VATNIÐ, GLÆRA GULLIÐ.

22. mars í fyrra kom það fram að þá væri alþjóðlegur vatnsverndardagur. Ekki veit ég hvort hann er það árlega þennan mánaðardag en hitt er ljóst að ef hægt hefur verið fram til þessa að kalla olíuna svarta gullið verður hægt að kalla vatnið glæra gullið á 21. öldinni vegna þess að þetta verður mikilvægasti og dýrmætasti vökvi jarðarinnar.

Loftslagsbreytingar vegna hlýnunar jarðar munu færa úrkomusvæði til, sums staðar auka hana, en því miður minnka hana annars staðar og skapa eyðimerkur og vatnsskort sem valda landflótta fólks og styrjöldum um yfirráðin yfir vatninu. Styrjaldir um yfirráð yfir glæra gullinu gætu jafnvel orðið fleiri og harðvítugri en þær styrjaldir sem háðar hafa verið vegna svarta gullsins, nú síðast í Írak þótt yfirvarpi þess stríðs sé stríð gegn hryðjuverkum og gereyðingarvopnum sem aldrei fundust.

Það mun víst leitun að spítölum í heimnum þar sem hægt er að fara í sturtu með ósnortnu vatn, sem kemur beint úr borholunum, á smit- og húðsjúkdómadeild eins og er hér á Borgarspítalanum. Ég hafði ekki hugsað út í þetta fyrr en læknir hér benti mér á þetta þegar ég kom hingað.

Eftir tvö ferðalög til þurrkasvæða í Eþíópíu, í síðara skiptið í þurrkum, sem skildu eftir sig hræ dýra sem dóu úr vatnsskorti og mikla neyð fólksins sem ég heimsótti, verður myndin af verðmæti glæra gullsins skýrari en áður.
Það var ljúf tilviljun að Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð á vatnverndardaginn fyrir réttu ári.

Alþjóðlegur vatnsverndardagur ætti að vera í hávegum hafður af öllum umhverfissamtökum og umhverfisverndarfólki og þakkargjörðardagur fyrir Íslendinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Við eigum mikil auðæfi í vatninu, bæði heita og kalda. Við getum drukkið úr hverri sprænu. Vonandi tryggjum við hreinleikann um aldur og æfi.

Hólmdís Hjartardóttir, 22.3.2008 kl. 15:43

2 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll Ómar og gleðilega páska, er sammála með glæra gullið, gott heiti yfir þessa yndislegu auðlynd okkar  VATNIÐ sem okkur ber að fara vel með.

kkv.

Ásgerður Jóna Flosadóttir

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 22.3.2008 kl. 15:51

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það losnar hellingur af vatni þegar ísinn bráðnar. Meira framboð, lægra verð  

Meiri hlýnun þýðir væntanlega meiri uppgufun og meiri úrkomu. Vita menn nokkuð hvar hún kemur til með að lenda? Hrakspármenn segja brakandi þurrkar og ofsaflóð. Kannski verður eitthvað allt annað og huggulegra uppi á teningnum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.3.2008 kl. 21:51

4 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Vonandi auðnast okkur sú gæfa að afnema þau "Vatnalög" sem sett voru á Alþingi sl. vor og áttu að taka gildi nú í janúar, en iðnaðarráðherra frestaði gildistöku þeirra,  og setti nefnd í, að endurskoða þessi lög, með það í huga,  að  "Vatnsauðlindir" þjóðarinnar verði aftur "eign þjóðarinnar".  Hefur þú heyrt frá niðurstöðu þessarar nefndar Ómar?  Eða veistu hvar málin standa núna? Kv. Lilja

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 23.3.2008 kl. 02:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband