Kalla breyturnar í útreikningum og spám á nýjar nálgarnir á lofslagsvandann?

Síðan fram komu nýjar tegundir í spám um orsakir og afleiðingar í veðurfari jarðar fyrir næstum 30 árum hefur áherslan verið nær eingöngu fólgin i þvi að sporna gegn hlýnun lofthjúpsins á grundvelli næsta einhliða sýnar á því, í hverju sú hlýnun hljóti að verða. 

En þegar hún er borin saman við annars háttar breytingar sem gætu byggst á flóknari áhrifaþáttum, svo sem áhrifum stóraukins flæðis ferskvatns út í Norður-Atlantshafið frá bráðnandi jöklum, er nýstárlegt að sjá hugsanlega breytingu í formi alvarlegrar kólnunar loftslags á Norður-Atlantshafi sem afleiðingu af bráðnun íssins. 

Spyrja má, hvort ekki sé réttara að færa áhersluna á minnkun útblásturslofttegunda yfir í það að hún beinist að aðgerðir til þess að mannkynið forðist sem mest inngrip í samsetningu lofthjúpsins til að "rugga ekki bátnum."

Einnig að hraða orkuskiptunum nú með sðmu rökum og gert var á síðustu öld varðandi upphitun húsa.  


mbl.is Kuldakastið afbrigðilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt of mörg hús hér á landi þola ekki íslenskar aðstæður.

Fyrir um tveimur áratugum gerðist eitt af fjölmörgum svipuðum atvikum hér á landi varðandi sölu á nýjum húsum af erlendum uppruna. 

Verðandi kaupendur slíkra húsa voru svo heppnir að þekkja einn helsta sérfræðing hér á landi í viðhaldi og gæðum húsa, og fengu það mat, að enda þótt þessi hús væru seld á alveg einstaklega lágu verði, væru þau í raun óhæf til notkunar við íslenskar aðstæður af því að þau myndu ekki endast nema örfáa áratugi í því sérstaka veðurfari sem hér er. 

Búast yrði við því að uppsett verð fyrir þau yrði að engu á um það bil þrjátíu árum. 

Ekki varð að ofannefndum kaupum, en sama spurningin er gild nú eins og þá, hvers vegna svona dæmi fá að viðgangast áratugum saman hér á landi. 


mbl.is Vinsæl utanhússklæðning ítrekað dæmd gölluð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löng hnignunarsaga bresks bílaiðnaðar.

Á árunum kringum 1960 voru uppgangstímar í bílaframleiðslu Breta. Strax árið 1948 hafði Land Rover komið fram með jeppa, sem var lítið stærri en Willys, en tók sjö manns í sæti. 

Hver merkisbíllinn af öðrum leit dagsins ljós hjá Tjallanum, og má sem dæmi nefna Mini með byltingarkennda hönnun Alec Issigonis, sem smám saman varð að beinni fyrirmynd meira en 80 prósent allra fólksbíla í heiminum. 

Í kjölfarið fylgdi Morris/Austin 1100, en bílarnir, sem áttu að verða arftakar þeirra og Mini, voru hins vegar misheppnaðir, ekki aðeins í hönnun og gerð, heldur lagðist helsti bölvaldur bresks iðnaðar yfir yfir þá í formi lélegrar stjórnunar, vinnudeilna og gjaldþrota. 

Einstaka bíll hefði átt að eiga einhverja möguleika, en skipulag og sala þeirra varð fyrir óbætanlegum töfum. 

Kannski má sega að Ford Cortina af 2. kynslóð hafi verið síðasti virkilega vel heppnaði breski bíllinn.  

Meira að segja Mini var undir lok aldarinnar kominn langneðst á lista Auto motor und sport í bilanatíðni og erfiðu viðhaldi. 

1975 var Rover 3500 valinn bíll ársins í Evrópu. Ragnar Halldórsson forstjóri álversins í Straumsvík fékk sér einn af þessum bílum, sem áttu að keppa við helstu eðalbíla þess tíma en varð fyrir miklum vonbrigðum eins og fleiri. 

Nokkrar undantekningar á borð við Range Rover 1970 gátu ekki breytt þessari mynd, og í stað þess að halda sæti sínu í forystu bílaframleiðsluþjóða fóru hinar og þessar minni þjóðir fram úr Bretum með tímanum. 

Ævintýri á borð við Dacia Duster gerast nú hjá öðrum þjóðum og meðal þjóða, sem nú stefna á að komast fram úr Bretum í fjölda smíðaðra bíla má nefna Marokkómenn. 

Þetta er synd og ekki síður ef rétt er, að vonir Breta um betra gengi í gegnum Brexit hafi ekki gengið eftir.  


mbl.is Ekki framleitt færri bíla síðan 1956
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankahrunið: Gunnar Tómasson ýjaði að hruninu nokkrum mánuðum fyrr.

"Sjáið þið ekki veisluna" hafa orðið fleyg ummæli sem einn ráðherra ríkisstjórnarinnar 2008 lét falla á Alþingi um þá, sem gagnrýndu efnahagsstjórnina þar á útmánuðum það ár. 

Þá höfðu vöruflutningabílstjórar staðið fyrir miklum mótmælum við Rauðavatn, enda voru þeir í hópi þeirra tugþúsunda Íslendinga, sem höfðu látið lokkast af fagurgala bankakerfisins og guldu nú fyrir það í dæmalausu hruni krónunnar, sem þegar hafði byrjað veturinn áður, en það þýddi að skuldasnjóhengja landsmanna óx og óx í krónum talið. 

Þegar aðdragandi Hrunsins var skoðaður síðar, kom í ljós að nánast kraftaverk hafði bjargað bankakerfinu frá hruni haustið 2006, en í kjölfar þess gerði Sjálfstæðisflokkurinn kjörorðið "traust efnahagsstjórn" að kosningaslagorði sínu! 

En hlálegasta auglýsingin fyrir "veisluna" var alþjóðleg auglýsing Kaupþingsbankans, þar sem erlendur stórleikkari var látinn útlista alveg nýja efnahagsspeki, svonefnt "Kaupthinking"!

Sumarið 2008 voru mörg teikn á lofti um óhjákvæmilegt hrun, en Gunnar Tómasson virtist einn um það að birta tölur, sem sýndu geigvænlega skuldastöðu þjóðarinnar, "snjóhengjuna" sem bólgnaði upp yfir höfðum landsmanna.

  


mbl.is Þykist hafa séð bankahrunið fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf raunsætt mat í hvívetna á "græna iðnbyltingu."

Vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir eru skráðar í öllum áróðri sem "hreinar og endurnýjanlegar orkulindir."

Það á við um nær allar vatnsaflsvirkjanirnar en ekki gufuaflsvirkjanir, þar sem stunduð er þvílík "ágeng orkuöflun" að orka svæðisins verður uppurin á 50 árum semkvæmt forsendunum sjálfum. 

Það heitir rányrkja á íslensku. 

Þar að auki berst ansi mikið magn af brennisteinsvetni frá gufuaflsvirkjunum. 

Flestum tignum erlendum gestum á borð við krónprinsa og ráðhrra er sýnd dýrðin í Heillisheiðarvirkjun og dásama þeir þær óspart á þann hátt, að rányrkuskuggahliðin virðist víðs fjarri. 

Þrátt fyrir forystu okkar í að binda kolefnið með sérstakri aðferð, þarf að slá duglega í þann klár. 

En höfuðatriðið hlýtur að vera að láta búa til módel, sem tryggir sjálfbæra þróun í hvívetna. 

Í Morgunblaðsgrein fyrir nokkrum árum settu Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson fram slíka tilhögun, sem hefði þýtt það að virkjanirnar á Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu hefðu verið margfalt minni í upphafi og þæer ekki stækkaðar nema meði ítrustu varkárni og öryggi að fenginni viðunandi reynslu  . 

Forstjóri Landsvirkjunar talaði um að viðleitni til slíks yrði höfð með Þeystareykjavirkjun, en nú virðist hafa slaknað á þeirri kló miðað við þá stækkun hennar sem fyrirhuguð er.  

 


mbl.is Vilja „græna iðnbyltingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný regla varðandi eldstöðvar: Óreglusöm ólíkindatól.

Þegar Hekla rumskaði eftir 102ja ára hlé með stórgosi 1947 var oft borið saman að í fortíðinni höfðu gos fjallsins verið furðu reglubundin með heldur styttri hléum oftast nær.  

Svipað var oft i umræðunni um gos í Kötlu í gegnum aldirnar, þannig að tal um að eldstöðvar séu "komnar á tíma" eins og Páll Einarsson ræðir um í viðtengdri frétt á mbl.is á sér vissa hefð.  

Gosið í Heklu árið 1970, aðeins 23 árum á eftir gosinu 1947, kom mönnum mjög á óvart, og ekki síður gosið 1980. 

Þegar fjallið gaus síðan 1991 og enn og aftur 2000, voru komnar mun betri mælingar á því hvernig það þenst út eftir gos, og þess vegna farið að tala um að fjallið hefði tekið upp nýja hegðan með gosum á áratugs fresti. 

En nú bregður svo við, að það eru liðin 23 ár frá þessu síðasta gosi og fjallið komið upp fyrir þenslutoppinn fyrir nokkrum árum. 

Í viðtalinu við Pál Einarsson um goshlé Kötlu hallast hann að því að ekki sé ráðlegt að tala um um reglu á lengd á goshléum eldstöðva eins og tilhneiging hafi verið til; hegðun eldstöðva sé flóknara mál en svo að hægt sé tala um eins konar reglusemi þeirra í þeim efnum. 

Hekla er því áfram ólíkindatól, þar sem hámarks viðbragðstími fyrir næsa gos er í mesta lagi tvær klukkusstundir.  

 


mbl.is Þrír skjálftar af stærð 3 og yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að halda sig heima"; orðalag í útrýmingarhættu.

Dðnskuskotið, flókið og uppskrúfuð langloka var sú íslenska sem Jónas og Fjðlnismenn réðust gegn. 

Á okkar tímum er það enskuskotin, flókin, uppskrúfuð og oft órökrétt langloka sem tröllríður málfari. 

Eitt af ótal dæmum eru þessi síbylgjusetning sem nú fer um fjölmiðla varðandi frétt frá Þýskalandi: 

"Fólk er beðið um að yfirgefa ekki heimili sín." 

Helmingi styttra mál væri að segja: "Fólk er beðið um að halda sig heima." 

En orðalagið að fara að heiman eða að halda sig heima er núna dæmi um stutt, gagnort og rökvíst mál, sem er útrýmingaarhættu.  

Hinn nýi kansellístíll sem veður uppi. 


mbl.is Talið að sjö séu látnir eftir skotárás í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drónarnir; bylting í myndatökum.

Tilkoma dróna er einhver mesta bylting sem orðið hefur í myndatökum, því að þeir gera betur en að leysa af hólmi þyrlurnar, sem eru óheyrilega dýrar í samanburði og líða einnig margar hverjar fyrir titring. 

En titringur er afar lítill ef nokkur þegar flugvélar eru notaðar, en stóri gallinn hve erfitt er að láta flugvél leika lipurð þyrlanna eftir.  

Ótalinn er stærsti kostur drónanna, en hann er sá að þeir eru "mannleysur" ef nota má það orð, það er enginn maður um borð.   

Fyrir utan byltinguna í myndatökum eru drónarnir líka búnir að bylta stórlega aðferðum í hernaði eins og Úkraínustríðið ber glögglega með sér. 


mbl.is Auglýsir eftir drónamyndskeiðum af gosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um að leggja frekar ólöglega en að leggja á löglegum en betri stað.

Það nálgast að virðast þjóðaríþrótt að leggja bílum eins illa og mögulegt er. Til dæmis er það undra algengt að menn leggja undir tvö stæði samliggjandi stæði undir einn bíl. 

Eitt sinn var sýnt á þessari síðu hvernig ófatlaðir lögðu frekar bíl sínum í stæði fyrir fatlaða fyrir framan bankaútíbú þótt venjuleg stæði fyndust nær bankanum. 

Við Kauptún er algengt að nær allir bílarnir, sem standa á hleðslustæðum, séu alls ekki rafbílar. 

Einnig má iðulega sjá fullfrískt fólk nýta sér fatlaðramerki í glugga bíla og leggja þeim í stæði fyrir fatlaða, þótt hinn fatlaði sé alls ekki í bílnum.  


mbl.is Hleðslustæðin misnotuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórsókn í virkjunum réttlætt með ónothæfum spurningum í "skoðanakönnun."

Síbyljustórsóknin í virkjanamálum þar sem heimtað er að tvöfalda núverandi orkuframleiðslu hefur meðal annars verið réttlætt af Landsvirkjun með því að mikill minnihluti sé í skoðanakönnun um virkjanamál, aðeins um 20 prósent, á móti fleiri virkjunum. 

Þarna eru notaðar ömurlegar hundakúnstir til þess að lauma því inn að 80 prósent þjóðarinnar vilji tvöfalda virkjanir á allra næstu árum.

En það er hvergi spurt beint um það. Þetta er svona álíka og að spyrja hvort þjóðin sé á móti rafmagni og snúa því upp í að þjóðarsátt sé um takmarkalausan vöxt virkjana til raforkuframleiðslu. 

Og oft hnykkt á með því að þeir sem vilji andæfa gegn tryllingslegu vexti orkuframleiðslu séu á móti framförum, á móti atvinnuuppbyggingu og vilji fara aftur inn í torfkofana. 

Það morar í leiðandi og ónýtum spurningum í skoðanakönnun Landsvirkjunar, svo sem um það hvort virkjanirnar njóti ánægju. Með slíkum spurningum er skautað hressilega framhjá því að oftast stendur valið á milli orkunýtingar og annarar tegundar nýtingar, svo sem verndarnýtingar á borð við friðun Gullfoss. 

Landsvirkjun er ekki bara eitthvert einkafyrirtæki heldur í eigu allrar þjóðarinnar og alls ekki boðlegt hvernig staðið er að ofangreindum áróðursmálum. 


mbl.is Vonast til þess að framkvæmdir hefjist í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband