Máttur auðsins.

Sádi-Arabar eru eitthvert besta dæmið um mátt auðsins hjá þjóðum heims. Sádarnir komast upp með að vera ein af helstu uppsprettum hryðjuverkahópa án þess að vera útskúfað af Donald Trump eins og þegnar sérvöldu múslimaríkjanna, sem eru óvelkomnir til Bandaríkjanna. 

Sem langsterkasta olíuríki heims njóta Sádarnir forréttinda á alla lund og allir nema Íranir og shítamúslimar sleikja sig upp við þá. 

Trump lítur á Írani sem höfuðóvini og af því að Sádarnir gera það líka, gildir lögmálið í utanríkismálum þjóða, að óvinur óvinarins er vinur. 

Sádarnir áttu þjóða mest þátt í því að fella Sovétríkin sem leiðandi afl í verðmyndun á olíu. Reagan-stjórnin hældi sér á yfirborðinu yfir því að hafa fellt Berlínarmúrinn en Sádarnir léku stærra hlutverk á bak við tjöldin með því að auka olíuframleiðsluna í nokkur ár til þess að verðfall á heimsmarkaði veitti Sovétríkjunum náðarhöggið í óhjákvæmilegu hruni þeirra. 

Þegar meðlimir konungsfjölskyldurnnar fara í skíðaferðalög til vesturlanda, kaupa þeir upp heilu hótelin og eru með þyrlur og limúsínur á hverjum fingri. 

Þegar ég staldraði við í Avon í Klettafjöllunum fyrir 14 árum voru heimamenn yfir sig hneykslaðir á yfirgengilegu bruðli of firringu krónprinsins, sem hafði verið þar á skíðum. 

Sjálfir óku þessir gagnrýnendur á risastórum lúxuspallbílum sem svolgruðu í sig bensínið sem fékkst með því að sleikja sig upp við hið firrta slekti og horfa í gegnum fingur sér gagnvart einræði og mannréttindabrotum þeirra á heimaslóð. 

Í þessum skíðabæ var hægt að fara í lyftu upp á topp inni í jarðgöngum til þess að verða ekki kalt, skíða síðan niður alla leið inn í bæ, en fara þar af skíðunum, taka upp golfkylfur og leika golf á golfvelli sem tók við af skíðalandinu! 

Olíuöldin, sem við lifum á, er svo stutt í mannkynssögunni, að uppsveiflan í orkueyðslunni í gegnum olíuna er eins og hvass spjótsoddur á línuritinu, sem sýnir notkunina.

Nú hefur þessi lína risið upp á topp sinn og mun falla næstum jafn hratt niður með gríðarlegum afleiðingum fyrir jarðarbúa, sem eru jafn ruglaðir og Trump þegar hann húðskammar Michelle Obama fyrir að hafa móðgað Sádana með því að hafa ekki höfuðslæðu, en koma síðan með tvær konur til þess að gera nákvæmlega það sama.   


mbl.is Melania sleppti slæðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vondur er góður ef aura á.

Höddi (IP-tala skráð) 21.5.2017 kl. 02:22

2 identicon

WHAT IS THE PETRODOLLAR???  

https://www.youtube.com/watch?v=qCbFTnxBEKs

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 21.5.2017 kl. 03:44

3 identicon

Trumnp? Veit ekki betur en allir forseta USA hafi verið að sleikja sig upp við Sádana, ekki síst Obama. Síðasta dæmið, um hina stórfelldu vopnasölu til Sáda, er einungis áframhald á viðskiptum Bandaríkjamanna við þessa vinaþjóð sína í Austurlöndum nær, þjóð sem fremur nær daglega stríðglæpi í Jemen án nokkurra eftirmála.
Vinaþjóðir Kanans eru nefnilega ekki ákærðir fyrir stríðsglæpi, ekki frekar en Kaninn sjálfur.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 21.5.2017 kl. 07:20

4 identicon

“Máttur auðsins” er mikill, ekki síst á Íslandi.  Dekurbarn sem hafði peninga sem barnagull verður forsætisráðherrar. En ekki nóg með það, við næstu kosningar endurtekur sig ruglið, annað dekurbarn og panama-pappír verður forsætisráðherrar. Og Ólafur Ólafsson, vellauðugur útrásarþjófur og lygari fær sér meðferð hjá “háttvirtum” alþingismönnum. Hossir þú heimskum gikki hann gengur lagið á og ótal asnastykku af honum muntu fá.......

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.5.2017 kl. 10:02

5 Smámynd: Már Elíson

Takk fyrir innihaldsríka og vel skrifaða grein, Ómar. - Þú átt auðvelt mað að greina hismið frá kjarnanum og setja það á prent sem við hin hugsum. "Máttur auðsins" liggur mest í heimsku og sleikjuskap hinna.

Már Elíson, 21.5.2017 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband