Ekki í mannlegu valdi.

Óendanleikinn og eilfífðin, sem er hluti af honum, eru að minu mati mikilvægustu atriðin í minni trú og heimsmynd.

En vegna þess að okkkur er tamt í jarðvist okkar að skynja alla hluti sem afmarkaða og endanlega í tíma og rúmi, er okkur ómögulegt að skynja óendanleikann til fulls.

Óendanleikinn þýðir að skynjun okkar á hugtakinu "allt" er röng, því að það er alltaf eitthvað til sem er stærra en "allt".

Nú eru vísindimenn til dæmis farnir að gæla við hugmyndir um fleiri "alheima" en okkar.

Sömuleiðis er skynjun okkar á hugtakinu "minnst" röng, því að það er alltaf til eitthvað sem er minna en það minnsta sem við þekkjum.

Óendanleikinn þýðir óendanlega mikla möguleika, það eru til óendanlega margar vetrarbrautir, sólir og reikistjörnur og óendanlega margar þeirra hafa líf. Af því leiðir að tvíburajarðir jarðarinnar eru óendanlega margar og tvífarar okkar sömuleiðis.

Ef hugsað er á þessum nótum er endurholdgun vel líkleg þótt hún sé ekki endilega fólgin í því að hún gerist hér á jörðinni á þann hátt sem Dalai Lama heldur fram.

Kristur talaði oft um eilfðina og Guð, sem einnig má kalla almætti. Þetta er svo stórt að örsmáir menn á jörðinni hafa ekkert leyfi til að reyna að taka sér það vald almættisins og sköpunarverksins sem endurholdgun er. Það er einfaldlega ekki í mannlegu valdi. Í þá gryfju hafa ótal margir trúarpostular fallið og valdið með því tjóni í stað þess að vinna með því gagn.

Læt fylgja þessum pistli fyrstu ljósmyndina af mörgum sem ég ætla að birta úr mögnuðu ferðalagi um víðáttur Vatnajökuls, sem ég kom úr í nótt.

DSCF5278

Sú ferð endaði síðdegis í gær á því að standa uppi á Bárðarbungu, næst hæsta fjalli Íslands og reyna að skynja hina stórbrotnu víðáttu sem bankar í eilfífðina.

Myndin hér við hliðina er hins vegar af því þegar komið var eftir akstur lungann úr deginum upp á Grímsfjall og horft inn í hluta Grímsvatna, staðar þar sem maðurinn skynjar smæð sína andspænis þeim hrikalegu náttúröflum, sem skilað hafa Grímsvötnum í hóp sex merkilegustu eldfjalla heims, þeirra er mannleg augu fá greint.

Þarna er mynd Grímsvatna að byrja brjótast út úr hríðarsortanum framundan, en síðan fara í hönd þrír dagar þegar myndin birtist endanlega.  

(Hægt er stækka myndir hér á síðunni og láta þær fylla út í allan skjáinn með því að smella á þær í tveimur áföngum.  


mbl.is „Lifði í lygi" í klaustri Dalai Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Endurholdgun líkleg, hvernig færðu það út?
Ekkert styður við slíkt, bara að horfa á alheiminn hrópar á okkur: HALLÓ það er ekkert extra líf, dauðinn er raunverulegur og endanlegur, þið eruð bara spes í ykkar eigin hugarheimi.

Svo það besta: Jesú var aldrei til í alvörunni :)

Biblían/kóran eða hvað annað í trúarbrögðum er eins og "Tölvupóstur frá Nígeríu"

DoctorE (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 11:21

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sveitin og náttúran eru staðir sálarinnar en borgirnar staðir líkamans. Þú ert greinilega að fá þinn skammt af náttúrunni Ómar, það heyrist í þessum pistli.

Ég hef lifað í þeirri sannfæringu lengi að til séu órafjöldi "alheima" og í viðbót við þá, óteljandi andlegar veraldir Guðs. - Endurfæðing merkir fyrir mér að raunvera meðvitundar okkar skiptir um svið og ég er ekki hallur undir túlkun nútíma buddisma á því atriði, þar sem sviðið er aðeins þetta rykkorn sem við köllum jörð.

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.6.2009 kl. 11:21

3 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sæll Ómar,

Það rifjast upp þegar ég sé myndina af jöklatítlunni þinni að þú gaukaðir að mér reikniformúlu sem þú hafðir sett saman um hlutfall dekkjastærðar og þyngdar jeppa. Mig rámar í að talan 28 hafi komið við sögu. Getur þú til gamans sett þessa formúlu hér í athugasemd.

Kveðja,

Sigurður Ingi Jónsson, 3.6.2009 kl. 11:33

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Sigurður Ingi. Formúlurnar eru reyndar tvær og ég notaði lengi vel til samanburðar á milli hjólbarða hve margir lítrar hvert dekk væri brúttó.

Síðan datt ég niður á aðra formúlu sem er einfaldari í notkun en mjög svipuð, en með henni er hægt að finna út hve stórt spor dekkið hefur við úrhleypingu. Ég tel hana raunhæfari.

Formúlan byggir á þrennu:

1. Því stærra sem ysta ummál dekksins er, því lengra verður sporið.

2. Því breiðara sem dekkið er, því breiðara verður sporið.

3. Því lengri vegalengd sem er frá felgu niður í jörð, því lengra verður sporið.

Atriði númer þrjú er mjög mikilvægt því að ummál dekksins nýtist ekki ef dekkið er "low profile".

Talan 0,28 var fengin til að fá út ákveðinn fjölda kílóa sem burðartölu.

Þar með er fórmúlan svona: Ummál hjólbarða x breidd x vegalengd frá felgu niður í jörð.

Tökum sem dæmi hjólbarðastærðina 38 x 15,5 x 15

Þá lítur það svona út:

38 x 15,5 x 11,5. Talan 11,5 er fundin þannig út að draga 15 (felgustærðin) frá 38 til að fá út hve mikið hluta ummálsins er dekkið sjálft. Út kemur 23, sem síðan er deilt með tveimur í.

Ef dekkið er harðpumpað er 11,5 tommur frá jörðu upp í felgu og ef hleypt er alveg úr því lækkar hæð felgunnar frá jörðu um 11,5 tommur.

38 tommu dekkið kemur því svona út: 38 x 15,5 x 11,5 x 0,28 = 1896 (kíló)

Gamall HI-lux sem er 1896 kíló hefur samkæmt þessu 100% flot. Það er hægt að fara með hann í nokkurn veginn hvaða jöklaferðir sem er.

Síðan hef ég reiknað, þegar ég er að meta snjóflot bíla, hve mikill flotgetan er í prósentum.

Hér koma nokkrar útkomur úr svona dæmum.

30 x 9,5 = 599 kíló. Súkkujeppi á svona dekkjum sem er 1198 kíló hefur 50% flotgetu.

31 x 10,5 = 729 " Sami jeppi á þessum dekkjum hefur hefur 61 % flotgetu.

32 x 11,5 = 876 " Litli Súkkujeppinn minn er 950 kíló og hefur því 92 % flotgetu. Hefur sannast

endanlega í nýlegri jöklaferð. Sama flotgeta og hjá 2100 kílóa bíl á 38

tommu dekkjum.

33 x 12,5 = 1040 " Útskýrir hve gamlar Súkkur ca 1100 - 1200 kíó að þyngd eru duglegar í snjó.

35 x 12,5 = 1225 " Gamli Hi-lux pallbílinn minn sem dregur Örkina er 1620 kíló og hefur 76%

flotgetu. Álíka getu og algengir Toyota og Patroljeppar á 38 tommu dekkjum

sem eru 2500 kíló.

36 x 14,5 = 1535 " Nægilega stór fyrir gamla og létta jöklabíla sem eru innan við tvö tonn.

38 x 15,55 = 1896 " Margir nýju jöklajeppanna eru 2400 - 2600 kíló og hafa því 73-79%.

44 x 18,5 = 3305 " Útskýrir hve vel þungir bílar standa sig á þessum dekkjum án þess að hleypa

mjög miklu úr.

Ýmis atriði hafa áhrif á dug dekkjanna, svo sem mynstur og breiddin á felgunum. Yfirleitt gagnast spor sem eru löng miðað við breidd betur en breið spor sem eru stutt. Dæmi um slíkt eru skriðbelti og skíði.

Ómar Ragnarsson, 3.6.2009 kl. 12:34

5 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Kærar þakkir fyrir þetta. Ég ætla að reyna að púsla þessu inn í Excel til gamans.

Sigurður Ingi Jónsson, 3.6.2009 kl. 12:47

6 identicon

Ómar....óendanleikinn er ekki til nema sem hugtak í stærðfræði. Tími og rúm eru stærðir (dimensions), sem hafa aðeins gildi þar sem efni og/eða orka eru fyrir hendi. Við vitum ca. hvað alheimurinn (universe) er gamall og einnig vitum við að alheimurinn er ekki óendanlegur, sem sagt endanlegur í tíma og rúmi. Hann hefur sín ytri mörk. Eilífð er því aðeins hugtak, sem varð til þegar maðurinn var algjörlega ignorant um sína tlveru. Þá benda rannsóknir til þess að minnsta öreindin sé til (string), en það mun framtíðin leiða í ljós. Verum ekki of óþolinmóð. Fyrir aðeins hundrað árum þekktum við ekki einu sinni öll frumefnin og Quantum fræði Plancks eða óvissulögmál Heisenbergs voru óþekkt. Þegar Kristus lifði og predikaði fyrir 2 þúsund árum, þekktum við ekki eitt einasta lögmál í eðlisfræði né í efnafræði. Öll frumefnin voru óþekkt, en við vorum samt nógu djörf að álykta okkar litlu reikistjörnu miðpunkt alheimsins. Hættum að vitna í mannleg verk, rituð af börnum síns tíma, sem voru algjörir óvitar um tilveruna.      

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 12:58

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alheimurinn er auðljóslega skakkt orð um það sem þú ert að tala um. Alheimurinn hlýtur samkvæmt merkingu orðsins að þýða allur heimurinn en samt eru vísindamenn að gæla við hugmyndina um fleiri alheima.

Við teljum víddirnar vera þrjár en skyldu þær ekki vera fleiri? Hvað um huginn, andann, sem kemst hraðar en ljósið, ekki satt?

Þú talar um hvað við vitum miklu meira en menn vissu fyrir 2000 árum en ætli við vitum bara ekki svo lítið að það er nánast ekki neitt?

Þú viðurkennnir ekki óendanleikann nema sem hugtak í stærðfræði og það finnst mér afar þröng hugsun.

Ómar Ragnarsson, 3.6.2009 kl. 13:08

8 identicon

Við vitum ekki lítið Ómar. Við vitum ótrúlega mikið. Vitneskja, sem við öfluðum okkur á mjög skömmum tíma. Við þekkjum t.d. öll frumefnin, eins og þau leggja sig. Finnst þér það bara vera "ekki neitt"? Ekkert fer hraðar en ljósið, það áttu að vita. Það sem þú kallar hugur eða andi, verður til við flutning boðefna á milli taugaenda í heilanum. Taugaendarnir (neurónur) er taldir vera ca. eitt hundrað billjónir að tölu í mannlegu heila. Í heila skordýrs ca. 100 þúsund. Þessi boðefni fara ekki hratt, miðað við ljóshraða. Auðvitað eru til fleiri víddir en 3. Tímarúmið hefur fjórar víddir og samkvæmt "string theory" eru víddir rúmsins jafnvel fleiri en 10.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 13:25

9 identicon

Góð útskýring á því sem er.

Árný (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 15:11

10 identicon

Bara 3 víddir.. halló hahahaha.

Eitt er þó ljóst að víddin hans gudda er ekki til.

DoctorE (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 15:25

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú jú, endurholdgunrkenningin er vel líkleg.

En með þessa grein í mogga, þá er hún ekki nógu nákvæm.  Tja, allaveg ekki samkv. þessu:

"There were times in India when it was hard to accept the destiny. Being treated differently, and feeling apart. But that experience was really good and I so appreciate it. 

However, certain media find ways to sensationalize and exaggerate an unusual story. So I hope that what appears in news print is not read and taken too literally. Don't believe everything that is written!"

http://www.fpmt.org/Teachers/Osel/

Þ.e hann virðist hafna El Mundo greininni eða allvega segja að orð hans hafi verið tekin úr samhengi til að búa til æsifrétt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.6.2009 kl. 15:27

12 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Haukur Kristinsson.

Þú ert yfirlýsingaglaður maður finnst mér. Kannski að þú aðstoðir mig við að skýra eftirfarandi fullyrðingar þínar.

Þú skrifar ; "Við þekkjum t.d. öll frumefnin, eins og þau leggja sig." - Segðu mér hvaða frumefni er það sem ákvarðað hefur verið númer 117 í lotukerfinu og kallað Ununseptium?

Þú skrifar; "Ekkert fer hraðar en ljósið, það áttu að vita."-  Hver er þá ástæðan fyrir að fjölmargar kenningar skammtafræðinnar gera einmitt ráð fyrir hraða sem er meiri en ljóshraðinn. Samanber þessa frétt. Að ekki sé minnst á kvarkamælingarnar sem benda eindregið til þess að þeir geti ferðast hraðar en ljósið og er forsenda þess að stóra-hvells kenningin standist.

Þú skrifar;"Það sem þú kallar hugur eða andi, verður til við flutning boðefna á milli taugaenda í heilanum." - Hvernig skýrir þú þá niðurstöður rannsókna sem hafa verið gerðar með tvíbura þar sem í ljós hefur komið að þeir eru tengdir á þann hátt tilfinningalega að ekki er hægt að rekja það til neins nema einhverskonar "andlegs" (óefnislegs) sambands. Saman ber því sem sagt er frá hér 

Þér er tíðrætt um strengjakenninguna sem gerir ráð fyrir að efni geti haft aðeins eina vídd. Hvernig lítur það efni út og hvernig er það frábrugðið því hegðun sem yfirleitt er kallað "andi". þ.e. orka sem ekki lýtur lögmálum þriggja vídda efnis eða fjórðu vídd tímans?

með kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.6.2009 kl. 16:11

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það hefur verið haft einum merkasta vísindamanni sögunnar að því meira sem hann lærði, uppgötvaði og vissi, því betur kæmi í ljós hvað hann vissi lítið.

Ómar Ragnarsson, 3.6.2009 kl. 18:57

14 identicon

Haukur ekki falla í gryfju yfirlætis.

Það eru einmitt mennirnir sem héldu því fram fyrir kannski 100 árum, "að maðurinn væri búinn að finna allt það upp sem hægt væri að finna upp", sem við hlæjum að í dag.

Ég er hræddur um að komandi kynslóðir muni hlæja í framtíðinni að þeim mönnum sem í dag halda "því sama fram"

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 20:02

15 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Snjall og skarpur, Ómar!

Flott hjá þér!

Þú lætur ekki loka þig inn í einhverjum fyrirfram ákveðnum takmörkunum.

Tek flugið með þér...........

Vilborg Eggertsdóttir, 3.6.2009 kl. 22:35

16 Smámynd: Egill

alltaf brosi ég eilítið þegar ég sé fólk notar vísindin til að útskýra eða færa rök fyrir einhverju yfirnáttúrulegu, hvort sem það er endurholdgun eða guð eða hvaðan af vitlausara.

en skemmtilegur pistill hjá þér Ómar þrátt fyrir það.

Egill, 4.6.2009 kl. 02:45

17 identicon

Því meira sem við vitum því minna vitum við.

Allar umræður um alheiminn eða bara hvað sem er.. þær falla á plan algerrar steypu um leið og þið eruð komin út í guði og galdra.

Eins og Einstein gamli sagði: Everything should be made as simple as possible, but not one bit simpler.
Að draga upp guði og galdramenn er klárlega að einfalda hluti niður á plan fáfræði og óskhyggju.

Ég hjó eftir því um daginn að prestur kom á Bylgjuna og lýsti því yfir að Einstein hafi verið mikill trúmaður... hverslags kjaftæði er þetta... Einstein hló að hinum kristna guði.

DoctorE (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband