Kangerlussuaq er einstakur staður.

Kangerlussuq eða Syðri-Straumfjörður eins og staðurinn var kallaður fyrrum, sem einstakur staður á flesta lund. 

Þótt sagt sé í frétt um staðinn á mbl.is að hann sé á vesturströnd Grænlands, er hann í raun næstum 200 kílómetra frá henni, því að hann er inn af botni 185 kílómetra langs og mjós fjarðar. 

Fjörðurinn er meira en þrefalt lengri en Eyjafjörður og það þröngur, að vindar frá hafinu milli Grænlands og Baffinslands komast ekki þangað inn eftir nema fara yfir fjöll. 

Fyrir bragðið er þarna afar þurrt loftslag og hlýtt um hásumarið. 

Meðalhitinn að degi til í júli er 16 stig, - ég endurtek: 16 stig. Það er líklega hæsti hiti norðan heimskautsbaugs og þremur stigum hlýrra en í Reykjavík. 

En sumarið er mjög stutt og háveturinn með tuga stiga meðalfrosti. 

Inn af Kangerlussuaq gengur fallegur dalur með afar fjölbreyttur gróðurfari. 

1999 var ógleymanlegt að koma úr jeppaferð þvert yfir Grænlandsjökul niður risastóran skriðjökul og lenda inni á hreindýraslóðum þar sem voru nýfæddir hreinkálfar. 

Skriðjökulstunga gengur niður í botn dalsins með fallegri á, sem fellur meðfram jöklinum í flúðum og fossum. 

Á leiðinni út að Kangerlussuaq var furðu gróðursælt, en þegar nær dró flugvellinum tóku við sandaöldur. 

Þegar komið var upp á þá ystu, blasti skyndilega við stór alþjóðaflugvöllur með öllum stærðum og gerðum flugvéla, frá smárellum upp í Boeing 747 breiðþotur og jafnvel Concorde. Þetta var eins og að koma til eftir eyðimörkinni til einhvers flugvallar í Arabaríki. 

Þegar jeppaleiðangurinn var farinn, var allt svæðið inn af Kangerlussuaq ósnortið að undanskilinni svipaðri jeppaslóð og finna má á hálendi Íslands. 

Það gerði "Safari-upplifunina" enn sterkari en ella. 

Nokkrum árum síðar seldu Grænlendingar Volkswagenverksmiðjunum dalinn og jökulinn fyrir bílaprófanir sínar og grunar mig að með því hafi stór hluti sjarma svæðisins farið fyrir lítið.

Þess má geta að flugvöllurinn stendur á freðmýrarlandi, sem menn óttast að muni gefa eftir með hækkandi lofthita, þannig að völlurinn kunni að sökkva með tímanum.  

 


mbl.is Hefja flug til Kangerlussuaq
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er ný kominn úr vinnuferð til Kangerlussuaq. Ég fékk því miður ekki tækifæri til að fara inn dalinn og upp að jökli, en get tekið heils hugar undir með þér að náttúran þarna innst í dalnum er einstaklega falleg, og ekki spilltu haustlitirnir sem skrýddu gróðurinn gulum og rauðum litum.

Hér er mynd sem ég tók af Kangerlussuaq flugvelli á meðan ég beið eftir fluginu heim: https://goo.gl/photos/Ap3uWru4tbcHMixy5

Þórir Már Jónsson (IP-tala skráð) 21.9.2015 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband