Sauðárflugvöllur tekinn út, - Örkin til sölu.

Um helgina fór ég hringferð um landið í ýmsum tilgangi og meðfylgjandi myndir eru úr þeirri ferð. Verkefnalistinn var svona:

P1010405

1. Að aka dráttarbíl bátsins "Arkarinnar", 20 ára gömlum Toyota pallbíl, minnsta jöklajeppa landsins, frá Sauðárflugvelli til Reykjavíkur og taka númer af öðrum gömlum jepparæfli sem stendur á flugvellinum og ég hef notað við kvikmyndatökur og til að flytja sjónvarpsmenn og aðra um virkjanasvæðið.

2. Nota Toyotuna til að draga bátinn "Örkina" til byggða til að gera við hana og kerruna undir henni svo að hægt sé að selja hvort tveggja.

3. Taka utanborðsmótor, sem keyptur var fyrir Örkina eftir að eldri mótor var stolið og fara þennan aukamótor til Reykjavíkur til að selja hann.

P1010407

4. Koma við á bílasafninu á Ystafelli til áframhaldandi vinnu þar vegna kvikmyndagerðar um safnið.

5. Fara með fulltrúa Flugmálastjórnar til Sauðárflugvallar til þess að hægt sé að taka flugvöllinn út.

Ofangreindur verkefnalisti lyktar af fjárskorti.

Af þeim sökum varð ég að hætta við það síðasta sumar að ljúka siglingum og kvikmyndatökum á lónum Kárahnjúkavirkjunar og vona að hægt verði að gera það síðar.

Þótt ég hafi getað dregið jepplinginn "Rósu" í kafi yfir Hálslón í hitteðfyrra á Örkinni, fyllast tvö hólf í henni vegna leka eftir strandskemmdir og drátt um erfitt land.

P1010408

Kerran er líka skemmd eftir að aðfengnir efirlitsmenn við Kárahnjúkastíflu neituðu mér um að fara með hana yfir stíflurnar og ég varð að aka meira en 70 kílólmetra langa og torsótta hálendisslóða í heilan hring til að komast yfir.

Ég tek það sérstaklega fram að þetta voru "aðfengnir" eftirlitsmenn.

Samskipti mín við Landsvirkjun og verktaka á svæðinu hafa alla tíð verið með miklum ágætum.

Hugmynd mín var sú að við frumsýningu á myndinni um Örkina yrðu hún að aðrir munir varðandi verkefnið til sýnis og framkvæmdur sérstakur gerningur.

'Það er því neyðarúrræði að selja bátinn og helst yrði ég að hafa um það klásúlu í sölusamningi að ég hefði forkaupsrétt á honum og / eða leigurétt til að klára siglingarnar og frumsýninguna.

Örkin er 3ja tonna, 19 feta trefjaplastbátur og myndi henta vel sem dagróðrabátur en þó á þann hátt að fara með hann til lokasiglinga eystra í eina viku eða svo síðsumars.

Hvað um það, - vegna veðurs og aðstæðna tókst mér aðeins að ljúka við hluta af verkefnalistanum.

Mér tókst að fljúga á FRÚnni með fulltrúa Flugmálastjórnar til Sauðárflugvallar og ljúka úttekt vallarins og var þetta hið síðasta af alls ellefu formsatriðum hjá jafnmörgum stofnunum sem þurfti að uppfylla til þess að í júní á næsta ári verði hægt að opna flugvöllinn sem löggiltan skráðan flugvöll hjá Flugmálastjórn.

Þótt snjór væri við "flugstöðina" og flughlaðið var meginhluti vallarins auður.

Þetta er mikilvægasti áfanginn í því að láta 70 ára gamlan draum Agnars Koefoed-Hansen rætast og hafa þennan völl tiltækan sem eina flugvellinn á hálendinu sem hægt er að nota fyrir flugvélar á borð við Fokker 50 og það án þess að nokkru hafi verið raskað á flugvallarstæðinu.

Í ljós kom að ekki var fært landveg á venjulegum jeppa að flugvellinum þótt hann væri sjálfur opinn.

Húnn Snædal, vinur minn, fór því í loftið með mér á Akureyri til að fljúga og sækja Toyotuna.

'En þá helltist inn þoka og við urðum að snúa við. Það sem eftir var dagsins fór í óvænta tannviðgerð hjá Kristjáni Víkingssyni vegna dreps og ígerðar í tveimur tönnum í mér.

Á laugardag lögðum við Helga af stað frá Akureyri upp úr hádeginu og fórum að Kárahnjúkastíflum til þess að losa um Örkina.

Þarna var hláka og átta stiga hiti og vegna aurbleytu var ekki hægt að draga bátinn í burtu.

Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum hefur geymt mótorinn fyrir mig en hefur verið í Reykjavík vegna veikinda og fráfalls konu sinnar og því bíður það betri tíma. Eftir langan hjúskap er þetta mikill missir fyrir þennan öðlingsmann.

Síðan brunuðum Helga við Reykjavíkur og komum þangað eftir 1080 kílómetra akstur þann dag. Ég get alveg tekið undir það með þeim hjá LÍÚ að það geti verið basl að vera útgerðarmaður, jafnt á vatni, landi sem í lofti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Þú hefur þá líklega séð bjölluna mína í Ystafelli.

Offari, 19.10.2009 kl. 18:00

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Volkswagen-bjöllunni er ætlað stórt hlutverk í því að varpa ljósi á það sem heimildarmyndin á að fjalla um, en hún á að heita "Karlamannatíska í stáli."

Ómar Ragnarsson, 19.10.2009 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband