Klæðnaðurinn og svefnpokinn ráða úrslitum.

Frásagnir fólks af því hvernig því hefur gengið að sofa í tjaldi eða snjóhúsi í vetrarveðri eru misjafnar. 

Ég er einn þeirra sem fell í afar djúpan svefn ef ég á að hvílast vel. Við það hægir á líkamsstarfseminni og maður verður mjög viðkvæmur fyrir kuldanum, hrekkur stundum upp hríðskjálfandi.

Eftir mörg hundruð nætur í svefni útivið í allt að 20 stiga frosti lærist þó ýmislegt.

Besti lærdómurinn fékkst í ferð yfir Grænlandsjökul 1999. Þá var sofið í tjöldum eða bílum í allt að 3000 metra hæð og 25 stiga frosti.

Arngrímur Hermannsson leiðangurstjóri hokinn af reynslu í þessum efnum, tók heldur betur til hendi í útbúnaði mínum, svo að ég varð að endurnýja hann frá grunni.

Undirfatnaðurinn var höfuðatriði, þurr og loftmikil ull. En svefnpokinn var þó mikilvægastur.

Ég man ekki lengur hvar ég keypti hann, en Arngrímur taldi eina gerð vera langbesta og að ég fengi ekki að vera með í ferðinni nema fá mér slíkan poka.

Ég kveinaði yfir því hvað pokinn væri dýr en Addi sagði, að maður keypti aðeins einu sinni svefnpoka fyrir ævina og að annar poki kæmi ekki til greina.  

Þetta dugði vel og var dýrmæt reynsla.

Þegar ég flutti búferlum á milli hverfa árið 2000 týndist Grænlandssvefnpokinn í flutningunum og ég fór því að nota þann gamla áfram.

Gekk á ýmsu í útilegunum sem voru sumar að vetrarlagi og í miklu frosti á hálendinu og uppi á Vatnajökli og ég afar kulsækinn. 

Fyrir rúmu ári flutti ég aftur búferlum, og þá fann ég Grænlandspokann og byrjaði að nota hann.

Og hvílíkur munur! Svo mikill, að ég dauðsá eftir því að hafa ekki farið í rækilega leit að honum eða finna ráð til að kaupa jafngóðan að nýju, þótt hann væri dýr.  

 


mbl.is Fimm tíma að sofna í snjóhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hverju reiddust goðin...?

Þegar heiðnir menn sögðu á Alþingi við kristnitökuna árið 1000 að goðin væru reið, því að hraun í gosi á Hellisheiði stefndi niður bæ eins hálfkristna goðans að Hjalla í Ölfusi, svaraði Snorri goði: "Hverju reiddust goðin þegar hraunið brann er nú stöndum vér á?"

Á svipaðan hátt mætti spyrja nú: Hverju reiddust forráðamenn annars af tveimur fyrirtækjum sem var búið að leggja fé í að fá leyfi fyrir rannsóknir og vinnslu á Drekasvæðinu en hætti nýlega við?

Varla Samfylkingunni, löngu fyrir landsfund hennar.

Og hverju reiddust kínversku fyrirtækin sem voru búin að tilkynna um stórfellda olíuleit við Grænland en hafa nú hætt við og það svo rösklega að Grænlendingar hafa afskrifað olíuleit í sinni lögsögu?

Varla gátu þeir reiðst Samfylkingunni þá?

Menn tala um óskiljanlega stefnubreytingu hjá Sf.

En það er ekkert óskiljanlegt við hana.

Allir íslensku stjórmálaflokkarnir höfðu í meira en fimmtán ár fylgt fram stefnu í olíumálum Íslendinga án þess að nokkur bitastæð umræða færi fram um það innan flokkanna eða almennt í þjóðfélaginum.

Það átti að skjóta fyrst og spyrja helst aldrei.

Í fyrra gerðist hins vegar það að Samfylkingin stóð fyrir vönduðu málþingi um olíumálin frá sem flestum sjónarhólum. Þetta var fyrsta slíka málþingið af þessu tagi um þetta víðfeðma efni, en fjölmiðlar höfðu ekki áhuga á því. 

Á málþinginu héldu sérfræðingar á ýmsum sviðum fróðleg erindi, sem opnuðu alveg nýja heildarsýn á málið þótt sjónarhólarnir væru mismunandi.

Einn sérfræðinganna var að vísu enn greinilega áhugasamur um olíufundi og sagði til dæmis, að því miður hefði engar olíulindir fundist á Skjálfandaflóa!

Ég hef áður rakið hér á síðunni helstu rökin fyrir því að taka strax breytta afstöðu til framtíðar varðandi þá draumsýn að Ísland verði olíuríki með tilheyrandi "heimshöfn" í Finnafirði, jarðgöngum og hraðbrautum um þvert hálendið til Reykjavíkur og þar með ríkasta land í heimi.

Staðreyndirnar er ljósar:

Fyrirtækið sem hætti við á Drekasvæðinu hefur líklega gert það vegna þess að vinnslukostnaður á Drekasvæðinu yrði minnst þrisvar sinnum meiri en í Arabalöndunum og langt fyrir ofan söluverðið.

Sádi-Arabar stjórna sem fyrr ferðinni í olíumálum heimsins og fyrir liggur að þeir eiga enn í jörðu upp undir 20 ára olíubirgðir og nýtanlegar birgðir í heiminum eru heldur meiri. 

Þegar þessar birgðir verða búnar lýkur olíuöldinni óhjákvæmilega og menn neyðast til orkuskipta í tæka tíð. Sádarnir hafa unnið góða heimavinnu í því máli og stjórna nú orkuverðinu á þann hátt að þeir verði í lok olíualdar nákvæmlega á þeim punkti að hafa notað olíubirgðir sínar þegar aðrir orkugjafar taka við. 

Aðrir orkugjafar eru á vaxandi siglingu um þessar mundir með nýrri tækni varðandi nýtingu sólarorku og fleiri endurnýjanlegra orkugjafa auk rafvæðingar samgöngutækja.

Íslendingar sem matvælaframleiðsluþjóð og með viðskiptavild vegna meintrar forystu í nýtingu hreinna og endurnýjalegra orkugjafa, yrðu í hróplegri mótsögn við sjálfa sig ef þeir stefndu einbeittir að því að leggja fram meiri skerf á hvern íbúa en nokkur önnur þjóð til þess að framleiða óendurnýjanlega orku með stórfelldum útblæstri gróðurhúsalofttegunda og taka um leið þá áhættu sem fylgir olíuvinnslu af margfalt meira dýpi en áður hefur þekkst.

Ekki hvað síst yrði þetta slæmt fyrir okkur vegna nýrra skuldbindinga okkar í loftslagsmálum.

Það var fullkomlega rökrétt ályktun hjá Sf að móta framtíðarstefnu í samræmi við þetta.

Heyrst hafa raddir um það að það sé skaðlegt að breyta um stefnu og upplýsa um stöðu mála vegna þess að það fæli þá, sem þegar hafa hafið samstarf við okkur, frá því að skipta við okkur.

Við eigum sem sagt að þegja um það sem við teljum okkur vita sannast og réttast og halda áfram eins og ekkert nýtt hafi komið fram. Stunda áfram áunna fáfræði. 

En er ekki það einkennileg mótsögn að halda því fram að það réttasta sem maður geri sé að halda fram því sem maður telji rangt og reyni að koma í veg fyrir að aðrir viti að það sé rangt?    

Væri það ekki eitthvað sem mætti "furða sig á"?


mbl.is Furðar sig á stefnubreytingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö kerfi í gangi og flókin gerjun.

Alla síðustu öld var í gangi sterkt en leynilegt efnahagslegt hagsmunakerfi stórfyrirtækja sem vann þvert á víglínur í báðum heimsstyrjöldunum.

Vopnaframleiðendur og framleiðendur hernaðarlega mikilvægra vara seldu jafnvel óvinunum slíkar vörur. 

Henry Ford fóðraði Sovétmenn á mikilvægum vörum og tækniþekkingu í aðdraganda stríðsins og sem dæmi má nefna að drifin í Rússajeppunum voru áratugum saman úr Ford A. 

Og GM var enn að framleiða hernaðarlega mikilvægar vörur fyrir Þjóðverja árið 1943. Opel Blitz var til dæmis gagnlegasti fjórdrifni vörubíllinn fyrir Þjóðverja. 

Hafi slík hagsmunatengsl verið þvert á átakalínur stórveldanna og stjórnmálamanna á síðustu öld hefur veldi þeirra margfaldast nú.

Hið alþjóðlega fjármála- og efnahagskerfi er einfaldlega orðið svo stórt, víðfemt,samtengt og samansúrrað þvers og kruss um allan heim, að það skapar mikla tregðu gegn áhættusömum ákvörðunum stjórnmálamanna.

Ekki þarf annað en að líta á bílaiðnaðinn einan til að sjá hin alþjóðlegu tengsl. Til dæmis ekur kona mín á bíl af gerðinni Suzuki Alto, sem flestir halda að sé japanskur. En þetta er hins vegar vinsælasti bíllinn á Indlandi, því að hann er framleiddur þar. 

Fjárfestar og lánastofnanir mega ekki til þess hugsa að þetta hátimbraða kerfi molni eða hrynji. 

Í kjölfar fjármálahrunsis 2008 kom afl þessa kerfis í ljós varðandi það að koma í veg fyrir að það yrði dregið til ábyrgðar fyrir óförunum af græðgisvæðingu þess. Þessi fyrirtæki voru orðin of stór til þess að hægt væri að ganga að þeim.   

Innan þessa kerfis, sem hefur orðið til þess að auðræði ríkir í stað lýðræðis, þrífst einhver mesti bölvaldur heimsins, stórkostleg spilling og fjár- og eignasöfnun örlítils hluta jarðarbúa sem á helming auðæfa jarðarinnar og felur yfirgengilegar fjárhæðir í skattaskjól. 

Í flestum löndum er í gangi tenging stjórnmálamanna við fjármálaöflin, en það er skaðræðis blanda.

Það eina jákvæða sem hægt að segja um þetta ástand er það, að út af fyrir sig heldur nauðsyn hins alþjóðlega eðlis fjármálaheimsins aftur af stjórnmálamönnum varðandi það að hleypa öllu í bál og brand.

Þess vegna geta menn ennþá sett fram áætlanir á borð við hraðlest heimshafa á millum.

En nú er í gangi flókin gerjun í alþjóðamálum og vaxandi órói, bæði í austanverðri Evrópu og í Miðausturlöndum.     


mbl.is Vill hraðbraut frá London til New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlætislaus en árangursrík snilld.

Hún var yfirlætislaus, snilldin á bak við markið, sem Eiður Smári Guðjohnsen skoraði til að opna markareikninginn í leiknum við Kasakstan. Það sem hann gerði virtist svo auðvelt en var samt aðeins á færi afburða knattspyrnumanns. 

Hann kom á fullri ferð á hárréttum hraða og tíma til þess að fá draumasendingu til sín, límdi boltann við fótinn og skaut honum í næsta skrefi svo nákvæmlega og hratt að hann rataði á milli varnarmannanna á eina sekúndubrotinu sem þar var opnun, og þaut síðan áfram í bláhornið á markinu, sekúndubroti áður en markvörður Kasaka næði til hans.

Boltameðferð af þessu tagi er aðeins á færi afar fárra, þeirra allra bestu.

"Þessvegna völdum við hann" segir Lars Lagerback.

Jón Óttar Ragnarsson átti gott og gefandi viðtal við Eið Smára í einum þátta sinna á Stöð 2, viðtal við þroskaðan mann, sem nýtir lífsreynslu sína til að reyna að bæta líf sitt og annarra í kringum sig.  

 


mbl.is Þessvegna völdum við hann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein pest búin. Sjö mismunandi eftir?

Upplýst var hér um daginn að átta mismunandi gerðir af inflúensulíkum pestum væru á sveimi nú á útmánuðum og engin þeirra byggi til ónæmi fyrir hinum. Þetta var ekki uppörvandi. 

Þá var ég nýbúinn að klára slíka pest sem lagði mig í tæpa viku og fagnaði því mjög að vera búinn að ljúka þessu á besta tíma, því að fram að því kveið ég því mest að fá hana í fyrripart febrúar og eyðileggja þannig "gigg" eða verkefni af ýmsu tagi, meðal annars þrjár skemmtanir með Ragnari Bjarnasyni. 

Ég fékk pestina mánudaginn eftir síðustu skemmtunina með Ragnari, en mánudagur er lang heppilegasti dagurinn til að fá pest fyrir mann með verkefni, sem eru flest síðari hluta vikunnar og um helgar.

Ég hef ekki verið hvellisjúkur maður undanfarna áratugi, svo að maður noti nú orðalag úr Íslendingasögunum, eins og sést af því að í 20 ár, frá 1987 til 2007 var ég ekki með einn einasta veikindadag. 

Þess vegna var ég afar vongóður og ánægður eftir að pestin var yfirstaðin og þótti mörgum það sérkennilegt þegar ég fagnaði því að fá hana.

En þetta var allt skotið í kaf með upplýsingarnar um pestirnar átta; -  að fá að vita það að enda þótt maður kláraði nú loksins pest, væri maður þar með alls ekki búinn að byggja upp ónæmi fyrir neinni hinna sjö. 

En sólin hækkar á lofti og nú koma þær ágætu fréttir að pestirnar átta séu á undanhaldi. 


mbl.is Færri tilkynningar um inflúensu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband