BJÖRGUM GAMLA FLUGTURNINUM !

Víðar en á Seyðisfirði eru menningarminjar í hættu. Í mynd í Kastljósi í kvöld sem tekin var ofan úr flugturninum Reykjavíkí vakti athygli mína að það sást langar leiðir í hve hörmulegu ástandi gamli flugturninn er. Til stóð að rífa hann fyrir tveimur árum og enginn skilningur virðist vera á því að þetta er ein merkasta bygging borgarinnar. Úr turninum var stjórnað stórum hluta orrustunnar um Atlantshafið sem í öllum fræðibókum um stríðið fær álíka umfjöllun og Barbarossa, Stalingrad, Kursk, El Alamein og innrásin í Normandy.

Þegar farið er um Bretland, Frakkland og Noreg sést vel hvernig menn líta stríðsminjar af þessu tagi allt öðrum augum en hér.

Þegar breski sendiherrann hér frétti af því hvert stefndi með gamla turninn átti hann ekki orð af undrun. Hann er kurteis maður og kann sig en auðvelt var að sjá þegar rætt var við hann og fleiri Breta að þeim fannst þeim misboðið þegar þeir fréttu af því hvernig Íslendingar ætluðu að haga sér gagnvart sameiginlegum menningarminjum.

Menningarminjum? Hvernig getur hernaðarmannvirki verið menningarminjar?

Jú, í þessari byggingu var fyrsta flugumferðarstjórn á Íslandi og veðurstofan var einnig í turninum. Hvort tveggja var í turninum í mörg ár eftir stríð og stóra sjóflugvélaskýlið í Vatnagörðum og flugturninn eru elstu byggingar í þágu flugs á Íslandi. Það er lýsandi dæmi fyrir skilning Reykvíkinga á gildi sjóflugvélaskýlisins, sem á sínum tíma var stærsta bygging landsins, að bóndi vestur í Örlygshöfn skyldi verða til þess að varðveita það. Auðvitað hefðu Reykvíkingar átt að finna því stað í landi borgarinnar.

Ef við Íslendingar hefðum einhvern snefil af þeim hugsunarhætti sem maður sér að ríkir á hliðstæðum stöðum í nágrannalöndunum, væri gamli flugturninn kominn í upprunalegt horf og búið að innrétta hann sem safn þar sem á ákveðnum tímum um helgar væri sýnt hvernig sú starfsemi fór fram sem þarna var. Þar mætti sjá menn grúfa sig yfir kort af vígstöðunum við landið og skipuleggja baráttuna við óvininn.

Frá Íslandi flugu þær flugvélar sem klófestu fyrsta þýska kafbátinn sem náðist í stríðinu og baráttan um Atlantshafið stóð svo tæpt fyrstu mánuði ársins 1943, að hefði ekki tekist að snúa við blaðinu hefði ekki verið gerlegt að ráðast inn í Normandy í tæka tíð 1944 og Sovétmenn hefðu komist einir yfir Þýskaland með gríðarlega afdrifaríkum afleiðingum.

Hér á landi ríkir tvískinnungur varðandi hernaðarminjar. Þannig voru allir sammála um að varðveita Skansinn í Vestmannaeyjum, sem þó var hernaðarmannvirki reist á vegum dansks einvaldskonungs til þess að skjóta á og drepa aðvífandi innrásarlið.

Þegar hins vegar kemur að hernaðarminjum eftir veru Breta og Bandaríkjamanna er eins og mörgum Íslendingum finnist þær óæsklegar minjar um mannvirki sem nýttust í þeim ljóta tilgangi að herja og drepa. Það er eins og kalda stríðið standi enn þversum í mönnum, - að þetta séu vondar minjar.

Auðvitað er stríð hræðilegasta athöfn mannsins en gildi Skansins í Vestmannaeyjum byggist á því að hann var reistur til að verjast villimannlegum árásum sunnan frá Afríku.

Gamli flugturninn í Reykjavík var eitt af því sem notað var til að verjast nasismanum, einhverri mestu og villimannlegustu ógn sem mannkynið hefur þurft að horfast í augu við. Í stað þess að hálfskammast okkur fyrir að hafa tekið þátt í að verjast þessari ógn þurfum við Íslendingar ekkert að skammast okkar fyrir það að hafa nauðugir viljugir lagt varnarbaráttunni lið, þótt hún kostaði miklar mannfórnir.

Ein afsökunin sem borin var fram fyrir því að rífa turninn var sú að hann væri of nálægt aðflugslínu og akstursbraut. Er þó nýi turninn einnig inni í aðflugslínu og mjó akstursbraut rétt fram hjá turninum kemur ekki að sök, þótt hún myndi gera það á flugvelli með mjög mikilli umferð.

Önnur afsökun fyrir því að rífa turninn er að flugvöllurinn eigi að fara og þar með turninn líka. Þetta er enn lélegri afsökun.

Ég minni á vatnsturninn í Taarnbyen, Turnbænum á Amager, sem stendur þar á krossgötum og bæjarhverfið dregur nafn af. Þótt flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni gæti turninn vel staðið þar sem hann stendur nú og orðið prýði fyrir nýju byggðina, langmerkilegasta byggingin, hluti af lifandi flugsafni og mætti meira að segja skipuleggja umhverfið þannig að þarna yrði Taarnby, Turnbær Reykjavíkur.

Ein afsökunin sem notuð var til að réttlæta niðurbrot flugturnsins var sú að það yrði að brjóta hann niður, því ekki væri hægt að flytja hann. Þetta er líka rangt, - þannig var gamla flugstöðin á Kastrup, margfalt stærri bygging, flutt langar leiðir við flugvöllinn til að rýma fyrir nýrri því Dönum datt ekki í hug annað en að varðveita gömlu flugstöðina.

Flugturninn er annað af tveimur elstu flugmannvirkjum á Íslandi og hefur að því leyti til svipað gildi og elsta flugstöðin í Danmörku.

Þannig ber allt að sama brunni og ég enda þennan pistil eins og ég byrjaði hann: Björgum gamla flugturninum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Tek undir þetta.

Þessi orð þín eru perlur:

"Gamli flugturninn í Reykjavík var eitt af því sem notað var til að verjast nasismanum, einhverri mestu og villimannlegustu ógn sem mannkynið hefur þurft að horfast í augu við. Í stað þess að hálfskammast okkur fyrir að hafa tekið þátt í að verjast þessari ógn þurfum við Íslendingar ekkert að skammast okkar fyrir það að hafa nauðugir viljugir lagt varnarbaráttunni lið, þótt hún kostaði miklar mannfórnir."

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.12.2007 kl. 07:23

2 identicon

Varðskipið Óðinn bíður nú örlaga sinna af því það hefur ekki komist á hreint hvort það verði varðveitt eða því hent.  Við verðum að vona að Óðins bíði ekki sömu örlög og Þórs, sem liggur nú smáður við bryggju eftir að einhver reyndi að breyta honum í skemmtistað.  Við höfum ekki varðveitt eitt einasta stórt skip sem tengist sögu þjóðarinnar með afgerandi hætti; engan gamlan togara, ekkert strandferðaskip, ekkert varðskip, ekkert millilandaskip.

Mér finnst við eigum að breyta gömlu höfninni í Reykjavík í safnasvæði þar sem liggja skip og bátar úr sögu okkar.  Óðinn yrði þar höfuðdjásn. 

Við kunnum ekki að varðveita sögulegar menjar sem standa þokkalega nálægt okkur í tíma, líklega vegna þess að við erum of upptekin í dansinum kringum gullkálfinn og allt sem fyrir okkur verður, þarf að víkja.

Við erum ekki söguþjóð.  Ekki einu sinni fyrir fimm aur. 

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 08:24

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Íslendingar eru upp til hópa nýjungagjarnir flottræflar og uppteknir að henda burtu ágætum hlutum. Þeir sjá ekki verðmæti í menningarverðmætum eins og gömlum húsum, hvað þá innréttingum frá því um aldamótin 1900. Þeir eru ennþá svo uppteknir að flýja raunveruleika forfeðra sinna að þeir kæra sig ekki einu sinni um að staldra við og velta svona hlutum fyrir sér. 

Gamli flugturninn er ágætt dæmi um þetta. Hann er mjög merkileg bygging sem fæstum virðist vera annt um. Ef hann væri ekki byggður úr svona hnausþykkri og góðri steypu væri eflaust búið að jafna hann fyrir jörðu fyrir löngu síðan.

Sjálfur á ég góðar endurminningar úr honum því að faðir minn rak þar flugskóla (Flugstöðin hf) ásamt fleirum ágætum mönnum á tímabili. Ég fékk oft að valsa um þetta skrýtna hús, braggann þar við hliðina sem er löngu horfinn og flugskýlið sem enn er á sínum stað.

Sigurður Hrellir, 12.12.2007 kl. 08:44

4 Smámynd: Púkinn

Mér hefur nú alltaf þótt vænt um gamla flugturninn, enda vann vaðir minn þar árum saman og sjálfur fékk ég þar vinnu haustið 1979.

Það er spurning hvort ekki sé mögulegt að nýta hann á einhvern hátt - reka t.d. einhvers konar flugsögusafn þar, a.m.k. yfir ferðamannatímann.

Púkinn, 12.12.2007 kl. 12:45

5 identicon

Þakka þér fyrir þennan pistil Ómar. þegar ég ásamt 3 öðrum einstaklingum gengum í það koma turninum aftur í nothæft ástand haustið 1999 var okkur sagt að það væri óðsmanns æði. Okkur tókst samt, með aðstoð góðar manna að opnan hann aftur með stóru kaffi samsæti þann 10. mars 2000. Við opnunina lét þáverandi flugmálastjóri þau orð falla að þessi turn yrði aldrei rifinn. Eftir að hliðum flugvallarins var læst hefur engin starfssemi verið í honum og hann því breyst aftur í draugabæli sem okkur er skömm að. Ég hef alltaf sagt að það ætti að flytja turninn niður að bröggunum sem eru í Nauthólsvíkinn þar sem hann myndi sæma sér vel innan um aðrar byggingar frá stríðsárunum.

Vilberg Tryggvason (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 16:48

6 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Ómar,

mikið er ég þér sammála. Í þessum turni sleit ég barnsskónum þegar ég fylgdi föður mínum í vinnuna(Ármann Óskarsson-Flugstöðin). Því er þessi bygging mér mjög kær persónulega. Þar hitti undirritaður, þá drengstauli, í fyrsta skipti rauðhærðan sönggosa sem var í sífellu frúarflugi. Eitt sinn mannaði drengurinn sig upp og bað um eitt lag. Fékk hann þá stuttan stúf frá fyrrnefndum gosa.

Þar að auki hefur turninn mikla sögu að segja og er stór þáttur í nýlegri baráttusögu þeirrar álfu sem við tilheyrum.

Við þurfum að safna liði turninum til bjargar. 

Gunnar Skúli Ármannsson, 12.12.2007 kl. 19:52

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aðrar þjóðir varðveita frægustu herskip sín. Týr ætti það skilið fyrir harðasta áreksturinn, sem var við Falmouth. En Óðinn hefur þá sérstöðu að eina íslenska heimildarmyndin, sem tekin var um borð í varðskipi í heilli sjóferð (hernaðarleiðangri) og sýndi lífið um borð, var tekin um borð í honum.

Ómar Ragnarsson, 12.12.2007 kl. 23:19

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Já við verðum að huga betur að sögunni. Gamli flugturninn í Kaldaðarnesi var felldur fyrir nokkrum árum þrátt fyrir að margir mótmæltu. Gamli flugturninn á Reykjavíkurflugvelli væri ábyggilega ágætur til að vera vettvangur flug- og stríðssögu á Íslandi.

Komum í veg fyrir klúður á borð við það sem gerðist á dögunum austur á Seyðisfirði og björgum þessum gamla flugturni frá glötun.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 13.12.2007 kl. 15:07

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fjallaði um það þegar turninn í Kaldaðarnesi var eyðilagður en mér skildist að það hefði verið vatnsturn en ekki flugturn. Það skiptir ekki höfuðmáli heldur hitt að frá þessum flugvelli voru farnir margir merkilegir leiðangrar, þeirra á meðal leiðangur Hudson-vélanna sem fönguðu fyrsta kafbátinn sem bandamenn náðu heilum frá Þjóðverjum.

Að því leyti var þessi flugvöllur jafn mikilvægur og Reykjavíkurflugvöllur og sá tími mun koma sem menn munu reyna að sýna honum þann sóma sem hann á skilinn. Kannski verður vatnsturninn reistur aftur, - hann var afar einfalt mannvirki. 

Ómar Ragnarsson, 14.12.2007 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband