5.5.2023 | 11:19
Taka Hellu á þetta!
Skammt er síðan fjallað var um það fyrirbæri hér á síðunni, sem löngum hefur loðað við, að hringvegurinn og aðrar sambærilegar þjóðleiðir liggi í gegnum það þéttbýli, sem á leiðinni.
Rökin voru þau að lífsnauðsynlegt væri fyrir þessi þéttbýli að sem mest af umferðinni færi um miðbæjarkjarna þeirra.
Sett var spurningamerki við það hvort nú hillti undir nýja sýn í þessu efni og að nentugra væri að "taka Hellu á þetta" ef so mætti að orði komast, líkt og gert var þegar hringvegurinn var á sínum tíma færður út úr miðju þorpsin á Hellu á Rangárvöllum.
En nú er ljóst að bæði við Selfoss og Borgarnes verði hringvegurinn leiddur framhjá miðbæjarkjörnum þessara staða, bæði til hagræðis fyrir þá sem ekki eiga erindi inn í miðbæjarkjarna þeirra og líka til að létta almennt á umferðinni.
Oft hefur í gegnum tíðina um margra áratuga skeið verið bent á styttingarmöguleika á hringveginum við Blönduós og Varmahlíð upp á allt að 20 kílómetrum samtals.
Þetta eru hagkvæmæustu vegalagningarkostir landsins og vonandi styttist í að taka Hellu á þetta.
![]() |
Hringvegurinn færist úr bænum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2023 | 19:51
Kínverjarnir koma sterkir inn.
Hefði einhver spáð fyrir um það fyrir um þrjátíu árum hver staða Kínverja yrði meðal iðnríkja heims árið 2023, hefði sá hinn sami verið talinn haldinn hugaróruum.
Kínverjar hafa einfaldlega tyllt sér á toppinn á því sviði, sem áður tilheyrði Bandaríkjunum, ekki síst í bílaframleiðslu.
Nú birtast Kínverjar fyrir alvöru hér á landi og gera það svo eftir er tekið.
Stærsti bílaframleiðandi heims ruddi sér fyrst til rúms á sviði rafhlaðna og koma nú sterkir inn á markaðinn.
Þeir gera það með þremur ólíkum rafbílum, og í Noregi sló sá stærsti, BYD Tang, rækilega í gegn fyrir tveimur árum. Þetta er voldugur sjö manna bíll með drifi á öllum hjólum, sem kostar um tíu milljónir íslenskra króna.
Ódýrasti BYD bíllinn, Atto 3, sem myndin er af, virðist líklegri til stórræða hér á landi, kostar aðeins um sex milljónir, og virðist mjög samkeppnishæfur.
Þriðji bíllinn, BYD Han, er afar sportlegur og minnir í því efni á Polestar.
Mörg kínversk stórfyrirtæki gætu bæst í hópinn líkt og gerðist hjá Japönum fyrir rúmri hálfri öld. Má nefna Nio sem dæmi, en það fyrirtæki hefur afar sterka stöðu á vélhjólamarkaðnum.
Tævanir standa afar framarlega í hátækni á borð við örflögur og vélhjólum í hæsta gæðaflokki.
![]() |
Margir sýndu kínverska risanum áhuga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Reykjavíkurflugvðllur á að baki rúmlega 80 ára sögu frá þeim degi, þegar bæjarstjórn Reykjavíkur ákvað að hann skyldi verða byggður á svæði í Vatnsmýri og á Skildinganesmelum.
Þegar sú stefna var ákveðin og hafin flugvallargerð í rólegheitum, var breski herinn ekki enn búinn að hernema Ísland.
Í byrjun var völlurinn með styttri brautir en síðar varð, en einhver hraðasta þróun flugtækninnar skall á með látum, og auk stækkunar flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli svaraði Keflavíkurflugvðllur kallinu um tvöfalt lengri brautum.
Völlurinn breyttist lítið seinni hluta 20. aldarinnar, og með endurnýjun slitlags um síðustu aldamót virtust ekki miklar breytingar í aðsigi.
Þá var haldin íbúakosning um völlinn, en í reglum um hana var ákvæði um lágmarks þátttöku.
Sáralítið fleiri, nokkur hundruð, greiddu atkvæði gegn vellinum heldur en með honum.
Úrslitum hefði átt að ráða, að þátttakan var miklu minni en krafist var til þess að niðurstaðan væri bindandi.
Þessar staðreyndir hafa andstæðingar vallarins kyrfilega þagað um varðandi gildi kosningarinnar sem stóðst ekki einu sinni kröfurnar í reglunum um hana sjálfa.
Áberandi æðibunugangur er nú í því að til stendur um að skerða öryggi vallarins með öðru Valshverfi suðvestan megin, sem kallist á yfir miðju vallarins með tilheyrandi ókyrrð, einmitt í þeirri vindátt, suðvestan hvassviðrum, sem veldur einna mestum vandræðum við lendingar.
Sagt er að það sé allt í lagi að byrja strax á framkvæmdum við nýja hverfið, vegna þess að það sé hægt að grípa til mótvægisaðgerða eftir á ef þurfa þyki.
Einmitt það, já, skjóta fyrst og spyrja svo.
Hver ósköpin liggja eiginlega á?
![]() |
Völlurinn er ekki að fara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.5.2023 | 22:44
Beechcraft King Air aftur á dagskrá eins og fyrir hálfri öld?
Merkilegt er hve oft það gleymist, hvað sjávarútvegurinn og hafið eru mikilvægur hluti af lífi Íslendinga.
Fyrir tæpri hálfri öld þurfti Landhelgisgæslan að huga að framtíðarflugvél fyrir sig.
Fram að því höfðu Katalina flugbátur og Douglas DC-4 Skymaster verið notaðar, báðar bergmál frá heimsstyrjaldarárunum.
Fyrir valinu varð Fokker F-27 skrúfuþota, sem notuð var næstu 34 árin, allt til 2009.
2009 var síðan núverandi vél af svipaðri stærð, Bombardier Dash 8, keypt.
Nú má heyra að þessi vél sé þrefalt stærri en þjóðin geti ráðið við, og að það verði að selja hana og kaupa þrefalt minni vél.
Þetta er á skjön við það sem ákveðið var fyrir tæpri hálfri öld eftir að um hríð hafði verið hugleitt hvort Beechcraft King Air skrúfuþota myndi nægja.
Keypt var vél af svipaðri stærð og Bonbardier Dash 8.
Vitað er nú, rétt eins og fyrir tæpri hálrfi öld, að svona miklu minni vél, eins og Beechraft vélin er, er alls ekki jafnoki nær þrefalt stærri vélar.
Til dæmis er ekki hægt að varpa út tveimur björgunarbátum, sem taka alls 20 manns.
Hvað hefur breyst sem réttlætir það, sem talið var ótækt fyrir hálfri öld?
![]() |
Tveir strandveiðibátar lentu í vandræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2023 | 18:25
"Skal í gegn hjá okkur" stefnan á undanhaldi?
Lengi var stefna í hávegum höfð víða varðandi legu helstu þjóðleiða landsins að þær færu um hlaðið á helstu þéttbýliskjörnum á leiðinni.
Gott dæmi var gamla brúin yfir Ytri-Rangá á Hellu.
Þegar óhjákvæmilegt varð að gera nýrri og breiðari brú vildu margir að hún yrði á sama stað og gamla brúin, en við hana hafði myndast þéttbýli.
Ein af helstu rökunum fyrir því var að með þvi að gera brú sunnar á ána yrði grundvellinum fyrir þorpinu kippt í burtu.
"Skal í gegn hjá okkur" stefnan.
Þetta var á dögum Ingólfs Jónssonar á Hellu, sem var ráðherra og áhrifamaður, og lausnin varð sú, að veita aðlögunarstyrki fyrir þá sem yrðu fyrir búsifjum af breytingu vegarstæðisins.
Þetta reyndist happadrjúg lausn, og myndi marga undra í dag, að á sínum tíma skyldi þetta verða að deilumáli.
Dæmi um að slíkra lausna megi leita víðar er sú tregða, sem er gegn hagkvæmustu vegarlagningu á íslandi, sem er 14 kílómetra stytting Þjóðvegar eitt með því að leggja nýja leið yfir hagkvæmt brúarstæði við Fagranes í Langadal.
Um þessar mundir eru í bígerð nýjar samgönguframkvæmdir við Selfoss og Egilsstaði þar sem hugsa þarf um að akstur í gegn á þessum stöðum þjóni sem best aðal þjóðleiðunum í víðum skilningi.
Nokkuð vel virðist verða fyrir því séð að forðast "skal í gegn hjá okkur" aðferðina á Selfossi, sem hefði getað falist í því að þvinga alla gegnumstreymisferð í gegn um miðbæinn þar.
Erfiðaara er um vik og flóknara úrlausnarefni við Egilsstaði, en vonandi rata þeir á skástu lausnina þar.
![]() |
Þjóðvegurinn út úr þorpinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2023 | 22:40
Góð röðun á uppbyggingu hjólainnviða hefur jákvæð áhrif aðra umferð.
Það sést vel á ferð með mismunandi fararskjótum eftir stígakerfi borgarinnar, að heildarútkoman af gerð innviða í þeim efnum þarf ekkert endilega að felast í einhverri togstreitu á milli mismunandi ferðamáta, heldur getur alhliða og fjölbreytt uppbygging verið í boði.
Þannig er það víða svo, að óheppilegt eða vanrækt kerfi á einu sviði, svo sem á sviði hjólastíga, getur haft hamlandi áhrif á notkun bíla á sama svæðinu.
Hugtakið hraðhjólastígur er fáum kunnugt hér á landi, af því að hjólastígar hafa komið miklu síðar til sögunnar hér en í öðrum löndum.
Sem dæmi má nefna leiðina milli Gullinbrúar og Spangarinnar í Grafarvogi.
Hingað til hefur það verið til trafala, að núverandi hjólaleiðir eru krókóttar og hæðóttar og liggja um mörg mót stíga og gatna, einkum á vesturleið. Þetta veldur því að tíminn, sem fer í að fara þá leið, er miklu lengri en ef hjólastígurinn lægi norðvestan og vestan við ökuleið bíla og gæfi færi á færri töfum og jafnari hraða.
Þótt heitið "hrað"hjólastígur sé notað, á það við um þá styttingu aksturtímans á hjólunum sem fæast með því að hraðinn verði sem jafnastur nálægt 25 km/klst.
Afleiðingin verður sú við núverandi aðstæður, að maður hyllist til að aka á hjólinu mestalla leiðina frá Borgarholti og niður í Bryggjuhverfi á bílagötunni sjálfri.
Andstæða þessa er leiðin frá Bryggjuhverfinu vestur á gatnamótin við Vogahverfið sem er sannkölluð "hrað"hjólaleið, um 600 metrum styttri en ef farið er á bíl eftir gatnakerfinu.
Áhrif gatnaframkvæmda fyrir bíla á hjólaleiðir geta verið jákvæð bæði fyrir hjól og bíla.
Eitt atriðið er það, að með því gera fólki auðvelda að nota hjól, losar það bílaumferðina við það rými sem einkabíll hefði annars tekið.
Í hjólablaði Morgunblaðsins minnast íslensk hjón á það hvernig að svona málum er víða staðið erlendi.
![]() |
Hjólaverkefni framundan á höfuðborgarsvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á ferð á hjóli í umferðinni sér maður allt of oft að ökumenn eru niðursokknir í notkun farsíma og annað hliðstætt dund.
Slíkt gerist meira að segja líka á hjólastígum. Síðuhafi axlarbrotnaði í ársbyrjun 2019 á hjólastígnum á Geirsnefinu þegar rafreiðhjólamaður sveigði skyndilega fyrir hann vegna þess að hann var að reyna að lesa niður fyrir sig á rafhlöðumælinn við erfið birtuskilyrði.
Hann hafði ekki lesið upplýsingabæklnginn um hjólið nógu vel og vissi ekki að hægt var að kveikja ljós á mælinum.
Frænka síðuhafa lenti í mjög hörðum árekstri fyrir nokkrum árum þegar ökumaður fyrir aftan hana ók á fullum hraða aftan á hana þar sem hún beið á rauðu ljósi og olli þessi árekstur miklu efnislegu og líkamlegu tjóni.
![]() |
Ók bíl og horfði á sjónvarpsþátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er óhætt að taka undir með þeim, sem hafa uppgötvað þá dásemd sem notkun hvers kyns hjóla getur gefið af sér, allt frá hlaupahjólum og upp úr.
Hjá síðuhafa háttaði þannig að hann var brjálað reiðhjólafrík frá níu ára aldri, og fékk sér meira að segja bæði gíra í hjólið og höggdeyfa að framan, sem var nýjung á þeim tíma í byrjun sjötta áratugsins.
Ekki dugði minna en að fara hjólandi austur fyrir fjall og allt upp í Norðurárdal. Í ferðinni upp í Norðurárdal var takmarkið að hjóla 20 km að meðaltali á hverri klukkustund.
Hjólatímabilinu lauk þegar stokkið var yfir skellinöðruárin og keyptur minnsti, umhverfismildasti og ódýrasti bíll landsins.
Á tímabili í kringum 1970 var notað samanbrjótanlegt reiðhjól til að hafa með sér í sumar flugferðir á TF-GIN en að öðru leyti virtust hjólaárin að baki.
En 2015 var þráðurinn tekinn upp að nýju með því að fara á rafreiðhjólinu Sörla fyrir rafafli hans eingöngu frá Akureyri til Reykjavíkur um Hvalfjörð á innan við tveimur sólarhringum og kostaði rafmagnið í ferðinni aðeins um hundraðkall.
Á þessari leið var dýrlegasti hlutinn í Öxnadal þar sem liðið var áfram hljóðlaust og hlustað á fugla á hreiðrum sínum í æfingaferð á rafreiðhjólinu Náttfara.
Efri myndin er af Náttfara við Engimýri í Öxnadal, en fyrir neðan hana mynd af rafknúna léttbifhjólinu Léttfeta við Gullfoss í ferð um Gullna hringinn, en hjólið er með útskiptanlegum rafhlöður.
Nú, átta árum síðar, eru hjólin þrjú, sem hafa verið notað um allt land, allt vestur á Ísafjörð, og austur á Egilsstaði og Hornafjörð, því við Náttfara hafa bæst Léttir, Honda PCX 125 PCX ótrúlega sparneytið og hraðskreitt bensínknúið léttbifhjól, og 2020 bættist Super Soco CUx rafmagnsléttbifhjól í hópinn, sem nefnt er Léttfeti.
Á neðstu myndinni er Léttir við Jökulsárlón.
Svo fjðlbreytileg og skemmtileg hafa not þessara léttbifhjóla verið, að segja má að þau hafi veitt eigandanum dýrlegt tækifæri til að vinna upp "glötuð unglingsár" á skellinöðrualdri hans.
![]() |
Hugmyndin kviknaði við eldhúsborðið heima |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar Citroen DS var frumsýndur 1955 þóttu það tímamót í hönnun bíla. Bíllinn var með loftmótstöðustuðul upp á ca. 0,30 cx þegar aðrir bílar voru með 0.50 cx og qþaðan af meira.
Hann var allt öðruvísi útlits en aðrir bílar til þess að ná þessum árangri.
Á þessum árum neyddust verksmiðjurnar til að nota vél, sem skorti afl og var hönnuð 20 árum fyrr. En samt náði DS meiri hámarkshraða en mun aflmeiri bílar.
Afturendinn á Ioniq minnir svolítið á afturendann á Citroen DS, en hönnuðirnir bæði lengdu bílinn og lækkuðu hann til þess að koma loftmótstöðunni niður í 0,21 cx, sem er í raun fáránlega lág tala.
Þetta skilar sér í hinni gríðarlegu drægni.
NSU Ro 80 var valinn bíll ársins í Evrópu og var með metlága loftmótstöðu; minnti að því leyti á Citroen DS og Hyundai IONIC 6.
Allir þessir bílar eru auðþekkjanlegir á laginu að aftan. Hönnuður hjá Citroen sagði, að sér fyndist fegurð nytjahluta fara eftir því hve mikið lagið og línurnar í þeim þjónuðu nytjahlutverki. þetta var sagt á þeim árum sem Citroen Bragginn og Citroen DS komu fram á sjónarsviðið.
Hann sagði að fegursti hlutur sem hann þekkti væri venjulegur skiptilykill. Hver einasta lína í slíku verkfæri þjónaði notagildinu. Meginásar skiptilykis eru annars vegar skaftið og hins vegar hausinn. Þessir tveir ásar mynda samt ekki rétt horn, heldur murar þar ca 10 gráðum. Í lyklinum eru bogadregnar línur, sem verða að vera til þess að virkni lykilsins sé hámmörkuð. Tilhneiging til straumlínulags hófst í kringum 1933 með því að byrja að halla framrúðum bílanna um 10 gráður frá lóðréttu plani, því að lóðréttar framrúður ollu hámarks loftviðnámi þess hluta bílsins.
Síðan þá hafa bílar smám saman orðið með minna loftviðnám, Volkswagen Bjallan var meo CX 0,48 og Golf með 0,42.
Sú tala er tvöfalt hærri en á Ionic 6, og á tímum eftirsóknar eftir orkunýtni er upplífgandiað sjá svona bíla koma fram á sjónarsviðið.
![]() |
Hyundai IONIQ 6 þrefaldur sigurvegari í World Car Awards 2023 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2023 | 09:41
Lofthernaður gegn landinu?
Fyrir rúmum 50 árum skrifaði Halldór Laxness tímamótagrein í Morgunblaðið undir heitinu "Hernaðurinn gegn landinu" og raifaði á magnaðan hátt þær tröllauknu hugmyndir, sem þá voru uppi um hernaðarkenndar fyrirætlanir til að ráðast með stórvirkjunum gegn mörgum af helstu náttúruperlum landsins.
Í dag verður haldið Náttúruverndarþing í því sveitarfélagi, sem Þjórsárver eru í og búið var að setja á aftökulista komandi hernaðar gegn landinu. Á þinginu verður væntanlega aðallega fjallað um komandi virkjun Þjórsár, en í sveitarfélaginu er einnig að rísa fyrsta bitastæða vindorkuverið.
1970 óraði skáldið ekki fyrir þeim tryllingslegu fyrirætlunum sem voru í fæðingu varðandi það að virkja allar helstu ár norðausturhálendisins og hervirkið Kárahnjúkavirkjun er nú hluti af.
Því síður óraði hann fyrir því að sá landhernaður gæti síðar fengið liðsauka úr lofti með svo stórkarlalegum vindorkuverum í formi risa leifturstríðs að kalla mætti lofthernað gegn landinu.
Svo mikill er æsingurinn varðandi þetta nýja stríð, að þegar liggja fyrir áform um 1000 vindmyllur í 40 vindorkuverum á landi, og þar að auki áform um allt að 15 þúsund megavatta vindorkuver á grunnmiðum undan suðausturströndinni. Bara sú hugmynd ein snýst um orkumagn, sem er fimm sinnum meira en öll orkuframleiðsla landsins nú!
Það er haft eftir Albert Einstein að ef ætlunin sé að fást við mistök, dugi ekki að nota til þess sömu hugsunina og olli þeim.
Þetta skynjar ungt fólk nú þegar það bendir á þá lífseigu hugsun sem ráðið hefur ferðinni fram að þessu í neyslu og hagfræði jarðarbúa sem snýst um veldisvöxt hagvaxtar sem eins konar trúaratriði.
![]() |
Ungt fólk harmar neysluvenjur landsmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)