftir 1000 ára áníðslu, hverir sem aðgerðir manna hafa haldið opnum í aldir og mannvirki eins og bláa lónið. Jafnvel Öxará rennur þar sem forfeður okkar ákváðu og beindu henni. Við höfum fyrir löngu skákað skaparanum hressilega með mótun landsins frá hæstu tindum niður í hafsins djúp. Túristarnir bara vita það ekki og halda að þetta sé allt upprunalegt, jafnvel jeppaförin og lúpínan.

Davíð12 (IP-tala skráð) 23.12.2014 kl. 01:16

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

ÞVÆLA:

"Það vill gleymast að ósnortin náttúra hér á landi er varla til."

Þorsteinn Briem, 23.12.2014 kl. 07:18

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi og er þar í 233. sæti með að meðaltali þrjá íbúa á hvern ferkílómetra.

Ástralía er þar í næsta sæti og Sjálfstæðisflokkurinn heldur greinilega að búið sé að umbylta þar öllu.

Röð landa eftir þéttleika byggðar

Sjálfstæðisflokkurinn á mjög erfitt með að segja eitthvað af viti og skrifar hér sína steypu undir alls kyns bjánalegum dulnefnum.

Þorsteinn Briem, 23.12.2014 kl. 07:38

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ein helsta röksemd "hvort eð er" stefnunnar er að Íslands sé "hvort eð er" ekki ónsortið, vegna uppblásturs af mannavöldum. Þess vegna sé í góðu lagi að sökkva tuga kílómetra stórum dölum í jökulaur miðlunarlóna og mylja ósnortin nýrunnin hraun í spað með jarðýtum, allt saman óafturkræfar aðgerðir. 

Þarna er skautað fram hjá þremur atriðum.

Annars vegar það að samkvæmt þeim alþjóðlegu mælikvörðum sem notaðir eru, er miðað við aðgerðir manna eftir iðnbyltingu. 

Hún varð ekki hér á landi fyrr en meira en öld síðar en í öðrum löndum í kringum okkur.

Hins vegar er það atriði að jarðvegseyðingin, sem vissulega er þjóðarskömm fyrir okkur, er samt afturkræf, ef horfið er frá núverandi landeyðingarstefnu á stórum hluta landsins. Það er hægt að endurheimta glötuð vistkerfi víðast hvar.

Í þriðja lagi eru enn stór svæði á landinu, einkum á hálendinu, sem eru sannanlega ósnortin en virkjana- og mannvirkjafíklar vilja endilega ráðast inn á og bera þá fyrir sig "hvort eð er" röksemdinni.  

Ómar Ragnarsson, 23.12.2014 kl. 09:13

8 identicon

Semsagt: samkvæmt þeim alþjóðlegu mælikvörðum sem notaðir eru er miðað við aðgerðir manna eftir iðnbyltingu (+50 ár hér á landi) og því er hálendið tæknilega ósnortið og uppblástur af mannavöldum ekki til staðar. Jarðvegseyðingin er afturkræf og því ekkert áhyggjuefni. Aftur á móti er hraun svo sjaldgæft á Íslandi, og sérstaklega á suðvesturhorninu, að vernda þarf hvern fermeter.... Já, einmitt, það sem við köllum "skítt með skynsemi" röksemd "ég datt harkalega á hausinn sem barn" liðsins.

Davíð12 (IP-tala skráð) 24.12.2014 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband