Hundurinn Sesar og kettirnir Eisenhower og Stevenson í Hvammi.

ÞÞað hafa verið dæmi um það að dýr á Íslandi hafi verið nefnd nöfnum frægra erlendra manna, og hinn erlendi froskur Trump er ekkert einsdæmi um það fyrirbæri út af fyrir sig.

Þegar ég var í sumardvöl í sveit sem drengur 1950-1954 að Hvammi í Langadal, hét kötturinn á bænum Stevenson. 

Þó ekki Adlai Stevenson eins og frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum 1952 hét, en hann varð síðar fulltrú lands síns hjá Sameinuðu þjóðunum á tímum Kennedys, ef ég man rétt.

Síðar var þar kötturinn Eisenhower.  Sesar, hundurinn vitri

Hundurinn Sesar bar þó höfuð og herðar yfir önnur dýr á bænum, því að hann hafði næstum mannsvit. 

Að minnsta kosti var hægt að tala við hann eins og mann oft á tíðum. 

Mér er enn minnisstætt þegar ég var nýkominn í sveitina og við sátum í eldhúsinu, að ungur frændi minn gekk út að glugganum á stofunni, horfði niður að þjóðveginum og kallaði: "Sesar, Móbergskýrnar!"

Brá hundurinn þá skjótt við, hljóp undan borðiu og út og niður að veginum til þess stöðva kýrnar á næsta bæ, Móbergi, sem höfðu farið á flakk og voru að komast inn í Hvammstúnið. Manga með svartan vanga

Mér til mikillar undrunar þurfti ekki að aðhafast frekar. Sesar sá um að reka kýrnar til baka uns þær voru komnar út úr landareigninni og úr augsýn. 

Sagt var að Sesar hefði jafnvel meira en mannsvit. Sem dæmi um það var nefnt, að á refaveiðum hefði refurinn verið að sleppa upp í fjallið frá þeim sem eltu hann, en Sesar hefði tekið á rás á ská upp fjallið svo að hann kæmist upp fyrir refinn. 

Það tókst þessum magnaða hundi og nýtti sér það, að refir eiga erfiðara með að hlaupa undan brattri brekku en upp hana. 

Var Sesari þakkað það einum, að refurinn náðist. 

Sesar var orðinn gamall og hrumur þegar ég kynntist honum og farinn að hænast mjög að Margréti Sigurðardóttur, öldruðum niðursetningi á bænum, sem mátti kalla síðustu förukonuna á Íslandi, því að hún gekk um dalinn, oft dögum saman þótt komin væri á níræðisaldur og treindi með því þrek sitt í tíu ár í viðbót. 

Manga, eins og hún var kölluð, var afar barngóð og mikill dýravinur, og hafði í vösum í serk sínum ýmislegt góðgæti, sem hún sankaði að sér og gaukaði að börnum og dýrum á ferðum sínum. 

Fylgdu henni stundum dýr á göngunni, og Sesar varð æ meir langdvölum að heiman. 

Varð svo kært með henni og Sesari að líkja mátti við ástarsamband. 

Þetta líkaði bóndanum í Hvammi, Björgu Runólfsdóttur, illa og þegar fór í vöxt að Sesar væri langdvölum að heiman, sagði hún eitt sinn við Möngu að hundurinn væri henni sem dauður eins og komið væri málum. 

Manga var skapmikil kona, reiddist mikið að mér áheyrandi og varð úr heiftarlegt rifrildi, þar sem greinilegt var að Manga varð afar sár og bitur og gráti nær. 

Daginn eftir fór hún af stað í næstu dalarreisu og fylgdi Sesar henni að vanda. 

Þegar Manga kom til baka úr þessari ferð, var Sesar ekki með henni. 

Þegar hún var spurð um Sesar hreytti hún út úr sér að hún hefði látið bóndann á Móbergi skjóta hann úr því að Björg hefði sagt, að hann væri sér sem dauður.  

Björgu, börnum hennar tveimur, sem voru unglingar, og mér, varð við þetta næstum eins og um mannslát hefði verið að ræða. 

Í ljós kom, að bóndinn hafði staðið í þeirri trú, að Björg hefði beðið Möngu um að láta skjóta hundinn vegna aldurs. 

En miðað við þá hatrömmu deilu, sem orðið hafði með Björgu og Möngu, var undravert, af hve miklum skilningi hún tók þessu uppátæki hinnar öldruðu förukonu og bað okkur um að sýna Möngu skilning, því að hún ætti sér forsögu, sem útskýrði þessi viðbrögð hennar og hegðun. 

Þegar gestir, sem komu á bæinn, hallmæltu Möngu fyrir hundsdrápið, tók Björg svari hennar og endurtók, að fyrir viðbrögðum hennar væru ástæður úr fortíð hennar. 

Síðar laukst upp fyrir mér hvað Björg átti við.

Manga hafði átt illa barnæsku í fjölskyldu, sem tvístraðist í harðindunum í kringum 1880 og síðan verið vinnukona í vistarbandi, sem henni líkaði illa, því hún var skarpgáfuð og afar bókelsk og skáldhneigð. 

Draumur hennar var að eignast eiginmann, fjölskyldu og jörð, jafnvel þótt það væri kot frammi á heiðum eða uppi á Laxárdal. 

Hún varð barnshafandi af völdum myndarlegs vinnumanns, en missti barnið í fæðingu og kenndi vinnuhörku um. 

Þar með urðu slit með henni og vinnumanninum og draumur þessa kvenkyns Bjarts í Sumarhúsum að engu orðinn við þennan harmleik. 

Þetta útskýrði kannski hið einstaka samband hennar við hundinn með mannsvitið og það, hve mjög hún tók það nærri sér ef hún missti hann frá sér. 

Björg Runólfsdóttir, ömmusystir mín, skildi þrár og drauma Möngu, því að sjálf hafði hún næstum hlotið það hlutskipti líka, að verða vinnuhjú til æviloka. 

Hún var komin á fimmtugsaldur þegar hún kynntist vinnumanni, sem hún giftist og eignaðist tvö börn með. 

Þau keyptu jörðina Hvamm, hófu þar erfiðan búskap í kreppunni en skildu tíu árum síðar og hafði ríkið þá eignast jörðina. 

Sumarið 1954, síðasta sumarið mitt í Hvammi, náði Björg þeim þráða áfanga eftir mikið strit og baráttu að eignast jörðina á ný. 

Enginn skildi förukonuna Margréti Sigurðardóttur, Möngu með svartan vanga, betur en hún.  

 

 

 


mbl.is Blint froskdýr nefnt eftir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Frábær bókin þín um Möngu. 

Sigurður I B Guðmundsson, 26.12.2018 kl. 23:58

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk. Það var ómetanlegt að eiga þess kost að fá tækifæri á unga aldri til að skyggnast inn í hina miklu örlagasögu íslenskrar alþýðu á öldum harðræðis og fátæktar, en sjá líka "margan gimstein þann, sem glóir í mannsorpinu" eins og skáld hinna smáðu og þjáðu lýsti því. 

Ómar Ragnarsson, 27.12.2018 kl. 01:32

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Mögnuð saga.

Halldór Jónsson, 27.12.2018 kl. 03:49

4 identicon

Merkileg tilviljun. Ég fékk þessa bók á Amtsbókasafninu fyrir viku síðan og var að ljúka við hana. Hreint ótrúleg saga og merkileg.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 27.12.2018 kl. 06:31

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Er bókin kannski á netinu eða  hvað heitir hún?

Halldór Jónsson, 27.12.2018 kl. 08:37

6 identicon

Bókin heitir "Manga með svartan vanga". Útg. Fróði HF.1993.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 27.12.2018 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband