Sjónarsviptir ef Frosti Sigurjónsson hættir á þingi.

Mér finnst, eins og mörgum öðrum, að það verði sjónarsviptir ef Frosti Sigurjónsson hættir á Alþingi eftir aðeins eitt kjörtímabil.

Frosti hefur skapað sér virðingu langt út fyrir raðir flokks síns, sem síst af öllu má við því að missa mann eins og hann af þingi.

Í átakastjórnmálum eins og ríkt hafa og ríkja hér enn hefur Frosti oft risið upp fyrir þau og verið á hærra plani en flestir aðrir.

 


mbl.is Frosti hættir á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í sömu sporum og 1851?

1850 var á döfinni að gera stjórnarskrá fyrir Ísland. Árið eftir kom saman nokkurs konar stjórnlagaþing, sem aðeins örfáir Alþingismenn voru fulltrúar í, og hlaut þessa stjórnlagaþing nafnið Þjóðfundur.

Þegar fulltrúa konungs þótti líklegt að Þjóðfundurinn myndi semja nýja stjórnarskrá fyrir Ísland, sleit hann fundinum gegn frægustu mótmælum Íslandssögunnar, þegar Þjóðfundarfulltrúarnir tóku undir með Jóni Sigurðssyni: "Vér mótmælum allir!"

Þar með var hafin fyrir alvöru barátta Íslendinga fyrir því að semja sjálfir sína stjórnarskrá frá grunni, og sú barátta stendur enn, því að harðsnúin valdaöfl, fyrst dönsk, en síðan íslensk, hafa staðið í vegi fyrir því.

1874 afhenti Kristján 9. Íslendingum dansksmíðaða stjórnarskrá sem var nokkurn vegin sú sama og Danir höfðu fengið 1849, og fyrstu 30 greinarnar því nær eingöngu gerðar til að friðþægja þáverandi Danakonungi.

1904 fengu Íslendingar innlendan ráðherra og fullveldi 1918 í konungssambandi við Dani.

1944 var stjórnarskránni breytt við stofnun lýðveldis eins lítið og unnt var til bráðabirgða með loforði um nýja stjórnarskrá, samda af Íslendingum, sem fyrst eftir lýðveldisstofnun.

Þetta var haft svona til þess að fá fram sem hæst hlutfall samþykkis kjósenda við lýðveldisstjórnarskrána.

Stjórnarskrárnefnd 1945 mistókst að semja nýja stjórnarskrá og í framhaldinu komu stjórnarskrárnefndir 1953 og 1983, sem mistókst þetta líka.

Einu bitastæðu en takmörkuðu breytingarnar voru gerðar 1959 eftir hatrömm átök um þær.

Sameining deilda Alþingis í eina deild, mannréttindaákvæði og lítils háttar breytingar á kjördæmaskipan er það eina, sem gert hefur verið 1959.

Stjórnarskrárnefnd 2005 mistókst eins og hinum fyrri nefndum að uppfylla loforðið frá 1943-44.

Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 sem vildi nýja stjórnarskrá á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs með yfirgnæfandi meirihluta, hefur enn verið að engu höfð.

1851 voru Jón Sigurðsson og hans menn ekki búnir að klára sína stjórnarskrá. 

2011 urðu þó tímamót varðandi það að setja fram heila nýja íslenska stjórnarskrá, en samt virðumst við enn í svipuðum sporum og Jón forseti og hans enn 1851, og Davíð Oddsson útskýrir það þannig, að "stjórnarskráin vilji ekki láta breyta sér."

Alveg ný og frumleg yfirfærsla frá Trampe greifa 1851. 


mbl.is „Stjórnarskrá vill ekki láta breyta sér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverskur betlari?

Ýmislegt var tínt til á tímum Sovétríkjanna varðandi útrýmingu á skorti og slæmum fyrirbrigðum í kapítaliskum löndum.

Til dæmis var fullyrt í Sovétríkjunum að búið væri að útrýma vændi.

Í ferðalagi norrænna bílablaðamanna á Volvobílum frá Rovaniemi í Finnlandi til Murmansk í Rússlandi 1978, voru flestir blaðamennirnir ungir og einhleypir.

Við Helga skárum okkur úr í hópnum. Ekki voru menn fyrr komnir til Murmansk en vændiskonur gerðu sig líklegar til viðskipta við hina ungu og frísku blaðamenn. Sömuleiðis menn, sem kváðust vera inn undir í kerfinu og vildu kaupa bílana, sem voru nú reyndar "gamla gerðin" af Volvo, þótt þetta væri ný útgáfa af henni.

Einn blaðamannanna, sem skipti við rússneska vændiskonu, sagðist hafa veitt það upp úr henni að hún væri í raun KGB njósnari. Þannig væri þessi bísniss hennar ríkisrekið og "nauðsynlegt" vændi fyrir öryggi ríkisins væri því ekki skilgreint sem vændi.

Að kínverskur betlari hætti lífi sínu með því að fara í átta tíma flug í farangursgeymslu til Dubai er eitthvað sem rímar ekki alveg.

Sömuleiðis að sjá myndir af hundruðum fólks að drukkna á flótta yfir Miðjarðarhaf á sama tíma sem því er haldið fram að þetta fólk sé vel haldið í heimalöndum sínum og skrökvi upp slæmum aðstæðum sínum þar.  


mbl.is Í farangursrými í átta tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta þarf að skoða vel. Hvað um vegaxlirnar?

Á hverju ári fara þúsundir hjólreiðafólks um þjóðvegi landsins og hafa þeir verið opnir fyrir hjól frá öndverðu.

Stíga þarf með íhugun til jarðar í því ef loka á þeim fyrir reiðhjólum eða hjólum, sem komast ekki hraðar en á 25-45 kílómetra hraða, því að hjólreiðamaður tekur álíka mikið rými hvað breidd snertir og gangandi maður.

Ef banna ætti hjólreiðar á ákveðnum þjóðleiðum yrði næsta skref væntanlega, ef samræmis á að gæta, að banna gangandi fólki að vera þar á ferð.

Á unglingsárum mínum hjólaði ég langar vegalengdir á þjóðvegum sem voru meira en helmingi mjórri en nú er og þar að auki malarvegir.

Rök fyrir því að banna reiðhjólafólki og gangandi fólki aðgang að stuttum eða löngum köflum vegakerfis landsins verða að byggjast á óyggjandi tölum hvað snertir slysatíðni og flokka slysin niður með tilliti til alvarleika þeirra og tjóns af þeim.

Og tryggja verður að hjólafólkið komist ferða sinna rétt eins og ökumenn bíla.

Ég hef áður hér á blogginu fjallað um hið misjafna, hraklega og víða hættulega ástand vegaxlanna í þjóðvegakerfinu.

Þar er verk að vinna.  

"Varst þú ekki sjálfur að lenda í hjólaslysi?" spyrja menn kannski.

Jú, rétt er það, en það gerðist á gangbraut þar sem lág kvöldsól blindaði ökumann bíls, sem ætlaði að aka yfir hana og hraði hjólsins var gönguhraði. Hefði getað gerst á hliðstæðum stöðum nær alls staðar í gatnakerfinu.

Ég á að baki tíu ár alls sem reiðhjólamaður og eðli þessa slys var þannig, að það hefði getað gerst hvenær sem var á hjólaárum mínum.   


mbl.is Ekki megi hjóla á ákveðnum leiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband