Hagráð, - blessuð sé minning þess.

"Landið var ferlega flott  /

og fannhvítar kalskemmdasveitir. /

Hermann var heiður og blár, /

Hagráð var skínandi svart." /

 

Ofangreindar línur voru hluti af kersknisútgáfu af "Ísland farsælda frón" sem ég flutti í orðastað Gylfa Þ. Gíslasonar á sjöunda áratug síðustu aldar undir heitinu "Íslands síspælda stjórn."

Þarna er minnst á svonefnt Hagráð, sem eins og nafnið bendir til, átti að gegna svipuðu hlutverki og fyrirhugað Þjóðhagsráð nú.

Þetta var flutt á árunum 1967 og 68 þegar gengi krónunnar var fellt tvisvar all hressilega vegna stórfellds aflabrests og gengisfalls enska pundins og "Hagráð var skínandi svart".  

Af núlifandi Íslendingum man kannski Jóhannes Nordal best eftir þessu fyrirbæri, tilgangi, starfi og andláti. Gott ef hann var ekki í Hagráði.

Hagráð var kannski ágæt hugmynd út af fyrir sig og gerði svo sem engan óskunda, svo að ég muni eftir, var líklegast ágætis umræðuvettvangur.

En á fyrri hluta sjöunda árartugarins reyndist beint og náið persónulegt samband milli Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Eðvarðs Sigurðssonar, formanns Verkamannafélagsins Dagsbrúnar kjölfesta og drifkraftur efnahagsstefnunnar og þurfti ekkert Hagráð til.

Tvisvar var gert svonefnt júlísamkomulag, 1964 og 65, sem voru tímamótagerningar og réðu lang mest um framvindu efnahagsmála á þessum árum.

Hagráð leið hljóðlega út af án þess að gera neitt ógagn eða sjáanlegt gagn, dó hægum og farsælum dauðdaga, og hafi farið einhver útför fram, fór hún fram í kyrrþey.

Blessuð sé minning þess.


mbl.is Greinir á um Þjóðhagsráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Næsti nafnleysingi, M:

"M is a fictional character in Ian Fleming's James Bond book and film series; the character is the Head of the Secret Intelligence Service - also known as MI6."

Nafnleysingjarnir búnir að tapa hér öllum málum, nú síðast flugvallarmálinu.

Þorsteinn Briem, 9.6.2016 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband