"Nei, nei, Grænlandsjökull og hinir jöklarnir hækka og stækka."

Líklega eru liðin ein sex eða sjö ár síðan ágætlega menntaður og gegn maður, bað síðuhafa að koma afsíðis með mér til þess að sjá með eigin augum rétt, óyggjandi og hrollvekjandi vísindaleg gögn með mælingum og myndum, sem sýndu hraðan vöxt hafíssins í Íshafinu. 

Fylgdi sögunni og kom síðar fram í umræðum á netinu, að "veðurfar færi hratt kólnandi."

Síðan eru liðin sjö ár og enn ríkir það hlýindaskeið, sem hófst rétt fyrir síðustu aldamót eins og sjá má af tengdri frétt á mbl.is.  

Í fyrra var stór hluti umræðu af þessu tagi á því stigi, að fullyrt var, að myndir, mælingar og óyggjandi gögn sýndu, að Grænlandsjökull og aðrir jöklar væru ekki að minnka, heldur hækka og stækka. 

Með þessum fullyrðingum voru meðal annars sýnd kort af skriðjökli, sem fyrir rúmlega öld lá eina 40 kílómetra til vesturs út úr Grænlandsjökli yfir austan Jakobshavn, og fullyrt, að myndin sýndi hvorki meira né minna en 45 kílómetra framskrið íss og jökuls þarna á síðustu 140 árum.

En þegar kort af þessu var skoðað nánar kom í ljós að hið gagnstæða hafði gerst; jökullinn hafði hopað alla þessa vegalengd. 

En þetta var eins og skvetta vatni á gæs, því að nú var því bætt við, að myndir og mælingar af minnkun og hopi jökla væru falsaðar, þannig að jafnvel hefði verið víxlað myndum og þær myndir, sem ættu að sýna jöklana fyrir til dæmis nokkrum áratugum, væru í raun af þeim, eins og þeir væru í dag, - og öfugt.  

Og einn kuldatrúarmanna tók sig meira að segja til í fyrra og mældi islensku jöklana sjálfur og komst að því að þeir hefðu alls ekki minnkað neitt. 

Nú segja sumir, að ekki eigi að vera eyða orðum á afneitunar "gögn" af þessu tagi. 

En slíkar fullyrðingar hafa þau áhrif, að vegna þess hve einbeittur vilji liggur að baki röksemdafærslu  og "gögnum" kuldatrúarmanna, stendur hinn almenni notandi samfélagsmiðlanna ringlaður frammi fyrir frétta- og pistlaflæði af þessum málum, og margir gefast upp með því að segja sem svo, að það sé engum að treysta og best að taka ekki mark á neinu. 

Slíkt ástand hentar hins vegar almennt best þeim, sem bera út falsfréttir á borð við þá, sem fékk flug hér á dögunum, að hver strætisvagn mengi á við 7500 bíla. 

Mengun fer, að öðru jöfnu, mest eftir þyngd bíla, og samkvæmt þessari frétt vegur hver strætisvagn minnst 5000 tonn og er nokkrir kílómetrar á lengd! 

En ein ljósvakafréttastofan sá sig knúða til að leita hins rétta hjá Strætó, vegna þess hve margir gleyptu við þessum andróðri gegn almenningssamgöngum. 

Þegar flæðið af umræðu af þessum toga fer yfir viss mörk, svo að hinn almenni kjósandi veit ekki sitt rjúkandi ráð, er vegið að lýðræðinu.  


mbl.is Íshellan á Grænlandi bráðnar sjö sinnum hraðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það sem þyrfti að gera er að gefa út lítinn bækling þar sem þessi mál eru útskýrð. Meginvandinn í þessari umræðu er í rauninni skortur á réttum upplýsingum. Þess vegna er auðvelt að blekkja fólk með alls kyns bulli.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.12.2019 kl. 17:44

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Margar voru heimsendaspárnar í mínum unglings aldri, en aldrei loftslagsvá. Fyrir 1940 voru mikill hlýindi. Um 1960 snjóþyngsli á veturna og snjóhús byggð af krökkum í Reykjavik. Nú er þetta gjörbreytt, en of stuttur tíminn til að ákveða hvort hlýnun sé af mannavöldum. Tel að bloggið sé einn þáttur okkar í að afla, skoða fréttir, rökræða og gagnrýna. Ekki einungis láta mata okkur á fréttum eins við erum vanir.

Hvað þá skrifa undir syndaaflausnir.

Ætli sé ekki vísara að bíða í nokkur hundruð ár til að geta fullyrt miðið um hlýnun. Sólina tekur ekki nema innan við tíu mínútur að senda til jarðar álíka orku og maðurinn notar á ári.

Sigurður Antonsson, 11.12.2019 kl. 19:41

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Rökræða, efasemdir og gagnrýni eru af hinu góða. En ef menn skilja það sem svo að rökræða felist í því að staðhæfa eitthvað út í loftið, efasemdir í því að loka augunum fyrir staðreyndum, og gagnrýni í því að lepja upp þvælu af youtube, þá er betur heima setið en af stað farið.

Vissulega hafa stundum verið hlýindi, og stundum hefur verið kalt. Og sólin býr yfir mikilli orku. En hvernig í ósköpunum þessar staðhæfingar eiga að gilda sem röksemdir gegn niðurstöðum um áhrif manna á loftslagið, það er mér gersamlega hulið. Alveg eins og ef einhver heldur því fram að það sé nú engin ástæða til að taka mark á áróðri gegn reykingum vegna þess að sumir reykingamenn lifi lengi, Siggi frændi hafi nú dáið úr allt öðru og í sumum löndum deyi fólk unnvörpum úr hungri.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.12.2019 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband