Rökstuðningur fyrir fermingu.

Í dag heyrði ég um fermingardreng sem vild láta ferma sig í borgaralegri fermingu. Presturinn kvað hann hins vegar skyldan til að koma í fermingarfræðslu hjá sér og þyrfti að leggja fram rökstuðning fyrir borgaralegri fermingu til að losna við kirkjulegu ferminguna.

Rétt er það að með því að hverfa frá kirkjulegri fermingu hefur skírnarheit barnsins verið rofið. En barnið hafði sjálft ekkert um hana á segja á sínum tíma og var ekki spurt.

Ég tel að krafan um rökstuðninginn sé brot á ákvæðum stjórnarskrár um trúfrelsi og fermningarbörnum beri engin skylda til að rökstyðja val sitt. Ef einhver selur bíl sinn og vill kaupa bíl af annarri gerð á hann ekki að vera skyldaður til að leggja fram rökstuðning fyrir valinu.

Sumir amast við því að kalla borgaralega fermingu því nafni því að orðið ferming þýði staðfesting og þá væntanlega á skírnarheitinu. Mér fannst æskilegt á sínum tíma að finna nýtt nafn en nú er heitið borgaraleg ferming orðið fast í málinu og ekkert við því að gera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég lenti sjálf í því þegar ég fermdist, þá neyddist ég í að vera í kuflinum, þó svo að ég væri í upphlut. Presturinn neitaði að leyfa mér að vera bara í þjóðbúningi og var ég dálítið fáranlega útlítandi - með skotthúfu í hvítum kyrtli. Ég var reið yfir þessu og á erfitt með að fyrirgefa prestinum þetta.

Margrét Þórðardóttir (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 16:07

2 identicon

Ég hélt við værum að staðfesta trú okkar á Jesús Krist?

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 16:25

3 identicon

Ég sé alveg óstjórnlega mikið eftir því að hafa elt fermingargjafirnar inn í þjóðkirkjuna.
Auðvitað er það fáránlegt að fara fram á rökstuðning en líklega hægt að segja að guð sé ekki í þjóðkirkjunni ef út í það er farið ;)

Borgaraleg ferming er svona pakka/ritual parody á þjóðkirkjufermingu, ef ég stæði frammi fyrir því í dag að fermast... þá tæki ég gjafirnar og sleppti öllu hinu, það er engin skömm að því að fá gjafir :)
Ef ég stæði frammi fyrir því að ef ég fermdist ekki þá fengi ég enga pakka, ég mundi velja enga pakka, allt til þess að standa ekki innan sauðagirðingar.

DoctorE (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 16:28

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Mér finnst þetta ótrúleg saga. Ég hef aldrei vitað til þess að börn sem ekki ætla að fermast í Þjóðkirkjunni þurfi að rökstyðja það sérstaklega. Og að sjálfsögðu er ekki hægt að skylda börn til að mæta í fermingarfræðslu í Þjóðkirkjunni ef þau ætla ekki að fermast þar.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.4.2008 kl. 17:01

5 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Dóttir mín var strax staðráðin í að fermast ekki í kirkju enda er fjölskyldan utan þjóðkirkju. Samt mátti hún í tvígang hafna viðtalstíma hjá presti. Presturinn mætti í kennslustund í skólann og úthlutaði viðtalstímum. Stúlkan afþakkaði en presturinn gafst ekki upp. Spurði hvort hún væri búin að hugleiða málið (sem hún var því trúmál erum mikið rædd á heimilinu) og þá hvort hún væri búin að ræða þetta við foreldrana. Þetta gerði presturinn fyrir framan allan bekkinn þannig gaf hann þau skilaboð til hinna barnanna að dóttir mín væri "öðruvísi" og það væri óæskilegt.

Dóttir mín fór í borgaralega fermingarfræðslu. Þar var tekin fyrir gagnrýnin hugsun, fjölbreytileiki samfélagsins og leyfið til að vera öðruvísi. Vildi óska að presturinn hefði fengið þessa fræðslu.

Takk Ómar fyrir að vekja athygli á þessu.

Kristjana Bjarnadóttir, 26.4.2008 kl. 17:12

6 identicon

Borgaraleg ferming er staðfesting á því að krakkarnir séu að fara að ganga í heim fullorðinna... eða e-ð þvíumlíkt. Ég amast ekki við nafninu.

ari (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 17:19

7 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég krefst þess sem að þær sem klæðast íslenska þjóðbúningnum séu í kyrtli utanyfir, hann er sennilega ljótasta flík sem saumuð hefur verið, Afganska búrkan ekki undanskilin sem er sömu ættar.

Kristinn maður þarf ekki að skírast eða fermast amk. ekki vegna Krists.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 26.4.2008 kl. 17:32

8 identicon

Þrátt fyrir skoðanir um þjóðbúninginn (hef ekki gengið í honum síðan þá) þá er umræðan um fermingar.

Þó rek ég mig á eitt....ég er ekki í þjóðkirkjunni. Samkvæmt því sem amma mín hefur sagt mér, þá er kvenleggurinn í móðurætt ekki innan þjóðkirkjunnar. Langamma mín (sem er "í orðabókinni" undir SKASS) lent í rifildi við prest sinn og sagði sig úr kirkjunni. Það getur verið að þetta er aðeins sögusögn um konu sem var einu sinni sparkað úr strætó fyrir að segja bílstjóra hvernig á að keyra....ekki sjálf með bílpróf ;)

En ef ég er ekki þjóðkirkjunni, er ég þá fermd ?

Margrét Þórðardóttir (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 17:49

9 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þetta er ótrúleg saga Ómar enda hefur sagan á sér yfirbragð Gróu á Leiti og er vonandi ættuð þaðan.........Það er útilokað að einhver prestur hafi talað svona og því ástæðulaust að bera söguna áfram.  kv. B

Baldur Kristjánsson, 26.4.2008 kl. 18:15

10 identicon

Baldur: Skondið,  þú segir að fólk eigi bara að taka orð þín fyrir því að þetta sé útilokað og hætta að tala um málið frekar.... hljómar spúkí, næstum eins slæmt og það sem Ómar sagði frá.

DoctorE (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 18:22

11 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Baldur segir sögu Ómars ótrúlega og líklega uppmagnaða. Um það veit ég ekkert.

Hvað skyldi Baldur hafa um mína sögu að segja? (Sjá hér að ofan) Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki mikinn mun á minni sögu og sögu Ómars.

Það er líklega ekki ástæða fyrir mig að hafa hátt um þetta, kirkjan er í meirihluta og því á fólk ekkert með að neita að fermast innan hennar raða. Enda hef ég ekki mikið verið að blása þessa sögu út. Datt bara í hug að nefna þetta hér sem hliðstæðu.

Kristjana Bjarnadóttir, 26.4.2008 kl. 18:28

12 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Úbs, þar sem netheimar gera ekki greinarmun á gríni og ekki gríni verð ég að vekja athygli á því að ég er að grínast í seinustu greinarskilunum hér að ofan.

Kristjana Bjarnadóttir, 26.4.2008 kl. 18:30

13 identicon

Þetta er skondin saga Ómar, en nú vantar athugasemd frá Gunna Th. alveg ómissandi svona um helgina, komdu nú með eina góða Gunni minn, þarf svo að hlæja duglega :)

Knud (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 19:07

14 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Mér finnst ágætt að hafa rökstuðninginn, vegna þess að sumir ferma sig borgaralega vegna þess hvað það er skemmtileg fermingarfræðslan þar. Það er einnig minni fyrirhöfn, tvisvar mætt í fermingarfræðslu svo ekki meir, og það er farið í keilu og ýmislegt svoleiðis.

Ég fermdist á Hvítasunnudeginum 27. maí 2007 í messu sem var hafin kl. 14.00 í þeim tilgangi að játa trú mína á Guð og Jesú Krist.
Ég trúi að það hafi verið sendur maður til jarðar, til að hjálpa fólki, þar sem lífið f. Krist var mun erfiðara.

Eina krafan sem ég gerði á fermingardegi mínum var að sjá sem flesta ættingja gleðjast með mér á þessum fallega degi. Mér hefði verið sama að fá engar gjafir, svo mikið er víst.

Róslín A. Valdemarsdóttir, 26.4.2008 kl. 19:10

15 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Svo þar sem Baldur skrifaði hérna inn sína skoðun vil ég benda fólki á það.
Að hefði ég fengið að ráða hvar ég myndi fermast og hver myndi ferma mig, þá hefði ég valið allt annan stað og allt annan prest. Ég hefði þurft að skrá mig úr söfnuðinum hér o.s.f. þrátt fyrir það, a.m.k. af sögum annarra sagt.

Ég hefði fermst í kirkjunni í Selfossi og fengið Bald til þess að ferma mig, því hann skírði mig og systkini mín og gaf saman foreldra mína.

Róslín A. Valdemarsdóttir, 26.4.2008 kl. 19:14

16 identicon

Merkilegt nokk þessi ferming. Á þeim tíma þegar jafnaldrar mínir fóru að ganga til prestins sat ég heima. Þá vildi þannig til að sóknarpresturinn kenndi kristin fræði við skólann sem ég gekk í. Hann lét mig sitja eftir oftar en einu sinni til að ræða þessi mál við mig - þau ósköp að ég vildi ekki ferma mig. Hann meira að segja gekk svo langt að "hóta" því að ég fengi ekki að gifta mig í kirkju, og aldrei í hvítu!

Svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Ég er hins vegar - og get ekki að því gert þrátt fyrir að hafa hugsað með opnum hug í mörg ár, sætt mig við borgaralega fermingu. Og þá á ég ekki bara við nafnið heldur líka athöfnina sjálfa. Finnst þetta vera uppbót fyrir þá sem annað hvort eru ekki kristnir eða vilja ekki af öðrum ástæðum fermast. Ég meina- þeirra er valið, ferming eða ekki. Ferming er kristin athöfn og ekkert annað. Annað hvort taka menn þeim hefðum sem eru í trúnni eða ekki.

Sigrún (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 19:56

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tel mig hafa tryggar heimildir fyrir þessu atviki sem ég vona svo sannarlega að sé undanatekningarttilfelli.

Ómar Ragnarsson, 26.4.2008 kl. 20:30

18 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Það sem ég á við er einfaldlega það að ég trúi því ekki að nokkur prestur hafi talað um skyldu í þessu sambandi. Kv. B

Baldur Kristjánsson, 26.4.2008 kl. 20:30

19 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Það hlýtur þá svo sannarlega að vera undantekningartilfelli.  Gaman annnars að lesa bloggið þitt Ómar. kv. B

Baldur Kristjánsson, 26.4.2008 kl. 20:32

20 identicon

Það geta sannarlega verið margar ástæður fyrir því að skírð manneskja kjósi sjálf að fermast ekki, eða að foreldrar og forráðamenn ákveði að barn undir þeirra umsjá verði ekki fermt. Slíka ákvörðun ber að virða. Hinsvegar er ekkert við það að athuga þótt prestur eða einhver annar ábyrgur aðili innan safnaðar leiti svara við því hvað rekur sóknarfólk til þess að láta ekki ferma börn sín, eða láta það afskiptalaust að börnin fermist ekki, ef þau vilja að öðru leyti tilheyra hinum kristna söfnuði. Það getur alveg ómögulega kallast brot á nokkrum reglum þótt spurt sé. Það er hinsvegar alltaf álitamál hvernig nálgast skal viðkvæm málefni sem þessi, og þar hendir presta sem aðra menn að koma fram með þeim hætti sem viðmælandi kann að telja ámælisverða framkomu.

Það er mjög nauðsynlegt að þau sem starfa í umboði þjóðkirkjunnar hlusti þá vel á þær raddir og bregðist við þeim. Í langflestum tilfellum eru prestarnir sjálfir fullburðugir og best til þess færir að gera það. Ef sóknarfólki þykir misbrestur á því að prestur standi sig sem skyldi, er hægt að leita til prófasts eða biskups, en jafn sjálfsagt er einnig að bera mál sín upp við safnaðarfólk og sóknarnefnd. Í málum sem þessum skiptir miklu að sá sem í hlut á geti treyst því að mæta skilningi og velvilja innan kirkju sinnar.

Kristján Valur Ingólfsson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 21:05

21 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

sé þetta atvik staðreynd hlýtur um undantekningu að vera. undantekningartilfelli, eða undantekningarprest.

sjálfur er ég ófermdur og þurfti ég aldrei að ræða það við nokkurn mann, aðra en foreldra mína.

Brjánn Guðjónsson, 26.4.2008 kl. 21:37

22 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni daginn eftir ferminguna mína í Bústaðakirkju árið 1968 og tel mig ekki þurfa milligöngumenn á milli mín og almættisins eða sérstök hús til þess að rækta trú mína.  Þegar sonur minn var fermdur (hann réð því) voru mér úthlutaðir tveir prestar til í sókninni hans - þótt ég hefði sérstaklega beðið um að annan sóknarprestanna vildi ég alls ekki nálægt syni mínum. Fermingin var afgreiðsluathöfn sem skildi nákvæmlega ekkert eftir hjá syni mínum.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 26.4.2008 kl. 22:39

23 identicon

Mig langar svo að vita hvers vegna fólk kýs borgaralega fermingu.  Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að ferming væri staðfesting á skírnarheitinu og skil því vel að einhverjir kjósi ekki að fermast en af hverju velur fólk þá borgaralega fermingu??  Er þetta einungis fyrir gjafir og veisluhöld? Geri mér grein fyrir því að margir fermast í kirkju vegna gjafa og veisluhalda, er frekar að velta fyrir mér pælingunni á bakvið hitt, þ.e. af hverju ferming ef hún er ekki kirkjuleg?

Sandra (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 22:39

24 Smámynd: Víðir Benediktsson

Hef nú aldrei fattað borgaralega fermingu. Það hefði verið gáfulegra að kalla þessa athöfn eitthvað annað. Fyrir mér hljómar þetta eins og borgaralegir páskar. Hef ekkert á móti athöfninni sem slíkri, það eru margar svona málvillur á kreiki, verst er þó þegar fólk er að skíra hlutina sína, húsið, hundinn eða bílinn. Stór hluti fólks heldur að skírn sé nafngift.

Víðir Benediktsson, 26.4.2008 kl. 23:31

25 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Gott innlegg og vandræðaleg tilsvör og má ég bæta því við að það er ekki sanngjarnt að hengja dóttur þína eina fyrir sakir þess ruslpóstsumhverfis sem hún starfar í. Metnaður þessa umhverfis er á því stigi að fréttastjórinn var fyrir nokkrum árum að hæpa siðvillinga og síkópatar tóku eftir því og kunnu því vel og ruglandi þessa hyskis hefur orðið eftir því.

Baldur Fjölnisson, 27.4.2008 kl. 00:20

26 Smámynd: Baldur Fjölnisson

En hjólið mun víst ekki hafa verið fundið upp hér á landi fyrr en á sautjándu öld sem vissulega ber vott um ákveðinn skriðþunga heimsku og fáfræði. Og það eimir eftir af því. Þúsundir fábjána sjá enn ekkert athugavert við það að 110 hæða skýjakljúfar (hálf milljón tonna) hrynji í duft á tíu sekúndum vegna þess að 200 tonna flugvélar rákust á þá.

Baldur Fjölnisson, 27.4.2008 kl. 00:49

27 identicon

Það er illt til þess að vita eins og þú segir Ómar minn að vera skikkaður til að eiga einn bíl þegar manni langar í annan bíl. það er gaman að sjá alla þessa diska sem prýða skorsteina og húsþökk og sjá allan þennan fjölda af íslensku og erlendu fólki tengja sig við erlendar sjónvarpsstöðvar og geta í engu sloppið við afnotagjöldin til RÚV þó þeir hafi aldrei sé þá sjónvarpsstöð. Það er svo gaman að geta skift um og þegið ókeypis aðgang að sjónvarpsefni eins og Skjá 1 en í raun borgað full afnot í rangan vasa. Vildi bara koma að sambærulegu dæmi. Hef heyrt að vegna halla á rúv vegna launagreiðslna gangi menn frá þeirri stofnun baðaðir í geislaflóði í leit að óskráðum tækjum til þess að ná greiðlur upp í skuldina og er ekki ónýtt að hafa sem vegvísir gervihnattadiskanna á húsþökkunum eða eins og maðurinn segir þar sem er einn endi á kapal hljóti að vera hægt að finna hinn. 

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 00:54

28 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Heiladrepandi skólakerfi ... 200 tonn fella hálfa milljón tonna í duft ... er hægt að ljúga hverju sem er að fábjánum ...

Baldur Fjölnisson, 27.4.2008 kl. 01:11

29 identicon

Væntanlega hefði dugað að greiða prestinum fermingargjöldin og þá hefði málið verið leyst...!  Ég fermdist ekki í minni sókn á sínum tíma fyrir um 30 árum en þar var aðalmálið að borga líka prestinum í minni sókn. Sem var reyndar ekki gert.  En snýst þetta ekki bara um peninga hjá prestunum eins og öllum hinum?

Bjarni (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 09:58

30 identicon

Orðið ferming er dregið að latneska orðinu ,,confirmare” sem táknar m.a. ,,að styrkjast” eða ,,að styðja”.Áhugavert er að lesa svar á Vísindavefnum við spurningunni ,,Hver er uppruni fermingarinnar?” Þar segir m.a.:

,,Fermingin er eins konar ungmennavígsla og sem slík er hún sennilega jafn gömul mannlegu samfélagi. Félagshópar, fjölskyldur og þjóðfélög aðgreina stöðu og hlutverk einstaklinga á margvíslegan hátt með siðum og venjum til þess að tryggja félagslega reglu og samhæfða verkaskiptingu.

Unglingavígslan tengist kynþroskatímabilinu og táknar það að einstaklingurinn er ekki lengur barn heldur ungmenni sem mætir í alvöru viðfangsefnum hinna fullorðnu og öðlast bæði réttindi og skyldur.

Það er eins og það sé innbyggt í samfélög manna að þessi tímamót verði eftirminnileg. Alvaran sem fylgir vígslunum undirstrikar félagslegt mikilvægi þeirra en þeim fylgir einnig hátíð og samfagnaður sem fjölskyldan og samfélagið sem slíkt á aðild að. Í samfélögum þar sem einhæf verkaskipting ríkir er vígsluatferlið (fr. rites de passage) auðþekkt og vel skilgreint og í samfélögum þar sem miklar breytingar eiga sér stað getur það þróast og fengið nýtt hlutverk.”

Margrét (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 10:58

31 identicon

Sögur Ómars og Kristjönu hér að ofan eru því miður ekki undantekningartilvik. Við í Siðmennt heyrum slíkar frásagnir árlega. Prestar virðast sumir hverjir ekki kunna sér hóf sem lýsir sér í innleggi Kristjáns Vals hér að ofan. Þar réttlætir hann afskiptasemi ríkispresta sem hluta af þeirra starfi. Að mínu mati er það brot á trúfrelsi og einkalífi fólks. Með sömu röksemd er það í himna lagi að prestar hafi uppá fólki sem ætlar að gifta sig hjá borgardómara eða lifa í "synd" og krefja þau svara um afstöðu þess. Finnst fólki það viturleg rök?

Um nafnið borgaralega fermingu hefur margt verið skrifað. Prestar gagnrýndu Siðmennt á sínum tíma fyrir að nota orðið ferming og er færð rök fyrir orðanotkun á heimasíðu Siðmenntar.  Mér finnst gæta óvarkárni við gagnrýni á val unglinga hvort þau fermast borgaraleg eða fermast ekki neitt. Aðalatriðið er að unglingar hafa í 20 ár hafa valkost við trúarlega athöfn. Ómar bendir réttilega á að orðiðn borgarleg ferming hefur unnið sér sess í orðræðunni. Um borgaraleg fermingu má lesa á heimasíðu Siðmenntar hérna http://sidmennt.is/veraldlegar-athafnir/ferming/ 

Ég býð hinsvegar öllum sem vilja upplifa borgaralega fermingu að mæta í dag í Háskólabíó kl. 13:30 og upplifa hátíðlega athöfn en megin uppistaðan er dagskrá sem unglingarnir sjálfir standa að. Þar er ljóðalestur, söngur dans svo eitthvað sé nefnt.

Undirritaður er varaformaður Siðmenntar.

Bjarni Jónsson (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 11:00

32 identicon

Ómar, ef þetta er rétt um það sem þú segir um fermingu og þennan prest, þá er ég furðu lostin.

Man ekki eftir að þeir sem kusu að láta ekki fermdast, hafi þurft neitt að útskýra það fyrir neinum nema foreldrum sínum.

Vona að þetta sé undantekningartilfelli. Svona á þetta ekki að vera.  mbk/sjs

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 11:57

33 identicon

Þakka þér 'Omar fyrir að opna fyrir þarfa umræðu.  Sjálf var ég ekki spurð, bara fermd, enda milli vita. Þar liggur hundurinn grafinn að mínu mati.  Það er engin skylda að barn sé fermt áður en það kemst til trúarlegs þroska.  það stendur hvergi að ekki megi ferma fólk um tvítugt.  Það sagði ég mínum börnum.  Lesið ykkur til og fræðist þegar þið hafið þroska til.  Þá getur fólk tekið ábyrga afstöðu til trúmála.  Þau létu ekki verða af fermingu. 'Eg sagði mig úr öllu samfélagi við trú og lifi góðu líf án allrar trúar. En það er staðreynd að peningar skipta afar miklu máli í sambandi við fermingar.  Gjafir fermingarbarna eru augljósastar, svo er það þóknun prestsins,  (er hann ekki á föstu kaupi við að vinna vinnuna sína? Þar með talið að smala inn framtíðarmeðlimum safnaðarins.) Það er líka verið að safna inn félögum sem greiða sóknargjöld. 1934 var faðir minn fermdur og þar með farinn að vinna fyrir sér.  Nú eru breyttir tímar og tekið tillit til þroska, fólk ver ekki ábyrgð á sjálfu sér fyrr en 18 ára.  Kirkjan ætti að hækka fermingaraldur og sýna unmennum þannig virðingu sína.

Ása Björk Snorradóttir (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 12:10

34 identicon

Takk fyrir pistil þinn Ómar. Af því hér hafa komið spurningar um borgaralegar fermingar þá vil ég fá að benda á nokkrar greinar sem ég hef skrifað um málið:

Svo bendi ég á vefsíðu Siðmenntar

Sigurður Hólm Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 12:30

35 Smámynd: Halla Rut

Ég er sammála þér Ómar. Ferming er siður hér á landi og ættu öll börn að fá að  halda sinn dag ótengt trúarskoðunum.

Halla Rut , 27.4.2008 kl. 15:33

36 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ég er alveg að skilja hvað þið eruð að fara en ég var bara að tala um nafnið á athöfninni. Ferming=Staðfesting

Hér er ekki átt við trúnna í þeim skilningi heldur skírnina þ.e. sá einstaklingur sem fermist staðfestir með eigin orðum að hann samþykki þá kristilegu skírn sem hann hlaut ómálga sem er oftast ákvörðun foreldra. Reyndar er þetta hábiblíuleg athöfn sótt í postulasöguna. Sá sem skírist fullorðinn þar ekki að fermast og þar af leiðandi ekki að staðfesta svo einfalt er það nú. Þess vegna finnst mér"borgaraleg ferming"  ætti að heita eitthvað annað.

Víðir Benediktsson, 27.4.2008 kl. 16:05

37 identicon

Í tilefni skrifa Ásu Bjarkar þá skal á það benta að innskráning barna í trúfélög fer fram á fæðingardeildinni! Ekki það að þar sé starfsmaður sem situr við skriftir og spyr börn hvaða lífsskoðun þau aðhyllast heldur er þannig í pottinn búið að við fæðingu barns SKAL það skráð í trúfélag móður.

Hér er enn eitt dæmið um lög sem þarf að breyta. Þessari tegund að félagaskráningu verður að linna. Í Svíþjóð er kerfið þannig að við skírn er barnið skráð í viðkomandi söfnuð. Það er náttúrulega merkilegt að við fæðingu skuli stimpill settur á lífsskoðun ómálaga barns.

Bjarni Jónsson (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 16:39

38 identicon

Æ, það eru fjöldamörg orð í tungumálinu okkar sem hafa skipt um þýðingu.  Mér finnst bara gott mál að nota orðið ferming yfir borgaralegu athöfnina, eins og fram hefur komið er það orðið hluti af málhefðinni.  Orðið fermng sem slíkt er bara pínu skondin dönskusletta sem styttist í annan endann hvort sem er.  Það er bara gaman þegar orð þróast og breytast og fá nýjar merkingar með breyttum þjóðfélagsháttum.

Erna (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 16:53

39 identicon

Ég hnaut um eftirfarandi ummæli hjá Víði hér að ofan (#36): "Sá sem skírist fullorðinn þarf ekki að fermast og þar af leiðandi ekki að staðfesta svo einfalt er það nú." Þetta er að sjálfsögðu alveg rökrétt, en því miður hef ég heyrt margar sögur af því að þegar börn, sem ekki höfðu verið skírð, kusu af einhverjum ástæðum að fermast með jafnöldrum sínum þegar að því kom, var farið fram á að þau kæmu til skírnar viku fyrr og síðan til fermingar á fermingardaginn. Ef kirkjan telur á annað borð að fjórtán ára barn geti haft þann þroska og þá trúarlegu sannfæringu til að bera, sem þarf til að taka sjálfstæða ákvörðun um að tilheyra trúfélagi, ætti að vera nóg að þetta barn gangist af frjálsum vilja undir skírn. Ég hef heyrt mörg dæmi hins gagnstæða, þ.e. að bæði skírnar og fermingar sé krafist við þessar aðstæður, og þætti gaman að heyra rökstuðning kirkjunnar manna fyrir því fyrirkomulagi.

Siggi (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 18:04

40 Smámynd: Víðir Benediktsson

Siggi, þessi athugasemd hjá þér á fullan rétt á sér. Þetta þarf kirkjan að útskýra, held reyndar að rökin fyrir þessu séu ekki til heldur sé verið að skapa aðstæður svo barnið fari ekki á mis við því sem að fermingu lítur líkt og verið er að gera með  borgaralegu fermingunni. Þannig séð ok.

Víðir Benediktsson, 27.4.2008 kl. 18:21

41 identicon

Ég vildi bara koma með smá athugasemd við það sem Róslín sagði hér að ofan. Hún talar um að: "[Borgaraleg ferming] er einnig minni fyrirhöfn, tvisvar mætt í fermingarfræðslu svo ekki meir, og það er farið í keilu og ýmislegt svoleiðis."

en hið rétta kemur fram á heimasíðu Siðmenntar:

"Haldin eru námskeið í Reykjavík sem eru alls tólf skipti, 80 mínútur í senn einu sinni í viku og hefjast í byrjun janúar ár hvert. Fyrir börn af landsbyggðinni er boðið upp á námskeið sem standa yfir í tvær helgar í Reykjavík." 

Þorsteinn Kolbeinsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 01:56

42 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ómar

Takk fyrir að vekja athygli á þessu.   Þegar það er búið að skrifa svona margar færslur er gott að rifja upp hvað þú skrifaðir:

"Í dag heyrði ég um fermingardreng sem vild láta ferma sig í borgaralegri fermingu. Presturinn kvað hann hins vegar skyldan til að koma í fermingarfræðslu hjá sér og þyrfti að leggja fram rökstuðning fyrir borgaralegri fermingu til að losna við kirkjulegu ferminguna."

Hér er því augljóslega ekki um það að ræða að presturinn væri kurteisislega að spyrja um ástæður þess að drengurinn vildi ekki fermast hjá honum, heldur beitir hann fyrir sér þeim ósannindum að drengnum sé skylda að fermast hjá honum.   Það er rétt hjá Kristjáni Vali í færslu 20 að ekkert að því að spyrja, en hér er þumalskrúfan sett á fyrst og spurt svo. 

Um skírnarheitið sagðir þú Ómar: 

"En barnið hafði sjálft ekkert um hana á segja á sínum tíma og var ekki spurt. " 

Þarna hittir þú naglann á höfuðið eins og þér er jafnan lagið.  Það er forn ósvinna að skrá ungabörn í söfnuði rétt eins og þau geti haft trúarskoðanir.  Það er sami ósóminn að ætlast til að 13-14 ára börn séu almennt í stakk búin til að "velja sér leiðtoga lífs síns" og játast honum fyrir framan allra augum.  Í sömu lögum segir að það megi ekki skipta um trúfélag fyrr en um 16 ára aldur.  Það er deginum ljósara hvers konar tvískinningur er hér á ferðinni. 

Því miður kemur saga þín mér ekki á óvart eftir að maður hefur séð mörg dæmi heimtufrekju og forréttindahugsunar hjá ákveðnum hluta þjóna Þjóðkirkjunnar undanfarin misseri.  Í krafti meirihluta (sem er mun minni en skráningin gefur til kynna) vilja þeir vaða yfir völlinn án þess að virða það að trúboð og trúarleg starfsemi á sér sína staði og aftur skólastarf allra barna landsmanna aðra.  Nýlega var barn skírt inn í Þjóðkirkjuna án þess að faðirinn sem hafði sameiginlega forsjá væri spurður og hans samþykki fengið.   Kannski var þetta gert af athugunarleysi, en dæmið ber þess vitni að Þjóðkirkjan telur svo eðlilegt að taka og kann ekki að taka tillit til réttinda annarra hópa. 

Annars vil ég ljúka þessu með því að leiðrétta Róslín Ölmu hér að ofan sem hélt því fram að fermingarfræðsla Siðmenntar væri "einnig minni fyrirhöfn, tvisvar mætt í fermingarfræðslu svo ekki meir".  Af orðum hennar mætti halda að námskeiðið væri harla léttvægt en trúlega er hún að ruglast á því að börn utan af landi mæta tvo heila daga á helgarnámskeiði í stað 12 vikna námskeiðs, 2 kennslustundir (80 mín) hverja viku, sem ungmennin á höfuðborgarsvæðinu mæta í.  Á vefsíðu Siðmenntar segir:

"Haldin eru námskeið í Reykjavík sem eru alls tólf skipti, 80 mínútur í senn einu sinni í viku og hefjast í byrjun janúar ár hvert. Fyrir börn af landsbyggðinni er boðið upp á námskeið sem standa yfir í tvær helgar í Reykjavík"

Bestu þakkir Ómar.  Sé rétt haft eftir þessum presti í bloggfærslunni þinni, þá þarf að áminna hann.  Það er einungis foreldranna og ungmennisins að ákveða hvort og hvar og hvenær ferming fer fram.  Það eru engar skyldur gagnvart kirkjunni eða öðrum í þeim efnum.

Svanur Sigurbjörnsson, 28.4.2008 kl. 02:36

43 identicon

Eins og við vitum flest þá snýrst þessi barátta mikið um peninga sem ríkið borgar fyrir hvern einstakling til þess trúfélags sem hann er í.

Svanur getur þú sett hér inn færslu eða eitthver annar sem veit  hvað ríkið borgaði mikið á síðasta ári fyrir hvern einstakling í sjóði hvers og  eins?

Baldvin Nielsen,Reykjanesbæ 

B.N. (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 07:39

44 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Margt hefur nú þegar, hér að ofan, verið skrifað um ferminguna. Það er hryggilegt að heyra orð Ómars um þann prest sem orðaði sig svo óheppilega við "fermingar"drenginn.  Orð prestsins koma mér þó ekki á óvart. Ég hef setið í samkvæmi þar sem ég hef heyrt svipuð orð sögð af vörum prests og var mér því ekki sérlega brugðið, en ekki get ég sagt að ég hafi glaðst við að les orð Ómars, vona innilega að þetta sé sami presturinn - því ljótt væri ef þetta væri eitthvað sem fleiri embættismenn kirkjunnar tryðu  að væri hið rétta í fermingarmálum.

Eins og sr. Svavar skrifar, er ekki hægt að þvinga þau börn sem ekki vilja fermast að rökstyðja það neitt frekar. Það er þeirra val og það ber að virða. Kirkjunni ber hinsvegar að bjóða öllum að fermast og jafnvel bera það í tal, en að knýja nokkurn til fermingar eða krefjast rökfærslu er bannað. Fermingin er persónuleg ákvörðun einstaklingsins. Hún er ekki forsenda eins eða neins. Skírður þarf maður hins vegar að vera til að geta fermst. Maður er ekki minna eða meira kristinn þótt maður velji að fermast ekki. Hins vegar getur verið að maður vilji "staðfesta" sína trú og þannig notfæra sér þetta aldagamla form kirkjunnar til þess. Þetta á maður að geta gert á hvaða aldri sem er. Þrettán/fjórtán ára eða fimmtíuogfimm ára - skiptir engu máli. Þetta er athöfn sem á að skipta mann máli og því er hún tengd hinni persónulegu upplifun, trú og því að vera kristinn.

Það er skrýtið á þeim tímum þegar fyrirtækjum, lagahöfundum, framleiðendum, hönnuðum og fleiri þeim aðilum sem eru skapandi á einhverju sviði, að lagsóknir í þeim geira eru æ fleiri vegna vörumerkjastuldar, laglína, framleiðlu vara o.frv. hefur stóraukist. Því kemur það mér mikið á óvart að kristnir söfnuðir hafi ekki stefnt hreinlega fyrirtækinu Siðmennt fyrir notkunina á orðinu "ferming".  Með forskeytið "borgaraleg" breytist orðið ferming ekki. Jafnvel þótt ekki sé um trúarlega athöfn að ræða, er orðið bundið á sérstakan og óaðskiljanlegan hátt hinni kristnu fermingu (lat. confirmatio). Hérna er um hreinan stuld á hugtaki og merkingarlega brenglun þess í kjölfarið.  Hér er einungis um að ræða "rite de passage" þar sem fyrirtækið Siðmennt er producent fyrir stutta athöfn þar sem ungmennin taka þátt og fá skjal til staðfestingar á þátttöku. Ferming er engin ungdómsvígsla. Hún er persónuleg játning einstaklingsins við það altari hugur og trú beinast til.  Skírn þarf ekki að staðfesta, enda hefur maður verið skírður, gildir sú skírn og náð til lífstíðar.

Aldur fermingarbarna er og hefur alltaf verið umdeildur. Spurningunni hvort börnin séu nægilega þroskuð til að standa í þessu hefur verið velt fram og þá hvort ekki er réttara að breyta þar um.  Mitt svar er, nei. Ég tel að kirkjan komi einmitt á réttum tíma inn í líf unglinganna, þá er þeir eru móttækilegir fyrir fræðslu, fullir af spurningum um lífið, trúnna, siðfræði, hlutverk sitt, framtíð og fjölskyldunna.  Kirkjan vill geta gefið líka sem flestum góðan grunn áður en haldið er út í lífið. Gera unglingunum mögulegt að ekki bara styrkja sína barnatrú, heldur einnig að leyfa trúnni að þroskast með sér og þannig vera lifandi kjarni í lífi þeirra, en ekki barnsleg og óviðbúin stóru spurningunum í lífinu. Til þess er fermingarfræðslan alltof mikilvæg til að fara færa hana til og frá.  Hinsvegar getur hvaða skírður og jafnvel fermdur einstaklingur beðið um "afturhvarfsathöfn". Þar er átt við athöfn sem nýtt upphaf, byrjun nýs kafla í lífi einhvers, þar sem maður vill á sérstakan hátt (einkaathöfn eða opinber) taka á móti Kristi í líf sitt.  Þetta getur maður gert hvenar sem er í lífinu.  

Baldur Gautur Baldursson, 28.4.2008 kl. 07:42

45 identicon

Það flottasta sem ég hef lesið lengi Baldur.

Baldvin Nielsen,Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 08:15

46 identicon

Hvað er eldra, notkun kirkju á orðinu ferming eða notkun þess í að td ferma skip.
Á eitthvert skipafélag að kæra kirkjuna fyirr að stela orðinu

Auðvitað á skráning í trúarsöfnuði að vera bönnuð innan 18 ára

Er hægt að þroskast í vitleysu, getur vitleysa verið mikilvæg nema sem víti til varnaðar.

DoctorE (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 10:31

47 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þú ferð frjálslega með lýsingar Baldur Gautur.  Siðmennt er ekki "fyrirtæki" eins og þú nefnir það. 

Þú ert greinilega einn af þeim sem vilja einblína á orðið "ferming" og gera úr því sífellt deilumál.  Það er með ólíkindum hversu sumum finnst það sárt að Siðmennt skuli hafa notað orðið í annarri merkingu en Þjóðkirkjan.  Það er engu líkara en þér finnist þetta vera rán.  Hefur Þjóðkirkjan einkarétt á þessu orði? Nei.  Hefur kristnin aldrei fengið neitt lánað hjá öðrum eða notað orð sem aðrir notuðu áður?  Jú.  Dæmi:  Jól.  Það það var áður heiðin sólstöðuhátíð.  

Mörg orð í Íslensku og öðrum tungumálum hafa margar merkingar.  Siðmennt kaus á sínum tíma að halda sig við "borgaralega fermingu" þar sem viðburðurinn er á sama aldri og tíma og hinar kristnu fermingar og hefur svipaðan tilgang utan þess að ekki er verið að játa trú.   Það sem kennt er á undirbúningsnámsskeiðinu er það sem skiptir máli í lífi ungmennanna, ekki hvort að þetta heitir "ferming" eða eitthvað annað.

Svanur Sigurbjörnsson, 28.4.2008 kl. 10:50

48 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í ferðalagi fyrir nokkrum árum fór ég frá Stiklastað í Noregi, þar sem er stytta af Ólafi helga með sverð í annarri hendi og biblíuna í hinni, beint suður til Eþíópíu til að fara með trúboðanum Helga Hróbjartssyni um afskekkt fjallahéruð þess lands og fylgjast með líknandi og uppbyggjandi starfi hans og annarra trúboða.

Það trúboð er það fallegasta sem ég hef séð til sannkristinna manna og ég stefni að því að gera um það heimildarmhynd undir nafninu "Engill af himnum." Trúboðið byggist ekki á neinni þvingun heldur á því að láta líknarverkin tala og sanna þar með fyrir fólkinu yfirburði kristinnar trúar, mannúð og mildi í nafni kærleika Krists.

Helgi líknaði fólki án tillits til trúarbragða, menntaði það og á núna ótrúlegan fjölda vina meðal áhrifamanna í suðausturhluta landsins, sem hann menntaði á sínum tíma og hafa tekið við mannaforráðum.

Ég var stoltur af því sem kristinn maður að verða vitni að þessu og tel að kirkjan og kristnir menn þurfi að gera miklar kröfur til sjálfra sín á þessum nýjustu tímum átaka milli trúarhópa.

Ómar Ragnarsson, 28.4.2008 kl. 11:07

49 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég bíð spenntur eftir myndinni, Ómar. Það var mjög eftirminnilegt þegar þú sagðir okkur frá þessari heimsókn í Akureyrarkirkju. Ég tek heilshugar undir niðurlagsorðin í síðustu athugasemd þinni.

Ég er líka sammála því að "borgaraleg ferming" sé orðin hluti af íslensku máli og íslenskum veruleika og sé enga ástæðu til að amast við henni. Fermingarfræðsla kirkjunnar er einstakt tækifæri sem þarf að nýta eins vel og kostur er á. Ábendingar um það sem betur mætti fara eiga að vera vel þegnar.

Þau börn sem ekki vilja fermast í kirkjunni hafa nú valkostinn borgaralega fermingu og ég er viss um að þar læra þau líka margt gott og nytsamlegt.

Gangi Siðmenntarfólki bara vel við að innræta ungmennum góða siði.

Ég óska öllum fermingarbörnum, kirkjulegum sem borgaralegum, til hamingju með áfangann!

Svavar Alfreð Jónsson, 28.4.2008 kl. 11:52

50 identicon

Það er merkilegt hvað eitt lítið blogg fær marga til að sparka í Þjóðkirkjuna. Eða - marga? Þetta er reyndar alltaf sama fólkið, oft.

Guðmundur (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 14:16

51 identicon

Ég þakka þér Ómar fyrir að vekja máls á valdmisbeitingu prests gagnvart unglingi. Ég dreg ekki í efa að frásögn þín sé rétt. Ég á þrjár dætur og engin þeirra vildi fermast í kirkju. Það var ekkert mál með þá fyrstu, við fjölskyldan dvöldum þá í Svíþjóð þar sem lúterska kirkjan hafði (1978-1979) þá stefnu að engan ætti að ferma nema hann/hún væri sannfærður um trú sína. Þá fermdust aðeins um 50% allra unglinga.

 Á Íslandi ríktu hins vegar aðrar fermingarvenjur: Allir unglingar skyldu fermast. Opinber tilgangur var ekki alltaf trúarlegur. Í ritdeilunum miklu um borgaralega fermingu 1988-1990, þegar hún hófst, skrifaði prestur að kirkjuleg ferming væri góður siður af því að hún væri kristilegt ættarmót!

Það er mikill ruglingur í gangi um mikilvægi fermingar. Í kaþólskum sið var ferming eitt af sakramentunum sjö og sá biskup um hana, annað orð yfir fermingu var því að biskupa. Lúter afnam fimm af sakramentunum sjö, lét aðeins standa skírn og heilaga kvöldmáltíð en afnam ferminguna með öllu. Börn voru skírð og síðan átti prestur að segja til um hvenær þau gætu gengið til altaris. En í tíð heittrúar og upplýsingar á 18. öld, þótti konungsvaldinu rétt að allir væru læsir, meðal annars til að geta lesið biblíuna. Þá voru engir skólar og því var hinni fjölmennu prestastétt falið að hafa eftirlit með lestrarkennslunni. Því var ferming innleidd en ekki sem heilög athöfn af sjálfri sér heldur sem fullnaðarpróf í lestri.

Altarisgangan sem tengd er fermingunni er hins vegar heilög athöfn. En allir þeir sem skírðir hafa verið, mega ganga til altaris hvort sem þeir eru fermdir eða ekki. Það er engin trúarlegur tilgangur með fermingunni í lúterskum sið nema helst trúarlærdómurinn á undan.

Aðeins um heiti: Á Norðurlöndum er hugtakið "borgerlig konfirmation" búið að tíðkast síðan 1914 án þess að amast væri við því. Hinn nafnvalkosturinn, sem notaður er í Þýskalandi, er "Jugendweihe", æskulýðsvígsla. En orðið vígsla er miklu tengdara kristindómi en orðið ferming!

Nú, 1982-983 átti önnur dóttir mín að fermast. Hun byrjaði að ganga til prests af því að það gerðu allir. Á þeim tíma hafði hún hrifist mjög af þróunarkenningu Darwins og gerði athugasemd við sköpunarsögu biblíunnar. Prestur tók þessari athugasemd mjög illa, rökræddi ekkert en fordæmdi bæði þróunarkenninguna og þá sem treystu henni. Dóttur minni var misboðið og gekk úr tíma prests. Hann kærði þetta fyrir skólanum! Skólastjóri ræddi við mig en áttaði sig fljótt á því að betra væri að skipta sér sem minnst af þessu máli. Íslenskukennarinn var þessu ósammála og jós skömmum yfir dóttur mína í tíma fyrir að misvirða kirkjuna. Ég tók þessu óstinnt upp og tók dóttur mína úr skólanum og heimtaði afsökunarbeiðni. Hún kom með tíð og tíma.

1988-1989 átti þriðja dóttir mín að fermast. Hún byrjaði að mæta hjá sama presti. Rétt er að taka fram með hliðsjón af þessari frásögn, að presturinn er, og var, karlkyns. Þá var verið að skipuleggja fyrstu borgaralegu ferminguna. Ég bað dóttur mína að athuga þann valkost, annars væri þetta val hennar. Hún mætti í undirbúningstíma í borgarlegri fermingu og fékk þannig samanburð. Í kjölfarið valdi hún borgaralega fermingu. Ég taldi rétt að hringja í prest og skýra honum frá þessari ákvörðun. Samtalið var allt vinsamlegt og prestur spurði mig hvað væri kennt í undirbúningi borgaralegrar fermingar. Ég las fyrir hann alla dagskrána. Hann hafði mikinn áhuga á einu efninu en það var siðfræði kynlífsins, þar sem m.a. var lögð áhersla á trúnað.

Í næsta undirbúningtíma skýrði prestur svo frá að Ingileif væri hætt í fermingartímum hans, hún hefði valið borgaralega fermingu af því að þar væri kynlíf kennt. Hér var um að ræða 13-14 ára unglinga. Þetta atferli prests verður að skilgreina  sem einelti af verstu gerð. Þegar sóknarnefnd sagði presti upp störfum nokkrum árum síðar vegna þess að hann hafði lent í slæmum hjúskaparbrotsmálum með kvenkyns sóknarpresti, verð ég að viðurkenna að ég grét ekki örlög hans. Ef til hefði hann átt að mæta í tíma í borgarlegri fermingunni um siðferði kynlífsins!

Í kjölfar þessarar fyrstu borgaralegu fermingar var lífskoðunarfélagið Siðmennt stofnað. Ég var meðal stofnenda og hef starfað þar síðan, stundum í stjórn.

Þjóðkirkjan fær milljarða á hverju ári af skattpeningum okkar á hverju ári sem önnur trúfélög fá ekki. Síðan vælir fólk eins og Guðmundur hér að ofan yfir að þessi kirkja sé eitthvað gagnrýnd og að sama fólkið sé alltaf að deila á hana! Jæja, nú bætist ég að einhverju leyti í hópinn. En ég geri það ekki sem trúleysingi (þótt ég sé það): ég geri það sem fræðimaður og faðir.

Gísli Gunnarsson

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 17:55

52 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Þegar ég "átti" að fermast kom prestur, sem venja er, í skólann til að útbýta einhverjum sneplum - líklega til skráningar. Ég tjáði honum að ég þyrfti ekki blöðin, þar sem ég ætlaði ekki að fermast. Hann hélt þó áfram að ýta þeim að mér, loks með orðunum "Kannske vilja foreldrar þínir að þú fermist!"

Þetta hefur mér alltaf þótt sýna betur en margt annað hræsni kirkjunnar í fermingarefnum; yfir fermingatímann ræða prestar hvað mest þeir mega um að "staðfesta trúna" og "vera tekinn í fullorðinna manna tölu" en sætta sig síðan fullkomlega við að barn sé neytt til fermingar af foreldrum, þrátt fyrir að barnið sé ekki trúað.

 Það má síðan geta þess í sambandi við athugasemd Víðis Benediktssonar (#24) að ég var heldur ekki skírð og mátti lengi þola stríðni jafnaldra minna -jafnt á leikskóla sem í fyrstu bekkjum grunnskóla- um að ég gæti ekki heitað Tinna þar sem ég væri ekki skírð.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 29.4.2008 kl. 07:04

53 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Aths. vid #48 "Svanur Sigurbjörnsson"

Jú, veistu að ég held hreinlega að kirkjan ætti að staðfesta einkarétt sinn á orðinu "ferming". Það að kalla athöfn borgaralega fermingu er ekkert annað en að notfæra sér sögulegt umhverfi og inntak orðisins "ferming" út frá kirkjusögunni og hefð kirkjunnar. Það er mín skoðun. 

Baldur Gautur Baldursson, 29.4.2008 kl. 07:27

54 Smámynd: Landfari

Ég erekki frá því að það væri betra að hafa annað nafn á því sem kallað hefur verið "borgarleg freming". Hvað segið þið um "siðfesta" Ungligarinir tæku þá siðfræðslu og lærðu boraralegt siðgæði meðan hinir læður kristilegt siðgæði.

Á endanum byggjum við svo í siðaðara þjóðfélagi því lengi getur gott bestnað. (Þetta síðasta var nú bara orðað svona til að Ómar hefð tilefni til að gera athugasemd í anda Péturs þular, ekki veitir af að laga ambögur hér á blogginu)

Við erum að lenda í sama máli með hjónabandið þegar kemur að samkynhneigðum. Þar þarf að finna nýtt nafn svo allir verði ánægðir. Orðin hjónaband og gifting tákana ákveðna hluti sem sem ekki taka yfir sabúð tveggja af sama kyni og heldur ekki yfir sambúð þrigga eða fleir aðila samkvæmt okkar venjum.

Landfari, 29.4.2008 kl. 10:53

55 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þórarinn Eldjárn var annar tveggja sem flutti ræðu við borgaralega fermingu sunnudaginn 27. apríl s.l.  Hann gerði m.a. að umfjöllunarefni sínu orðið ferming.  Ræða hans er stórgóð og það má lesa hana hér á síðu Siðmenntar.

Svanur Sigurbjörnsson, 29.4.2008 kl. 13:05

56 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég er reyndar sammála því að það mætti alveg kalla borgaralega fermingu eitthvað annað en hins vegar finnst mér einnig í lagi að halda því óbreyttu. 

Aftur er það minnkun fyrir samkynhneigð pör að opinber heit þeirra fái ekki að kallast hjónaband eins og gagnkynhneigðra því hjónabandið er í raun bara ástarjátning og heit þess að vera hvort öðru trú.  Kynhneigðin kemur þar ekki málinu við.   Til aðgreiningar má segja hjónaband samkynhneigðra þegar þess er þörf.

Svanur Sigurbjörnsson, 29.4.2008 kl. 13:11

57 identicon

Það er svolítið skrítið að lesa sumt af því sem skrifað er hér.  Það er látið eins og þjóðkirkjan sé eitthvert skrímsli sem kemur og ræðst á lítil börn og ungt fólk á fermingaraldri og ætlar að gleypa þau.  Það kemur sjáfsagt fyrir að prestar fari offari í sinni vinnu rétt eins og gerist með fólk í öllum starfstéttum. 

En hvað stórt hlutfall foreldra lætur skíra börn sín og þar með lýsa yfir vilja sínum til að börnin tilheyri þeim söfnuði.  Foreldrar hafa þann rétt í dag og þau hafa líka þann rétt að ákveða að börnin tilheyri engum söfnuði.  Að barn fái sjálfkrafa samskonar skráningu og móðir við fæðingu er kannski ekkert svo óeðlilegt þetta er hennar skoðun og barnið í flestum tifellum á hennar ábyrgð (já ég veit líka föður) en einhvernvegin verða reglur að vera.  Það er síðan lítið mál að breyta því ef fólk er ekki sammála því.

Það er verið að vitna í Helga Hóseasson hér fyrir framan.  Hann var skýrður og hann var fermdur með samþykki forráðamanna hvort sem hann er sammála því síðar eða ekki, sem þýðir að þessar athafnir fóru fram og að þurka það útúr bókum væri ekkert annað en sögufölsun, en hann getur skráð sig úr þjóðkirkjunni og lýst þannig yfir ósamþykki sínu. 

Forráðamenn hafa rétt til að taka ákvarðanir fyrir börn sín hversu gáfulegt sem okkur þykir það því ekki getum við beðið með allar ákvarðanir sem skipta máli fyrir börnin þar til þau verða 18 eða hvað? 

Steinunn Aldís (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 17:45

58 Smámynd: Egill

jólin, páskarnir, fermingin.

maður leyfir sér að spá í hve margir myndir halda jólin hátíðleg ef það væru ekki gefnar gjafir né borðaður góður matur.

eða páskana ef engin páskaegg eða purusteik væri til siðs.

eða hve margir unglingar myndu hafa fyrir því að ganga í gegnum ferminguna ef gjafirnir væru ekki til staðar.

mætti næstum halda að það sé verið að freista mann til að gera það "rétta" sem ætti að gerast að sjálfu sér...

Egill, 29.4.2008 kl. 20:08

59 identicon

Þegar ég les athugasemdirnar sem hér eru skrifaðar, kemur mér enn þá einu sinni á óvart hve illa þeir rökstyðja mál, sem telja sig vera talsmenn evangelisk-lútersku ríkiskirkjunnar (sem nefnir sig sérheitinu Þjóðkirkja). Þeir ýmist skammast almennt út í alla gagnrýni á starf kirkjunnar eða binda sig við smáatriði eins og heiti. Dæmi er þras Baldurs Gauts um nafnið á borgaralegri fermingu. Annað hvort les Baldur ekki málflutning sér andstæðum eða honum tekst að útiloka hann jafn óðum úr huga sér. Ég rakti í innleggi mínu nr.52 hér að framan hvernig lútersk ferming væri tilkomin. Hún er ekki trúarlega heilög athöfn og Lúter var slíkri fermingu andsnúinn.  Ég reikna með að kaþólsku kirkjunni hafi brugðið við þegar lúterskir einvaldskonungar fóru að nota orðið ferming yfir lokapróf í lestrarkennslu á 18. öld. Var þetta ekki misbeiting á meira en þúsund ára gömlu kaþólskum helgisið?

Lúterskar kirkjur tóku upp "fermingu" fyrir um 260 árum. Á Norðurlöndum hefur heitið "borgerlig konfirmation" verið við lýði í tæp 100 ár. Þetta eru einfaldar sögulegar staðreyndir. Ef Baldur Gauti o.fl. vilja halda áfram að þrasa um þessa orðanotkun, væri það kurteisi við lesendur að taka tillit til raunveruleikans.

Raunar má draga í efa rétt lúterskrar ríkiskirkju til að nefna sig "þjóðkirkju". Við innleiðingu trúfrelsis á Íslandi 1874 breytti þessi trúarstofnun  um nafn, úr Ríkiskirkju í Þjóðkirkju, sem var þýðing á nafnbreytingu dönsku ríkiskirkjunnar í "folkekirke" um 1849. Nafnbreytingin tengist því ákvæði í stjórnarskránni að ríkið skuli sérstaklega styrkja starf hinnar lútersk-evangelísku kirkju. Þetta var arfleifð einveldisins. Nú eru um 20% Íslendinga ekki í Þjóðkirkjunni og sumum finnst það duga til að draga í efa rétt stofnunarinnar til a'ð bera sérheitið Þjóðkirkja. Auk þess felur nafnið í sér vissan hroka gagnvart öðrum trúar- og lífsskoðunarhópum, er í andstöðu við fjölmenningarhugsun. En við skulum ekki deila frekar um heiti, það er að nokkru leyti flótti frá kjarna málsins sem á fyrst og fremst að snúast um innihald, ekki umbúðir.

Gísli Gunnarsson prófessor emeritus í sagnfræði (emeritus = gegni ekki lengur embætti vegna aldurs)

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband