HJÓNUM STÍAÐ Í SUNDUR Á EINSTÆÐRI SIGURSTUND.

Gríman er uppskeruhátíð leikhúsanna og leikhúsfólksins. Það er stór stund í lífi þessa fólks eftir þrotlaust og fórnfúst starf að fá að njóta þeirrar frábæru uppskeru sem liggur eftir í leikhúsunum eftir veturinn. Þess vegna var það sérkennilegt að standa á sviði í Borgarleikhúsinu i lok leiks á söngleiknum Ást í kvöld að verða vitni að því að Charlotte Böving stæði þar í stað þess að fá að njóta fágætrar sigurstundar með eiginmanni sínum Benedikt Erlingssyni í Íslensku Óperunni, en hann fékk þrenn Grímuverðlaun. Og Ófagra veröld sem Charlotte lék í, fékk þrenn verðlaun!

Og hvers vegna gat Charlotte ekki notið einstæðrar stundar í lífi listamanns í kvöld og hampað með sínum elskaða hvorki meira né minna en fernum verðlaunum og notið þrennra verðlauna með samstarfsfólki sínu í Ófagra veröld? Svona atburður er mjög fágætur og gerist varla nema einu sinni í lífi nokkurs listamanns.  

Jú, hún varð að sjálfsögðu að hlíta listamannsskyldu sinni í söngleiknum Ást og mér var tjáð að Sjónvarpið hefði neitað að uppfylla samningsbundið ákvæði um að sjónvarpað yrði frá Grímunni 16. júní eins og ævinlega og í staðinn krafist þess að vikið yrði frá þessu og hátíðin færð fram um eitt kvöld, - annars yrði ekki sýnt frá athöfninni.

Þessi krafa hefði komið svo seint fram að ekki hefði verið hægt að hætta við sýningu á Ást, en á þá sýningu hefði þá verið búið að selja svo marga miðað að ekki hefði verið hægt að færa hana, enda hefur verið uppselt á allar sýningar. 

Það er komið kvöld og ég hef því ekki hæft tækifæri til að heyra sjónarmið Sjónvarpsins, en það var ekki aðeins Charlotte sem missti af því að upplifa einstæðri sigurstund í kvöld með manni sínum, heldur tengdust tveir aðrir leikarar í Ást Grímuverðlaununum. 

Þau Hanna María Karlsdóttir og Theódór Júlíusson, sem sýnt hafa frábæra frammstöðu í Ást, voru tilnefnd til verðlaunanna , - hún fyrir hlutverk í Degi vonar en Theódór fyrir afburða túlkun sína í hlutverki Tómasar Péturssonar í Ást. Hanna María var rænd þeirri stund að fagna tvennum verðlaunum samstarfsfólks síns í Degi vonar og alls sex tilnefningum.

Í staðinn stóð hún á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu og gaf af list sinni.

Já, bæði Theódór og Hanna urðu svo sannarlega að vera fjarri góðu gamni í kvöld og uppfylla í staðinn þá höfuðskyldu leikhússsins að "the show must go on."

Þótt tilnefning leiði ekki til alltaf til verðlauna er stemningin á uppskeruhátíð, þar sem slíkt getur gerst, slík, að mér finnst það lágmarkskrafa að þeir sem tilnefndir eru eigi frí í vinnunni til þess að vera á uppskeruhátíðinni með vinum og samstarfsfólki ef þeir óska þess.

Þetta var síðasta sýningin á Ást í vor, en söngleikurinn verður tekinn sýndur áfram í haust. Ég vil senda samstarfsfólki mínu alúðarþakkir fyrir ógleymanlega samveru og samvinnu í vetur.

Þau Charlotte, Theódór og Hanna María hafa ásamt frábæru starfsfólki í sýningunni gefið mikið af sér að mínum dómi og eiga betra skilið en að þurfa að sætta sig við svona klúður.

Ég vona að betri skýringar gefist á þessu og að hægt verði að koma í veg fyrir að maður horfi aftur upp á atvik af þessu tagi.

Þetta snertir mig persónulega. Í sýningu Leikfélags Reykjavíkur steig ég sem barn mín fyrstu, stærstu og afdrifaríkustu spor í því hlutverki leikarans að flytja skilaboð og í framhaldinu færðist þetta hlutverk inn á önnur svið í Sjónvarpi.

Fyrir þetta eru leikhúsið og sjónvarpið og samstarfsfólkið þar mér næstum eins og ástvinir og þess vegna er það svo dapurlegt að nú skuli hafa orðið þessi árekstur. Elskurnar mínar, - ekki láta þetta gerast aftur.  

Á Sjómannadaginn eiga allir sjómenn að eiga frí. Á Grímukvöldinu á allt leikhúsfólk að eiga frí. Punktur. 

 


mbl.is Benedikt Erlingsson var sigurvegari Grímunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður pistill og þarfur.

Marta B Helgadóttir, 16.6.2007 kl. 01:59

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er oft erfitt að ákveða um viðurkenningar á borð við Grímuna og getur verið umdeilanlegt í einstökum tilfellum, satt er það.

En eftir starf með leikhúsfólki í vetur og í ljósi einstæðrar velgengni sýningar Benedikts Erlingsssonar í Borgarnesi sem hefur hlotið  slíka aðsókn að engan ætlar að taka, - þá heyri ég ekki annað en að það sé einróma álit allra sem til þekkja sem og þúsundanna sem séð hafa frammistöðu hans að hann hafi átt skilið þann heiður sem honum veittist í gærkvöldi. 

Frammistaða Benedikts er afrek og það væri ósanngjarnt að vera kasta rýrð á það með því að vera með nöldur út í Grímuna.

Ábending mín um neyðarlega uppákomu varðandi árekstur leikhúss og sjónvarps var til þess ætluð að benda á það sem betur mætti fara og ætti ekki að gerast aftur.

Ég vildi benda á eitt af því sem gæti eflt og bætt þessa uppskeruhátíð á alla lund og gefið þeim sem eiga heiður skilinn kost á að njóta ávaxta afreka sinna á eðlilegan hátt.  

Því segi ég við Benna og Charlotte: Innilega til hamingju með einstæðan sigur á listabraut ykkar. Þið áttuð allt gott skilið og við skulum ekki láta klúðrið sem var kveikjan að bloggi mínu eða skrif nöldurseggja skyggja á það.

Ómar Ragnarsson, 16.6.2007 kl. 12:26

3 identicon

Úfffff..... Ég fæ aldrei meiri kjánahroll en þegar fréttaflutningur frá grímunni kemur fyrir. Nema þá að vera skildi Eddan en...... úff maður þvílikt grín sem það nú er.

Björn Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband