Síendurtekið stef sem hefur ekki dugað.

Sósíalismi hefur birst í mörgum myndum frá því fyrir 150 árum og langoftast ekki virkað vegna þess að hann kallaði fram miðstýringu sem endaði í alræði og kúgun. 

Hrun Sovétríkjanna og kommúnismans í Austur-Evrópu er dæmi um þetta. 

En það hefur líka mistekist margt í löndum Vestur-Evrópu. Þegar Verkamannaflokkurinn tók við völdum í Bretlandi 1945 fór hann út í róttæka þjóðnýtingu. 

Hvort sem hrun nýlenduveldisins hafði einhver á framgang þess máls eða ekki, mistókst þessi tilraun að miklu leyti og Íhaldsflokkurinn náði völdum og hélt þeim um nokkra hríð eftir það. 

Á Íslandi var gerð víðtæk tilraun til að þjóðnýta útgerðarfyrirtækin, og stóð hún í nokkra áratugi. 

Að lokum var ljóst að hún hafði mistekist með öllu og þessi þjóðnýting leið því undir lok. 

Gylfi Þ. Gíslason var einn merkasti leiðtogi sósíaldemókrata eða jafnaðarmanna hér á landi.

Hann horfði mjög til hinna Norðurlandanna um þjóðskipulagið, sem þar var og kallaði það oft blandað hagkerfi þar sem leitast var við að laða fram skástu kosti kapítalisma og sósíalisma, einkaframtaks og félagshyggju í svonefndu velferðarþjóðfélagi.

Í meira en hálfa öld hefur þetta norræna módel reynst það skásta, sem fundist hefur þótt sífellt þurfi að því að laga það að breyttum aðstæðum.

Jafnaðarstefna af þessu tagi er það skýr, að ef flokkur, sem heldur henni fram, fer halloka, er það ekki stefnunni að kenna, heldur þeim sem boða hana, líkt og þegar gott lag og ljóð í Júróvisionkeppni getur liðið fyrir það að það er ekki nógu vel flutt.

Listinn yfir nýja flokka, sem áttu að "sameina jafnaðrmenn" en dóu samt drottni sínum er orðinn mjög langur síðan 1938.  Það er búið að reyna þetta í tæpa átta áratugi. 

1938: Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn.  

1956: Alþýðubandalagið.

1970: Samtök frjálslyndra og vinstri manna.

1987: Bandalag jafnaðarmanna.

1994: Þjóðvaki.

1999: Tveir nýir flokkar, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin, grænt framboð.

2013: Björt framtíð.

Þetta eru átta flokkar á áttatíu árum. Fimm þeirra löngu látnir og þrír þeir síðustu hafa farið upp og niður eins og jójó í skoðankönnunum, þótt Vg sé í uppsveiflu eins og er. 

Nú er verið að tala um að byrja á því sama og gert var 1938: Sósíalistaflokkurinn.

Og hvað svo?

Aftur 80 ára tímabil með myndun átta jafnaðarmannaflokka, sem öllum verður ætlað að sameina jafnaðarmenn og allir hljóta örlög og orða mætti í svipuðum orðum og sungin eru í Þjóðsöngnum: "Eitt eilífðar smálblóm með titrandi tár, sem tilbiður hinn pólitíska guð sinn og deyr"? 


mbl.is Möguleiki á sósíalistaflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Því ætti hann ekki að stofna annan sósíalistaflokk?  Þessi 30% kjósenda sem eru fyrir marx/lenin/fas/naz/Maó/Trotsky/(annað)isma hafa þá einn í viðbót til að velja úr.

Fjölbreytileiki, maður.

Ásgrímur Hartmannsson, 1.4.2017 kl. 23:25

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Blandað hagkerfi virkar að mínu mati best fyrir Ísland. Heilbrigð samkeppni þar sem hægt er að koma henni við en þá á að grípa inn í þar sem hún virkar bara alls ekki. T.d. í bankakerfinu þar sem algjör þörf á einum banka í eigu almennings og hugsanlega á matvælamarkaði. Auk þess á að leggja lífeyrissjóðakerfið niður og beina greiðslum launþega og atvinnurekanda beint í ríkissjóð sem skattgreiðslum og ríkið greiðir síðan grunnlífeyri beint til ellilífeyrisþega. Er þetta annars nokkuð sósíalismi sem ég er að stinga upp á?

Jósef Smári Ásmundsson, 2.4.2017 kl. 07:34

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hin beina þýðing orðsins socialism á íslensku er Félagshyggja. Hljómar mýkra og sætara en slæmur orðstýr sósíalisma. Merkilegt að alvitringurinn Gunnar Smári skuli ekki vita þetta.

Í öllum öfgastefnum hugsjóna hafa allir forsvarar selt sig sem frelsara fólksins. Enginn munur á kúk og skít, hvort sem það er lénsskipulag, Keisaraveldi, sósíalismi eða kapítalismi, svo ekki sé minnst á trúarbrögðin. Allt er þetta af sama meiði, vegur valdgráðugra og fámennra hagsmunahópa til að öðlast völd. Helst öll völd.

Allt endar þetta í breyskleika manna og hégómagirni, græðgi og valdi. Merkimiðarnir misjafnir en markmiðin alltaf söm við rótina.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.4.2017 kl. 08:30

4 identicon

Þessi Jón Steinar áttar sig ekki á því hversu mikið hann á socialisma að þakka. Væri enginn socialismi, væri þessi Jón líklega dauður.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.4.2017 kl. 08:55

5 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Áttu við að ef Jón Steinar hefði fæðst á Átjándu öld fyrir tíma Karl Marx og socialismans væri hann dauður í dag? Jú, sennilega hefurðu rétt fyrir þér.

Jósef Smári Ásmundsson, 2.4.2017 kl. 10:47

6 identicon

Hvað væri ef? 

Hvað væri t.d. ef maður að nafni Adolf Hitler hefði ekki fæðst?

Væruð þið þá til? Þeirrar spurningar getur hver og einn spurt sig.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 2.4.2017 kl. 11:08

7 identicon

Hvað eigum við socialisma að þakka? Nokkur atriði; verkfallsréttur, sanngjörn laun og mannsæmandi vinnutími, orlof, heilsugæsla og menntun fyrir alla, lífeyrir, veikindafrí, kindergarten o.m.fl. En það er eins og margir innbyggjar viti þetta ekki, að sú menntun sem þeir fengu sér að kostnaðarlausu hafi ekki skilað miklu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.4.2017 kl. 11:14

8 identicon

Það má endalaust þakka eða kenna sósíalismanum um hvað sem er. Hvað er sósíalismi og hvað hefði getað komið í hans stað?  Þetta er spurning út í hött.

Ég held að fáir muni kalla Bismarck sósíalista, þó kom hann fram með ýmsar þjóðfélagslegar umbætur.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 2.4.2017 kl. 13:05

9 identicon

Ragnar Önundarson (fyrrv. framkvk. stjóri í banka) kom með eina grundvallarspurningu í Silfrinu fyrir hálfum mánuði:

Hver á að kaupa vörurnar þegar þessi örfáu % ríkustu eiga allt? Þetta sjá fleiri en hann. Er ekki millivegurinn bestur í þessu, eins og almennt í lífinu sjálfu? Rifjum upp söguna. Af hverju var franska byltingin óhjákvæmileg?money-mouth

Öreigur í Hruna (IP-tala skráð) 2.4.2017 kl. 14:15

10 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Mér vitanlega er nákvæmlega ekki neitt heilbrigt við samkeppni. Þvert á móti er samkeppnishelgisögnin ávísun á óheilbrigði og sóðaskap.

Jóhannes Ragnarsson, 2.4.2017 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband