Hve langt getur hinn nýi siður gengið?

Þegar tóbaksreykingar jukust jafnt og þétt um miðja síðustu öld, einkum hjá konum, var mönnum ekki ljós skaðsemi þeirra. Framleiðendurnir héldu því blákalt fram, til dæmis í yfirheyrslum þingnefndar Bandaríkjaþings, að þær væru algerlega skaðlausar, og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að auka söluna. 

Þeir fengu helstu Hollywoodstjörnurnar til að auglýsa retturnar sem hreystimerki. 

Þegar söm stjörnurnar fóru að hrynja niður úr lungnakrabba, svo sem töffarinn mikli Humphrey Bogart og söngvarinn Nat King Cole, forhertust tóbaksframleiðendur og nýtt sér fjárhagslegt bolmagn sitt til að seinka eða koma í veg fyrir að hið sanna kæmi í ljós. 

Til dæmis kom það afar seint fram hve skaðvænlegar óbeinar reykingar væru. 

Með þessu stuðluðu þeir beinlínis að ótímabærum sjúkdómum og dauðdaga hjá milljónum manna. 

Á okkar tímum eru vísindalegar rannsóknir á heilsufarslegum atriðum mun betri en áður var. 

Þó sýnir ópíuóðalyfjafaraldurinn að fjársterkir framleiðendur heilsuspillandi efna geta komið í veg fyrir það svo skipti áratugum, að skaðsemi slíkra efna komi fram, því að lengi vel voru þessi lyf auglýst með "vísindarannsóknum" sem sýndu að þau væru ekki ávanabindandi, heldur þvert á móti töframeðöl sem minnkuðu notkun fíkniefna. 

Í ljósi þessa er nauðsynlegt að sannreyna það sem best að rafretturnar séu skaðlausar eða að minnsta kosti svo margfalt skaðlausari en sígarettur að það sé talið að sá fórnarkostnaður í fjármunum og fíkn, sem gjalda þarf með samfelldri aukningu á notkun þeirra, langt umfram naúðsynlega notkun þeirra, sem eru að hætta að reykja, sé ekki talin ástæða til afskipta. 

Fróðlegt verður að sjá, hve lengi hin stórvaxandi notkun rafretta getur gengið og hvað það hámark verður sem þá blasir við. 

Þegar fyrr í vor var minnst á þetta mál hér á síðunni spruttu upp menn, sem sökuðum mig um hálfgerðan fasisma og ofstopa gegn rafrettunum með því að dirfast velta vöngum yfir þessu. 

Sér þess þó hvergi stað, að um slíkt sé að ræða, - aðeins almennar umræður um algerlega nýjan sið og fíkn hjá þúsundum fólks. 


mbl.is Taka nú rafrettur með í reikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband