17. JÚNI, - RÍFUM HANN UPP !

Þegar ég átti þess kost að fylgjast með hátíðahöldum á Íslendingadegi Vestur-Íslendinga í Gimli, smábæ í Manitoba fyrir nokkrum árum rann það upp fyrir mér hve léleg frammistaða okkar hér heima er 17.júní. Það sem gerir gæfumuninn er skrúðgangan vestra, þetta stórkostalega þróaða fyrirbrigði í Ameríku sem á enn svo langt í land hér heima. Af hverju veita Gay Pride og Menningarnótt 17. júní harða samkeppni? Af því að við vanrækjum þá stórkostlegu möguleika sem þjóðhátíðardagurinn gefur okkur og þá einkum varðandi skrúðgönguna.

Eini aðilinn sem mér sýnist haf bryddað upp á slíku hér heima 17.júní er Fornbílaklúbbur Íslands. En í Ameríku taka allir þátt. Skrúðganan í Gimli virtist endalaus, bæðí að lengd og fjölbreytni og samt er þetta bara smábær og aðeins eitt þjóðarbrot sem stendur að hátíðarhöldunum.

Hvert einasta félag, fyrirtæki, stofnun, leikhópar, hljómsveitir, - nefnu það, - allir tóku þátt í skrúðgöngunni og höfðu greinilega undirbúið þátttökuna lengi og vandlega.

Meira að segja komu bændurnir og fólkið úr nágrannasveitunum á dráttarvélunum með heyvagna og hvers kyns tæki og tól og tóku þátt í skrúðgöngunni.

Fyrir sumum vögnunum voru hestar og jafnvel uxar og uppi á heyvögnunum voru hljómsveitir sveitamanna, sönghópar, dansarar, allir í skrautlegum búningum þar sem þjóðbúningarnir voru fyrirferðarmiklir.

Sjáið þið fyrir ykkur dráttarvélarnar úr Kjósinni og af Vatnsleysuströnd dragandi vagna með karlakórum, kvennakórum, leikhópum og hljómsveitum úr nágrannasveitafélögunum sem fara syngjandi og spilandi niður Laugaveginn, ekki bara frá Hlemmi, heldur alla leið innan frá gatnamótum Kringlumýrarbrautar.

Lúðrasveitir, harmonikkuhljómsveitir, rímnasöngvarar o. s. frv. Fjölbreytning getur verið ótrúleg.

Jafnframt þessu getum við haldið við öðrum hefðum þessa dags, blómsveigurinn, ræða forsætisráðherra og allt það. 

Ég hef tillögu. Sendum nú fulltrúa frá Reykjavík eða frá Sambandi íslenskrar sveitarfélaga, sem dvelst mánuð í Ameríku og kynnir sér á hinum ýmsu hátíðarstöðum hvernig hægt er að rífa upp stemninguna á þjóðhátíðardaginn.

Við þurfum ekkert að skammast okkur fyrir að læra af Ameríkönum um framkvæmdir á skrúðgöngum. Skrúðgöngur eru hvort eð er orðnar að atriði í menningu okkar eins og Gay Pride gangan sýnir ljóslega og auðvitað á skrúðgangan 17. júní að vera lang flottust, því að þjóðhátíðardagurinn á að vera langflottastur.

Til hamingju með daginn !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæri Ómar

Þarna ert þú á heimavelli og í svona málum treysti ég engum betur en þér. Keyrðu þetta nú í gegn með þínu alkunna baráttuþreki. Til hamingju með daginn, sjálfur.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 23:13

2 identicon

Alveg stórsnjallt,  sammála Gaua  keyrðu þetta í gegn.

Ágústa (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 13:06

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Mikið sammála þér Ómar!  Skrúðgöngurnar hér í Ameríku eru frábær skemmtun og við mættum alveg leggja meiri metnað í þetta og taka upp Ameríska skrúðgöngu-menningu.  Kannski þarf bara að fá nokkra góða homma til að skipuleggja þetta svo gangan verði eins glæsileg og Gay Pride!

Róbert Björnsson, 17.6.2007 kl. 20:37

4 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Það hafa aldrei verið haldnar skrúðgöngur á Íslandi, bara hundleiðinlegir labbitúrar hellings af fólki með hendur í vösum. Það er hvergi "skrúð", bara ganga. Í besta falli leiðir leiðan flokkinn brassband sem spilar krókloppið milli þess sem það setur upp ullarvettlingana og þurrkar sultardropana áður en þeir verða að grýlukertum.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 18.6.2007 kl. 03:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband