Mikil heppni í einstæðu loftbelgsflugi á Íslandi 1976.

Í júlí 1976 átti að fljúga fyrsta sinn með farþega í tveggja manna loftbelg frá Álftanesi og var mér boðið í þá ferð. Flugið með mig varð hins vegar stutt, rúmlega mínúta, því að mér tókst ekki að komast um borð í loftbelgskörfuna, heldur hékk utan á henni á leið belgsins eftir jörðinni um tón, gegnum girðinug og órækt, yfir Álftanesveginn og þar aftur eftir móa.

Þá lyftist belgurinn skyndilega upp með mig hangandi utan á körfunni.

Það var eitthvert skelfilegasta augnablik lífsins að hanga svona utan á, sjá jörðina fjarlægjast fyrir neðan sig og vita að útilokað var að komast um borð eða halda takinu áfram.

En heppnin var með, loftbelgurinn missti flugið og skall á jörðinni augnablik á fleygiferð undan vindinum, sem þarna var, svo að ég missti takið og losnaði frá án þess að lenda undir körfunni, sem var byrjuð að snúast og hefði getað kramið mig illa ef ég hefði hangið hlémegin á því augnabliki.

Loftbelgurinn hafði lést það mikið við þetta að hann náði flugi á ný og fauk með suðvestan vindi alla leið upp í Leirársveit. Lenti að vísu í vatni í stutta stund í Lamhústjörn en komst upp úr henni og stefndi á tímabili inn um gluggann á forsetasetrinu, en slapp yfir það á síðustu stundu.

Hann komst með naumindum yfir Akrafjall, en þá var Skarðsheiðin, mun hærra fjall, framundan og afar ógnandi.

Belgurinn lækkaði þá flugið, en í Leirársveit lenti hann á rafmagnslínu, heilmikill blossi gaus upp, rafmagninu í sveitinni sló út, en loftbelgurinn féll til jarðar og það kviknaði í neðsta hluta hans, svo að hann varð kolsvartur. Stjórnandinn slapp vel, marðist að vísu en brotnaði ekki. 

Þarna var hvað eftir annað mikil heppni á ferð og það kemur upp í hugann nú þegar fréttist af hræðilegu loftbelgsslysi í Bandaríkjunum þar sem belgurin fuðraði upp í árekstri við háspennulínu og sprakk síðan.    


mbl.is Loftbelgur flaug á rafmagnslínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er eyja, langt frá öðrum löndum.

Við lifum í heimi hagur þjóða, efnahagslíf og samskipti eru orðin margslungnari en margan grunar. Flestar þjóðir lifa við þær aðstæður að geta valið um fjölbreytilegan samgöngumáta á milli landa.

Í Evrópu er hægt að bruna á ógnarhraða á milli landa með fólk eða vörur í hraðlestum, aka eftir hraðbrautum eða velja um flugfarkosti.

Ísland sker sig úr meðal Evrópuþjóða og raunar flestra þróaðra þjóða og svæða á norðurhveli jarðar að því leyti að hvorki hraðlestir, hraðbrautir né siglingar geta skilað fólki eða vörum hratt og örugglega milli landsins og umheimsins.

Efnahagur okkar hefur hins vegar aldrei verið eins háður hröðum og öruggum samgöngum.

Tvær litlar fréttir dagsins bera þessa merki. 27 tonn af ferskum fiski komast ekki á markað vegna tiltölulegra afmarkaðra aðgerða í kjaradeilu og fresta verður Norðulandamóti af sömu ástæðum.

Tvær stækkandi undirstöður velmegunar okkar eru algerlega háðar hröðu og öruggu flugi:

1. Flutningur á ferskum fiski, seldum á háu verði, á markaði.

2. Sívaxandi ferðamannastraumur til landsins, sem meðal annar byggir á aðstöðu okkar til að halda hér alþjóðlegar ráðstefnur, menningarviðburði og íþróttamót.  

Hér skal ekki lagður dómur á málsatvik í kjaradeilunni hjá Icelandair en aðeins bent á, að þetta er stórmál.      


mbl.is Verkfall flugmanna hefur áhrif víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur hafa lengi átt erindi í bílaiðnaðinn.

Áhrif kvenna og hugmyndir þeirra hafa lengi verið vanmetnar í bílaiðnaðinum. Þær eru helmingurinn af notendum bíla og þetta er því ekki aðeins spurningu um stjórnun og áherslur heldur líka um markaðinn.

Konur voru í meirihluta þeirra, sem réðu útliti og hönnum fyrstu Opel Corsa bílanna, sem þóttu heppnast mjög vel.

Það var kona forstjóra Fiat-verksmiðjanna sem átti hugmyndina að og barðist fyrir gerð hins nýja Fiat 500, sem er einhver best heppnaða aðgerð í bílasmíði síðari tíma.

Nú er kona orðin forstjóri Citroen verksmiðjanna sem lengi vel blómstruðu vegna frjórrar og framsækinnar hugsunar.  

Meira af þessu !  


mbl.is Bresk kona tekur við Citroen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband