Brunnið á við hálfa Danmörku eða fjórðung Íslands.

Fróðlegt er að heyra og sjá staðreyndir varðandi eldana miklu, sem nú hafa leitt eyðileggingu yfir um 18 þúsund ferkílómetra lands á Vesturströnd Bandaríkjanna, en það samsvarar fjórðungi Íslands eða svæði frá sjó upp að línu sem lægi um Hítará, Holtavörðuheiði, Langjökul, Hofsjökul og þaðan í Mýrdalsjökul. 

Eða hálfri Danmörk.

Fróðlegt var að heyra okkar helsta sérfræðing í loftslagsmálum rekja í fréttaviðtali, hvernig vaxandi eldum á þessum slóðum með nýrri og nýrri metúbreiðslu hefur verið spáð í mörg ár, svo að þetta fordæmalausa ástand kemur þeim ekki á óvart.

En áfram halda efasemdarmenn um loftslagsbreytingar að halda hinu gagnstæða fram, að öll hitametin, mælingarnar og myndirnar séu falsanir vísindasamfélags sem þurfi að taka í lurginn á með því að reka alla og ráða nýja "alvöru" vísindamenn, sem komast að "réttum niðurstöðum." 

Þegar Bandaríkjaforseti kom í heimsókn til Kaliforníu í fyrri meteldum til að kynna sér málið, kenndi hann aumingjadómi slökkviliðsins og lélegum brunavörnum í boði demókrata um eldana, en spurning verður hvort hann muni gera svipað nú. 

Honum er þó sjálfsagt alveg óhætt, fylgismanna sinna vegna, að rifja upp fyrri ummæli sín, því að fylgismenn hans hér á landi og erlendis tala áfram í fjölda pistlum og greina um "40 þúsund fífl í París" á loftslagsráðstefnunni 2015 og þá lygi að jöklar minnki og loftslag fari hlýnandi á jörðinni sem heild eins og sjáist best á kuldunum hér á landi.  


mbl.is Yfir hálf milljón flýr eldana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ómar.

Eldsmaturinn sem náttúruverndarmenn (vinstrimenn) í Kaliforníu hafa skilið eftir í skógunum með því að neita að hirða þá áratugum saman, og sem þeir sögðu að ætti að verða að "gróðurmold", er víst það sem fær eldana til að blossa svona hroðalega upp. Það segja þeir sem búa þarna og hafa búið þarna allt sitt líf. Stórir og rotnandi trjábolir í endalausu magni sem náttúrverndarmenn lögðu trú sína á, virka nú eins og napalm-sprengjur á meðan standandi tré skógarins brenna ekki fyrr en eldsneyti náttúruverndarsinna kveikja að lokum í þeim.

Og síðan er það þannig að ekki var hægt að brenna þá hluta skóganna sem brenndir eru á vorin í vor, vegna kínversku Wuhanveirunnar. Fólk lá veikt eða komst ekki í skógarhöggið og viðhald skóganna með stjórnuðum bruna. Enda hefur verð á timbri rokið upp í Bandaríkjunum undanfarna mánuði. Skógarhöggsmenn hafa ekki komist til vinnu sinnar.

Síðustu eldar fyrir nokkrum árum síðan í sama ríki voru einnig verk náttúruverndarsinna, með því að raforkudreifingarfyrirtæki þeirra á hausnum kveiktu í skógunum. Náttúruverndar-sinnarnir höfðu neitað að hirða skógana og líka að viðhalda dreifikerfinu. Það var að niðurlotum komið. Dómur féll í því máli þar sem sökin sönnuð og raforkudreifingarfyrirtækið fór í þrot.

Ef þetta vinstralið náttúrverndarsinna fær áfram að ráða för þá verður Kalifornía fyrsta þriðjaheims ríki Bandaríkjanna. Og gott ef það er ekki nú þegar orðið það, því þar er rafmagnið skammtað og rafbílar góða fólksins hlaðnir upp með dísilrafölum. Er þetta ekki yndislegt.

Stór hluti millistéttarinnar hefur flutt burt úr ríkinu og ef bara þrír risastórir skattgreiðendur Kísildalsins flytja líka, þá fer Kaliforníuríki í þrot. Vinstrimönnum tókst þarna að breyta paradís í helvíti á bara nokkrum áratugum með heimsku sinni, svipað og er að gerast í Venesúela.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 12.9.2020 kl. 00:14

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að það sé nokkuð til í því sem Gunnar segir. Fólk sem býr í nábýli við svona skóga veit að til að hindra elda þarf að grisja skógana. Ef það er ekki gert geta stjórnlausir eldar brotist út.

Það merkir hins vegar ekki að loftslagsbreytingar geti ekki líka haft áhrif. Það er alveg mögulegt. En þótt ekki væri um þær að ræða myndu eldar kvikna samt sem áður. Þannig hefur það verið árþúsundum saman. Frumbyggjar á svona svæðum kunnu tökin á þessu. 

Þorsteinn Siglaugsson, 12.9.2020 kl. 01:17

3 identicon

Varla hægt að kenna einnar gráðu hlýnun um þessa skógarelda...

sigurður jón björnsson (IP-tala skráð) 12.9.2020 kl. 18:00

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Loftslagsbreytingar geta vel haft mikil áhrif á veðurfar. En skógareldum má forða með grisjun. Víða um heim hafa frumbyggjar stundað markvissar brennur til grisjunar til að koma í veg fyrir óviðráðanlega skógarelda. Í Kaliforníu sáu orkufyrirtæki um grisjun. Hún var síðan stöðvuð að kröfu umhverfisverndarsinna. Og þá stórjókst hætta á óviðráðanlegum skógareldum. Slíkt verður að taka með í reikninginn þegar leitað er orsaka. Það er ótækt að binda sig bara við eina vinsæla skýringu og tönnlast sífellt á henni.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.9.2020 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband