Frétt: OF E24 gaf stefnuljós á réttan hátt! Lausn umferðarvandamála er margþætt.

Á 10 kílómetra langri ökuleið fyrir nokkrum dögum ákvað síðuhafi að kasta tölu á það til gamans, hvernig notkun stefnuljósa væri háttað í umferðinni. 

Niðurstaðan í þessari 10 kílómetra ferð var sláandi, og það svo mjög, að ofangreind fyrirsögn er frétt: 

Aðeins einn ökumaður, á hvítum sendibíl með númerinu 0F E24, gaf stefnuljós á réttan hátt.  Hann ók til norðurs eftir Grensásveg milli Fellsmúla og Ármúla og gaf tímanlega stefnuljós sem sýndi að hann ætlaði að beygja til vinstri inn á Ármúla. Hann gaf aftur stefnuljós á réttan hátt neðar í þeirri götu til merkis  um að hann þyrfti að beygja þar til hægri inn á bílastæði.

Meirihluti ökumanna á þessari ökuleið sinnti því ekki að gefa stefnuljós þegar það átti við, samkvæmt ákvæðum umferðarlaga, og virtist engu líkara en að þeir teldu það skerðingu á friðhelgi einkalífs að gera það. 

Minnihlutinn gaf að vísu stefnuljós við þessar aðstæður, en því miður of seint til þess að það nýttist til liðkunar og öryggis í umferðinni, ýmist ekki fyrr en stefnubreytingin var hafin eða jafnvel ekki fyrr en henni var að ljúka!  Engu líkara en að stefnuljósagjöfin væri ekki til að auðvelda og greiða fyrir umferð, eldur væri hér á ferðinni ljóslifandi heimsþekkt viðleitni Íslendinga sem sagnaþjóðar að segja frá orðnum hlutum. 

Í þessum efnum ríkir undarleg ringulreið og ruglið og óvissan skapar öryggisleysi, sem gerir það að verkum, að sennilega væri skásta lausnin sú að aflétta öllum ákvæðum um notkun stefnuljósa hér á landi, banna þau, taka þau úr bílum og senda þau úr landi til notkunar hjá þeim þjóðum, sem kunna að nota þau og vilja það. 

Mörgum sinnum á þessari ökuleið í gegnum Grafarvogshverfi vestur í Lágmúla tóku bílstjórar, sem biðu í röð við rautt umferðarljós, sér það bessaleyfi að drattast svo seint af stað að margra tuga autt svæði myndaðist fyrir framan hvern og einn bíl, svo að stað þess að á beygjuljósi kæmust tíu bílar yfir, komust kannski aðeins tveir! 

Í mörgum tilfellum brugðu hinir öftustu á það ráð að fara yfir á rauðu ljósi og skapa með því auka hættu. 

Ofangreind hegðun okkar Íslendinga er ekkert síður partur af umferðarvandamálum okkar en sá skotgrafahernaður að annars vegar ríki einkennileg tregða yfirvalda til að greiða fyrir bílaumferð, en í gagnstæðum skotgröfum sé undarleg þrjóska til að viðurkenna, að hver sá sem notar minna einkafarartæki en bíl eða almenningssamgöngur er í raun að stuðla að greiðari umferð einkabíla. 

Sá sem ekki notar einkabíl gefur í raun eftir rými handa öðrum til slíkra nota. 

Augljóst er að spá um 50 þúsund manna fjölgun á höfuðborgarssvæðinu á næsta áratug þýðir að óbreyttu 50 þúsund viðbótar stækkandi einkabíla (helst "jeppa") og það er einfaldlega hvorki rými né fjármagn fyrir hendi til að uppfylla þær miklu kröfur sem slíkri risaviðbót fylgir.  


mbl.is „Seltjarnarnes fangi Reykjavíkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð skrif Ómar !

Eins og svo oft áður, um ýmislegt sem snýr að umferðarmenningu og umferðarþróun hérlendis.

Þú gerðir lauslega athugun á notkun stefnuljósa ökumanna.

Ég tel, að einhver ætti að gera athugun á notkun stefnuljósa hérlendis, á hringtorgum.

Það virðist næstum engin kunna.

Úr æsku man ég eftir leiðbeiningaþáttum um akstur í hringtorgum, úr eina sjónvarpi landsmanna, RÚV, sem þá var í boði. Ónefndur maður sýndi á snilldarlegan hátt, rétta hegðun akandi umferðar í hringtorgum.  Þetta var gert, með eftirlíkingu af hrngtorgi og litlum leikfangabílum. Virðist ekki vanþörf á, að endursýna umrædda þætti, óbreytta. Þegar gamala bílnúmerakerfið var við lyði, gátu Höfuðborgarbúar varað sig á, eða tekið tillit til þeirra, sem komu utan af landi,og voru óvanir að aka í umfer ðHöfuðborgarinnar, þekktu ekki hringtorg og umferðarljós. Líklega þyrfti umferðareftirlit lögreglu, að stöðva þá sem ekki kunna að nota stefnuljós, og neyða þá til að aka um með áberandi límmiða á bílnum, helst ljótann, þeim til háðungar, einnig svo við hin getum varað okkur á þeim í umferðinni.   

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 9.2.2020 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband