Aðdáunarverð baráttugleði.

Það hlýtur að teljast til afreka hve langt ÍBV-liðið hefur komist í Íslandsmótinu í handbolta vegna þess, að í langhlaupi í röð erfiðra stórleikja í lok móts getur skipt sköpum að hafa úr sem stærstum hópi góðra leikmanna að velja.

Margir álitu fyrirfram, að Haukar myndu standa betur að vígi á grundvelli stærri hóps sterkra leikmannaá bekknum og sterkara varaliðs, heldur en ÍBV hefur yfir að ráða.

Í fyrstu fjórum leikjunum hefur þetta farið á aðra lund. Með einstaklega öflugum liðsanda og baráttugleði samfara óborganlegri stemningu fylgismanna liðsins hefur tekist að komast alla leið í hreinan úrslitaleik.

Það hefur að vísu áður gerst, að lið af landsbyggðinni hafi borist áfram á hliðstæðri bylgju, allt frá þeim tíma þegar gullaldarlið Skagamanna varð til.

Í handboltanun minnist maður þeirrar stemningar sem reis í kringum lið Selfoss hér um árið.

Það hefur stundum verið sagt um úrslitaleiki í Íslandsmótinu að þegar um tvö afar jöfn lið er að ræða, ráði þráin eftir bikarnum mestu á úrslitastundu.

En á hitt verður líka að líta, að félag eins og Haukar, sem hefur oft hampað eftirsóttustu verðlaunum í íþróttum, nýtur oft góðs af þeirri reynslu og hefð, sem slíku fylgir.

Þess vegna verður óvenju gaman að fylgjast með úrslitaleiknum í Íslandsmótinu að þessu sinni.   

 


mbl.is Rauðglóandi síminn hjá ÍBV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldhúsdeginum þjófstartað með Prúðuleikaraþætti.

Fyrir hreina tilviljun datt inn til mín bein útsending frá Alþingi rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi, sem varð til þess að draga mann að tækinu, þvílíkt var fjörið. Þetta var nokkurs konar Prúðuleikaraþáttur.  

Steingrímur J. var greinilega í stuði þegar hann fór í gegnum skuldaleiðréttinguna og séreignasparnaðinn og síðan lagði Vigdís Hauksdóttir sitt af mörkum til að halda fjörinu uppi með frammíköllum, sem af spunnust þriggja manna orðaskipti þegar þingforseti var dreginn inn í leikritið.

Lokakaflann átti síðan Pétur Blöndal og enda þótt ýmis orðaskipti þyki fréttnæmust frá þessum hluta umræðnanna í nótt, sitja þó eftir fræðandi og málefnaleg atriði í ræðum þeirra Steingríms og Péturs, sem eiga fullt erindi til landsmanna.

Í eldhúsdagsumræðunum í kvöld er hætt við að hún verði ekki eins grípandi og áhugaverð, vegna þess hve umræðan verður dreifð. Verði það þannig, er það synd, því að málefnalegar umræður með rökum og gagnrökum eru nauðsynlegar. Má segja að eldhúsdeginum hafi verið þjófstartað í nótt.  

 


mbl.is Sagði Vigdísi að þegja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risalínurnar dynja strax yfir í sumar.

Af öllum þeim aragrúa virkjana sem nú eru að hellast yfir landsmenn, tæplega hundrað nýjar í viðbót við um þrjátíu virkjanir sem þegar eru komnar, fer það eftir ýmsu, hve hratt þær geta gengið í gegn.

Um þær þeirra, sem ég vann að greiningu á fyrir Framtíðarlandið til þess að gera athugasemdir fyrir rammaáætlun 2011, svo sem virkjanir á Kröflusvæðinu og í Skaftárhreppi, gildir það að stórlega er áfátt mati á umhverfisáhrifum, sem virkjanaaðilar hafa fengið ákveðna verkfræðistofu til að framkvæma, svo að augljóslega eiga eftir að verða tafir á að klára þau mál, þegar hið rétta verður dregið fram í dagsljósið.

Það fer að vísu mjög eftir aðhaldi og árvekni gagnrýnenda hve vel verður farið ofan í saumana á þessum ósköpum en með hreinum ólíkindum eru þær rangfærslur og spuni, sem finna má í þessum gögnum.

Ástæðan er líklega sú, að verkfræðistofan gengur svo hart fram í að þóknast verkbeiðenda, að verkið verður stórgallað.

Af þessum sökum er líklegt að risaháspennulínurnar, sem leggja á í þágu stóriðjunnar um mestallt landið, muni fyrst dynja yfir, jafnvel þótt sumt, sem ætlunin er að gera, muni valda miklu stórfelldari spjöllum og skapa mun meiri áhættu en upp er látið nú.

Landsnet keyrir áform sín áfram og það er veifað sæstreng til Evrópu, tugum virkjana og álveri í Helguvík auk fleiri kaupenda raforku, sem flokkast undir hins tilbeiðslukenna "orkufreka iðnaðar".

Allt er það gert undir yfirskini "afhendingaröryggis til almennra notenda", sem er alrangt, því að almennir notendur þurfa ekki svona risavaxnar línur, heldur aðeins stóriðjan.

Risalínan, sem leggja á eftir endilöngum Reykjanesskaganum, á að liggja yfir vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og nú er greint frá því í fréttum að framkvæmdir muni hefjast í landi fjögurra sveitarfélaga strax í sumar, enda búið að ganga frá því að valtað verði yfir þá, sem dirfast að andæfa þessum framkvæmdum. L'inurnar verða keyrðar í gegn með því að beita eignarnámi og því valdi, sem þurfa þykir að grípa til.

Tónninn var gefinn í Gálgahrauni í fyrra þar sem stærsta skriðbeltatæki landsins með atbeina sextíu lögregluþjóna með handjárn, gasbrúsa og kylfur var beitt til valdbeitingar gagnvart friðsömu fólki við náttúruskoðun, til að valda hámarks óafturkræfum spjöllum á sem skemmstum tíma í þágu þarflausrar framkvæmdar, þar sem framkvæmaleyfi var útrunnið og mat á umhverfishrifum úrelt og ónýtt.

Í ofanálag hafði svo verið búið um hnúta, að lögfesting Árósasáttmálans hér á landi, sem í öllum öðrum Evrópulöndum tryggir lögaðild náttúruverndarsamtaka að framkvæmdum, sem valda miklum og óafturkræfum umhverfisspjöllum, reyndist vera gagnslaust pappírsgagn að dómi Hæstaréttar.

Landsnet pressar nú stíft að fá að vaða um landið með risalínur sínar og líklega helst að fá að valda sem mestum spjöllum á miðhálendinu, sem býr yfir dýrmætustu náttúrverðmætum landsins, af því að við fleiri aðila er að eiga með línu um byggðir landsins, eignarlönd og sveitarfélög heldur en ef farið er um hálendið.  


mbl.is Landsnet sækir um framkvæmdaleyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirfærsla reynslu í dýraríkinu vanmetin.

Okkur er tamt að tala um "skynlausar skepnur" þegar dýr og fuglar eru annars vegar og í því felst það til dæmis að dýr séu svo heimsk að þau geti ekki lært af reynslunni og því síður geti þau deilt lærdómi sínum með fleiri dýrum, svo sem afkomendum sínum.

Mörg ótrúleg dæmi eru hins vegar um það hve fljót dýr geta verið að læra á breyttar aðstæður og hvernig þessi þekking getur meira að segja dreifst á milli kynslóða.

Í fróðlegu viðtali við helsta frumkvöðul hvalaskoðunarferða á Húsavík kom fram, að hrefnur séu mikilvægasta hvalategundin fyrir hvalaskoðunarferðirnar, og að eftir friðun margra ára, séu þær orðnar bæði forvitnar og gæfar, en það er forsenda fyrir því að hvalir sjáist í námunda við hvalaskoðunarbátana.

En hann segir líka að að sama skapi séu veiðarnar á þeim að snúa þessu við, þannig að dýrin séu farin að verða fælin og stygg í vaxandi mæli og að með sama áframhaldi muni þetta rústa þessari ferðaþjónustu, sem nú sinnir jafn mörgum ferðamönnum árlega og komu hingað í heild fyrir áratug.

Það blasir við að hagsmunir hvalveiðimanna eru örlítið brot af hagsmunum hvalaskoðunarmanna og ferðaþjónustunnar.  


mbl.is Oddvitar vilja stærra hvalaskoðunarsvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband