Súlnasalurinn; einstæður á sinni tíð og sagnaslóð.

Fyrir tæpum sex áratugum var stærsti skemmtistaðurinn í Reykjavík á við Skaftahlíð og hét Lídó. 

Þetta var ferhyrndur salur, líkt og salurinn á Hótel Borg hafði verið á undan honum sem flottasti skemmtistaður Reykjavíkur.   

Við fyrstu athugun var erfitt að sjá að hægt yrði að gera betur í þessum efnum í hinu nýja hóteli við Melatorg, sem var að rísa.  

En arkitektar hússins sáu við því með því að gera bogadregna tveggja hæða viðbyggingu út úr norðvesturhorni hússins og leysa vandamál varðandi rými til veitinga, funda og dansleikja í einum og sama salnum með því að hafa hringlaga dansgólfið þannig útbúið í miðjum salnum, að hægt væri að hækka það þannig upp með þar til gerðum súlum undir því, að það gæti nýst sem leiksvið á samkomum, en orðið á svipstundu að nógu stóru dansgólfi.  

Þetta var alger nýjung hér á landi og enda þótt salurinn í heild bryti helstu reglur um það hvernig best væri að ræðumenn eða aðrir, sem kæmu þarna fram, sneru gagnvart áhorfendum, varð Súlnasalurinn strax langflottasti skemmtistaður landsins.  

Ekki spillti fyrir að vinsælustu hljómsveitirnar, fyrst hljómsveit Svavars Gests og síðar Ragnars Bjarnasonar, léku þar fyrir dansi. 

Þegar Súlnasalurinn var þétt setinn, sneru þeir sem þar komu fram aðeins að 40 prósentum áhorfenda en hlið eða baki að 60 prósentum. 

En slíkt var aðdráttarafl þessa salar, að hann var sjálfkjörinn vettvangur fyrir helstu samkvæmin á Íslandi svo sem þegar frægir erlendir ráðamenn komu í heimsókn, til dæmis Edward Heath forsætisráðherra Breta, sem var þar heiðursgestur á árshátíð Blaðamannafélags Íslands. 

Einnig vettvangur atburða á borð við fundi NATÓ og fleiri alþjóðasamtaka. 

Súlnasalurinn er merkilegur sögustaður á flesta lund sem á það skilið að vel sé vandað til þess hvernig honum er ráðstafað.   

 


mbl.is Mikill áhugi á Hótel Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Svo komu fram þarna skemmtikraftar eins og t.d. Halli og Laddi, Sumargleðin að ógleymdum síðuhafa sem gerði allt "vitlaust" t.d. á Kúttmagakvöldum Lionsklúbbsins Ægis og á Útsýnarkvöldum. 

Sigurður I B Guðmundsson, 11.2.2021 kl. 11:43

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það komu oft helgar með samtals fimm giggum hverja helgi á Hótel Sögu; uppi í Súlnasal og niðri í Átthagasal. 

Ómar Ragnarsson, 11.2.2021 kl. 20:05

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Og nú getur þú hlustað á margt að því, þökk sé mér og hvernig gengur að "kópera" allar kassetturnar?

Sigurður I B Guðmundsson, 11.2.2021 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband