Óverðskuldað í skugganum.

Bogi Ágústsson nam sagnfræði og fáir eru honum fróðari um seinni heimsstyrjöldina og vopn hennar á landi, láði og í lofti. Stórgóð frétt hans í sjónvarpsfréttum í kvöld um B-17 "fljúgandi virkið" naut góðs af því.

Ég man þá tíma fyrst eftir stríðið þegar ég fékk lítið módel af "fljúgandi virki" í gjöf og lék mér af því með glampa í augum yfir því að hafa eftirmynd af svona frægri flugvél í höndum og heyra frásagnir fullorðna fólksins af henni.

Þessi glýja fylgdi mér síðan í allri umfjöllun og fréttaflutningi þar til fyrir nokkrum vikum að ég fór að lesa mér betur til um hana í tveimur nýjum bókum um sprengjuflugvélar stríðsins.

Þá hrundu allar helstu gömlu klisjurnar:

1. Fljúgandi virkið var best varða og vopnaða flugvél síns tíma. Rangt. B-24 Liberator var fremri henni að þessu leyti. 

2. B-17 var hraðskreiðust á sínum tíma og hafði mest flugdrægi. Rangt. Þökk sé nýrra og fullkomnara vænglagi flaug B-24 mun hraðara og lengra með sama sprengjumagn. 

3. B-17 var framleidd í fleiri eintökum en aðrar sprengjuflugvélar á þeim tíma og var af þeim sökum mikilvægust. Rangt: Af engri sprengjuflugvél fyrr né síðar hafa verið framleiddar fleiri eintök en af B-24.

Hvers vegna baðar B-17 sig þá í ljóma en B-24 ekki? Jú, B-17 kom aðeins fyrr fram á sjónarsviðið og viðurnefnið "Fljúgandi virki" svínvirkaði. Með árunum skemmdi ekki ætternið fyrir, - ekki ónýtt að vera ættingi B-29, B-52 og Boeing 707, 720, 727, 737, 747, 757 og 767.

Fleiri klisjur:

Spitfire var besta orrustuflugvél stríðsins og átti mestan þátt í sigri Breta í orrustunni um Bretland. Rangt: Messerschmidt 262 var besta orrustuvél stríðsins, og þegar Focke-Wulf FW 190 kom fram 1941 var hún betri en Spitfire á öllum sviðum nema hvað snerti beygjuhring. Rússneska flugvélin Lavochkin La-2 hafði betri flugeiginleika en aðrar orrustuvélar bandamanna í stríðinu. Fleiri óvinaflugvélar voru skotnar niður af Hawker Hurricane í orrustunni um Bretland en af Spitfire.

Af hverju þessi ljómi af Spitfire? Jú, það eru sigurvegararnir sem skrifa söguna og Spitfire var hraðskreiðari og betri orrustuvél en Hurricane. Ljóminn af sigrinum fellur því á Spitfire.

Flugvélar Sovétmanna stóðu öðrum flugvélum að baki í stríðinu: Rangt. Sovétmenn voru að vísu að mestu með úreltan flugflota í blábyrjun stríðsins en ekki þarf að kynna sér þær flugvélar sem komu fram frá og með 1940-41 til að sjá að rússarnir stóðu vesturveldunum ekki að baki. Þegar sumar af þessum vélum komu fyrst fram, svo sem Yak-vélarnar, var þýskum flugmönnum ráðlagt að forðast að lenda í orrustu við þær.

Sovétmenn hefðu ekki getað snúið taflinu við síðustu þrjú stríðsárin með lélegum flugflota. Þannig átti Il-2 Sturmovik stóran þátt í hinum mikilvæga sigri Sovétmanna í Kursk-orrustunni. Fleiri eintök voru framleidd af þeirri vél en nokkurri annarri hernaðarflugvél fyrr eða síðar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

Það sem gerir B-17, Spitfire og Mustanginn svo heillandi í hugum fólks er að hluta til bara útlitið, held ég.  Þetta eru svo fallegar og straumlínulagaðar vélar, ólíkt t.d. B-24 sem er hálf klunnaleg og ó-sexý í samanburði við B-17.  Það skiptir kannski minna máli í hugum margra hvort þessi eða hin vélin hafi drepið fleiri nasista...

Annars er ég á leið á flugsýningu núna um helgina í Duluth, Minnesota til þess að skoða B-24, P-38, P-51, F4F Wildcat og fleiri góða gripi...  þar verða líka Blue Angels og Fat Albert ásamt Patty Wagstaff á Extrunni sinni... gerist ekki flottara!

Róbert Björnsson, 16.7.2008 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband