Ólíkindatól, orkubolti og óskrifað blað?

Maður verður að þekkja það sem maður talar um.  Ég hlustaði úr hluta af nokkrum ræðum Trumps í kosningabaráttunni og meira að segja á heila 35 mínútna ræðu, bara til að reyna að átta mig á því, hvaða fyrirbæri það væri sem brytist í gegnum múra reynsluboltanna í Republikanaflokknum án þess að hafa snefil af stjórnmálareynslu. 

Mannkynssagan geymir mörg dæmi um það hvernig ágengir persónuleikar með beitt, harðsvírað orðaval og kraftmikinn ræðuflutning geta líkt og dáleitt fólk á fjöldafundum og smám saman skapað fjöldahreyfingu sem virðist spretta upp úr áðum óplægðum jarðvegi.

Kosningaherferð Donalds Trumps bjó óneitanlega yfir óvæntu aðdráttarafli sem varð til þess að á endanum féllu helstu vígi keppinautar hans vegna þess að þeir hópar, sem áður höfðu verið taldir andvígastir honum, reyndust hliðhollari en búist hafði verið við. 

Það er bandarísk hefð fyrir því að nota orðið "new" sem slagorð af því að það virðist svínvirka svo oft. Hlægilegt er stundum að sjá þetta í bílabransanum þar sem tiltölulegar smávægilegar breytingar eru ýktar og fegraðar til að selja vöruna. 

Á bak við þetta leynist að fá neytandann til að halda að hann sé að upplifa eitthvað nýtt. 

Donald Trump er snjall leikari í eðli sínu og á auðvelt með að breyta um ímynd sína á sviðinu, eins og því sviði, sem hann birtist á í 60 minutes þættinum, sem var helgaður honum og fjölskyldu hans. 

Þar lýsti hann sigri hrósandi yfir endaspretti sínum þar sem hann kom fram í fimm ríkjum síðasta sólarhringinn og sagðist hafa dregið að sér 30 þúsund manns með nokkurra klukkustunda fyrirvara á einn fundinn á þeim ólíklega tíma klukkan eitt að nóttu að staðartíma. 

En það var mun yfirvegaðri, rólegri og jafnvel aðlaðandi Trump sem birtist núna, enda þarf hann ekki lengur á stóryrðunum og glannaskapnum að halda sem hann sýndi svo oft í kosningabaráttunni. 

Það jaðraði meira að segja fyrir smávegis auðmýkt hjá honum. Kona hans og fjölskylda buðu af sér góðan þokka. 

Eins og Trump er óskrifað blað sem stjórnmálamaður eru þeir 4000 starfsmenn, sem hann þarf að ráða á næstu vikum hvergi nærri komnir fram.

Trump segist vilja bægja ótta frá þeim hópum Bandaríkjamanna sem hann hefur úthúðað í kosningabaráttunni, en sum nöfn sem nefnd hafa verið sem hans helstu ráðgjafar og samstarfsmenn vekja ekki hrifningu.  

Vissulega er maðurinn sjálfshælinn og sjálfsöruggur orkubolti en ólíkindatól, sem á eftir að fá margan sagnfræðinginn til að klóra sér í höfðinu bæði núna og í framtíðinni. 

 

 


mbl.is Trump leggur drög að fyrstu dögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband