Fjörbrot heimsveldisstefnunnar? Nei, GAGA skal það vera.

Þegar landafundir hófust fyrir um fimm hundruð árum, hófst jafnframt kapphlaup svonefndra nýlenduvelda um yfirráð og áhrif á hinum nýnumddu svæðum. 

Nýlendustefnan varð til og birtist í mörgum myndum. Monroe-kenningin svonefnda 1823 var í raun birtingarmynd af heimsveldastefnu, sem átti að tryggja, að báðar amerísku álfurnar yrðu sneyddar íhlutunum eða áhrifum evrópsku stórveldanna en hins vegar hefðu Bandaríkin þar áhrifasvæði sitt. 

Síðari hluta 19. aldar gerðist það stundum að stórveldin skiptu með sér svæðum, og eru samningar Breta og Frakka um Afríku gott dæmi um það. 

Ein af vonum Þjóðverja í Fyrri heimsstyrjöldinni var óánægja þeirra með skarðan hlut í Afríku. 

Þær vonir urðu að engu í styrjöldinni og tvö heimsveldi, það tyrkneska og hið austurríska, hrundu. 

En áfram hélt heimsveldisstefnan að birtast, og Mussolini dreymdi um að endurreisa Rómaveldi. 

Það fór í vaskinn, en afar þjóðernissinnuð stefna hans minnir á stefnu Pútíns nú. 

Griðasamningur Stalíns og Hitlers byggðist á hreinni útfærslu gamallar heimsveldisstefnu að marka sér og semja um áhrifasvæði. Járntjald féll um Evrópu þvera, Breska nýlenduveldið liðaðist í sundur nema að nafninu til í svonefndu Samveldi. 

En allan tímann var alltaf verið að spila eftir áhrifasvæðastefnu heimsveldisstefnunar. 

Bandaríkin hafa haldið uppi ákveðinni útfærslu, sem hefur leitt af sér fjölda ígrípa þeirra af málefnum ríkja um allan heim, eins og Kóreustríðið, Vietnamstríðið, Afganistan, Írak og "Arabíska vorið" bera vitni um. 

Þessi stefna hefur orðið fyrir áföllum, og marga dreymir um að heimsveldisstefnan fari að renna sitt skeið á enda. 

En nú hefur þessi stefna, sem gat birst í svona mörgum myndum eins og því að fela í sér ákvæði um hlutleysi ríkja, svo sem Austurríkis, Júgóslavíu og Finnlands virst eiga möguleika að komast á lokastig. 

En Vladimir Pútin leggur nú í raun út í þann leiðangur að nota hervald til þess að þvinga fram áfamhaldandi gildi skiptingu heimsálfa í áhrifasvæði með gamla laginu, og líkindin á milli hans og Mussolinis eru sláandi, vitnað í forna frægð og veldi rússnesku keisaranna og síðar Sovétríkjanna og stjórnarfar og stefna þeirra dýrðartíma gerð að keppikefli sem öll heimsbyggðin verði að beygja sig fyrir. 

Stóri munurinn á Pútín og Mussolini er hins vegar sá, að Pútín er í þeirri klikkuðu aðstöðu að geta hleypt af stað gereyðingarstríði allra jarðarbúa. Það er trúarsetningin MAD, á íslensku GAGA (Gagnkvæm Altæk, Gereyðing Allra.) 


mbl.is Rússar hættir við umdeilda ályktunartillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Í 2. kafla Daníelsbókar ræður Daníel draum Nebúkadnesar þar sem hann dreymir um öll heimsveldi eftir hans daga, þ.e. Babýlóníu (hans eigið), Medíu-Persíu, veldi Alexanders mikla og Rómarríki. Heimsveldin koma fram sem líkneski, höfuð úr gulli, brjóstkassinn og handleggirnir úr silfri, kviðurinn og lendarnar úr eir og fótleggirnir bæði úr járni og leir (bandalag sterkra og veikra ríkja.)

Í draumnum féll síðan steinn sem mölbraut líkneskið og varð sjálfur að stóru fjalli sem náði yfir alla jörðina. Daníel túlkar steininn sem Drottin Jesú Krist og Guðsríkið, sem mun taka yfir alla jörðina.

Nú segir einhver kannski að Rómarríki sé fallið. Nei, ekki alveg. ESB er í raun byggt upp af fyrrum löndum þess og fjölmargar stjórnsýslubyggingar ESB eru einmitt í Róm.

Sem sagt síðasta heimsveldið áður en Kristur kemur aftur, er nú uppi. Ég legg til að við gerum okkur reiðubúin fyrir endurkomu Konungs konunganna. Um hrun Rússlands  má lesa í 38. og 39. kafla Esekíelsbókar. Margir virtir biblíuskýrendur telja að þar sé verið að ræða um rússneska heimsveldið.

Theódór Norðkvist, 18.3.2022 kl. 13:09

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Heldur þú Ómar að Pútín sé nógu brjálaður að fórna öllu í Rúslandi, gullþökunum í Kremln og öllu öðru, tvöhundrað milljon Rússum og Úkraínubúm, 300 milljónum Kana  milljarði Kínverja og öðrum í Indlandi plús allri evrópu fyrir það að látið verði á hótanir hans reyna og vestrið styðji trúðinn Zelensky svo ótakmarkað ? Hefði Hitler gert það?

Halldór Jónsson, 18.3.2022 kl. 14:08

3 identicon

Halldór.

"Lengi skal manninn reyna". 

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 18.3.2022 kl. 16:32

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Ályktanir þínar hér að ofan eru algjörlega rangar.  Mússólíni var bara Mússólíni, hann gerði nákvæmlega ekki neitt, nema guð blessi hann fyrir innrás hans í Albaníu, sem þá var næstfátækasta ríki Evrópu, eftir Íslandi, ófarir hans frestuðu árás Þjóðverja á Sovétríkin.

Hitler dró Mússólíni að landi með því að ráðast á Serbíu, og í framhaldinu á Grikkland, þær vikur kostaði hann lokaárásina á Moskvu, hann missti af haustinu.

Aðeins annar atburður í upphafi stríðsins er jafnmikilvægur, en það er hetjuleg vörn Hollendinga, sem gaf Bretum það næði að draga her sinn til baka að Dunkirk, og ferja hann síðan yfir Ermasundið.

Ef ekki hefðu líklegast Breta gefist upp, það er samið frið við Þjóðverja líkt og Palli bloggkóngur og Davíð ritstjóri tala fyrir, og þá hefði ekkert orðið úr andstöðu hins frjálsa heims gagnvart hinni tæru illsku sem hafði grafið um sig í Berlín.

Síðan er það rangt að vísa í eitthvað meint heimsvaldaviðhorf Rússa, stórveldi hafa sett línu frá örófi alda þar sem þau líða ekki afskipti annarra hervelda, í nútímanum er nærtækast að tala um línu Kennedy gagnvart uppsetningu Sovétsins á eldflaugum á Kúbu.

Rússland Pútíns upplifði ógn vegna útþenslu ESB og aftanítossana sem kennt er við Nató.

Í hátt í 10 ár hafa Rússar varaði við þessari útþenslu, dropinn var líklegast valdaránið í Kiev 2014 sem ESB fjármagnaði.

Ekki það að það afsaki nauðvörn Rússa, það er innrásina í Úkraínu, en það er samt óþarfi að fabúlera alls kyns hluti sem eiga sér enga stoð í þekktri vitneskju sögunnar.

Að þrengja að stórveldi, eða æsa til stríðs gegn því, hefur sjaldnast endað vel.

Það ætti að vera lærdómur okkar á Vesturlöndum, það er ef við fáum tækifæri til þess.

Breytir samt ekki að ístaðið þurfum við að standa núna.

Kveðja úr veðurblíðunni og friðnum að austan.

Ómar Geirsson, 18.3.2022 kl. 16:47

5 identicon

Þökk fyrir góðan pistil, Ómar!

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.3.2022 kl. 16:50

6 identicon

Sæll Ómar.

Í 13. kafla Jesaja er að finna
ennfrekari hjartaskérandi lýsingar um fall þessa sæluríkis
sem Babýlon þótti vera.

Jafnvel Egill Skallagrímsson toppaði ekki þessa lýsingu:

12Ég vil láta menn verða sjaldgæfari en skíragull og mannfólkið torgætara
en Ófír-gull.

13Þess vegna vil ég hrista himininn, og jörðin skal hrærast úr stöðvum sínum fyrir heift Drottins allsherjar og á degi hans brennandi reiði.

14Eins og fældar skógargeitur og eins og smalalaus hjörð skulu þeir hverfa aftur, hver til sinnar þjóðar, og flýja hver heim í sitt land.

15Hver sem fundinn verður, mun lagður verða í gegn, og hver sem gripinn verður, mun fyrir sverði falla.

16Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar.

17Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim. Þeir meta einskis silfrið og þá langar ekki í gullið.

18Bogar þeirra rota unga menn til dauða. Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna.

19Svo skal fara fyrir Babýlon, þessari prýði konungsríkjanna og drembidjásni Kaldea, sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru.

20Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn.

21Urðarkettir skulu liggja þar og húsin fyllast af uglum. Strútsfuglar skulu halda þar til og skógartröll stökkva þar um.

22Sjakalar skulu kallast á í höllunum og úlfar í bílífis-sölunum. Tími hennar nálægist og dagar hennar munu eigi undan dragast.

Annars eru bjórverslanir á næsta leyti svo menn geta leitt
hjá sér þetta bévitans rugl!!

Húsari. (IP-tala skráð) 18.3.2022 kl. 18:59

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er engu að treysta þegar einvaldar eru annars vegar. Hitler og nánasta hirð hans voru búnir að tapa stríðinu algerlega þegar Bandamenn voru komnir með heri sína inn fyrir landamæri Þýskalands, en samt hélt Hitler fast við þá túlkun slagorðsins "aldrei aftur 1918", að hann jók tölu fallinna af algeru tiltangsleysi um nokkrar milljónir manna aukalega 1945.  

Hitler trúði því að það væri úti um Evrópu og hefði sprengt allt í loft upp ef hann hefði ráðið yfir kjarnorkuvopnum. 

Ómar Ragnarsson, 18.3.2022 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband