Alls konar mannaskipti hafa verið reynd síðan 1959, með misjöfnum árangri.

Í langri sögu stjórnar Reykjavíkur, fyrst sem bæjar og síðar sem borgar, hefur það komið fyrir að borgarstjóraembættinu hefur verið tvískipt og líka að hafa valdaskipti innan kjörtímabils.

1959 settist þáverandi bæjarstjóri, Gunnar Thoroddsen, í stól fjármálaráðherra Viðreisnarstjórnar þegar valdasól hans í bænum skein sem hæst eftir að hafa hlotið 57 prósent atkvæða í bæjarstjórnarkosningum og tíu bæjarfulltrúa af fimmtán í ársbyrjun 1958. 

Geir Hallgrímsson varð bæjarstjóri, en á tímabili voru bæjarstjórarnir tveir samtímis á meðan Auður Auðuns gengdi starfinu að hálfu.

1978 féll meirihluti Sjalla, og vinstri flokkarnir, sem tóku við sem meirihluti, tóku það til bragðs að ráða "óháðan" borgarstjóra utan stjórnmálanna.

Þetta þótti mörgum lykta af ákveðnu ósætti innan meirihlutans, sem birtist í því að enginn af oddvitum hans gæti unnt öðrum að hreppa þetta embætti. 

Hvað, sem því líður, reyndist hinn nýi meirihluti ekki samhentari en það að hann steinlá fyrir Davíð Oddssyni 1982. 

1991 endurtók sig sagan frá 1959, að Davíð varð forsætisráðherra eftir að hafa unnið 10 borgarfulltrúa stórsigur með 60,4 prósenta fylgi í borgarstjórnarkosningunum 1990. 

Davíð stóð það vel að vígi að honum hefði líklega tekist að velja á milli þriggja kandidata úr borgarstjórn strax til að gegna embættinu, Katrínar Fjeldsted, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og Árna Sigfússonar, en hann greip hins vegar til þess ráðs að leita út fyrir borgarstjórnarflokkinn og ráða Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra og fyrrum forseta borgarstjórnar til starfans. 

Þessi ákvörðun, að taka mann utan borgarstjórnarfulltrúa í starfið, virtist líkjast of mikið ráðningu Egils Skúla Ingibergssonar 1978, og þegar stutt var í kosningar, varð þrautaráðið að kalla Árna Sigfússon til starfans. 

Honum tókst að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins, en tíminn var orðinn of skammur til kosninga, enda höfðu andstæðingar Sjallanna fundið röggsaman frambjóðanda sem borgarstjórnarefni fyrir sameinaðan lista keppinauta Sjálfstæðisflokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og kaflaskil urðu í borgarstjórn, sem entust þar til Ingibjörg bauð sig fram til þings 2003. 

Þegar mikill órói og pólitísk vandræði sköpuðust leiddi það af sér ringulreið, sem lýsti sér í því að á milli 2003 og 2010 voru borgarstjóraskipti sex sinnum. 

Í landsmálunum skiptu Davíð Oddsson og Halldór Asgrímsson komandi kjörtímabili eftir kosningarnar 2003 í tvennt, svipað og Dagur og Einar gera nú. 

Það fyrirkomulag endaði með því að Halldór sagði af sér forsætisráðherraembættinu og einnig formennsku í Framsóknarflokknum í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006. 

Að þessu sögðu hefur það gefist misjafnlega að vera að vera að hræra mikið í verkaskiptum varðandi meirihlutasamstarf í borgarstjórn og ríkisstjórn í gengum tíðina. 

En reynslan sýnir líka, að fyrirfram er erfitt að spá um það með vissu, hvernig svona mannaskipti reynast, því að svo margt getur spilað þar inn í.   


mbl.is Hefði verið ákjósanlegra að hafa einn borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband